Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lífeyrissjóðsiðgjöld
  • Valdmörk stjórnvalda

Úrskurður nr. 110/2000

Lög nr. 30/1992, 1. gr., 2. gr.   Lög nr. 50/1984, 7. gr. (brl. nr. 122/1997, 4. gr.)  

Yfirskattanefnd taldi mega ráða af lögum að ákvarðanir um greiðsluskyldu sjóðfélaga í Lífeyrissjóði bænda væru teknar af lífeyrissjóðnum og að lagaheimild hefði ekki staðið til afskipta skattstjóra af iðgjaldagreiðslum kæranda. Var hinni kærðu ákvörðun skattstjóra því hnekkt.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 9. ágúst 1999, fór umboðsmaður kæranda fram á að skattstjóri felldi niður annars vegar iðgjald kæranda í Lífeyrissjóð bænda að fjárhæð 9.530 kr. og hins vegar fyrirframgreitt iðgjald í Lífeyrissjóð bænda að sömu fjárhæð vegna ársins 2000 samkvæmt álagningar- og innheimtuseðli 1999. Bréfinu fylgdi ljósrit af bréfi ríkisskattstjóra, dags. 22. desember 1998, þar sem sagði svo:

„Komið hefur í ljós að þér hefur verið ranglega gert að greiða fyrirframgreitt framlag í lífeyrissjóð bænda við álagningu 1998. Hafa þessi mistök verið leiðrétt samaber hjálagðan skattbreytingaseðil og er beðist velvirðingar á þessum mistökum.“

Hinn 4. október 1999 kvað skattstjóri upp svofelldan kæruúrskurð:

„Kæran tekin til greina samkvæmt 99. gr. laga nr. 75/1981.

Komið hefur í ljós að þér hafið (sic) verið ranglega gert að greiða fyrirframgreitt framlag í lífeyrissjóð bænda við álagningu 1999.“

II.

Með kæru, dags. 13. október 1999, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Umboðsmaðurinn gerir svofellda grein fyrir kæruefni:

„Ég kærði þann 9. ág. sl. til skattstjóra í Norðurlandsumdæmi vestra álagningu skv. álagningar og innheimtuseðli 1999. Óskaði ég eftir að fellt yrði niður iðgjald í Lífeyrissjóð bænda v. álagningar 1999 kr. 9.530 og einnig fyrirframgreiðsla v. álagningar 2000, einnig kr. 9.530.

Skv. úrskurði skattstjóra dags. 4/10/99 er fallizt á niðurfellingu á kr. 9.530 v. rangrar álagningar 1999. Hins vegar er ekki svarað beiðni minni um niðurfellingu fyrirframgreiðslu til lífeyrissjóðs bænda fyrir árið 2000.

Þar eð iðgjaldið var talið ranglega lagt á vegna ársins 1999, er vandséð hvers vegna á að fyrirframgreiða iðgjald ársins 2000 nú.“

III.

Með bréfi, dags. 29. desember 1999, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd þar sem kæran er órökstudd og málið vanreifað af hálfu kæranda. Þá hefur skattstjóri ekki fjallað um niðurfellingu iðgjalds í lífeyrissjóð bænda í úrskurði sínum vegna álagningar ársins 1999.

Kærandi tekur fram í kæru sinni til yfirskattanefndar að skattstjóri hafi með úrskurði sínum, dags. 4. október 1999, fallist á niðurfellingu á kr. 9.530 vegna rangrar álagningar árið 1999. Hann hafi ekki svarað beiðni kæranda um niðurfellingu á fyrirframgreiðslu til lífeyrissjóðs bænda fyrir árið 2000. Þetta er ekki rétt. Hið rétta er að skattstjóri féllst á að fella niður fyrirframgreiðslu kæranda til lífeyrissjóðs bænda við álagningu árið 1999, þ.e. fyrirframgreiðslu upp í álagningu ársins 2000. Skattstjóri fjallar ekki um þá kröfu kæranda að fella niður iðgjald í lífeyrissjóð bænda við álagningu ársins 1999.

Telji yfirskattanefnd, þrátt fyrir ofangreint, að taka eigi kæruna til efnislegrar úrlausnar er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur vegna niðurfellingar á fyrirframgreiðslu kæranda til lífeyrissjóðs bænda við álagningu árið 1999, þ.e. fyrirframgreiðslu upp í álagningu ársins 2000. Hvað varðar iðgjald í lífeyrissjóð bænda við álagningu árið 1999, er þess krafist að það verði látið standa óbreytt. Samkvæmt 6. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1984, um lífeyrissjóð bænda, greiða menn iðgjöld til sjóðsins til loka þess almanaksárs er þeir ná 69 ára aldri. Kærandi náði 69 ára aldri á árinu 1999 og ber því að greiða iðgjöld til sjóðsins til loka þess almanaksárs.

Þá hafa engin gögn verið lögð fram er sýna fram á að taka ellilífeyris sé hafin, en ekki ber að greiða iðgjöld til sjóðsins eftir að taka ellilífeyris hefst, sbr. 6. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1984, um lífeyrissjóð bænda.“

IV.

Með hinum kærða úrskurði tók skattstjóri fyrir beiðni umboðsmanns kæranda um að fellt yrði niður iðgjald kæranda í Lífeyrissjóð bænda fyrir árið 1999 og fyrirframgreitt iðgjald í sama lífeyrissjóð fyrir árið 2000. Skattstjóri féllst á að fella niður fyrirframgreitt iðgjald kæranda í Lífeyrissjóð bænda fyrir árið 2000, en tók ekki afstöðu til þess hvort kærandi skyldi greiða iðgjald fyrir árið 1999.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, skulu ágreiningsmál um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna, þar með talin rekstrartöp, úrskurðuð af sérstakri óháðri nefnd, yfirskattanefnd. Úrskurðarvald yfirskattanefndar tekur til ákvörðunar skatta og gjalda samkvæmt þeim lögum sem talin eru í 1. mgr. 2. gr. laganna og öllum öðrum lögum um skattákvörðun. Þá segir í 2. mgr. 2. gr. að yfirskattanefnd skuli úrskurða kærur um öll gjöld sem skattstjórar og ríkisskattstjóri úrskurða um samkvæmt 1. mgr. greinarinnar.

Lífeyrissjóður bænda var settur á stofn með lögum nr. 101/1970, um Lífeyrissjóð bænda. Með lögum nr. 50/1984, um sama efni, voru nefnd lög nr. 101/1970 felld úr gildi. Á lögum nr. 50/1984 voru gerðar nokkrar breytingar, þ. á m. með lögum nr. 122/1997, en þau hafa nú verið leyst af hólmi með lögum nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda. Á þeim tíma sem mál þetta varðar, þ.e. tekjuárið 1998, voru í gildi lög nr. 50/1984, með áorðnum breytingum. Í 3. og 4. mgr. 7. gr. laganna, sbr. 4. laga nr. 122/1997, var að finna svofelld ákvæði um innheimtu iðgjalda:

„Á greiðsludögum beingreiðslna samkvæmt búvörulögum skal halda eftir af þeim hjá sjóðfélögum, sem beingreiðslna njóta, iðgjaldi þessara sjóðfélaga fyrir það tímabil og skila því til sjóðsins. Nú nýtur bóndi ekki beingreiðslna og skal þá iðgjald innheimt samtímis og með búnaðargjaldi. […]

Greiðsla upp í iðgjald skv. 2. málsl. 3. mgr. skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum, mánuðina ágúst til desember á tekjuárinu. Gjalddagar iðgjaldagreiðslu skulu vera fyrsti dagur mánaðanna ágúst til og með desember. “

Efnislega sambærileg ákvæði er nú að finna í 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, er tóku gildi 1. júlí 1999. Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum skal iðgjald í Lífeyrissjóð bænda innheimt „samtímis og með búnaðargjaldi“ hjá bónda sem ekki nýtur beingreiðslna.

Í lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, er skattstjóra falin álagning búnaðargjalds. Er tekið fram að um álagningu, kærur o.fl. skuli gilda ákvæði X. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Jafnframt kemur fram að um ábyrgð á greiðslu, innheimtu, upplýsingaskyldu, eftirlitsheimildir og málsmeðferð fari eftir ákvæðum laga nr. 75/1981. Í tilefni af kæru þessari skal tekið fram að fyrirmæli laga nr. 50/1984 og laga nr. 12/1999 um að iðgjald í Lífeyrissjóð bænda skuli innheimt „samtímis og með búnaðargjaldi“ fela ekki í sér að álagning þess fari eftir lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, eins og byggt er á af hálfu skattstjóra. Í þessu samband skal tekið fram að í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1984, sbr. 4. gr. laga nr. 122/1997, var mælt fyrir um heimild sjóðfélaga í Lífeyrissjóði bænda til að sækja um breytingu á iðgjaldagreiðslu vegna breytinga á iðgjaldsstofni sem áttu sér stað á árinu. Slíka umsókn skyldi senda Lífeyrissjóði bænda sem úrskurðaði um breytingu greiðsluskyldunnar. Lög nr. 12/1999 hafa ekki að geyma hliðstæða heimild og eru hljóð um meðferð mála þar sem krafist er breytingar á greiðsluskyldu. Af lögunum verður ekki annað ráðið en að Lífeyrissjóður bænda taki ákvarðanir um greiðsluskyldu sjóðfélaga og að skattstjóra hafi skort heimildir til að taka erindi umboðsmanns kæranda til umfjöllunar. Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að nein lagaheimild stæði til afskipta skattstjóra samkvæmt þeirri ákvörðun, sem kærð hefur verið. Þar sem skattstjóra brast þannig vald til hinnar umdeildu ákvörðunar er henni hnekkt. Frekar verður ekki um málið fjallað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða ákvörðun skattstjóra er ómerkt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja