Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattlagning hjóna
- Barnabætur
Úrskurður nr. 427/2000
Gjaldár 1999
Lög nr. 75/1981, 64. gr. 3. mgr. (brl. nr. 92/1987, 4. gr.), 69. gr. A-liður (brl. nr. 65/1997, 4. gr.).
Kærandi krafðist þess að henni yrðu reiknaðar fullar og óskertar barnabætur sem einstæðu foreldri gjaldárið 1999 vegna samvistarslita við maka á árinu 1998. Yfirskattanefnd rakti gildandi lagareglur um barnabætur og barnabótaauka og forsögu þeirra. Var talið ljóst að með sameiningu barnabóta og barnabótaauka í eitt tekjutengt barnabótakerfi með lögum nr. 65/1997 hefði barnabótum í því formi, sem gilt hefði um langt árabil, verið rýmt út. Þótti einsýnt að viðhorf og tilgangur löggjafans hefði verið að ákvörðun um framfæranda barns yrði með sama hætti og gilt hefði um barnabótaauka áður og þannig lagt til grundvallar að framfærandi barns teldist sá sem hefði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess í lok tekjuársins og breytingar á sifjaréttarlegri stöðu á árinu hefðu ekki þýðingu í þeim efnum. Var því fallist á kröfu kæranda.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi til skattstjóra, dags. 5. febrúar 1999, fór kærandi fram á leiðréttingu á fyrirframgreiðslu barnabóta ársins 1999. Í bréfinu kom fram að tilefni erindisins væri skilnaður kæranda og maka hennar, B, á árinu 1998 og var tekið fram að hann hefði flutt lögheimili sitt hinn 20. nóvember 1998 frá K. Hinn 23. febrúar 1999 barst skattstjóra hliðstætt erindi frá fyrrverandi maka kæranda. Með bréfi, dags. 25. febrúar 1999, féllst skattstjóri á erindi kæranda. Í bréfinu sagði m.a. svo:
„Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, flutningstilkynningu til Hagstofu og sambúðarslitasamningi, þá urðu samvistarslit hjá yður þann 20. nóvember og þér því einstæð með 4 börn á framfæri þann 31. des. 1998. Þér eigið því rétt á barnabótum sem einstætt foreldri fyrir 1. ársfjórðung 1999.
Endurákvörðun barnabóta nú er gerð á grundvelli framtals yðar árið 1998, framtal yðar vegna ársins 1999 hefur ekki borist, og getur því tekið breytingum til lækkunar við álagningu, ef einhverjar viðbótarupplýsingar varðandi tekju- og/eða eignaþátt varðandi framtalið koma fram eftir að endurákvörðun þessi hefur verið framkvæmd.“
Í bréfi sínu gerði skattstjóri grein fyrir útreikningi barnabóta kæranda og kvað barnabætur hennar að fjárhæð alls 774.416 kr. koma til úthlutunar 1. febrúar, 1. maí, 1. ágúst og 1. nóvember, eða 193.604 kr. fyrir hvern ársfjórðung ársins 1999. Samkvæmt því hækkuðu barnabætur fyrir 1. ársfjórðung 1999 um 145.260 kr., eða úr 48.344 kr. í 193.604 kr.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum tilkynnti skattstjóri B með bréfi, dags. 24. febrúar 1999, í tilefni af bréfi hans mótteknu 23. febrúar 1999, að barnabætur vegna 1. ársfjórðungs 1999 48.344 kr. væru felldar niður á þeim forsendum að þar sem sambúðarslit hefðu orðið á árinu 1998 ætti hann ekki rétt á barnabótum á árinu 1999. Með því að tilkynning um sambúðarslit hefði ekki borist Hagstofu Íslands fyrr en 21. janúar 1999 hefði nafn hans verið á barnabótaskrá og hann því fengið úthlutað barnabótum sem hann ætti ekki rétt á. Hefði leiðrétting nú verið framkvæmd.
Af hálfu kæranda og fyrrverandi maka hennar var staðið skil á sameiginlegu skattframtali árið 1999, er barst skattstjóra hinn 7. maí 1999 samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess, og var framtalið lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda það ár að gerðum tilteknum breytingum sem ekki skipta máli hér.
Með kæru, dags. 16. ágúst 1999, fór umboðsmaður kæranda fram á leiðréttingu á barnabótum kæranda með vísan til skilnaðar hennar á árinu 1998 og fyrri leiðréttingar. Með bréfi umboðsmannsins, dags. 10. október 1999, fylgdu endurgerð skattframtöl kæranda og fyrrverandi maka hennar, þ.e. sameiginlegt framtal vegna tímabilsins 1. janúar til 30. nóvember 1998 og sérstök skattframtöl vegna þeirra sem einstaklinga fyrir tímabilið 1. desember til 31. desember 1998. Tekið var fram að tekjum væri skipt eftir því hvenær þeirra hefði verið aflað að svo miklu leyti sem unnt væri að tímasetja þær.
Með kæruúrskurði, dags. 25. október 1999, féllst skattstjóri á að leggja endurgerð skattframtöl kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda hennar gjaldárið 1999, sbr. 63. og 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt upplýsingum sýslumanns hefði verið borin fram ósk um lögskilnað hinn 27. nóvember 1998. Í úrskurðinum kvað skattstjóri barnabætur reiknast í samræmi við ákvæði 1. og 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem skattstjóri tilfærði orðrétt í forsendum úrskurðarins. Samkvæmt úrskurði skattstjóra námu barnabætur kæranda alls 188.742 kr.
Með kæru, dags. 24. janúar 2000, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að sambúðarslit kæranda hafi átt sér stað seint á árinu 1998 en ekki hafi verið gengið formlega frá þeim hjá sýslumanni fyrr en eftir áramótin 1998-99. Kærandi hafi þá fengið leiðréttingu á úthlutun barnabóta vegna fyrri hluta ársins 1999 hjá skattstjóra en vegna mistaka hafi verið skilað sameiginlegu skattframtali fyrir kæranda og fyrrverandi maka hennar árið 1999 sem leitt hafi til verulegra breytinga á barnabótum. Hafi kærandi fengið þær upplýsingar hjá skattstjóra þegar leiðrétting var gerð snemma á árinu að fjölskyldustaða um áramót réði því hvernig barnabótum væri úthlutað.
Með bréfi, dags. 17. mars 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Ákvæði 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og ákvæði A-liðar 69. gr. sömu laga eru ósamþýðanleg þegar skilyrði til skattlagningar skv. 63. gr. laga nr. 75/1981 eru aðeins uppfyllt hluta úr ári.
Vísir að barnabótum kom fyrst í lög með lögum nr. 10/1974 um skattkerfisbreytingu, sem breyttu m.a. 25. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt á þá leið að kveðið var á um skattaafslátt til handa foreldrum barna sem ekki voru orðin 16 ára í byrjun álagningarárs.
Í lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt voru ákvæði um barnabætur í 69. gr. Samkvæmt því ákvæði skyldu bætur greiddar til framfæranda barns. Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar taldist framfærandi barns vera sá aðili sem hefði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess og var ekki í því sambandi vísað til loka tekjuárs. Bætur þessar voru óháðar tekjum og miðaði fjárhæð þeirra við fjölda barna og aldur þeirra. Ákvæði 64. gr. núgildandi laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt var einnig fyrst tekið upp með lögum nr. 40/1978.
Með lögum nr. 128/1984, um sérstakan barnabótaauka var gerð grundvallarbreyting á bótum til barnafólks. Aðalbreytingin var sú að barnabótaaukinn var föst fjárhæð sem var látin skerðast í hlutfalli við tekjur og eignir bótaþega. Með 6. gr. laga nr. 72/1986 var ákvæðum um barnabótaauka bætt inn í lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með nýju ákvæði, 69. gr. A. Eftir þessa breytingu voru því ákvæði um barnabætur í 69. gr. en um barnabótaauka í 69. gr. A sömu laga.
Í tengslum við þá skattkerfisbreytingu sem varð við lögtöku staðgreiðslukerfis skatta á árinu 1987 var með 9. gr. laga nr. 92/1987 gerð sú breyting á 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að ákvæðin um barnabætur voru í 69. gr. A og ákvæðin um barnabótaauka í 69. gr. B. Í B-liðinn var einnig sett það nýmæli að framfærandi taldist vera sá sem hafði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess í lok tekjuársins. Með 4. gr. laga nr. 92/1987 var jafnframt gerð sú breyting á 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 að ákvæðið var látið vísa til A-liðar 69. gr., um barnabætur, en aftur á móti vísaði það ekki til barnabótaaukans, enda var regla 3. mgr. 64. gr. ekki vel samþýðanleg reglunum sem nú giltu um barnabótaauka.
Með lögum nr. 65/1997 var gerð breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Breytingin fólst í því að hinar ótekjutengdu barnabætur voru aflagðar en barnabótaaukinn var hækkaður nokkuð með hliðsjón af því. Nafni barnabótaaukans var breytt í barnabætur og 69. gr. laganna breytt þannig að í A-lið var kveðið á um hinar nýju barnabætur (barnabótaaukann) og í B-lið um vaxtabætur, sem áður höfðu verið í C-lið ákvæðisins. Við þessa lagabreytingu láðist aftur á móti að breyta 3. mgr. 64. gr. laganna til samræmis, en það ákvæði hafði, eins og áður greinir, aldrei gilt um barnabótaaukann og verður ekki séð að neinar breytingar að því leyti hafi verið ráðgerðar af hálfu löggjafans við setningu framangreindra laga.
Má því segja að ríkisskattstjóri líti svo á að ákvæði 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi ekki lengur við þar sem það er ekki samþýðanlegt ákvæði núgildandi ákvæði A-liðar 69. gr. laganna.
Með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til atvika málsins getur ríkisskattstjóri fyrir sitt leyti fallist á kröfur kæranda.“
II.
Skilja verður kröfugerð kæranda svo að henni verði reiknaðar fullar og óskertar barnabætur sem einstæðu foreldri við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1999 vegna samvistarslita við B á árinu 1998. Samkvæmt gögnum málsins var útgáfudagur leyfis til lögskilnaðar hinn 24. janúar 1999. Fram kemur í gögnum málsins að samvistarslit urðu í nóvember 1998, sbr. m.a. fyrirliggjandi upplýsingar frá sýslumanni og flutningstilkynningu. Í samræmi við skattskil kæranda og fyrrverandi maka hennar hefur skattstjóri byggt á því að samvistarslit hafi orðið um mánaðarmótin nóvember/desember 1998 og verður við það miðað.
Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skal ríkissjóður greiða barnabætur vegna hvers barns sem er heimilisfast hér á landi og á framfæri þeirra manna sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna. Framfærandi samkvæmt A-lið 69. gr. laga nr. 75/1981 telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins. Sá er greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi. Samkvæmt 4. málsl. málsgreinarinnar teljast hjón, sem skattlögð eru samkvæmt 63. gr., bæði framfærendur og skiptast barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildir um sambúðarfólk sem uppfyllir í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 63. gr., enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.
Í 63. gr. laga nr. 75/1981 eru ákvæði um skattlagningu hjóna, sambýlisfólks og einstaklinga í staðfestri samvist. Þá eru í 64. gr. laganna sérstakar reglur um skattskil í þeim tilvikum þegar skilyrði skattlagningar samkvæmt 63. gr. laganna eru aðeins uppfyllt hluta úr ári, t.d. vegna stofnunar eða slita hjúskapar á árinu, slita á samvistum eða andláts maka. Í 3. mgr. 64. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 92/1987, er sérregla um skiptingu barnabóta í slíkum tilvikum. Segir í ákvæðinu að barnabætur samkvæmt A-lið 69. gr. skuli skiptast milli þeirra aðila sem um ræði í 1. mgr. greinarinnar og miðast við tímabil framfærsluskyldu.
Í kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu kemur fram að ríkisskattstjóri telur ákvæði 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 og ákvæði A-liðar 69. gr. sömu laga ósamþýðanleg í þeim tilvikum þegar skilyrði skattlagningar samkvæmt 63. gr. laganna eru aðeins uppfyllt hluta úr ári. Er í þessu sambandi rakin forsaga lagaákvæða um barnabætur og barnabótaauka. Þá er vikið að breytingum sem urðu með lögum nr. 65/1997, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og eftirfarandi tekið fram um þær af hálfu ríkisskattstjóra:
„Með lögum nr. 65/1997 var gerð breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Breytingin fólst í því að hinar ótekjutengdu barnabætur voru aflagðar en barnabótaaukinn var hækkaður nokkuð með hliðsjón af því. Nafni barnabótaaukans var breytt í barnabætur og 69. gr. laganna breytt þannig að í A-lið var kveðið á um hinar nýju barnabætur (barnabótaaukann) og í B-lið um vaxtabætur, sem áður höfðu verið í C-lið ákvæðisins. Við þessa lagabreytingu láðist aftur á móti að breyta 3. mgr. 64. gr. laganna til samræmis, en það ákvæði hafði, eins og áður greinir, aldrei gilt um barnabótaaukann og verður ekki séð að neinar breytingar að því leyti hafi verið ráðgerðar af hálfu löggjafans við setningu framangreindra laga.
Má því segja að ríkisskattstjóri líti svo á að ákvæði 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi ekki lengur við þar sem það er ekki samþýðanlegt ákvæði núgildandi ákvæði A-liðar 69. gr. laganna.“
Samkvæmt framansögðu er litið svo á af hálfu ríkisskattstjóra að með lögum nr. 65/1997 hafi í reynd verið afnumin sú sérregla um skiptingu barnabóta vegna breytinga á sifjaréttarlegri stöðu sem fram kemur í 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981. Á hinn bóginn hafi láðst að fella brott umrætt ákvæði til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á lagareglum um barnabætur með nefndum lögum. Í kröfugerð ríkisskattstjóra felst að ríkisskattstjóri telur engu að síður unnt að leiða þá niðurstöðu af lagatúlkun einni saman að ekki beri að fara eftir ákvæðum 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 í tilviki kæranda, þ.e. þar sem ákvæðin séu ósamrýmanleg ákvæðum A-liðar 69. gr. laganna, þar sem m.a. er tekið fram að framfærandi barns teljist sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess „í lok tekjuársins“. Þessi skilningur ríkisskattstjóra kemur fram í leiðbeiningum embættisins um útfyllingu skattframtals einstaklinga árið 1999 (RSK 8.01), sbr. bls. 39 í leiðbeiningunum þar sem segir svo:
„Við ákvörðun barnabóta 1999 er miðað við fjölskyldustöðu eins og hún er í Þjóðskrá 31. desember 1998 en breytingar sem hafa átt sér stað innan ársins 1998 hafa ekki áhrif. Þannig fær sá sem hefur barnið hjá sér í árslok 1998 barnabæturnar og skiptir þá ekki máli hvort barnið hafi verið á framfæri hans allt árið eða hluta úr ári.“
Fyrir gildistöku laga nr. 65/1997, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, var kveðið á um barnabætur í A-lið 69. gr. laga nr. 75/1981 og svokallaðan barnabótaauka í B-lið sömu greinar laganna. Samkvæmt 1. og 2. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 voru barnabætur föst fjárhæð fyrir hvert barn innan 16 ára. Um barnabótaauka samkvæmt B-lið 69. gr. gilti hins vegar að fjárhæð hans skertist í hlutfalli við tekjuskattsstofn framfærenda á tekjuárinu og eignarskattsstofn þeirra í lok þess, sbr. ákvæði í 2., 3. og 4. mgr. B-liðar 69. gr. laganna. Í 4. mgr. A-liðar 69. gr. kom fram varðandi barnabætur að framfærandi barns samkvæmt þeim staflið teldist sá aðili sem hefði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess, og í 5. mgr. stafliðarins var tekið fram að hjón, sem skattlögð væru samkvæmt 63. gr., teldust bæði framfærendur og að barnabætur skiptust milli þeirra til helminga. Hliðstætt ákvæði gilti um skiptingu barnabótaauka milli hjóna, sbr. 6. mgr. B-liðar 69. gr., en samkvæmt 5. mgr. þess stafliðar taldist framfærandi samkvæmt honum sá aðili sem hefði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess „í lok tekjuársins“.
Tilefni er til þess að gera stuttlega grein fyrir forsögu ákvæða um barnabætur og barnabótaauka.
Mælt var fyrir um barnabætur í 69. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Þau ákvæði leystu af hólmi ákvæði C-liðar 25. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 11/1975, um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara. Með síðastgreindum lögum var öll barnaívilnun til framfæranda barns, þ.e. fjölskyldubætur, persónufrádráttur vegna barna og afsláttur frá tekjuskatti vegna barna, sameinuð í einn afslátt, barnabætur, sem greiddust út ef þær nýttust ekki til greiðslu á tilteknum sköttum. Tekið var fram í athugasemdum með 69. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 40/1978, að greinin svaraði að mestu til C-liðar 25. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum. Samkvæmt 69. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, voru barnabætur föst fjárhæð er greiddist með hverju barni innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast væri hér á landi og á framfæri þeirra manna sem skattskyldir voru samkvæmt 1. gr. Barnabætur voru greiddar framfæranda barns og var tekið fram að framfærandi samkvæmt greininni teldist sá aðili sem hefði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess. Sá, sem greiddi meðlag, teldist ekki framfærandi. Svo var mælt fyrir í 3. mgr. 64. gr. laga nr. 40/1978, sbr. lög nr. 75/1981, að barnabætur skipust milli þeirra aðila, sem um ræddi í 1. mgr. greinarinnar, og miðuðust við tímabil framfærsluskyldu. Eins og fram hefur komið gildir þetta ákvæði enn.
Barnabótaauki var fyrst tekinn í lög með II. kafla laga nr. 43, 30 maí 1984, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum 1984, og var samkvæmt þeim lögum bundinn við greiðslu á árinu 1984. Með lögum nr. 128/1984, um sérstakan barnabótaauka, og lögum nr. 112/1985, um sérstakan barnabótaauka, var ákveðið að ríkissjóður greiddi sérstakan barnabótaauka á árunum 1985 og 1986, sambærilegan þeim, sem greiddur hafði verið á árinu 1984, og voru ákvæði laganna hliðstæð ákvæðum laga nr. 43/1984. Með 6. gr. laga nr. 72/1986, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, fékk barnabótaauki varanlegri sess í skattalöggjöfinni en áður hafði verið. Var ákvæðum um hann skipað í 69. gr. A laga nr. 75/1981 og var hann ekki bundinn við einstakt ár. Með 11. gr. laga nr. 49/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og síðar með 9. gr. laga nr. 92/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, með síðari breytingum, þar með talin breyting samkvæmt lögum nr. 49/1987, sem taka áttu gildi 1. janúar 1988, voru gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum um barnabótaauka, er komust í það horf, sem þau hafa að meginstefnu til haft síðan. Með síðastnefndu lögunum var ákvæðum um barnabótaauka skipað í B-lið 69. gr. laga nr. 75/1981. Fram til gildistöku laga nr. 92/1987 höfðu lagaákvæði um barnabótaauka ekki að geyma nánari skilgreiningu og afmörkun á hugtakinu framfærandi, en vísuðu í þeim efnum til lagaákvæða um barnabætur. Með 9. gr. laga nr. 92/1987, þar sem ákvæðum um barnabótaauka var skipað í sérstakan staflið, B-lið, 69. gr. laga nr. 75/1981, voru fyrst tekin upp sjálfstæð ákvæði að þessu leyti, þ. á m. það ákvæði að framfærandi samkvæmt stafliðnum „telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins“. Í athugasemdum með 8. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 92/1987, en grein þessi varð 9. gr. laganna, sagði m.a. um B-lið (Alþt. 1987, A-deild, bls. 1050):
„Lagt er til að fyrirkomulag ákvörðunar og ráðstöfunar barnabótaauka verði með þeim hætti að barnabótaauki verði ákvarðaður við álagningu opinberra gjalda en skerðing hans verði miðuð við tekjur og eignir og fjölskylduaðstæður framfærenda í lok næsta árs á undan. Hér er því um sömu framkvæmd að ræða og áður hefur gilt.“
Í tilefni af framangreindum breytingum var vísan 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 til 69. gr. laganna breytt þannig að vísað var til 69. gr. A, þ.e. þess stafliðar sem fjallaði um barnabætur eftir breytinguna, sbr. 4. gr. laga nr. 92/1987.
Með 4. gr. laga nr. 65/1997 voru gerðar verulegar breytingar á ákvæðum laga nr. 75/1981 um barnabætur og barnabótaauka. Var þá tekinn upp nýr stafliður í 69. gr. laganna um barnabætur sem varð A-liður og leysti af hólmi ákvæði A- og B-liðar greinarinnar um barnabætur og barnabótaauka í heild sinni. Hin nýju ákvæði A-liðar 69. gr. voru aftur á móti að verulegu leyti sniðin eftir ákvæðunum um barnabótaauka sem verið höfðu í B-lið 69. gr. laganna. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 65/1997, kom fram að breytingar frumvarpsins að því er varðar barnabætur og barnabótaauka fælu í sér tillögu um að „sameina almennu barnabæturnar og tekjutengda barnabótaaukann í eitt tekjutengt barnabótakerfi“ og að markmiðið með þeirri breytingu væri „að skapa svigrúm til þess að geta jafnframt lækkað tekjuskerðingarhlutföll barnabótaaukans“ (Alþt. 1996-97, A-deild, bls. 4558). Í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins, sem varð 4. gr. laga nr. 65/1997, sagði svo (Alþt. 1996-97, A-deild, bls. 4559):
„Í þessu ákvæði er lagt til að barnabætur og barnabótaauki verði sameinað í eitt bótakerfi sem lúti sömu grundvallarreglum og barnabótaukinn gerir samkvæmt gildandi lögum og munu bætur þessar kallast barnabætur. Barnabætur þessar munu þannig verða reiknaðar út með hliðsjón af tekjum, eignum og fjölskyldugerð. Um forsendur fyrir þessari breytingu vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum.
Í öllum meginatriðum er byggt á sömu reglum og gilda um barnabótaaukann. Þó eru tekjuskerðingarhlutföll lækkuð til muna eins og vikið er að í almennum athugasemdum. Um lagaskil vísast til athugasemda við 4. gr.“
Tekið skal fram að með 3. gr. laga nr. 141/1997, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, voru gerðar nokkrar breyitingar á A-lið 69. gr. síðarnefndu laganna, eins og stafliðurinn hljóðaði eftir fyrrgreindar breytingar með 4. gr. laga nr. 6571997, en ekki hafa þessar síðari breytingar þýðingu fyrir úrlausnarefnið.
Af framansögðu er ljóst að með lögum nr. 65/1997 voru lagareglur um barnabætur í öllum meginatriðum færðar til þess horfs sem áður gilti um svokallaðan barnabótaauka, einkum þannig að ákveðið var að fjárhæð bótanna skyldi sæta skerðingu vegna tekna og eigna framfærenda barns með tilteknum hætti, sbr. nú 4. og 5. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Er þannig sérstaklega tekið fram í athugasemdum með frumvarpi til laganna að hið sameinaða bótakerfi skuli lúta „sömu grundvallarreglum og barnabótaaukinn“ gerði samkvæmt eldri reglum og að „í öllum meginatriðum“ væri byggt á sömu reglum og gilt hefðu um barnabótaaukann, sbr. hér að framan. Í samræmi við þetta markmið tóku ákvæði um skilgreiningu og afmörkun hugtaksins framfærandi mið af þeim ákvæðum, sem gilt höfðu um barnabótaauka, og þannig tekið fram að framfærandi teldist sá aðili sem hefði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess „í lok tekjuársins“, sbr. nú 2. málsl. 1. mgr. A-liðar 69. gr. laganna.
Í lögskýringargögnum með lögum nr. 65/1997 er ekki sérstaklega vikið að þeirri sérstöku reglu um skiptingu barnabóta milli hjóna og sambýlisfólks, í tilefni af breytingum á sifjaréttarlegri stöðu, sem greinir í 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 og ekki var hróflað við ákvæði þessu með lögum nr. 65/1997. Ljóst er þó að breytingar þær, sem gerðar voru með lögum nr. 65/1997, með sameiningu almennra barnabóta og tekjutengds barnabótaauka í eitt tekjutengt barnabótakerfi undir heitinu barnabætur, fól í raun í sér að barnabótum í því formi, sem gilt hafði um langt árabil, var rýmt út og barnabótaaukinn með öllum þeim höfuðeinkennum, sem hann hafði áður haft, látinn taka við hlutverki hvorutveggja bótanna. Þannig eiga barnabætur eftir þær breytingar, sem gerðar voru með lögum nr. 65/1997, fátt annað sameiginlegt með barnabótum samkvæmt eldri ákvæðum nema nafnið eitt, en hins vegar samstöðu með barnabótaauka samkvæmt þeim ákvæðum, sem áður giltu, í öllum höfuðatriðum. Samkvæmt þessu þykir einsýnt að viðhorf og tilgangur löggjafans hefur verið að ákvörðun um framfæranda barns yrði með sama hætti og gilt hafði um barnabótaauka, enda eru ákvæðin hliðstæð, eins og fram er komið. Þykir þannig ekki leika vafi á því að til þess hafi verið ætlast af hálfu löggjafans að við ákvörðun barnabóta í hinum nýja búningi yrði með sama hætti og áður gilti um ákvörðun barnabótaauka lagt til grundvallar að framfærandi barns teldist sá sem hefði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess í lok tekjuársins og breytingar á sifjaréttarlegri stöðu á árinu hefðu ekki þýðingu í þessum efnum. Í ljósi þessa og beinna ákvæða A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 4. gr. laga nr. 65/1997, verður að virða umrætt ákvæði 3. mgr. 64. gr. laganna. Samkvæmt þessu, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra, er fallist á kröfu kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Krafa kæranda er tekin til greina.