Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 395/1990
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 93. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 106. gr. 1. mgr.
Síðbúin framtalsskil — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Vítaleysisástæður — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Framtalsfrestur — Viðbótarframtalsfrestur — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Málsmeðferð áfátt
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1989. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Með bréfi, dags. 26. júní 1989, hafði umboðsmaður kæranda sent skattframtal hans árið 1989 til ríkisskattstjóra og farið fram á, að það yrði tekið sem kæra. Með bréfi, dags. 12. júlí 1989, sendi ríkisskattstjóri framtalið til skattstjóra. Skattstjóri tók framtalið sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð þann 20. október 1989, þar sem hann féllst á að leggja framtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1989 í stað hinna áætluðu skattstofna með ýmsum breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum, og eigi er ágreiningur um í máli þessu. Þá bætti skattstjóri 15% álagi á ákvarðaða skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og er það deiluefnið í máli þessu.
Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 14. nóvember 1989, krefst umboðsmaður kæranda þess, að fyrrgreint álag (15%), sem skattstjóri bætti við skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, verði fellt niður, og færir fram svofelld rök fyrir þessari kröfu sinni:
„Vegna anna hjá A sf., var ekki hægt að ljúka gerð framtalsins fyrr, en fyrirtækið hafði umsjón með gerð framtalsins. Einnig vísast til þeirrar hefðar að ekki sé beitt álagi þegar framtal berst svo stuttu eftir síðasta skiladag, en A sf., hafði frest fram yfir auglýstan skiladag eins og algengt er. Að lokum ber að gæta að því að framteljandi hafði að mestu leyti tekjur sem launþegi og kemur því álagið að fullum þunga til tekjuskatts og útsvars.“
Með bréfi, dags. 29. mars 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Kærandi skilaði skattframtali 1988 þann 20. apríl 1988. Með hliðsjón af framtalsskilum fyrra árs og fyrirliggjandi skýringum verður að telja að kærandi hafi ekki fært að því rök að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að framtali 1989 væri skilað á réttum tíma. Gildir einu þótt fengin hafi verið aðstoð við framtalsgerðina. Er því gerð krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra.“
Í hinum kærða úrskurði skattstjóra eru fyrri framtalsskil kæranda ekkert reifuð af skattstjórans hendi. Hvorki síðbúin framtalsskil fyrri ára né annað er fært fram í kæruúrskurðinum til stuðnings beitingar heimildarákvæða 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er hin kærða álagsbeiting því eigi nægilega rökstudd af hendi skattstjóra. Af fyrirliggjandi gögnum verður það ráðið um fyrri framtalsskil kæranda, að skattframtöl árin 1987 og 1988 hafi borist í tæka tíð. Staðhæfing ríkisskattstjóra í kröfugerð þess embættis í málinu um hið gagnstæða framtalsárið 1988 er ekki á rökum reist með tilliti til fresta og þess, að kærandi hafði auk launatekna tekjur af sjálfstæðri starfsemi, trilluútgerð. Að þessu athuguðu og virtum málavöxtum að öðru leyti er álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna kæranda, fellt niður.