Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði
  • Sumarhús, skráning í fasteignaskrá

Úrskurður nr. 1025/1995

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 16. gr. 1. mgr.  

Kærendur seldu fasteign sem skráð var í fasteignaskrá sem sumarhús og gerðu þá kröfu að söluhagnaður yrði talinn skattfrjáls á þeim grundvelli að um sölu íbúðarhúsnæðis væri að ræða, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981. Í niðurstöðu yfirskattanefndar kom fram að við skýringu á lagaákvæðinu yrði hvorki einblínt á skráningu húsnæðis í fasteignaskrá né hvort húsnæði hefði hlotið formlegt samþykki sveitarstjórnar sem heilsárshúsnæði, svo sem skattstjóri gerði. Væri ekki loku fyrir það skotið að raunveruleg notkun húsnæðis væri með þeim hætti að lagaskilyrðum fyrir umkrafinni meðferð söluhagnaðar væri fullnægt þrátt fyrir skráningu í fasteignaskrá.Var talið að kærendur hefðu fært sönnur á að hafa búið í umþrættu húsnæði á því tímabili sem það var í þeirra eigu og þannig nýtt það sem íbúðarhúsnæði í skilningi greinds lagaákvæðis. Var því fallist á kröfu kærenda.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur stóðu skil á skattframtali 1994 í framtalsfresti það ár. Skattframtalinu fylgdi greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) vegna sölu kærenda á „X, sumarhús í Y-landi“. Samkvæmt greinargerðinni var söluverð eignarinnar 5.250.000 kr. og framreiknað stofnverð 3.727.620 kr. Með bréfi, dags. 25. júlí 1994, tilkynnti skattstjóri kærendum að gerð hefði verið breyting á skattframtali þeirra árið 1994, með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Söluhagnaður vegna sölu sumarbústaðar að fjárhæð 1.475.026 kr. hefði verið færður kærendum til tekna í reit 77 á skattframtalinu, sbr. 7. og 14. gr. nefndra laga, en engin heimild væri í lögum til að fresta, fyrna eða færa söluhagnaðinn til lækkunar á stofnverði annarra eigna. Var skattframtalið þannig breytt lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1994.

Af hálfu kærenda var álagningin kærð til skattstjóra með kæru, dags. 27. júlí 1994, og þess krafist breytingar skattstjóra yrðu felldar niður. Kváðu kærendur sumarbústaðinn hafa verið íbúðarhús þeirra í fimm ár og hafi þau keypt hann á sínum tíma sem íbúðarhús (heilsárshús), sem þau hefðu vonast eftir að fá samþykkt. Áður hefðu kærendur átt raðhús sem þau hefðu selt við kaup sumarbústaðarins. Kom og fram að þar sem sumarbústaðurinn hefði ekki verið samþykktur sem heilsárshús hefðu kærendur verið með skráð lögheimili hjá foreldrum kæranda, A, að R-götu. Með kæruúrskurði, dags. 5. október 1994, synjaði skattstjóri kröfu kærenda á þeim forsendum að umræddur sumarbústaður hefði ekki verið samþykktur sem heilsárshúsnæði og því færi með skattskyldu söluhagnaðar eftir ákvæðum 14. gr. laga nr. 75/1981.

Umboðsmaður kærenda hefur með kæru, dags. 10. október 1994, skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Er gerð sú krafa að um söluhagnað vegna umrædds sumarbústaðar verði farið eftir 16. gr. laga nr. 76/1981. Greinir umboðsmaðurinn svo frá að allt frá 26. nóvember 1987 til 10. september 1993 hafi kærendur nýtt nefndan sumarbústað sem íbúðarhúsnæði árið um kring og hafi kærendur ekki verið annars staðar til heimilis á þeim tíma. Því til staðfestingar sé í fyrsta lagi til þess að líta að hinn 17. nóvember 1987 hafi kærendur selt raðhús sitt að L-götu og keypt nefndan sumarbústað hinn 26. nóvember 1987. Í öðru lagi fáist það staðfest í meðfylgjandi vottorði H, eiganda lögbýlisins Y, dags. 11. ágúst 1994, vottorði bæjarritara sveitarfélagsins T, dags. 12. ágúst 1994, og vottorði foreldra kæranda, A, dags. 11. ágúst 1994, og í þriðja lagi hafi kærendur keypt hinn 10. september 1993 fasteign að M-götu, eða sama dag og sumarbústaðurinn hafi verið seldur. Fylgja kærunni til yfirskattanefndar greindar yfirlýsingar, svo og afrit kaupsamninga vegna umræddra eigna.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 26. maí 1995, gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Hinn 15. september 1995 barst yfirskattanefnd afrit samkomulags vegna heilsársbúseturéttar að X í Y-landi, dags. 16. júní 1995, milli núverandi eiganda X annars vegar og sveitarfélagsins T hins vegar. Barst yfirskattanefnd jafnframt hinn 28. september 1995 afrit byggingarleyfis, dags. 6. júlí 1995, áritað af byggingarfulltrúa sveitarfélagsins T vegna breytingar X í landi Y úr sumarbústað í heilsárs íbúðarhús.

II.

Ágreiningsefni máls þessa lítur að því hvernig fara skuli með söluhagnað vegna sölu kærenda á húsi ásamt landspildu, skráð í fasteignaskrá sem X úr Y-landi. Verður krafa umboðsmanns kærenda skilin þannig að þess sé krafist að söluhagnaðurinn, sem er að fjárhæð 1.475.026 kr., verði talinn skattfrjáls á þeim grundvelli að uppfyllt séu öll skilyrði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt lagaákvæði þessu er kveðið á um að söluhagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis teljist að fullu til skattskyldra tekna á söluári hafi maður átt hið selda húsnæði skemur en fimm ár, en hafi hann átt hið selda í fimm ár eða lengur telst söluhagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna. Gilda ákvæði greinarinnar þó aðeins um sölu íbúðarhúsnæðis sem er í eigu manna og aðeins að því marki sem heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis seljanda fer ekki fram úr 600 m3 á söludegi ef um einstakling er að ræða en 1.200 m3 ef hjón, eins og segir í 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. Af gögnum málsins verður ráðið að eignarhaldstími kærenda á nefndu húsnæði var tæp sex ár og var stærð þess innan greindra marka. Veltur úrlausn máls þessa því eingöngu á því hvort um hafi verið að ræða sölu á íbúðarhúsnæði í skilningi 1. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981.

Hús kærenda er tilgreint sem sumarhús af hendi kærenda og var á eignarhaldstíma þeirra skráð svo í fasteignaskrá. Við skýringu nefnds skilyrðis 16. gr. laga nr. 75/1981 þykir þó hvorki verða einblínt á skráningu húsnæðis í fasteignaskrá né hvort húsnæði hafi hlotið formlegt samþykki sveitarstjórnar sem heilsárshúsnæði, svo sem skattstjóri hefur gert, enda verður slíkum áskilnaði eigi fundin stoð í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er ekki loku fyrir það skotið að raunveruleg notkun húsnæðis kunni að vera með þeim hætti að skilyrðum 16. gr. laga nr. 75/1981 sé fullnægt þrátt fyrir skráningu í fasteignaskrá. Með hliðsjón af framansögðu og með skírskotun til framkominna skýringa kærenda og fyrirliggjandi gagna í málinu, sér í lagi yfirlýsingar bæjarritara sveitarfélagsins T, dags. 12. ágúst 1994, verður að telja að kærendur hafi fært sönnur á að hafa búið í umþrættu húsnæði á því tímabili sem húsnæðið var í þeirra eigu og þannig nýtt það sem íbúðarhúsnæði í skilningi 1. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981. Er því fallist á kröfu kærenda í málinu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja