Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna síðbúinna framtalsskila

Úrskurður nr. 661/1995

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 106. gr. 3. mgr.  

Kærendur, sem voru hjón, stóðu skil á skattframtali árið 1994 með kæru til skattstjóra í ágúst 1994. Til stuðnings kröfu um að fallið yrði frá beitingu álags á gjaldstofna bentu kærendur á að eiginmaðurinn hefði samkvæmt læknisvottorði verið óvinnufær frá 14. janúar til 14. apríl 1994. Yfirskattanefnd taldi skýringar kærenda ekki gefa tilefni til að falla frá beitingu álags og vísaði í því sambandi til þess hversu framtalsskilin hefðu verið síðbúin og þess að kærendur hefðu sætt áætlun vegna síðbúinna framtalsskila næstliðin þrjú ár á undan.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1994 og sættu áætlun skattstjóra á gjaldstofnum við álagningu opinberra gjalda það gjaldár. Með kæru, dags. 18. ágúst 1994, lögðu kærendur skattframtal 1994 fram. Með kæruúrskurði, dags. 19. september 1994, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu í stað áætlunar áður en að gerðum breytingum. Þá beitti skattstjóri 15% álagi á gjaldstofna, sbr. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kvað skattstjóri ekki hafa verið sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. ætti við í tilviki kærenda. Benti skattstjóri á að skattframtölum áranna 1991, 1992 og 1993 hefði verið skilað það seint til skattstjóra að áætla hefði þurft gjaldstofna þau gjaldár.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 6. október 1994, er þess krafist að álag verði fellt niður. Er rakið að skömmu fyrir áramótin 1993/1994 hafi kærandi, A, veikst alvarlega af meinsemd í höfði sem orsakað hafi lömun í andliti. Hafi hann verið óvinnufær af þessum sökum um nokkurra mánaða skeið en gengist undir skurðaðgerð í lok febrúar 1994. Séu þetta ástæður þess að framtalsskil hafi dregist fram yfir lögboðinn frest. Í meðfylgjandi læknisvottorði kemur fram að kærandi, A, hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms frá 14. janúar til 14. apríl 1994. Hann hafi legið á sjúkrahúsi frá 20. febrúar til 2. mars 1994.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 2. júní 1995, lagt fram svofellda kröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Samkvæmt framlögðu læknisvottorði fyrir yfirskattanefnd var kærandi óvinnufær vegna sjúkdóms til 14. apríl 1994. Kærandi lagði hins vegar ekki fram skattframtöl til skattstofu … fyrr en þann 24. ágúst sama ár. Í forsendum úrskurðar skattstjóra segir að framtalsskil kæranda séu það síðbúin, að efni standi eigi til annars en álagsbeitingar skv. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Ríkisskattstjóri tekur undir það, sbr. hér að framan, og gerir því kröfu um að úrskurður skattstjóra um álag verði staðfestur.“

II.

Með skírskotun til þess sem fyrir liggur um framtalsskil kærenda árin 1991, 1992 og 1993 og að því virtu hversu síðbúin framtalsskil þeirra eru gjaldárið 1994 þykir þrátt fyrir framkomnar skýringar ekki ástæða til að falla frá beitingu heimildarákvæðis 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kröfu kæranda er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja