Úrskurður yfirskattanefndar

  • Slysatrygging vegna heimilisstarfa
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 386/2000

Gjaldár 1999

Lög nr. 75/1981, 95. gr. 2. mgr.   Lög nr. 117/1993, 25. gr., 31. gr., 55. gr.   Lög nr. 30/1992, 2. gr.   Reglur nr. 527/1995, 1. gr.  

Kærð var sú breyting skattstjóra á síðbúnu skattframtali kæranda að leggja ekki á iðgjald vegna slysastryggingar við heimilisstörf. Úrskurðarvald yfirskattanefndar var talið taka til ágreiningsmála vegna álagningar iðgjaldsins, svo sem um fjárhæð iðgjalds, hvort það væri réttilega á lagt og hvort gætt hefði verið réttra reglna við álagningu þess. Áskilið væri í reglum um slysatrygginguna að skattframtal hefði borist innan tilskilins frests. Þrátt fyrir að skattframtal kæranda árið 1999 hefði verið síðbúið lagði skattstjóri skattframtalið til grundvallar álagningu umrætt gjaldár svo sem það hefði borist í tæka tíð. Að svo vöxnu þóttu engin efni til annars en að fallast á kröfu kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi óskaði eftir slysatryggingu við heimilisstörf á skattframtali sínu árið 1999 með því að merkja X í viðeigandi reit framtalsins. Skattframtalið barst skattstjóra hinn 28. maí 1999 eða að liðnum framtalsfresti umrætt gjaldár, sbr. og bréf umboðsmanns kæranda, dags. 26. maí 1999, er fylgdi framtalinu, þar sem fram komu skýringar á drætti á framtalsskilunum jafnframt því að farið var fram á að álagi yrði ekki beitt vegna síðbúinna skila. Skattframtalið var þó lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda að gerðum tilteknum breytingum á því sem skattstjóri tilkynnti kæranda um með bréfi, dags. 27. júlí 1999, sbr. og fyrirspurnarbréf skattstjóra, dags. 1. júní 1999, sem kærandi svaraði ekki. Í bréfi skattstjóra til kæranda, dags. 27. júlí 1999, kom m.a. fram að iðgjald vegna slysatryggingar við heimilisstörf væri ekki lagt á þrátt fyrir ósk kæranda þar um. Vísaði skattstjóri til þess að það væri skilyrði slysatryggingar við heimilisstörf samkvæmt 25. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, að skattframtali væri skilað innan tilskilins framtalsfrests, sbr. 1. gr. reglna nr. 527/1995, um slysatryggingar við heimilisstörf. Í bréfinu kom og fram að móttökudagsetning skattframtalsins væri 28. maí 1999 og benti ekkert annað til en að framtalinu hefði verið skilað þann dag. Þá var tekið fram að síðasti skiladagur endurskoðenda með framtalsfrest á pappírsframtölum hefði hins vegar verið 22. mars 1999.

Með kæru, dags. 3. ágúst 1999, mótmælti umboðsmaður kæranda þeirri ákvörðun skattstjóra að leggja ekki á iðgjald vegna slysatryggingar við heimilisstörf þrátt fyrir ósk kæranda þar um. Kvaðst umboðsmaðurinn telja að skattframtal, sem komið væri til skattstjóra fyrir álagningu, veitti framteljanda rétt á að fá viðurkennda slysatryggingu við heimilisstörf. Gat umboðsmaður þess að önnur skattumdæmi virtust taka slíka tryggingu til greina ef skattframtal næði almennri álagningu. Fór umboðsmaðurinn fram á að samræmis yrði gætt og beiðni um slysatryggingu við heimilisstörf yrði tekin til greina.

Með kæruúrskurði, dags. 26. október 1999, hafnaði skattstjóri kröfu umboðsmanns kæranda. Voru forsendur skattstjóra svohljóðandi:

„Vísað er í reglugerð nr. 527/1995, en þar segir:

„Sá sem fyllir út viðeigandi reit á skattframtali í byrjun árs, telst slysatryggður við heimilisstörf í 12 mánuði frá móttöku skattframtals hjá skattyfirvöldum, enda hafi skattframtali verið skilað innan tilskilins frests.“

Skattframtal kæranda 1999 var móttekið á skattstofu Reykjanesumdæmis 28. maí 1999, en síðasti skiladagur endurskoðenda með framtalsfrest á pappírsframtölum, var hinn 22. mars 1999. Þar sem Tryggingastofnun ríkisins telur að eigi sé hægt að slysatryggja sig skv. 25. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar eftir að skilafresti skattframtala lýkur, er ekki hægt að fallast á ósk yðar þar um.“

II.

Með kæru, dags. 23. nóvember 1999, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram svohljóðandi kröfugerð og rökstuðningur af hálfu umboðsmanns kæranda:

„Kærandi telur að með túlkun skattstjóra á ákvæðum 25. gr. l. nr. 117/1993 sé verið að mismuna skattþegnum og orðalag 2. mgr. 1. gr. rgj. nr. 527/1995 standist ekki skv. ákvæðum 25. gr. laganna.

Í 1. mgr. 25. gr. l. nr. 117/1993 er tekið fram að í skattframtali „…í byrjun árs…“ skuli skattþegnar (ákveðnir atvinnurekendur) merkja sérstaklega, óski þeir þess ekki að vera slysatryggðir.

Í 2. mgr. segir að óski menn slysatryggingar við heimilisstörf skuli þeir „…skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi“. Í 1. gr. rgj. nr. 527/1995 segir að hver maður teljist slysatryggður við heimilisstörf í 12 mánuði frá móttöku skattframtals hjá skattyfirvöldum, „enda hafi því verið skilað innan tilskilins frests.“

Kærandi telur að jafnræðisregla skattalaganna sé brotin með ákvörðun skattstjóra og tímamörk þau sem skattstjóri setur séu ómálefnaleg, auk þess sem fullyrt er að framkvæmd er ekki með sama hætti í öllum skattumdæmum landsins, því almennt er slysatrygging viðurkennd hjá þeim aðilum sem skila framtali fyrir almenna álagningu.

Í 1. gr. reglug. nr. 527/1995 segir að sá sem fyllir út viðeigandi reit á skattframtali sé slysatryggður við heimilisstörf í 12 mánuði frá móttöku skattframtals hjá skattyfirvöldum, enda hafi skattframtali verið skilað „…innan tilskilins frests“. Hvergi er að finna skilgreiningu á því hvað sé „tilskilinn frestur“. Túlkun skattyfirvalda á hugtakinu tilskilinn frestur, sem virðist vera annars vegar hinn lögbundni skilafrestur eða hins vegar frestur sem skattstjóri hefur sjálfur veitt, gerir það að verkum, að sá aðili sem hefur samið um ítrasta framlengdan skilafrest skattframtals hjá skattstjóra getur slysatryggt sig við heimilisstörf, en sá sem skilar skattframtali einum degi of seint fær ekki tryggingu. Í reynd gæti þetta litið þannig út að einstaklingur með atvinnurekstur, sem fær frest hjá skattstjóra til þess að skila skattframtali í gegnum endurskoðunarfirma, getur skilað framtali sínu í lok maímánaðar og fengið slysatryggingu, en launþegi sem skilar skattframtali sínu án frestheimildar til skattstjóra þann 11. febrúar fær hins vegar ekki slysatryggingu skv. reglunni. Slík mismunun skattþegna varðandi jafn mikilvæg réttindi og slysatryggingu er ólíðandi og andstæð tilætlun laganna.

Það fyrirkomulag að óska eftir slysatryggingu á skattframtali er sett Tryggingastofnun ríkisins, sem og skattþegnum, til hagsbóta og sparar t.d. sérstakar umsóknir á þar til gerðum eyðublöðum og gerir álagningu iðgjalds og trygginguna sjálfa einfalda og skilvirka. Tryggingin færist vélrænt við álagningu opinberra gjalda inn hjá Tryggingastofnun, því ekki er hægt að sækja um þessa tryggingu nema í skattframtali. Því verður ekki séð að nein málefnaleg rök mæli með því að binda skilafrestinn við ákvörðun skattstjóra um skilafrest, þar sem slíkt skapar aðeins mismunun milli skattþegna. Raunhæf viðmiðun um skilatíma, til þess að gæta jafnræðis þegnanna, er hin almenna álagning opinberra gjalda, því út úr þeirri keyrslu fær Tryggingastofnun ríkisins upplýsingar sínar. Þar sem slysatryggingin gildir í 12 mánuði frá móttöku skattframtals hjá skattstjóra má einu gilda hvenær skattframtalinu er skilað fyrir almenna álagningu opinberra gjalda. Þá er það verulega alvarleg spurning hvort það standist að neita þeim aðilum um slysatryggingu, sem af einhverjum ástæðum skila skattframtali sínu svo seint að það nær ekki almennri álagningu, en verður úrskurðað sérstaklega sem skattkæra. Þá má einnig benda á það að alllangur tími getur liðið frá því skattframtal berst til skattstjóra þar til það hefur verið skráð til álagningar, en þá berst Tryggingastofnun ríkisins tilkynning um trygginguna.

Í lögum og reglugerðum verður ekki séð að launþegar geti sótt um það sérstaklega utan skattframtals að verða slysatryggðir við heimilisstörf og Tryggingastofnun ríkisins hefur staðfest það við kæranda. Því stenst það ekki skv. 1. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, að það sé skattstjóri sem ákvarðar hvort kærandi getur slysatryggt sig við heimilisstörf. Skylda skattstjóra skv. 55. gr. s.l. er sú að leggja á iðgjöld slysatrygginga en ekki taka ákvarðanir með frestveitingum við framtalsskil hver fær tryggingu og hver ekki.

Kærandi vísar til ákvæða 1. gr. og 55. gr. sbr. 31. gr. og 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993, svo og til ákvæða reglug. nr. 527/1995. Iðgjöld skv. 31. gr. almannatryggingalaga skal skattstjóri leggja á með tekjuskatti og eignarskatti og slysatrygging við heimilisstörf er þar ekki sérstaklega undanþegin. Skattstjóri skal við almenna álagningu og einnig við kærumeðferð leggja á önnur iðgjöld vegna slysatrygginga, liggi fyrir upplýsingar þar um í skattframtali. Þ.a.l. skal hann einnig leggja á slysatryggingariðgjald skv. 2. mgr. 25. gr. l. nr. 117/1993, þótt þar sé ekki um skyldutryggingu að ræða, liggi fyrir ósk um slysatryggingu í skattframtali.

Þess er krafist að kærandi verði slysatryggður við heimilisstörf frá 28. maí 1999.“

III.

Með bréfi, dags. 7. janúar 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

IV.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, geta þeir sem heimilisstörf stunda tryggt sér rétt til slysabóta við þau störf með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi. Um iðgjöld vegna þessarar slysatryggingar fer eftir 4. mgr. 31. gr. laga nr. 117/1993, en þar kemur fram að iðgjöld til slysatrygginga, önnur en þau sem nefnd eru í 1. og 3. mgr. greinarinnar, skuli ákveðin sem hundraðshluti af hæfilega áætlaðri stofnfjárhæð vegna hvers einstaklings. Í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 117/1993 kemur fram að skattstjóri skuli leggja iðgjöld samkvæmt 31. gr. á með tekjuskatti og eignarskatti og færa þau á skattskrá, sbr. 98. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, og skuli ákvæði 99. gr. þeirra laga og ákvæði laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, gilda um iðgjöld eftir því sem við á. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, tekur úrskurðarvald yfirskattanefndar m.a. til ákvörðunar skatta og gjalda samkvæmt lögum um almannatryggingar er varða skattákvörðun.

Af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hafa verið settar reglur nr. 527, 12. september 1995, um slysatryggingar við heimilisstörf. Í 5. gr. þessara reglna kemur fram að þær séu settar með stoð í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 117/1993. Í 1. mgr. 1. gr. reglnanna segir að sá, sem fylli út viðeigandi reit á skattframtali í byrjun árs, teljist slysatryggður við heimilisstörf í 12 mánuði frá móttöku skattframtals hjá skattyfirvöldum, „enda hafi því verið skilað innan tilskilins frests“. Þá kemur fram í 2. mgr. sömu greinar að ekki sé unnt að óska eftir slysatryggingu við heimilisstörf eftir að skattyfirvöld hafa móttekið skattskýrslu. Að öðru leyti kveða reglur þessar á um efnislegt gildissvið og skilmála slysatryggingarinnar, sbr. 2. - 4. gr. þeirra.

Slysatrygging við heimilisstörf samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 117/1993 telst til slysatrygginga almannatrygginga, sbr. 1. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að slysatryggingar almannatrygginga séu nú að meginstefnu til fjármagnaðar með tryggingagjaldi eru einstakir flokkar slysatryggða enn fjármagnaðir með sérstökum iðgjöldum og er ýmist um valkvæða slysatryggingu eða lögskylda að ræða. Umrædd slysatrygging vegna heimilisstarfa er dæmi um hið fyrrnefnda. Hér er ekki um skatt að ræða, heldur verður að telja slíkar iðgjaldagreiðslur, sem hér um ræðir til þjónustugjalda sem ákveðin eru samkvæmt einfaldri gjaldtökuheimild.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993 annast Tryggingastofnun ríkisins almannatryggingar, þ.m.t. slysatryggingar, undir umsjón heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 2. gr. laga nr. 60/1999, kemur fram að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt lögunum leggi sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurð á málið. Eru ákvæði um form kæru til nefndarinnar og meðferð mála fyrir henni í 7. gr. a laganna. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. b er úrskurðarnefnd almannatrygginga sjálfstæð í störfum sínum og verður úrskurðum hennar ekki skotið til annarra stjórnvalda.

Samkvæmt framansögðu heyrir ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta samkvæmt lögum nr. 117/1993, þ.m.t. slysabóta samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laganna, undir úrskurðarvald sérstakrar, óháðrar úrskurðarnefndar, úrskurðarnefndar um almannatryggingar. Álagning iðgjalda til slysatrygginga samkvæmt 31. gr. laganna er aftur á móti á hendi skattstjóra og eru ákvarðanir skattstjóra í því sambandi kæranlegar til hans eftir ákvæðum 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og verður skotið til yfirskattanefndar eftir reglum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 117/1993. Þrátt fyrir eðli iðgjalds þessa, sbr. það sem að framan greinir, verður að skýra ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, hvað snertir úrskurðarvald yfirskattanefndar varðandi skatta og gjöld samkvæmt lögum um almannatryggingar, með hliðsjón af 1. mgr. 55. gr. laga nr. 117/1993 þannig að það taki til umrædds iðgjalds. Samkvæmt framanrituðu tekur úrskurðarvald yfirskattanefndar í ágreiningsmálum, sem rísa vegna slysatryggingar við heimilisstörf, til ágreinings vegna álagningar iðgjalds til tryggingarinnar, svo sem um fjárhæð iðgjaldsins, hvort það sé réttilega á lagt og hvort gætt hafi verið réttra málsmeðferðarreglna við álagningu þess, sbr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Umfjöllun og úrlausn um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð slysabóta heyrir aftur á móti undir þau sérstöku stjórnvöld almannatrygginga sem að framan greinir, þ.e. Tryggingastofnun ríkisins undir umsjón heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og úrskurðarnefnd almannatrygginga, og fellur utan valdsviðs skattstjóra og yfirskattanefndar.

Samkvæmt 1. gr. reglna nr. 527/1995 er það skilyrði slysatryggingar við heimilisstörf að skattframtali sé skilað „innan tilskilins frests“. Eins og áður segir eru reglur nr. 527/1995 settar af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og fela þannig í sér túlkun ráðuneytisins á skilyrðum slysatryggingar samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 117/1993, þ. á m. því lagaskilyrði að skrá beri í skattframtal ósk um trygginguna. Við álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1999 lagði skattstjóri ekki á iðgjald vegna slysatryggingar þrátt fyrir ósk kæranda þar að lútandi í skattframtali á þeim forsendum að kærandi hefði ekki talin fram innan tilskilins framtalsfrests. Ákvörðun skattstjóra byggði á framangreindri túlkun ráðuneytisins á skilyrðum tryggingarinnar og fól í sér að ekki bæri að leggja á kæranda iðgjald vegna slysatryggingar við heimilisstörf þar sem fyrir lægi að kærandi uppfyllti ekki skilyrði tryggingarinnar samkvæmt túlkun ráðuneytisins.

Eins og rakið hefur verið ber skattstjóra samkvæmt 1. mgr. 55. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993 að leggja á iðgjöld vegna slysatryggingar við heimilisstörf með tekjuskatti og eignarskatti. Í því felst óhjákvæmilega að skattstjóri verður að taka afstöðu til óskar um slíka tryggingu sem viðkomandi aðila ber að skrá í skattframtal sitt æski hann tryggingarinnar. Þrátt fyrir valdheimildir stjórnvalda almannatrygginga samkvæmt lögum nr. 117/1993, sem að framan er lýst, verður að telja, með sérstöku tilliti til þess að lögmælt álagningarhlutverk skattstjóra tekur til ákvörðunar um iðgjöld vegna umræddrar tryggingar, að það beri undir skattstjóra að taka afstöðu til álitaefna af þeim toga, sem hér um ræðir, og skera úr ágreiningi sem upp kann að koma í því sambandi. Í samræmi við það, sem að framan greinir, verður slíkum ágreiningsmálum skotið til yfirskattanefndar samkvæmt lögum nr. 30/1992, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 117/1993.

Eins og fyrr greinir er áskilið samkvæmt 1. gr. reglna nr. 527/1995, um slysatryggingar við heimilisstörf, að skattframtal hafi borist innan tilskilins frests til þess að til umræddrar tryggingar geti komið og telst upphaf tryggingarinnar frá móttöku skattframtals. Skattframtal kæranda árið 1999 barst 28. maí 1999 og var framtalsfrestur þá liðinn eins og fram er komið. Allt að einu áætlaði skattstjóri kæranda ekki skattstofna við álagningu og tók síðan skattframtalið sem kæru svo sem lögboðið er við aðstæður sem þessar, sbr. 2. mgr. 95. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þvert á móti lagði skattstjóri hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1999 svo sem það hefði borist í tæka tíð. Að svo vöxnu þykja engin efni til annars en fallast á kröfu kæranda. Er þá ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um athugasemdir kæranda við reglur nr. 527/1995 og gildi þeirra.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda er tekin til greina.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja