Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 390/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður — 99. gr. 1. mgr.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II   Reglugerð nr. 76/1988  

Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Fyrri íbúðareign — Kæruúrskurður

Málavextir eru þeir, að kærandi og eiginmaður hennar, A, sóttu um húsnæðisbætur til skattstjóra gjaldárið 1989 vegna íbúðar að B, er þau eignuðust með kaupsamningi, dags. 12. febrúar 1988. Í umsókn kæranda, C, kom fram, að hún hefði átt íbúð áður á árunum 1978 - 1987. Um hefði verið að ræða íbúð að D, sem kærandi hefði átt frá 1. september 1984 til 29. október 1987.

Með bréfi, dags. 26. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að umsókn hennar um húsnæðisbætur hefði verið synjað, þar sem fram kæmi í umsókn hennar, að íbúðin að B, væri ekki fyrsta íbúð kæranda í skilningi C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981.

Af hálfu kæranda var synjun skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 11. september 1989. Kærandi gerði grein fyrir því, að hún hefði fest kaup á kjallaraíbúð að D, með kaupsamningi, dags. 3. ágúst 1984, og hefði íbúðarhúsnæði þetta verið í eign kæranda til 29. október 1987, er það hefði verið selt með kaupsamningi, dags. þann dag, sbr. ljósrit kaupsamninga þessara, er fylgdu kærunni. Kvaðst kærandi hafa verið ein skráður eigandi að íbúð þessari. Liðið hefðu þrír mánuðir frá því að íbúðin að D var seld þar til fjölskyldan hefði fest kaup á nýju húsnæði að B, þ.e. þann 12. febrúar 1988, sbr. ljósrit kaupsamnings, er kærunni fylgdi. Á þessum tíma hefði verið sótt um húsnæðisbætur, þ.e. með skattframtali árið 1988. Þeirri umsókn hefði verið synjað, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 28. júlí 1988, þar sem ekki yrði ráðið af framtalsgögnum að íbúðarkaup af hálfu kæranda hefðu átt sér stað og því ekki um að ræða öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota í fyrsta sinn. Kærandi gat þess, að ákveðið hefði verið að gera aðra tilraun vegna nýrrar fasteignar að B, og því hefði verið skilað inn umsókn um húsnæðisbætur með framtali árið 1989. Þeirri umsókn hefði einnig verið synjað en á öðrum forsendum, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 26. júlí 1989. Það væri því greinilega um misræmi að ræða og því væri þess farið á leit við skattstjóra að umsóknin um húsnæðisbætur vegna íbúðarinnar að D yrði endurskoðuð.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 28. september 1989, og synjaði kröfu kæranda. Tók skattstjóri fram, að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 92/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, hefðu þeir átt rétt á húsnæðisbótum álagningarárið 1988, sem hefðu keypt eða hafið byggingu íbúðarhúsnæðis í fyrsta sinn á árunum 1984 til 1987 og uppfyllt að öðru leyti skilyrði C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í kæru kæmi fram, sbr. og skattframtöl, að kærandi hefði átt íbúð að D, frá 3. ágúst 1984 til 29. október 1987. Þann 31. desember 1987 hefði kærandi enga íbúð átt og því hefði skort grundvöll fyrir húsnæðisbótum álagningarárið 1988. Þeir aðilar, sem eignast hefðu sína fyrstu íbúð á árinu 1988 og uppfyllt að öðru leyti skilyrði C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, hefðu getað sótt um húsnæðisbætur álagningarárið 1989. Þann 15. maí (sic) 1988 hefði kærandi keypt íbúð að B, en þar sem hún hefði átt fyrrnefnda íbúð að D, lengur en 2 ár þá væru skilyrði nefnds C-liðs 69. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt ekki uppfyllt í hennar tilviki, þ.e. kærandi ætti ekki rétt á húsnæðisbótum.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 26. október 1989, og krefst kærandi húsnæðisbóta sér til handa. Vísar kærandi m.a. til upplýsingabæklings embættis ríkisskattstjóra um húsnæðisbætur 1988. Telur kærandi synjun skattstjóra ekki fullnægjandi og vísar kærandi í þau lög, er giltu, er fyrst var sótt um húsnæðisbætur, þ.e. með framtali árið 1988.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu f.h. gjaldkrefjenda með bréfi, dags. 6. apríl 1990, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kröfu kæranda um húsnæðisbætur vegna umsóknar, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1988, synjaði skattstjóri með kæruúrskurði, dags. 28. desember 1988. Sá úrskurður var eigi kærður til ríkisskattanefndar. Til úrlausnar í máli þessu er því einvörðungu kæruúrskurður skattstjóra, dags. 28. september 1989, vegna umsóknar um húsnæðisbætur, er kom fram með skattframtali kæranda árið 1989. Hins vegar þykir rétt að taka til úrlausnar rétt kæranda til húsnæðisbóta hvort sem sá réttur kynni að byggjast á C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og staflið þessum var breytt með 9. gr. laga nr. 92/1987, sbr. og reglugerð nr. 76/1988, um húsnæðisbætur, eða á bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987, sbr. 14. gr. laga nr. 92/1987, enda verður ekki betur séð en skattstjóri hafi fjallað í kæruúrskurði sínum um báðar málsástæðurnar. Þegar litið er til þess, sem upplýst er í máli þessu um íbúðakaup kæranda og eignarhald á íbúðarhúsnæði og annað það, sem máli þykir skipta varðandi rétt kæranda til húsnæðisbóta þykir kæranda bera réttur til bóta þessara samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987 eins og því ákvæði var breytt með 14. gr. laga nr. 92/1987 vegna kaupa á margnefndri íbúð að D, á árinu 1984 sem fyrsta íbúðarhúsnæðis síns. Samkvæmt þessu ber að ákvarða kæranda bætur þessar frá og með gjaldárinu 1988. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir rétt að ákveða kæranda húsnæðisbætur gjaldárið 1988 jafnt sem 1989.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja