Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Bifreiðakostnaður
  • Álag vegna síðbúinna framtalsskila

Úrskurður nr. 367/2001

Gjaldár 2000

Lög nr. 75/1981, 106. gr. 1. mgr., 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Lög nr. 30/1992, 6. gr. 3. mgr. (brl. nr. 96/1998, 2. gr. a-liður).  

Kærendur sættu álagsbeitingu vegna síðbúinna framtalsskila. Í kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu var ekkert vikið að atriðum sem talin voru hafa grundvallarþýðingu við úrlausn þess, m.a. hvenær framtalsfrestur hefði runnið út í tilviki kærenda. Var hið kærða álag því fellt niður. Kröfu kæranda, A, um hækkun rekstrarkostnaðar bifreiðar var hins vegar hafnað þar sem skýringar hans á tilfærðum akstri í þágu atvinnurekstrar þóttu ófullnægjandi.

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2000. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000 sættu kærendur því áætlun skattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Við áætlaða skattstofna bætti skattstjóri álagi samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt gögnum málsins barst skattframtal kærenda árið 2000 skattstjóra með rafrænum hætti hinn 7. júní 2000 eða að liðnum framtalsfresti en áður en álagningu var lokið. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru samkvæmt fyrirmælum 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981.

Skattframtalinu fylgdi ársreikningur kæranda, A, fyrir árið 1999 vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við múraraiðn. Samkvæmt ársreikningnum námu rekstrartekjur 2.859.301 kr. og rekstrargjöld 2.510.245 kr., þ.m.t. reiknað endurgjald að fjárhæð 1.500.000 kr., þannig að hreinar tekjur námu 349.056 kr., sbr. og samræmingarblað (RSK 4.05) er fylgdi skattframtalinu. Meðal gjaldaliða í rekstrarreikningnum var rekstrarkostnaður bifreiðar að fjárhæð 289.100 kr., sbr. og rekstraryfirlit fólksbifreiðar (RSK 4.03) sem fylgdi skattframtalinu. Samkvæmt rekstraryfirlitinu var um að ræða kostnað vegna bifreiðarinnar V af gerðinni Toyota Yaris árgerð 1999 og var notkunartími tilgreindur 1. janúar til 31. desember 1999. Heildarrekstrarkostnaður bifreiðarinnar nam 495.600 kr. og heildarakstur 24.000 km. Kostnaður á ekinn kílómetra nam því samkvæmt þessu 20,65 kr. Skipting aksturs var tilgreind svo að akstur í eigin þágu, þ.m.t. akstur til og frá vinnu, var talinn 10.000 km og akstur í þágu atvinnurekstrar 14.000 km. Í samræmi við þetta var kostnaður vegna aksturs í þágu atvinnurekstrar talinn 289.100 kr. Í athugasemdum í rekstraryfirlitinu var tekið fram að bifreiðin hefði verið notuð við allan daglegan rekstur, flutning verkfæra milli vinnustaða og annað tilfallandi. Eðlileg notkun í þágu atvinnurekstrar væri metin um 13.500 km á ársgrundvelli.

Áður en skattstjóri tók skattframtalið til úrlausnar með kæruúrskurði reit hann kærendum bréf, dags. 3. nóvember 2000, þar sem hann krafði kæranda, A, m.a. um greinargerð vegna gjaldfærðs kostnaðar 289.100 kr. vegna aksturs í þágu atvinnurekstrar. Fór skattstjóri fram á að kærandi gerði ítarlega og tölulega grein fyrir tilgreindum akstri í þágu atvinnurekstrar þar sem meðal annars kæmu fram aksturstilefni, tíðni akstursferða, vegalengdir á helstu akstursleiðum og tölulegur útreikningur á þeim kílómetrafjölda sem talinn væri vera í þágu rekstrarins. Einnig óskaði skattstjóri eftir því að kærandi rökstyddi skiptingu aksturs milli rekstrar og eigin nota. Þá vakti skattstjóri athygli á því að akstur milli heimilis og vinnustaðar teldist til eigin nota og fór fram á að kærandi gerði grein fyrir útreikningi þess aksturs.

Í bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 15. nóvember 2000, kom fram að aksturstilefni færu eftir eðli starfa kæranda, A. Kærandi væri múrari og ynni aðallega við flísalagnir. Oft væru mörg verkefni í gangi í einu og þyrfti hann þá að aka á milli þeirra staða sem unnið væri á. Þá þyrfti hann að nota bifreiðina við kaup á efni og verkfærum, en þær verslanir sem hann skipti við væru m.a. Álfaborg, Flísabúðin, Húsasmiðjan og Byko. Einnig þyrfti kærandi að fara í banka og á milli viðskiptavina við innheimtu reikninga. Umboðsmaðurinn kvað tíðni akstursferða fara eftir atvikum hverju sinni. Hún væri breytileg og réðist af þeim verkefnum, sem unnið væri við, svo og efnisþörf hverju sinni. Sú vegalengd sem kærandi þyrfti að aka væri breytileg frá degi til dags og færi eftir því hvar hann væri við störf. Væru aðstæður kæranda aðrar en þeirra sem sinntu öllum erindum, þ. á m. útréttingum, frá sama vinnustað. Að því er snerti tölulegan útreikning á kílómetrafjölda tók umboðsmaðurinn fram að kærandi ynni 49 vikur á ári. Akstur gæti verið breytilegur frá viku til viku eftir því hvaða verkefni væru í gangi. Gæti akstur í þágu rekstrarins þannig verið u.þ.b. 40 til 70 km á dag. Hefði kærandi miðað við að meðalakstur á dag væri um 57 km eða um 14.000 km á ári. Varðandi skiptingu milli aksturs í þágu rekstrar annars vegar og heimilis hins vegar tók umboðsmaðurinn fram að kærandi hefði haft þann háttinn á að finna út hve mikið hann hefði ekið í þágu rekstrarins og síðan hefði hann litið svo á að afgangurinn væri akstur í eigin þágu, þ.m.t. akstur milli heimilis og vinnustaðar. Að því er snerti útreikning á akstri milli heimilis og vinnustaðar tók umboðsmaðurinn fram að þar sem kærandi hefði ekki fastan vinnustað með því að unnið væri fyrir einstaklinga og fyrirtæki á heimilum og starfsstöðvum væru vegalengdir milli heimilis og vinnustaðar breytilegar.

Með kæruúrskurði, dags. 9. janúar 2001, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kærenda til grundvallar álagningu opinberra gjalda þeirra gjaldárið 2000 að viðbættu 10% álagi á þann hluta stofns til tekjuskatts og útsvars sem umfram var 95% af tekjum sem staðgreiðslu var skilað af, sbr. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 og auglýsingu ríkisskattstjóra, dags. 30. maí 1991, sem birt var í 71. tbl. Lögbirtingablaðsins, dags. 12. júní 1991. Nam fjárhæð álags 197.816 kr. í tilviki kæranda, A, og 4.008 kr. í tilviki kæranda, B. Þá bætti skattstjóri 10% álagi á gjaldstofn kæranda, A, til iðnaðarmálagjalds, sbr. lög nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, með síðari breytingum. Nam fjárhæð þess álags 285.930 kr. Varðandi ákvörðun sína um álagsbeitingu vísaði skattstjóri til þess að framtalsskil kærenda árin 1996 og 1997 hefðu verið það síðbúin að þurft hefði að áætla skattstofna. Þá gerði skattstjóri þá breytingu á rekstrarreikningi kæranda, A, vegna ársins 1999 að lækka gjaldfærðan bifreiðakostnað að álitum úr 289.100 kr. í 160.000 kr. Leiddi breyting þessi til hækkunar á hreinum tekjum í reit 62 í skattframtalinu úr 349.056 kr. í 478.156 kr. Tók skattstjóri fram að ekki hefði verið sýnt fram á með rökstuddum hætti að sú bifreiðanotkun í þágu rekstrar, sem fram kæmi á rekstraryfirliti fólksbifreiðar (RSK 4.03), fengi staðist. Framkomnar skýringar kæranda, A, á akstri hans í þágu rekstrar væru einungis almenns eðlis, en ekki gerð sú sundurliðaða grein fyrir akstrinum sem krafist hefði verið, sbr. bréf skattstjóra, dags. 3. nóvember 2000. Þá þætti áætlaður meðalakstur í þágu rekstrar, sem fram kæmi í svarbréfi, dags. 15. nóvember 2000, ekki fá staðist með því að enginn tölulegur rökstuðningur lægi að baki áætluninni. Þá yrði heldur ekki séð að aksturinn fengi staðist í ljósi umfangs rekstrar kæranda og eðlis starfseminnar.

II.

Umboðsmaður kærenda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 9. janúar 2001, til yfirskattanefndar með kæru, dags. 15. janúar 2001. Þess er krafist í fyrsta lagi að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna kærenda vegna síðbúinna framtalsskila, verði fellt niður. Umboðsmaðurinn getur þess að skattframtal kærenda árið 2000 hafi borist skattstjóra 7. júní 2000. Öll skattframtöl, sem afhent hafi verið skattstjóra þann dag, hafi fengið álagningu utan þetta eina þar sem áætlað hafi verið. Ekki sé tilefni til álagsbeitingar þar sem framtalið hafi borist það snemma að skattstjóra hafi verið í lófa lagið að byggja álagningu á framtalinu. Þá verði ekki séð að síðbúin framtalsskil árin 1996 og 1997 hafi þýðingu, enda sé langt um liðið og ekki um ítrekuð síðbúin framtalsskil að ræða. Í öðru lagi er þess krafist að lækkun skattstjóra á gjaldfærðum rekstrarkostnaði bifreiðar verði hnekkt og skattframtalið látið standa óhaggað að þessu leyti. Umboðsmaðurinn telur að skattstjóra hafi verið gerð nægjanlega glögg grein fyrir rekstrarkostnaði bifreiðar og skiptingu aksturs. Eru ítrekaðar þær skýringar sem fram komu í framtalsgögnum og svarbréfi, dags. 15. nóvember 2000. Skattstjóri hafi ekki tekið neitt tillit til þessara skýringa, heldur lækkað bifreiðakostnaðinn umtalsvert samkvæmt eigin mati og án rökstuðnings.

III.

Með bréfi, dags. 9. mars 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Hvað varðar kröfu kæranda um niðurfellingu álags vill ríkisskattstjóri benda á að samkvæmt móttökustimpli barst framtal kæranda skattstjóranum í Reykjanesumdæmi þann 8. júní 2000. Þá var liðinn lögmæltur framtalsfrestur en lögmæltur framtalsfrestur einstaklinga með atvinnurekstur var 15. mars 2000, sbr. 1. ml. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Gat skattstjóri framlengt frestinn allt til 19. maí að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. meðfylgjandi bréf. Var frestur til að skila skattframtali 2000 löngu liðinn þegar kærendur skiluðu sínu framtali og var skattstjóra því heimilt að beita 10% álagi á skattstofna kærenda, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981.

Þá þykir ríkisskattstjóra rétt að vekja athygli á því að samkvæmt ökutækjaskrá var bifreiðin sem um ræðir í máli þessu, V, nýskráð 20. apríl 1999. Skráður eigandi umræddrar bifreiðar er eiginkona kæranda, B. Samkvæmt ökutækjaskrá átti eiginkona kæranda bifreiðina K sem var seld 18. apríl 1999. Hafi kærandi notað þá bifreið í rekstri sínum bar honum að skila eyðublaðinu RSK 4.03, Rekstraryfirlit fólksbifreiðar, fyrir þá bifreið, en skila ber skýrslu fyrir hvert ökutæki.“

Með bréfi, dags. 12. mars 2001, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu, dags. 9. mars 2001, og gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði í kröfugerðinni sem ástæða þætti til. Gefinn var 20 daga svarfrestur frá dagsetningu bréfsins. Athugasemdir hafa ekki borist frá kærendum.

IV.

Samkvæmt því sem skattstjóri tilgreinir, sbr. bréf hans, dags. 3. nóvember 2000, og kæruúrskurð, dags. 9. janúar 2001, barst skattframtal kærenda árið 2000 með rafrænum hætti hinn 7. júní 2000. Skattstjóri byggði á því að skattframtalið hefði borist eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu var lokið og tók samkvæmt því skattframtalið sem kæru, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð hinn 9. janúar 2001, að undangengnum bréfaskiptum. Eins og málið bar að samkvæmt þessu var skattstjóri því ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 95. og 96. gr. laga nr. 75/1981 hygðist hann breyta framtalinu eða vefengja það í heild sinni eða hluta. Skattstjóra bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, þ.m.t. breytingar sem hann gerði á framtalinu, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að málið væri nægjanlega upplýst væru ákvarðanir teknar sem krefðust slíks.

Af hálfu umboðsmanns kærenda er þess krafist að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna kærenda vegna síðbúinna framtalsskila, verði fellt niður. Ekki verður séð að umboðsmaðurinn byggi þessa kröfu á því að skattframtal kærenda árið 2000 hafi borist innan tilskilins viðbótarframtalsfrests, heldur á þeim grundvelli að almenn álagning hafi farið fram á grundvelli allra annarra skattframtala sem umboðsmaðurinn hafi skilað þann sama dag. Samkvæmt þessu verður að telja að á því sé byggt að ekki hafi verið gætt jafnræðis við meðferð á skattframtali kærenda.

Í tilefni af málsástæðum umboðsmanns kærenda skal tekið fram að með lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, voru m.a. gerðar þær breytingar á ákvæðum um álag á skattstofna, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981, að beiting álags var ekki lengur skyldubundin og óhjákvæmileg afleiðing ákveðinna atvika, svo sem áður hafði verið, sbr. 47. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, heldur varð um heimildarákvæði að ræða. Af þessu leiðir að skattstjórum ber sérstaklega að rökstyðja beitingu álags með hliðsjón af því að um heimild til beitingar álags er að ræða en ekki skyldu, sbr. 5. mgr. 96. gr. og 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu hefur löggjafinn með 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 veitt skattyfirvöldum heimild til að beita álagi á skattstofna vegna vantandi eða síðbúinna framtalsskila. Af beinni orðalagsskýringu ákvæðisins verða ekki ráðin nein sérstök sjónarmið sem skattyfirvöldum ber að horfa til í mati sínu og verður því að játa þeim nokkuð rúmt svigrúm í þessu efni að því gættu að sjónarmið þau, sem lögð eru til grundvallar, séu málefnaleg og í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar um jafnræði og meðalhóf, sbr. sjónarmið í áliti umboðsmanns Alþingis frá 26. júlí 1999 í málinu nr. 2309/1997 (SUA 1999:196). Samkvæmt langvarandi skatt- og úrskurðaframkvæmd varðandi álagsbeitingu vegna síðbúinna framtalsskila hefur skipt máli hvort um ítrekuð síðbúin framtalsskil er að ræða. Um þetta má m.a. vísa til úrskurða ríkisskattanefndar nr. 174/1987 og 211/1987, sem birtir eru á bls. 185 og 190 í úrskurðasafni nefndarinnar vegna uppkveðinna úrskurða á árunum 1986-1989. Þá skal þess og getið að samkvæmt úrskurðaframkvæmd er litið svo á að framteljendur geti ekki losnað undan ábyrgð sinni á því að skattframtal berist skattstjóra í tæka tíð með því að fela öðrum gerð þess og skil.

Eins og fram er komið rökstuddi skattstjóri álagsbeitinguna með vísan til þess að skattframtölum kærenda árin 1996 og 1997 hefði verið skilað það seint að þurft hefði að áætla skattstofna kærenda. Eins og fyrr greinir barst skattframtal kærenda árið 2000 hinn 7. júní 2000. Samkvæmt þessu og með vísan til fyrrgreindrar skatt- og úrskurðaframkvæmdar þykir ákvörðun skattstjóra um beitingu álags í tilviki kærenda gjaldárið 2000 samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 að þessu leyti nægjanlega rökstudd.

Samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skulu framtalsskyldir menn, sbr. 90. gr. laganna, sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skila framtali til skattstjóra eða umboðsmanns hans eigi síðar en 15. mars ár hvert. Er tekið fram að skattstjóri geti veitt þessum aðilum skilafrest til 15. apríl. Á grundvelli 118. gr. laga nr. 75/1981 er ríkisskattstjóra heimilt að breyta fyrrgreindum fresti ef brýna nauðsyn ber til. Fram er komið að ríkisskattstjóri neytti þessarar heimildar framtalsárið 2000 vegna skattframtala einstaklinga með rekstur, sem gerð voru af endurskoðendum eða öðrum þeim sem höfðu framtalsgerð að atvinnu, sbr. bréf ríkisskattstjóra til allra skattstjóra, dags. 17. mars 2000, þar sem ákveðið var að skattstjórum væri heimilt að veita frest til 29. maí að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þá er þess að geta að með bréfi til allra skattstjóra, dags. 23. maí 2000, beindi ríkisskattstjóri því til skattstjóra „að þeir meti hvort unnt sé að víkja frá áður settum tímasetningum í þessu efni án þess að töf verði á þeirri vinnu sem fara þarf fram fyrir álagningu og veiti eftir atvikum endurskoðendum og bókhaldsstofum m.a. með hliðsjón af stöðulistum og skilum þeirra frest allt til 6. júní nk.“, eins og þar segir.

Vegna viðbáru umboðsmanns kærenda um álagningarmeðferð skattframtala sem hann annaðist og kvað hafa borist skattstjóra sama dag og skattframtali kærenda var skilað var ríkt tilefni að ríkisskattstjóri fjallaði sérstaklega um það atriði svo og önnur þau atriði, sem máli skiptu varðandi jafnræði og samræmi við álagsbeitingu vegna síðbúinna framtalsskila, og aflaði eftir atvikum nauðsynlegra upplýsinga varðandi þessi atriði, sbr. sérstaklega síðari málslið 3. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. a-lið 2. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum, þ. á m. réttmæti umræddrar staðhæfingar, teldi hann ástæðu til og þá sérstaklega drægi hann staðhæfinguna í efa sem hann hefur ekki gert þannig að henni er ómótmælt af hálfu embættisins. Þá er til þess að líta að hvorki hjá skattstjóra né ríkisskattstjóra kemur fram hvenær framtalsfrestur rann út í tilviki kærenda. Var sérstakt tilefni til þess að þetta atriði lægi fyrir með óyggjandi hætti, enda er ljóst með tilliti til skiladags skattframtalsins og fyrrgreindra ákvarðana um framtalsfresti að álagsfjárhæð gat ráðist af þessu, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Í kröfugerð ríkisskattstjóra er ekkert vikið að þessum atriðum sem hafa grundvallarþýðingu við úrlausn málsins. Að svo vöxnu þykir rétt að fella hið kærða álag niður.

Víkur þá að lækkun rekstrarkostnaðar bifreiðar samkvæmt rekstrarreikningi kæranda, A. Eins og fram hefur komið vefengdi skattstjóri að akstur kæranda í þágu atvinnurekstrarins hefði verið jafnmikill og kærandi tilgreindi og lækkaði tilfærðan rekstrarkostnað bifreiðar að álitum úr 289.100 kr. í 160.000 kr. eða um 129.100 kr. Áður hafði skattstjóri krafið kæranda, A, um tölulega og rökstudda greinargerð um akstur í þágu atvinnurekstrarins þar sem meðal annars kæmu fram helstu aksturstilefni, tíðni akstursferða og vegalengdir á helstu akstursleiðum, jafnframt því að gerð skyldi grein fyrir skiptingu aksturs milli rekstrar og eigin nota, sbr. bréf skattstjóra, dags. 3. nóvember 2000. Framkomnar skýringar með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 15. nóvember 2000, taldi skattstjóri ófullnægjandi, enda væri aðeins um almennar skýringar að ræða en ekki sundurliðaða greinargerð, eins og krafist hefði verið. Samkvæmt þessu hefur skattstjóri ekki vefengt tilgreindan rekstrarkostnað bifreiðar heldur skiptingu aksturs, en eins og fram er komið taldi kærandi, A, að akstur í þágu atvinnurekstrar hefði numið 14.000 km og akstur í eigin þágu verið 10.000 km.

Miðað við umfang rekstrar kæranda, A, en brúttótekjur hans námu 2.859.301 kr. á árinu 1999, og tilfærðan akstur í þágu atvinnurekstrar var tilefni til að krefja kæranda skýringa á þeim akstri. Af hálfu kæranda, A, hafa ekki verið gefnar þær skýringar á tilfærðum akstri í þágu atvinnurekstrar og akstursskiptingu sem skattstjóri krafðist með bréfi sínu, dags. 3. nóvember 2000, heldur látið við það sitja að gera grein fyrir þessum atriðum með almennum hætti, einkum með skírskotun til þess hvernig starfsemi kæranda er almennt háttað, sbr. svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 15. nóvember 2000. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. janúar 2001, koma ekki fram frekari skýringar en greindi í svarbréfi til skattstjóra. Samkvæmt þessu verður að telja skýringar kæranda, A, og svör ófullnægjandi, enda verður ekki séð að vandkvæðum hafi verið bundið að gera skilmerkilegri grein fyrir hinum umspurðu atriðum svo sem með tilgreiningu á verkefnum kæranda og akstri í tengslum við þau. Bera skýringar kæranda frekast þess merki að akstur í þágu atvinnurekstrar hafi verið áætlaður af hans hálfu. Þá er til þess að líta að af hálfu kæranda hafa engar skýringar eða gögn borist í tilefni af athugasemdum ríkisskattstjóra í kröfugerð embættisins, dags. 9. mars 2001, varðandi eignarhald bifreiða. Eigi þær athugasemdir við rök að styðjast er grundvöllur gjaldfærðs bifreiðakostnaðar ótraustur og ófullnægjandi. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á þá kröfu kæranda, A, að gjaldfærður bifreiðakostnaður standi óhaggaður eins og hann var tilfærður í rekstrarreikningi. Ekki þykja efni til að hrófla við áætlun skattstjóra á gjaldfærðum bifreiðakostnaði, enda þykir lækkun hans ekki vera um skör fram, eins og málið liggur fyrir. Rétt þykir að vísa þessu kæruatriði frá yfirskattanefnd vegna vanreifunar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kærenda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna framtalsskila er tekin til greina. Kröfu kæranda, A, um hækkun rekstrarkostnaðar bifreiðar er vísað frá.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja