Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Kæranleg skattákvörðun

Úrskurður nr. 1053/2000

Lög nr. 50/1988, 5. gr., 29. gr.   Lög nr. 30/1992, 3. gr.   Reglugerð nr. 515/1996, 11. gr.  

Skattstjóri hafði ekki kveðið upp kæruúrskurð um ákvörðun sína um að synja kæranda um skráningu í grunnskrá virðisaukaskatts. Því lá ekki fyrir neinn úrskurður skattstjóra sem var kæranlegur til yfirskattanefndar. Var kærunni því vísað frá yfirskattanefnd og send skattstjóra til afgreiðslu og uppkvaðningar kæruúrskurðar.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi óskaði eftir því við skattstjóra að vera skráður í grunnskrá virðisaukaskatts með tilkynningu þar um, RSK 10.22, sem barst skattstjóra þann 17. nóvember 1999. Eftir því sem fram kemur í gögnum málsins fylgdi tilkynningunni útfyllt eyðublað, RSK 10.31, þar sem kærandi gerði grein fyrir starfssambandi sínu við F ehf., sem hann hugðist vinna fyrir sem undirverktaki.

Með bréfi, dags. 15. desember 1999, tilkynnti skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að hafna beiðni hans um skráningu í grunnskrá virðisaukaskatts, þar sem um væri að ræða launþegasamband á milli kæranda og F ehf. Fram kom að skattstjóri byggði niðurstöðu sína á því að kærandi starfaði einungis fyrir einn aðila og væri skuldbundinn til að inna starfið af hendi sjálfur. Ekki hefði verið gerður verksamningur milli kæranda og þess sem keypti vinnuframlag hans, og kærandi væri háður verkstjórn þess síðarnefnda sem einnig legði til vélar. Greiðslur fyrir starfið væru reglulegar og ekki væri um tímabundið verkefni að ræða. Þá hefði kærandi uppsagnarfrest og væri greitt sérstaklega vegna dagpeninga, bifreiða- eða ferðakostnaðar vegna starfa fyrir verkkaupa. Var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umrædda ætlan skattstjóra.

Engin viðbrögð urðu af hálfu kæranda og með úrskurði, dags. 6. janúar 2000, hafnaði skattstjóri beiðni kæranda um skráningu í grunnskrá virðisaukaskatts, á þeim forsendum sem fram hefðu komið í bréfi skattstjóra, dags. 15. desember 1999.

II.

Með kæru, dags. 14. janúar 2000, hefur kærandi skotið máli þessu til yfirskattanefndar og krafist þess að úrskurði skattstjóra verði breytt og kærandi skráður í grunnskrá virðisaukaskatts. Með kærunni fylgja gögn og bréf sem F ehf. sendi skattstjóranum í Reykjavík varðandi fyrirkomulag á starfsemi félagsins. Þá fylgir kærunni staðfesting á þátttöku kæranda á námskeiði varðandi ákveðna verkþætti, og heimild kæranda til að starfa með tiltekin efni við þá vinnu. Kærandi óskar eftir því, með hliðsjón af framlögðum gögnum og með vísan til þess að hann verði látinn njóta jafnræðis við aðra hliðstæða verktaka, að úrskurði skattstjóra verði hnekkt.

Með bréfi, dags. 17. mars 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III.

Ágreiningsefni máls þessa er sú ákvörðun skattstjóra að synja kæranda um skráningu í grunnskrá virðisaukaskatts. Að fenginni tilkynningu kæranda þar sem hann óskaði eftir umræddri skráningu gerði skattstjóri kæranda grein fyrir þeirri ætlan sinni að synja beiðninni með bréfi, dags. 15. desember 1999. Í bréfinu voru raktar þær forsendur, sem skattstjóri byggði niðurstöðu sína á, og var kæranda gefinn 15 daga frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engin viðbrögð urðu af hálfu kæranda og synjaði skattstjóri honum um skráningu með úrskurði, dags. 6. janúar 2000, þar sem leiðbeint var um kærurétt til yfirskattanefndar.

Um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila fer eftir 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem fjármálaráðherra er jafnframt heimilað að setja í reglugerð nánari ákvæði um skráningu. Hefur það verið gert með reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Í 11. gr. reglugerðarinnar kemur fram að synjun skattstjóra um skráningu sé kæranleg samkvæmt 29. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, sbr. og 2. mgr. sömu lagagreinar, er ákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti samkvæmt 25. gr. kæranleg til hans innan 30 daga frá því er skatturinn var ákveðinn og reiknast kærufrestur frá póstlagningu tilkynningar um skattákvörðun. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. skal skattstjóri að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests kveða upp rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi. Þeim úrskurði má skjóta til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt þessu liggur ekki fyrir ákvörðun af hendi skattstjóra sem kæranleg er til yfirskattanefndar samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, enda verður ekki talið að í bréfi skattstjóra frá 15. desember 1999 hafi falist ákvörðun sem kæranleg var til hans samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988. Leiðbeindi skattstjóri kæranda því ranglega um kærurétt til yfirskattanefndar. Er kærunni því vísað frá yfirskattanefnd, og send skattstjóra til afgreiðslu og uppkvaðningar kæruúrskurðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd og send skattstjóra til afgreiðslu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja