Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 400/1990
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 93. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 106. gr. 1. mgr.
Síðbúin framtalsskil — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Vítaleysisástæður — Rökstuðningi áfátt — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Framtalsfrestur — Viðbótarframtalsfrestur — Kröfugerð ríkisskattstjóra
Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1989 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Af hálfu umboðsmanns kærenda var álagningin kærð með kæru, dags. 25. ágúst 1989, og boðað, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með bréfi, dags. 18. september 1989, sendi umboðsmaður kærenda skattframtal þeirra árið 1989 til skattstjóra og fór fram á, að það yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 í stað áætlunar skattstjóra án álags vegna síðbúinna framtalsskila. Með kæruúrskurði, dags. 13. október 1989, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 að viðbættu 25% álagi vegna hinna síðbúnu framtalsskila samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.
Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 25. október 1989, og er farið fram á niðurfellingu þess álags (25%), sem skattstjóri bætti við skattstofna kærenda vegna hinna síðbúnu framtalsskila. Röksemdir eru svohljóðandi:
„1. A og B reka saman sameignarfélag sem ekki er sjálfstæður skattaðili. Tilgangur félagsins er hjólbarðaþjónusta.
2. Umbjóðendur mínir hafa ætíð, fram til þessa, talið fram til skatts innan tilskilins frests.
3. Undirrituðum reyndist ekki unnt að ganga frá framtölum umbjóðenda minna innan tilskilins frests, að þessu sinni, sökum anna og vegna tafa sem urðu við öflun upplýsinga vegna framtalsgerðarinnar. Það skal tekið fram að undirritaður hefur ekki fyrr þurft að óska eftir niðurfellingu álags fyrir umbjóðendur vegna þeirra aðstæðna sem lýst er.
4. Beiting álags skerðir mjög greiðsluþol umbjóðenda minna eins og tekjum þeirra og efnahag er háttað.
5. A og B skiluðu reglulega staðgreiðslu af áætluðu reiknuðu endurgjaldi af starfseminni og vinnuveitandi X og Y gerði skil á staðgreiðslu af þeirra launum, sbr. það sem fram kemur í reit 9.1 á bls. 3 á skattframtölum þeirra.“
Með bréfi, dags. 29. mars 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Kærendur skiluðu skattframtali 1987 þann 22. maí 1987 og framtali 1988 var skilað 30. maí 1988.
Með hliðsjón af framtalsskilum fyrri ára eins og þau eru rakin hér að framan svo og fyrirliggjandi skýringum verður að telja að kærendur hafi ekki fært að því rök að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að framtali 1989 væri skilað á réttum tíma, en því var skilað 19. sept. Er því gerð krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra.“
Fyrri framtalsskil kærenda eru í engu reifuð í hinum kærða úrskurði. Í tilefni af athugasemdum ríkisskattstjóra þessu viðvíkjandi skal bent á að skattframtöl kærenda árin 1987 og 1988 hafa borist innan viðbótarframtalsfrests þessi ár, sbr. bréf embættisins sjálfs þar um. Eru þessar athugasemdir því ekki á rökum reistar, en kærendur hafa staðhæft, að fyrri framtalsskil hafi verið innan tilskilins frests, sem og fyrirliggjandi gögn staðfesta. Að þessu virtu og með vísan til þess, sem fram kemur í kæru, þykja engin efni til þess, að kærendur sæti álagi gjaldárið 1989. Er það því niður fellt.