Úrskurður yfirskattanefndar
- Rekstrarkostnaður
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 72/2000
Gjaldár 1998
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 95. gr. 1. mgr.
Útgjöld sjálfstætt starfandi leiðsögumanns vegna kaupa á veiðileyfi voru ekki talin frádráttarbær frá tekjum. Var bent á að þótt útgjöldin kynnu að einhverju leyti að hafa þýðingu fyrir öflun rekstrartekna væri um að ræða útgjöld sem féllu undir dæmigerðan frístundakostnað.
I.
Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 1998 fylgdi rekstrarreikningur vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda sem leiðsögumanns. Rekstrartekjur námu 91.000 kr. og rekstrarkostnaður 77.116 kr. Til rekstrarkostnaðar taldi kærandi endurmenntunar- eða símenntunarkostnað að fjárhæð 20.000 kr. með svofelldri athugasemd:
„Undirritaður á 3 veiðiferðir (6 veiðidagar) í G-á á hverju sumri og hefur átt nær óslitið síðastliðin 8 ár sem og að hafa veitt í ánni sl. 20 ár. Þar sem reynsla og þekking á G-á hefur skapast við þessar ferðir telur undirritaður ekki óeðlilegt að draga frá tekjum þeim sem starf sem leiðsögumaður við ána hafa gefið, hluta (1/3) þess kostnaðar sem undirritaður leggur sjálfur af mörkum á hverju ári vegna veiðiferða í G-á.
Það má ljóst vera að ef ekki lægi fyrir þessi yfir 15 ára reynsla og þekking á ánni og umhverfi hennar, væri undirritaður ekki í þessari starfsemi.“
Með bréfi, dags. 28. júlí 1998, tilkynnti skattstjóri kæranda um breytingar sem hann hefði gert á skattframtali kæranda samkvæmt 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri kvað kostnað við endurmenntun eða símenntun ekki teljast til gjalda til öflunar tekna í atvinnurekstri og hefði umræddur kostnaður verið felldur niður af rekstrarreikningi kæranda, sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981. Þá kvaðst skattstjóri hafa fært tryggingagjald að fjárhæð 872 kr. til gjalda í rekstrarreikningi.
Að fenginni kæru umboðsmanns kæranda, dags. 31. ágúst 1998, og rökstuðningi í bréfum, dags. 21. og 22. desember 1998, staðfesti skattstjóri ákvörðunina með kæruúrskurði, dags. 5. febrúar 1999. Rökstuddi skattstjóri niðurstöðu sína með svofelldum hætti:
„Til reksturshagnaðar í sjálfstæðri starfsemi teljast þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við, sbr. 2. mgr. 29. gr. og 31. gr. laga nr. 75/1981.
Ekki er fallist á að útgjöld kæranda vegna veiðileyfa hans sjálfs teljist til frádráttarbærs reksturskostnaðar, í ofangreindum skilningi, á móti tekjum hans sem leiðsögumaður.“
II.
Með kæru, dags. 4. maí 1999, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Umboðsmaðurinn mótmælir ákvörðun skattstjóra. Tekur umboðsmaðurinn fram að þekkingu á veiði í á verði best haldið við með veiðum í þeirri á. Veiðin sé þess vegna grundvöllur fyrir áframhaldandi starfsemi við leiðsögn veiðimanna við ána og þeim tekjum sem leiðsögnin gefi af sér.
Með bréfi, dags. 22. október 1999, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda gert kröfu um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
III.
Á yfirliti sem fylgdi skattframtali kæranda árið 1998 gerði hann grein fyrir tekjum af starfi sem leiðsögumaður veiðimanna við G-á að fjárhæð 91.000 kr. Til frádráttar færði kærandi kostnað að fjárhæð 77.116 kr. Meðal gjaldaliða var kostnaður vegna „Endur(Sí)menntun 1/3 hluti veiðileyfaútgj. 1997“ 20.000 kr. Kærandi gerði sérstaka grein fyrir gjaldalið þessum á umræddu yfirliti, sbr. hér að framan. Fyrir skattstjóra lágu því upplýsingar um eðli þessa gjaldaliðar. Skattstjóra var því heimilt að fara með breytingu sína eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er heimilað að draga rekstrarkostnað frá þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, „það er þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við … og það sem varið er til tryggingar og viðhalds eignum þeim sem arð bera í rekstrinum“. Ákvæði þetta er samkvæmt orðalagi sínu heimildarákvæði og er það því undantekning frá þeirri meginreglu að mönnum sé skylt að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, sbr. 1. gr. laganna. Af þessu leiðir að skattaðila ber að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt. Almennur kostnaður vegna heimilis og fjölskyldu og annarra persónulegra þarfa, er ekki frádráttarbær. Hinn umdeildi kostnaður er tilkominn vegna kaupa á veiðileyfi. Þótt útgjöld þessi kunni að einhverju leyti að hafa þýðingu fyrir öflun rekstrartekna kæranda, er um að ræða útgjöld sem falla undir dæmigerðan frístundakostnað. Að þessu virtu er kröfu kæranda hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað.