Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Breyting á uppgjörstímabili

Úrskurður nr. 1085/2000

Virðisaukaskattur 2000

Lög nr. 50/1988, 24. gr. 1. mgr.   Reglugerð nr. 667/1995, 3. gr. 6. mgr.  

Í kjölfar þess að kærandi, sem var í ársskilum virðisaukaskatts, sætti áætlun virðisaukaskatts vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattsskýrslu breytti skattstjóra skilamála kæranda miðað við almenn uppgjörstímabil virðisaukaskatts. Með vísan til fortakslauss reglugerðarákvæðis var sú ákvörðun skattstjóra staðfest.

I.

Með kæru, dags. 11. apríl 2000, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 4. apríl 2000, vegna ákvörðunar um uppgjörstímabil virðisaukaskatts árið 2000.

Kærandi var skráður í ársskil virðisaukaskatts á árinu 1999, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, með áorðnum breytingum. Kærandi stóð skil á virðisaukaskatti ársins 1999 þann 21. mars 2000, sbr. virðisaukaskattsskýrslu, dags. 15. mars 2000. Í hinum kærða úrskurði skattstjóra, dags. 4. apríl 2000, segir:

,,Þar sem kærandi stóð ekki skil á virðisaukaskattsskýrslu vegna ársins 1999 á tilsettum tíma var áætluð á hann skattskyld velta og útskattur auk þess að skattstjóri breytti skilamáta hans úr árskilum í almenn tveggja mánaða skil.

Skv. 6. mgr. 3. gr. reglug. nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, með breytingum skv. reglugerðum nr. 588/1996, 375/1997 og 134/1999, skal aðili sem notar almanaksárið sem uppgjörstímabil gera upp virðisaukaskatt næsta almanaksárs þar á eftir samkvæmt almennum uppgjörstímabilum, sbr. 1. gr., hafi hann sætt áætlun virðisaukaskatts vegna undanfarins almanaksárs.

Með hliðsjón af ofanrituðu fellst skattstjóri ekki á kröfu kæranda um breytingu á skilamáta.“

II.

Með kæru, dags. 11. apríl 2000, hefur fyrirsvarsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra, dags. 4. apríl 2000, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi verið skráður í ársskil virðisaukaskatts. Hafi kærandi sætt áætlun virðisaukaskatts vegna ársins 1999, þar sem virðisaukaskattsskýrslu hafi ekki verið skilað fyrir 7. febrúar 2000. Áður hafi kæranda ekki borið að skila virðisaukaskattsskýrslu fyrr en í mars. Þar sem virðisaukaskattsskýrslu hafi verið skilað of seint hafi skattstjóri skráð kæranda í tveggja mánaða skil. Sé sú niðurstaða skattstjóra nú kærð og eftir því óskað að kærandi verði að nýju skráður í ársskil virðisaukaskatts.

Með bréfi, dags. 9. júní 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Ríkisskattstjóri krefst þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og eftirfarandi athugasemda:

Skv. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, með síðari breytingum, skulu þeir aðilar, sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 800.000 kr. á almanaksári, nota næsta almanaksár sem uppgjörstímabil. Jafnframt skulu þeir aðilar sem eru að hefja skattskylda starfsemi nota almanaksárið sem uppgjörstímabil. Ákvæði 1. mgr. tekur ekki til þeirra sem nefndir eru í 2. mgr. Í 6. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að hafi aðili sem notar almanaksárið sem uppgjörstímabil sætt áætlun virðisaukaskatts vegna undanfarins almanaksárs þá skal hann gera upp virðisaukaskatt næsta almanaksárs þar á eftir samkvæmt almennum uppgjörstímabilum, sbr. 1. gr. Kom 6. mgr. 3. gr. inn með 1. gr. reglugerðar nr. 134/1999 og tók hún gildi árið 2000 vegna viðskipta rekstrarársins 1999, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 134/1999. Engin heimild er til að víkja frá 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995.“

III.

Eins og fram hefur komið var kærandi í ársskilum virðisaukaskatts samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, með áorðnum breytingum. Virðisaukaskattsskýrsla kæranda vegna ársins 1999 barst ekki á tilskildum tíma, sbr. gjalddaga vegna ársuppgjörs sem tilgreindur er í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 667/1995, sbr. b-lið 3. gr. reglugerðar nr. 134/1999. Skattstjóri áætlaði kæranda virðisaukaskatt, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með úrskurði, dags. 30. mars 2000, féllst skattstjóri á að ákvarða virðisaukaskatt kæranda samkvæmt innsendri virðisaukaskattsskýrslu og felldi áður gerða áætlun niður. Skattstjóri beitti álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Er þessi ákvörðun skattstjóra ágreiningslaus. Með sérstakri ákvörðun, er skattstjóri staðfesti með kæruúrskurði, dags. 4. apríl 2000, ákvað skattstjóri með vísan til 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, sbr. d-lið 1. gr. reglugerðar nr. 134/1999, að uppgjör virðisaukaskatts kæranda skyldi vera samkvæmt almennum uppgjörstímabilum. Reglugerðarákvæði þetta hljóðar svo:

„Hafi aðili sem notar almanaksárið sem uppgjörstímabil sætt áætlun virðisaukaskatts vegna undanfarins almanaksárs skal hann gera upp virðisaukaskatt næsta almanaksárs þar á eftir samkvæmt almennum uppgjörstímabilum, sbr. 1. gr. Skattstjóri skal tilkynna aðila um breytt uppgjörstímabil samkvæmt þessu ákvæði.“

Með vísan til ofangreinds reglugerðarákvæðis, sem er ótvírætt og fortakslaust, verður að synja kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu varðandi breytingar á skilum virðisaukaskatts árið 2000 er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja