Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sambýlisfólk
  • Sönnun
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 1061/2000

Gjaldár 1999

Lög nr. 75/1981, 63. gr. 3. mgr., 69. gr. A- og B-liður.   Lög nr. 37/1993, 10. gr.  

Með kæruúrskurði féllst skattstjóri á að leggja síðbúið skattframtal kæranda árið 1999 til grundvallar álagningu í stað áætlunar, en taldi að ákvarða bæri kæranda barnabætur og vaxtabætur miðað við að hún hefði verið í sambúð með B á árinu 1998. Ekki var talið að skattstjóra hefði verið unnt að draga óyggjandi ályktanir í þá veru án þess að afla fyrst frekari upplýsinga um hagi kæranda að þessu leyti, m.a. skýringa hennar sjálfrar. Var hin kærða ákvörðun skattstjóra því ómerkt og kæranda að svo stöddu ákvarðaðar barnabætur og vaxtabætur sem einstæðu foreldri.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem var við nám í Danmörku á árinu 1998, taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1999 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda barst skattstjóra 27. júlí 1999 og var það tekið sem skattkæra, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Þá bárust skattstjóra hinn 5. ágúst 1999 gögn um nám kæranda í Danmörku á árinu 1998, skattgreiðslur hennar þar og fengnar bætur. Með kæruúrskurði, dags. 21. desember 1999, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda hennar gjaldárið 1999 án álags. Þá féllst skattstjóri á ósk kæranda um að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 648/1995, um réttindi og skyldur manna, sem dveljast erlendis við nám, skv. ákvæðum laga um opinber gjöld. Skattstjóri taldi að ákvarða bæri kæranda barnabætur og vaxtabætur miðað við að hún væri í sambúð og félli undir ákvæði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Forsendur skattstjóra í því sambandi voru eftirfarandi:

„Barnabætur skv. A-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt reiknast ekki þar sem tekjur sambýlismanns í Danmörku koma ekki fram.

Útreikningur vaxtabóta miðast við það sem kallað er „hálft hjón“ en það kallast þegar annað hjóna eða sambúðaraðili er skattskylt samkvæmt 1. gr. en hitt er með lögheimili erlendis.

Skattstjóri telur kæranda vera í sambúð í Danmörku með B þrátt fyrir að sambúð sé ekki skráð skv. þjóðskrá Hagstofu Íslands og styður það með eftirfarandi rökum:

1. Framteljandi staðfestir ekki með því að krossa í viðkomandi reit á skattframtali að hann sé einstætt foreldri.

2. Kærandi er fjögra (sic) barna móðir og eru þrjú barnanna skráð börn B.

3. Kærandi og framangreindur B flytja bæði til Danmerkur á árinu 1996 og skv. þjóðskrá Hagstofu Íslands flutti kærandi til Danmerkur í ágúst 1996 og B í september 1996.

4. Umboðsmaður kæranda á Íslandi er F til heimilis að G-götu en þar var B skráður með aðsetur þegar hann bjó hér á landi. F er gift H og eru þau foreldrar B.

Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ber að skipta barnabótum á milli hjóna eða sambúðarfólks sem uppfylla í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 63. gr. enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Sé svo ástatt að einungis annað hjóna er skattskylt hér á landi skv. 1. gr. skal reikna því fullar barnabætur vegna þeirra barna hjónanna sem eru heimilisföst hér á landi eftir þeim reglum sem gilda um hjón, enda liggi fyrir upplýsingar um tekjur beggja ásamt upplýsingum um barnabætur eða hliðstæðar greiðslur vegna sömu barna sem greiddar hafa verið erlendis.

Þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um tekjur B í Danmörku er ekki hægt að ákvarða fjárhæð barnabóta við álagningu 1999.“

II.

Með bréfi til skattstjóra, dags. 2. mars 2000, sem skattstjóri hefur framsent yfirskattanefnd sem kæru til nefndarinnar með bréfi, dags. 17. mars 2000, hefur kærandi mótmælt því að hún hafi verið í sambúð með B á árinu 1998. Í bréfi kæranda kemur fram að sá aðili er annast hefði um framtalsgerð fyrir hana hefði gleymt að staðfesta að kærandi væri einstætt foreldri með því að merkja í viðeigandi reit í skattframtali hennar árið 1999. Þá kemur fram að B sé faðir þriggja barna kæranda og greiði meðlag með þeim mánaðarlega. Er frá því greint að kærandi og B hafi „reynt ítrekað að vera saman ’93 ’94“ án þess að það hafi gengið. Kærandi hafi flutt til Danmerkur á árinu 1996 til að hefja nám og B hafi sömuleiðis flutt þar sem hann hafi viljað vera nálægt börnum sínum. Sé hann með börnunum aðra hverja helgi og stundum oftar en búi í öðru bæjarfélagi. Hafi kærandi boðist til að hjálpa honum að finna húsnæði í Danmörku.

Með bréfi, dags. 31. maí 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra. Kærandi leggur fram læknisvottorð og fleiri sambærileg gögn. Ríkisskattstjóri túlkar framlagningu þeirra gagna sem að kærandi sé að leggja fram beiðni um ívilnun á skattstofnum skv. 66. gr. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um slíkar beiðnir fjalla skattstjóri og ríkisskattstjóri, sbr. 2. mgr. 66. gr. og 2. mgr. 80. gr. laga nr. 75/1981. Er því farið fram á að þeim hluta kærunnar verði vísað frá og send ríkisskattstjóra til afgreiðslu.“

III.

Eins og að framan greinir barst skattstjóra skattframtal kæranda árið 1999 eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu var lokið. Bar skattstjóra því að taka skattframtalið sem kæru, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem hann og gerði. Skattstjóri var því ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 95. eða 96. gr. laga nr. 75/1981 hygðist hann breyta skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða hluta. Við breytingar sínar bar skattstjóra hins vegar að sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að málið væri nægjanlega upplýst svo að hann gæti tekið ákvörðun í því og einnig varð hann að rökstyðja ákvarðanir sínar, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skulu hjón, sem skattlögð eru samkvæmt 63. gr. laganna, bæði teljast framfærendur og skal skipta barnabótum milli þeirra til helminga. Ennfremur er svo kveðið á í umræddri lagagrein að hið sama gildi um sambúðarfólk sem uppfyllir í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 63. gr., enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Þá kemur fram í 7. mgr. B-liðar 69. gr. laganna að vaxtabótum hjóna skuli skipt til helminga á milli þeirra og að hið sama gildi um sambýlisfólk, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr., enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.

Eins og bent er á í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 21. desember 1999, staðfesti kærandi ekki í skattframtali sínu árið 1999 að hún væri einstætt foreldri með tilgreiningu í þargreindum reit á fyrstu síðu framtalsins. Kærandi taldi hins vegar fram til skatts sem einhleypingur og fyrir lá að hún hafði aldrei verið skráð í sambúð, sbr. þjóðskrá Hagstofu Íslands. Engu að síður lagði skattstjóri til grundvallar í hinum kærða úrskurði að ákvarða bæri kæranda barnabætur og vaxtabætur miðað við að hún hefði á árinu 1998 verið í sambúð með B er félli undir ákvæði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þótt ljóst sé af málsgögnum að tilefni kunni að hafa verið til þess að skattstjóri kannaði hvort framangreind ákvæði um barnabætur og vaxtabætur ættu við í tilviki kæranda verður ekki talið að skattstjóra hafi verið unnt að draga óyggjandi ályktun í þá veru án þess að afla frekari upplýsinga um hagi kæranda að þessu leyti, m.a. skýringa hennar sjálfrar, enda bar skattstjóra sem fyrr segir að gæta þess að málið væri nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af sömu ástæðu fékk ekki staðist að synja kæranda um barnabætur með hinum kærða úrskurði á þeirri forsendu að upplýsingar um tekjur B í Danmörku lægju ekki fyrir, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. a-lið 3. gr. laga nr. 141/1997, sem skattstjóri byggði á í þessu sambandi. Bar skattstjóra samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að krefja kæranda um þessar upplýsingar áður en hann tók kæru hennar til úrlausnar og synjaði henni um barnabætur á framangreindum grundvelli.

Vegna þeirra annmarka á málsmeðferð skattstjóra sem að framan greinir verður að ómerkja hina kærðu ákvörðun hans og ákvarða kæranda að svo stöddu barnabætur og vaxtabætur vegna ársins 1998 sem einstæðu foreldri. Barnabætur ákvarðast með fjórum börnum, sbr. athugasemd í kæru. Samkvæmt tveimur tilkynningum, sem liggja fyrir í framtalsgögnum kæranda árin 1998 og 1999, námu barnabætur til kæranda í Danmörku á árinu 1998 vegna fjögurra barna alls 60.924 dkr. Miðað við meðalkaupgengi danskrar krónu 10,604 ísl. kr. dragast því 646.038 kr. frá reiknuðum barnabótum í álagningu 766.700 kr. Mismunur 120.662 kr. ákvarðast sem réttur til barnabóta hérlendis. Vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtabóta í reit 87 hækka úr 65.977 kr. í 131.953 kr. Með úrskurði þessum er engin afstaða tekin til efnisatriða málsins.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinn kærði úrskurður skattstjóra er ómerktur að því er tekur til ákvörðunar barnabóta og vaxtabóta kæranda.

 

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja