Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 364/2001

Gjaldár 2000

Lög nr. 75/1981, 69. gr. B-liður (brl. nr. 122/1993, 9. gr.).   Reglugerð nr. 7/1998, 4. og 5. gr.  

Kærendur, sem keyptu hús í smíðum á árinu 1999 og fluttu inn í það í ágúst sama ár, seldu eldra íbúðarhúsnæði sitt á árinu 2000. Yfirskattanefnd taldi verða að líta svo á að hin eldri íbúð kærenda gæti ekki talist til eigin nota í skilningi vaxtabótareglna eftir flutning í ágúst 1999 og að réttur þeirra til vaxtabóta vegna lána til öflunar á því húsnæði hefði þá fallið niður. Þá gætu skuldir vegna öflunar eldra húsnæðisins ekki talist til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota miðað við árslok 1999.

I.

Með kæru, dags. 10. apríl 2001, hefur umboðsmaður kærenda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 9. mars 2001, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2000.

Af hálfu kærenda er þess krafist að hnekkt verði ákvörðun skattstjóra um að taka við ákvörðun vaxtabóta gjaldárið 2000 ekki tillit til vaxtagjalda að fjárhæð 127.716 kr. af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis að G-götu, sem til féllu eftir 21. ágúst 1999, en þann dag fluttu kærendur í nýtt íbúðarhúsnæði að S-götu. Einnig krefjast kærendur þess að eftirstöðvar lána í árslok 1999 vegna öflunar G-götu, samtals 5.706.246 kr., verði viðurkenndar sem lán til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þannig að skerðing samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, reiknist af samtölu skulda í árslok 1999 vegna beggja íbúða kærenda. Síðarnefndri kröfu er haldið sjálfstætt fram sem varakröfu.

II.

Málavextir eru þeir að í skattframtali kærenda árið 2000 var gerð grein fyrir vaxtagjöldum vegna öflunar eigin íbúðarhúsnæðis samtals að fjárhæð 725.266 kr., og eftirstöðvum skulda vegna íbúðarhúsnæðis samtals að fjárhæð 11.563.118 kr. Var um að ræða vaxtagjöld vegna tveggja íbúða, annars vegar að S-götu, sem kærendur keyptu á árinu 1999, og hins vegar að G-götu. Var skattframtalið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000.

Með bréfi, dags. 29. nóvember 2000, óskaði skattstjóri eftir því við kærendur með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignaskatt, að gefnar yrðu skýringar á umræddum vaxtagjöldum. Vísaði skattstjóri til 5. gr. reglugerðar nr. 7/1998, um vaxtabætur, þar sem fram kæmi að ef maður ætti fleiri en eina íbúð, ætti hann einungis rétt á vaxtabótum vegna lána sem tekin hefðu verið vegna þess húsnæðis sem ætlað væri til eigin nota, þó með nánar tiltekinni undantekningu þegar önnur eignin, sem ætluð væri til eigin nota, væri í byggingu eða unnið að standsetningu hennar í beinu framhaldi af kaupum. Samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá hefðu kærendur flutt að S þann 21. ágúst 1999 og yrði því ekki séð að vaxtagjöld vegna íbúðarinnar að G-götu mynduðu stofn til útreiknings vaxtarbóta nema til þess tíma. Óskaði skattstjóri eftir framlagningu kvittana fyrir gjaldföllnum vaxtagjöldum til 21. ágúst 1999 af tilteknum lánum sem öll virtust hafa verið vegna íbúðarinnar að G-götu. Þá tók skattstjóri fram að afborganir af nafnverði lána sem kærendur hefðu yfirtekið við kaup á S-götu virtust ekki réttar, og gerði grein fyrir slíkum útreikningi.

Umboðsmaður kærenda svaraði bréfi skattstjóra með bréfi, dags. 10. desember 2000. Kom fram að þegar kaup kærenda á S-götu hefðu verið ákveðin hefði íbúð þeirra að G-götu strax verið sett í sölu. Íbúðin hefði ekki selst strax og kærendur því þurft að greiða afborganir og kostnað af tveimur íbúðum, án þess að þau hefðu haft af henni neinar tekjur þar sem íbúðin hefði ekki verið leigð út. Með bréfinu fylgdu umbeðnar kvittanir fyrir allt árið 1999, ásamt frekari skýringar á þeim. Kröfðust kærendur samkvæmt framansögðu að framtal þeirra fengi að standa óbreytt, og ítrekuðu að íbúðin að G-götu hefði einungis verið nýtt af þeim.

Með bréfi, dags. 5. febrúar 2001, tilkynnti skattstjóri kærendum með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, að hann hefði í hyggju að endurákvarða opinber gjöld þeirra gjaldárið 2000. Fram kom að til vaxtagjalda og verðbóta sem mynduðu stofn til útreiknings vaxtabóta teldust gjaldfallin vaxtagjöld af lánum sem tekin hefðu verið til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. B-lið 69. gr. laga nr. 75/1981. Með eigin notum í þessu samband væri átt við þegar húsnæðið væri nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum. Þá ítrekaði skattstjóri ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 7/1998, um greiðslu vaxtabóta, og gerði grein fyrir því að íbúð kærenda að G-götu gæti ekki talist til eigin nota eftir 21. ágúst 1999, þegar kærendur hefðu flutt að S-götu. Væri því fyrirhugað af færa vaxtagjöld sem gjaldfallið hefðu eftir 21. ágúst 1999 af fimm lánum vegna íbúðarhúsnæðis að G-götu og allar eftirstöðvar þeirra lána úr lið 5.2 í lið 5.5 í skattframtali, eins og nánar var rakið. Ennfremur væri fyrirhugað að leiðrétta afborgun af nafnverði láns hjá Húsbréfadeild sem hefði verið yfirtekið við kaup á S-götu á árinu 1999. Ekki hefðu verið lagðar fram upplýsingar um grunnvísitölu nefnds láns og hefði skattstjóri því í hyggju að áætla afborgun af nafnverði þess samtals 170.000 kr. og lækka vaxtagjöld af láninu í 253.530 kr. Með vísan til framanritaðs kvaðst skattstjóri hafa í hyggju að lækka vaxtagjöld af lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis í reit 87 í skattframtali kærenda í 580.877 kr., lækka eftirstöðvar af lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis í reit 45 í 5.856.872 kr., hækka vaxtagjöld af öðrum skuldum í reit 88 í 127.716 kr. og hækka eftirstöðvar annarra skulda í reit 168 í 7.181.103 kr.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 9. mars 2001, hratt skattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kærenda gjaldárið 2000 í samræmi við það. Vísaði skattstjóri til forsendna í boðunarbréfinu, dags. 5. febrúar 2001, sem kærendur hefðu ekki gert athugasemdir við.

III.

Með kæru, dags. 10. apríl 2001, hefur umboðsmaður kærenda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 9. mars 2001, til yfirskattanefndar. Fram kemur að kærendur hafi keypt hús í smíðum á árinu 1999, lokið við smíði þess og flutt inn í ágúst sama ár. Þau hafi átt íbúð fyrir að G-götu sem ekki hafi selst fyrr en á árinu 2000. Er þess krafist að kærendur njóti óskertra vaxtabóta af lánum vegna eldri íbúðarinnar, enda hafi þau sjálf nýtt íbúðina allt til söludags. Tekið er fram að hin umdeildu vaxtagjöld hafi einungis komið til vegna erfiðleika við sölu íbúðarinnar að G-götu, og gerð sú varakrafa að eftirstöðvar skulda vegna G-götu fái að standa í reit 45, sem myndi draga úr skerðingu vaxtabóta.

IV.

Með bréfi, dags. 11. maí 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Kærður er úrskurður skattstjóra, dags. 5. febrúar 2001, þar sem hafnað er vaxtabótum vegna tveggja íbúða. Í kæru kemur fram að kærandi hafi keypt hús í smíðum á árinu 1999 og hafi flutt í það sama ár. Kærandi hafi átt íbúð fyrir en ekki tekist að selja hana fyrr en á árinu 2000. Meðfylgjandi er yfirlýsing fasteignasala. Til vara er þess krafist að vaxtabæturnar miðist við eftirstöðvar skulda af eldri íbúðinni því þá fengjust hærri vaxtabætur en ef miðað er við lán af nýrri fasteigninni. Réttur til vaxtabóta er bundinn við eina íbúð til eigin nota, þannig að þrátt fyrir að skattaðili eigi fleira en eina íbúð, þá mynda einungis stofn til vaxtabóta vegna þeirra lána sem tekin hafa verið til öflunar á þeirri íbúð sem hann býr í en ekki af öðru húsnæði sem hann kann að eiga. Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

V.

Eins og áður er komið fram er þess krafist af hálfu kærenda að hnekkt verði breytingu skattstjóra að lækka vaxtagjöld í reit 87 (vaxtagjöld vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota) um 127.716 kr. og færa þá fjárhæð sem vaxtagjöld af öðrum skuldum í reit 88, svo og að færa eftirstöðvar fimm tilgreindra lána, samtals að fjárhæð 5.706.246 kr. úr reit 45 í reit 168 í skattframtalinu. Til vara er þess krafist að hnekkt verði umræddri breytingu á eftirstöðvum skulda í reitum 45 og 168. Í kærunni er ekki vikið að breytingu skattstjóra varðandi lán frá Húsbréfadeild vegna S-götu og verður litið svo á að kærendur uni úrskurði skattstjóra um það atriði.

Í upphafsákvæði B-liðar 1. mgr. 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignaskatt, með áorðnum breytingum, segir að maður, sem skattskyldur sé samkvæmt 1. gr. laganna og beri vaxtagjöld af lánum sem tekin hafi verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, skuli eiga rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum. Í 5. mgr. stafliðarins segir að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota og stofnist þegar íbúðarhúsnæði til eigin nota sé keypt eða bygging þess hefjist. Réttur til vaxtabóta fellur niður þegar íbúðarhúsnæði telst ekki lengur til eigin nota, sbr. 6. mgr. stafliðarins.

Nánari ákvæði um ákvörðun vaxtabóta er að finna í reglugerð nr. 7/1998, um greiðslu vaxtabóta. Í 4. gr. reglugerðarinnar segir að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota, en með eigin notum sé átt við að húsnæðið sé nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum. Sérstakar tímabundnar aðstæður, svo sem nám, veikindi eða atvinnuþarfir sem valdi því að eigandi íbúðarhúsnæðis geti ekki nýtt það til íbúðar, leiði þó ekki til þess að hann missi rétt til vaxtabóta. Með tímabundnum aðstæðum sé átt við að eigandi íbúðarhúsnæðis geri líklegt að hann muni innan ákveðins tíma taka húsnæðið aftur til eigin nota. Í 5. gr. reglugerðarinnar er sérstaklega fjallað um ákvörðun vaxtabóta þegar svo háttar til að í eigu manns eru fleiri en ein íbúð. Segir að þá eigi gjaldandi einungis rétt á vaxtabótum með einni íbúð, þeirri sem ætluð er til eigin nota. Þó geti maður átt rétt á vaxtabótum vegna lána sem tekin hafi verið vegna húsnæðis í byggingu eða kaupa á eldra húsnæði sem unnið sé að standsetningu á í beinu framhaldi af kaupunum og ætlað sé til eigin nota, þrátt fyrir að hann eigi á sama tíma húsnæði til eigin nota og njóti vaxtabóta vegna lána sem tengist öflun þess húsnæðis. Réttur til vaxtabóta með síðarnefnda húsnæðinu falli niður þegar það teljist ekki lengur til eigin nota, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt framansögðu er meginregla samkvæmt vaxtabótareglum að eigi maður fleiri en eina íbúð þá eigi hann einungis rétt á vaxtabótum með einni, þeirri sem ætluð sé til eigin nota. Undantekning frá þessari reglu, sem fram kemur í 5. gr. reglugerðar nr. 7/1998, á samkvæmt orðalagi sínu ekki við um tilvik kærenda. Verður því að líta svo á að eldri íbúð kærenda geti ekki talist til eigin nota í skilningi framangreindra reglna eftir 21. ágúst 1999 og að réttur kærenda til vaxtabóta vegna lána til öflunar á því húsnæði hafi þá fallið niður, sbr. 1. málsl. 6. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Aðalkröfu kærenda er því hafnað.

Samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, geta vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta hjá hverjum framteljanda ekki orðið hærri en nemur 7% af skuldum sem stofnað hefur verið til vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota eins og þær eru í árslok. Með því að umræddar skuldir vegna öflunar íbúðarhúsnæðisins að G-götu geta samkvæmt framangreindu ekki talist til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, miðað við árslok 1999, verður jafnframt að hafna varakröfu kærenda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kærenda er synjað.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja