Úrskurður yfirskattanefndar
- Tvísköttunarsamningur
- Persónuafsláttur
- Stjórnarlaun
Úrskurður nr. 492/1997
Gjaldár 1996
Lög nr. 75/1981, 1. gr. Auglýsing nr. 19/1989, um Norðurlandasamning til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, 16. gr., 25. gr. 4. tölul.
Kærandi, sem bar ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, fékk greidd stjórnarlaun í Færeyjum sem skattlögð voru þar. Í málinu var fjallað um álagningu opinberra gjalda kæranda með tilliti til ákvæða norræna tvísköttunarsamningsins. Yfirskattanefnd gerði grein fyrir tölulegum forsendum álagningarinnar.
I.
Málavextir eru þeir að á skattframtali kæranda árið 1996 kom fram að hann hefði fengið greidd stjórnarlaun í Færeyjum 70.000 Dkr. og greitt 29.750 Dkr. í skatt af þessum tekjum í Færeyjum. Með bréfi, dags. 25. júlí 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda að við álagningu opinberra gjalda yrði tekið tillit til tekna í Færeyjum, sbr. 1. tölul. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og samning milli Íslands og Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun tekna og eigna. Með kæru, dags. 26. ágúst 1996, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningu opinberra gjalda kæranda. Taldi hann að með reikningsaðferð skattstjóra hefði persónuafsláttur kæranda verið skertur, en slíkt væri andstætt lögum. Lagði hann fram útreikning og gerði kröfu um að gjöld kæranda yrðu leiðrétt.
Í kæruúrskurði skattstjóra segir m.a.:
„Eins og á gjaldárinu 1995 er ágreiningsefni ákvörðun opinberra gjalda vegna stjórnarlauna frá X, Færeyjum. Ekki er ágreiningur um gjaldstofn kr. 3.504.798, eða upphæð færeyskra stjórnarlauna ísl. kr. 808.010 og færeysks skatts ísl. kr. 343.404. Álagningarhlutfalli 78,48% er ekki mótmælt, en athugun vegna kæru leiðir í ljós að það var of hátt sem nemur 0,06%. Rétt hlutfall á að vera 78,42%. Er það þannig fundið:
Á skattframtali eru tekjur í lið 7.6 kr. 2.323.125. Við bætast tekjur í reit 72 kr. 599.421. Tekjur á Íslandi verða þá samtals kr. 2.925.546. (á að vera 2.922.546). Að viðbættum færeyskum stjórnarlaunum kr. 808.010 verða tekjur alls 3.730.556. Þar af eru íslenskar tekjur 78,42% (sic) og færeyskar tekjur 21,66%. Fjárfestingarfrádráttur kr. 103.920 og lækkun skv. 66. gr. kr. 121.838 dragast frá tekjum alls, enda ekki sérstaklega bundnir íslenskum tekjum eins og er um iðgjald í lífeyrissjóð. Tekjuskattur og útsvar reiknast því af kr. 3.504.798, persónuafsláttur ársins kr. 293.928 er dreginn frá reiknuðum tekjuskatti og síðan felld niður 21,66% en lagt á 78,42%. Sama gildir um útsvar. Reiknaðir skattar ársins eru samtals kr. 1.235.302 (sic). Þar af eru af færeyskum tekjum 21,66% eða kr. 267.566, sem falla niður.
Hér er um að ræða sömu reiknireglu á gjöldum og sömu túlkun á b lið 4. tl. 25. gr. Norðurlandasamnings og úrskurður skattstjóra dags. 9/10 1995 varðandi skattframtal þess árs var byggður á, en hann var staðfestur með úrskurði yfirskattanefndar nr. 27/1996. Að svo stöddu teljast ekki vera heimildir til þess að álagning verði reiknuð að kröfum kæranda."
Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 12. nóvember 1996. Ítrekar hann sömu kröfur og gerðar voru hjá skattstjóra og vísar til kæru til hans og úrskurða yfirskattanefndar nr. 1004/1995 og 27/1996. Fer hann fram á að kæran fái sjálfstæða umfjöllun án tillits til fyrri úrskurða yfirskattanefndar.
II.
Með bréfi, dags. 20. desember 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans."
III.
Það leiðir af heimilisfesti kæranda að hann fellur undir ótakmarkaða skattskyldu hér á landi umrætt tímabil samkvæmt ákvæðum 1. tölul. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að honum er skylt að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra er aflað þar meðtöldum stjórnarlaunum frá X sem skattlögð hafa verið í Færeyjum á grundvelli heimilisfestis þess félags þar. Ísland er ásamt Færeyjum aðili að Samningi milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, sem birtur var sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 19/1989 í C-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist gildi 31. desember 1989. Samkvæmt d-lið 3. tölul. 2. gr. tekur samningurinn að því er Ísland varðar til tekjuskatts og eignarskatts til ríkisins og útsvars til sveitarfélaga. Samkvæmt 16. gr. samningsins er skattlagningarréttur umræddra stjórnarlauna í Færeyjum. Í 25. gr. samningsins er mælt fyrir um aðferð til að komast hjá tvísköttun hjá hverju samningslandanna fyrir sig. Er 4. töluliður hennar, er varðar Ísland sérstaklega, svohljóðandi:
„a) Hafi aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur eða eigi hann eign sem skattleggja má samkvæmt ákvæðum þessa samnings í öðru aðildarríki skal Ísland undanþiggja slíkar tekjur eða eign skattlagningu, nema ákvæði eftirfarandi stafliða b) eða c) leiði til annars.
b) Hafi aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur sem skattleggja má í öðru aðildarríki samkvæmt 10. gr., 6. tl. 13. gr., 16. gr. eða 1.–6. og 8.–9. tl. 21. gr. skal Ísland draga frá íslenskum tekjuskatti þessa aðila fjárhæð sem svarar til þess tekjuskatts sem greiddur hefur verið í síðarnefnda ríkinu, nema ákvæði 1. mgr. 8. tl. 10. gr. leiði til annars. Frádráttur þessi má þó ekki vera hærri en sá hluti íslenska skattsins, reiknaðs án slíks frádráttar, sem er af þeim tekjum sem skattleggja má í síðarnefnda ríkinu.
c) Ef tekjur sem aðili heimilisfastur á Íslandi hefur eða eignir sem hann á eru undanþegnar skattlagningu þar samkvæmt ákvæðum samningsins er Íslandi samt heimilt við ákvörðun skatta þessa aðila af öðrum tekjum eða eignum að taka tillit til þeirra tekna eða eigna sem undanþegnar eru skatti."
Sjöundi töluliður 25. gr. hefur að geyma sameiginleg ákvæði og er 1. töluliður hans svohljóðandi:
„Hugtakið „greiddur hefur verið í síðarnefnda ríkinu" í þessari grein telst einnig fela í sér slíkan skatt á tekjur sem greiddur er í Danmörku, í Færeyjum, í Finnlandi, á Íslandi, í Noregi og í Svíþjóð, eftir því sem við á, og sem skal yfirfærast til nefndra annarra ríkja til þess að færa þar til góða hlutaðeigandi aðila sem skatt af sömu tekjum."
Það leiðir af tilvitnuðum a-lið 4. tölul. að fara ber eftir ákvæðum b-liðar um aðferð til að komast hjá tvísköttun vegna umræddra stjórnarlauna frá Færeyjum og verður útreikningur þá eftirfarandi:
Tekjur í Færeyjum | 70.000 DKR x 11,543 = | 808.010 ISK | |
Skattur í Færeyjum | 29.750 DKR x 11,543 = | 343.404 ISK |
Ísland | Færeyjar | Samtals | |||
Laun | 2.321.389 | 808.010 | |||
Ökutækjast. og dagpen. | 563.684 | ||||
Lífeyrir | 12.480 | ||||
Tekjur af faste. | 599.421 | ||||
Arður | 3.907 | ||||
1. Heildartekjur | 3.500.881 | 808.010 | |||
Frádrættir frá ísl. tekjum: | |||||
Ökutæki | 67.080 | ||||
Dagpeningar | 483.700 | ||||
Lífeyrissjóður | 23.648 | ||||
Arður | 3.907 | ||||
2. Frádrættir samtals | 578.335 | ||||
Hreinar tekjur (1-2) | 2.922.546 | 808.010 | 3.730.556 | ||
(78,34%) | (21,66%) | ||||
Sameiginlegir frádrættir: | |||||
Fjárfesting í atvinnurekstri | 103.920 | ||||
Ívilnun skv. 66. gr. | 121.838 | ||||
Tekjuskattsstofn samtals: | 3.504.798 |
Tsk. | 867.913 | Þáttur fær. tekna 21,66% | 187.990 | |||
Útsvar | 322.441 | Þáttur fær. tekna 21,66% | 69.841 | |||
5% tsk. | 34.948 | Þáttur fær. tekna 21,66% | 7.569 | |||
Alls | 1.225.302 | Frádráttur v/færeysks skatts | 265.400 |
Lækkun íslenskra skatta vegna skatta greiddra í Færeyjum takmarkast samkvæmt framangreindu við 265.400 kr.
Hlutfall færeyskra tekna af heildartekjum kæranda var 21,66% og íslensku teknanna 78,34%. Í úrskurði sínum hefur skattstjóri byggt á því að hlutfall íslensku teknanna af heildartekjum væri 78,42%. Leiðréttist það með úrskurði þessum. Niðurstaða skattstjóra er að öðru leyti staðfest.