Úrskurður yfirskattanefndar
- Sambýlisfólk
- Sönnun
Úrskurður nr. 395/2001
Gjaldár 1999
Lög nr. 75/1981, 63. gr. 3. mgr., 69. gr. A- og B-liður.
Ágreiningur í máli þessu laut að því hvort kærandi hefði verið í sambúð með B í árslok 1998 þannig að reglur um barna- og vaxtabætur sambýlisfólks ættu við í tilviki hennar og B. Yfirskattanefnd taldi nægilega fram komið í málinu að kærandi og B hefðu haft stöðu sambúðarfólks í árslok 1998 og var í því sambandi m.a. vísað til framburðar nágranna B við skýrslutökur hjá skattstjóra, sameiginlegs tékkareiknings kæranda og B hjá banka og þess að B hefði verið getið sem heimilismanns ásamt kæranda og þremur börnum hennar á nafnskilti á útidyrahurð á heimili kæranda. Var skattstjóri talinn hafa ákvarðað kæranda barnabætur og vaxtabætur árið 1999 í samræmi við lög.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi, sem á lögheimili að X, taldi fram til skatts og var skattlögð sem einstætt foreldri gjaldárið 1999. Samkvæmt gögnum málsins barst skattstjóra þann 9. júní 1999 ábending frá „íbúa í sama húsi“ um að kærandi væri í sambúð með B en ekki einstæð móðir eins og skráð væri í þjóðskrá Hagstofu Íslands. Ábendingunni fylgdi ljósmynd af nafnspjaldi á útidyrahurð kæranda þar sem B er getið meðal heimilismanna. Af þessu tilefni tók skattstjóri skýrslur af fjórum íbúum í nágrenni kæranda, sbr. skýrslutökur sem fram fóru dagana 12., 17. og 18. ágúst 1999, en endurrit þeirra eru meðal gagna málsins. Íbúarnir voru m.a. spurðir að því hvort þeim væri kunnugt um að fullorðinn einstaklingur dveldist að staðaldri í íbúð kæranda og ef svo væri hver hann væri og hvenær hann hefði flutt í íbúð kæranda. Þá voru íbúarnir beðnir um að nefna atriði sem bentu til þess að kærandi og umræddur einstaklingur væru í sambúð. Allir íbúarnir svöruðu því til að B dveldist að staðaldri í íbúð kæranda. Þrír íbúanna báru að hann hefði flutt í íbúðina í desembermánuði 1997, en einn íbúanna kvað hann hafa flutt í íbúðina um mitt ár 1997. Á meðal atriða sem íbúarnir töldu benda til sambúðar kæranda og B voru að samskipti þeirra bæru þess merki að þau væru sambúðarfólk, ættu barn saman, notuðu sömu bifreið, mættu saman á húsfundi og færu saman í sumarleyfi. Einn íbúanna tók fram að kærandi hefði kynnt B fyrir sér sem sambýlismann.
Í skýrslutöku yfir B, sem fram fór 6. september 1999, kvaðst B eiga lögheimili að Y en ekki eiga neinn samastað. Hann kæmi mjög oft á heimili kæranda að X. Aðspurður um framburð nágranna kæranda kvaðst B hafa eftirlátið kæranda bifreið sína þegar upp úr samvistum þeirra hefði slitnað en kærandi hafi þarfnast bifreiðarinnar vegna veiks sonar þeirra. Þá hefði hann mætt á húsfund fyrir hönd móður kæranda en hún hefði áður átt heimili að X. Um sameiginlegt sumarleyfi sitt og kæranda tók B fram að þau hefðu farið erlendis á sama tíma, en hvort borið sinn kostnað af ferðinni. B kvað kæranda leyfa sér að hitta son sinn hálfsmánaðarlega. Þá dveldist hann næturlangt á heimili kæranda, en hún vildi helst ekki að hann gisti þegar hún væri heima við. Aðspurður um pósthólf, sem kærandi hefði á leigu, svaraði B því til að hann sækti póst til sín í pósthólfið en suman póst í Y. Lykil að pósthólfinu hefði hann fengið að láni hjá kæranda. Að því er snerti nafnspjald á útidyrahurð kæranda tók B fram að um væri að ræða mistök þar sem hann og sonur hans bæru sama nafn.
Í skýrslutöku yfir kæranda, sem fram fór 6. desember 1999, kvaðst kærandi eiga lögheimili og búa ásamt fjórum börnum sínum að X. Aðspurð hvort hún væri í sambúð með B svaraði kærandi því að þau hefðu „verið saman“ í þrjá mánuði en aldrei búið saman. B hefði verið mikið úti á landi og upp úr sambandi þeirra hefði slitnað þegar hún hefði komist að því að hann væri giftur. Þó hefði B verið hjá henni í tvær vikur í septembermánuði 1998 þegar hann hefði aðstoðað hana vegna fráfalls móður hennar. B væri búsettur að Y, en hann dveldist í einstaka skipti næturlangt í íbúð kæranda þegar hann gætti barna hennar. Kærandi kvaðst hafa haft afnot af bifreið B, sérstaklega er hann hefði verið úti á landi vegna vinnu sinnar. B hefði sótt húsfund fyrir hönd móður sinnar en ekki sína hönd og það sama ætti við um garðvinnu fyrir húsfélag. Aðspurð um pósthólf kvaðst kærandi hafa veitt B aðgang að því þar sem hann hefði vantað pósthólf og hún verið hætt að nota það.
Með bréfi, dags. 11. maí 2000, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hann hefði í hyggju að endurákvarða opinber gjöld hennar gjaldárið 1999. Skattstjóri gerði grein fyrir tilefni hinnar fyrirhuguðu endurákvörðunar, þ.e.a.s. að kærandi væri í sambúð en ekki einstæð móðir, og tók fram að hann hefði undir höndum ljósmynd af nafnspjaldi á útidyrahurð kæranda þar sem B væri getið meðal heimilismanna. Í bréfinu rakti skattstjóri skýrslutökur yfir kæranda, B, og nágrönnum kæranda, og vék að ákvæðum um barnabætur og vaxtabætur í lögum nr. 75/1981. Skattstjóra taldi að eftirfarandi atriði bentu til þess að kærandi og B hefðu verið í sambúð á árinu 1998:
„Vitnisburður íbúa að X við skýrslutöku hjá skattstjóra, og vísast þar um til umfjöllunar í kafla I hér að framan. Hér er til þess að líta að allir íbúar hafa borið á sama veg.
A og B eiga saman barnið C.
Nafn B kemur fram á nafnspjaldi á útidyrahurð íbúðar yðar að X, sbr. ljósmynd dags. 30. júní 1999 er liggur fyrir í málinu. Skýringar yðar og B við skýrslutöku hjá skattstjóra eru þess efnis að um mistök við gerð nafnspjaldsins hafi verið að ræða. Mistökin hafi verið þess eðlis að nafn sonar ykkar B hafi átt að vera á nafnspjaldinu í stað nafns B. Þessar skýringar verða að teljast ótrúverðugar, ekki síst í ljósi þess hvernig nöfnin eru skráð á nafnspjaldið, en það er með þeim hætti að fyrst koma full nöfn ykkar beggja en þar undir skírnarnöfn barnanna;
[…]
Sameiginleg utanlandsferð ykkar ásamt börnum.
Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti hf., er skattstjóri aflaði á grundvelli 94. gr. laga nr. 75/1981, er allur póstur B, settur í pósthólf á nafni yðar.
Þér hafið afnot af bifreið B.
Samkvæmt upplýsingum er skattstjóri aflaði frá viðskiptabanka yðar, Landsbanka Íslands á grundvelli 94. gr. laga nr. 75/1981, eruð þér og B með sameiginlegan tékkareikning, nr. ... við bankann. Skattstjóri hefur undir höndum umsókn um tékkareikning og debetkort, dags. 20. ágúst 1996, þar sem fram kemur að B, hafi heimild til að ávísa á reikninginn. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum virðist reikningur þessi hafa verið sameiginlegur frá 20. ágúst 1996 og fram á mitt ár 1999.
Samkvæmt upplýsingum er skattstjóri aflaði frá Landssíma Íslands hf. á grundvelli 94. gr. laga nr. 75/1981, tókuð þér við símanúmerinu xxx af B,sbr. beiðni um rétthafabreytingu, dags. 18. september 1998, en umsóknin er undirrituð af ykkur báðum. Á umsókninni skráir B, heimilisfang sitt að X.
Misræmi í framburði yðar og B. Við skýrslutöku hjá skattstjóra þann 6. september 1999 er B m.a. spurður út í afnot af sameiginlegri bifreið og var eftirfarandi bókað eftir honum (spurning 4b): „Varðandi bifreið segir B hafa átt hana en eftir að þau hafi slitið samvistum [...] hafi hann ekki kunnað við að taka hana af A vegna barns þeirra beggja, sem hafi verið veikt og því hafi A þarfnast bifreiðarinnar.“ Við skýrslutöku hjá skattstjóra þann 6. desember 1999 voruð þér spurðar hvort þér hefðuð verið í sambúð með B og var eftirfarandi bókað eftir yður (spurning 4): „Nei, mætta kveður þau aldrei hafa verið í sambúð...“.“
Skattstjóri taldi að þegar málsatvik væru virt heildstætt og litið væri til samhljóða framburðar íbúa í nágrenni kæranda mætti leiða líkur að því, þrátt fyrir neitun kæranda, að hún og B hefðu í raun haft stöðu sambúðarfólks í lok tekjuáranna 1997 og 1998 og því uppfyllt skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, sbr. og 1. mgr. A-liðar og 7. mgr. B-liðar 69. gr. sömu laga, í skattalegu tilliti. Skattyfirvöldum bæri að miða við raunverulegar aðstæður, þ.e. staðreyndir, en ekki það sem fólk kallaði þær, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 30. janúar 1997 í málinu nr. 88/1996 (H 1997:602) og 21. janúar 1999 í málinu nr. 237/1998 (H 1999:158).
Skattstjóri tók fram að kæranda hefðu verið ákvarðaðar barnabætur og vaxtabætur sem einstæðu foreldri gjaldárið 1999. Í samræmi við ofangreint hefði skattstjóri í hyggju að ákvarða barnabætur og vaxtabætur kæranda í samræmi við hjúskaparstöðu hennar, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 og 16. gr. reglugerðar nr. 7/1988, um greiðslu vaxtabóta, sbr. reglugerð nr. 64/1999, og 8. gr. reglugerðar nr. 63/1999, um greiðslu barnabóta. Samkvæmt því væri fyrirhugað að lækka barnabætur kæranda úr 684.032 kr. í 177.061 kr. og vaxtabætur úr 173.774 kr. í 43.090 kr.
Umboðsmaður kæranda mótmælti hinni fyrirhuguðu endurákvörðun með bréfi, dags. 25. maí 2000. Umboðsmaðurinn kvað kæranda hafa staðið í deilum við nágranna sína þar sem húsfundir hefðu ekki verið haldnir í nokkur ár og ekki nokkur leið að fá bókhald húsfélagsins og fjárreiður þess til skoðunar. Krafa kæranda um að fjármál félagsins yrðu skoðuð hefði greinilega komið við kaunin á nágrönnum kæranda og þeir þess vegna tekið sig til og búið til og samræmt sögur í þeim tilgangi einum að koma höggi á kæranda. Í bréfinu segir síðan svo:
„B [...] er barnsfaðir umbj. m. og þau hafa átt í ástarsambandi, sem nú er reyndar lokið. Það gerir þau h.v. ekki að sambýlisfólki með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Það kann vel að vera að nágrannar umbj. m. hafi séð B koma til og fara úr íbúð umbj. m., hvort heldur hafi verið kvölds eða morgna. Aftur á móti bjó B ekki á heimili hennar, heldur eins og fram kemur í skýrslutökum af honum í Y, hjá foreldrum sínum. Þetta liggur fyrir í málinu, en samt hafa foreldrar B ekki verið kölluð til skýrslutöku til að staðfesta þessa staðreynd.
Leyfi til lögskilnaðar var veitt þeim B og K þann 17. júlí 1997. Eftir það hófust samdrættir með B og umbj. m. sem leiddu til þess að þau eignuðust saman soninn B yngri sem fæddur er ... 1998. Ekki mun B hafa verið meiri alvara með sambandi þeirra en svo að á sama tíma var hann í tygjum við konu að nafni G. Þetta er hægt að fá staðfest með samtali við hana. Samband þeirra mun hafa varað frá vori til ársloka 1998.
Umbj. m. hefur aldrei meinað B að heimili sínu að X þegar tilgangurinn hjá B hefur verið sá að vera með sameiginlegum syni. Hann hefur aðstoðað umbj. m. mikið við uppeldi sonarins og í þeim veikindum sem sonurinn hefur átt við að stríða frá fæðingu. Það er til fyrirmyndar þegar foreldrar geta í sátt umgengist og annast börn sín án þess að þau samskipti þurfi að fara fram í gegnum stofnanir. B eldri er mjög hændur að syninum B og hefur mikið sóst eftir samverustundum með honum. Þetta hefur umbj. m. látið átölulaust, en á milli hennar og B er ekkert annað samband en vinátta sem hefur viðhaldist að mestu vegna sameiginlegs sonar.“
Með úrskurði um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda, dags. 15. ágúst 2000, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og lækkaði barnabætur kæranda árið 1999 úr 684.032 kr. í 177.061 kr. og vaxtabætur úr 173.774 kr. í 43.090 kr. Skattstjóri rökstuddi niðurstöðuna með vísan til sömu atriða og komu fram í bréfi hans til kæranda, dags. 11. maí 2000. Í úrskurðinum vék skattstjóri að skýringum í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 25. maí 2000, þ. á m. að staðhæfingar nágranna kæranda ættu rætur að rekja til deilna þeirra og kæranda, en ástæða deilnanna væri sú að húsfundir hefðu ekki verið haldnir í mörg ár. Í þessu sambandi benti skattstjóri á að hann hefði undir höndum símskeyti frá kæranda til eins af nágrönnum hennar, dags. 12. maí 1999, þar sem kærandi lýsti því yfir að hún myndi ekki mæta á tiltekinn húsfund sem hefði verið boðaður. Taldi skattstjóri skýringar kæranda afar ósennilegar í ljósi þess að allir íbúar hefðu borið á sama veg og tók fram að íbúunum hefði verið gerð grein fyrir lagafyrirmælum um upplýsingaskyldu og viðurlögum við röngum framburði. Skattstjóri benti á að umboðsmaðurinn hefði ekkert vikið að staðhæfingu skattstjóra um að kærandi og B hefðu verið með sameiginlegan ávísanareikning frá 20. ágúst 1996 og fram á mitt ár 1999. Taldi skattstjóri afar ósennilegt að fólk, sem væri ekki í sambúð, væri með sameiginlegan tékkareikning, jafnvel þó það ætti barn saman. Skattstjóri ítrekaði að hann teldi skýringar kæranda á því að nafn B væri á nafnspjaldi á útidyrahurð kæranda ótrúverðugar og tók fram að umboðsmaðurinn hefði ekki gefið skýringar á því hvers vegna B hefði skráð heimilisfang sitt sem X þegar hann hefði óskað eftir rétthafabreytingu vegna símanúmersins ... þann 18. september 1998. Að því er rannsókn málsins snerti tók skattstjóri fram að hann liti svo á að málið væri nægjanlega upplýst og að ástæðulaust væri að taka skýrslur af foreldrum B, enda þyrfti að meta framburð þeirra sem væru nákomnir aðila með hliðsjón af skyldleika o.fl. Í þessu sambandi rakti skattstjóri ákvæði 51. og 52. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um heimild þar til greindra aðila til að skorast undan því að gefa vitnaskýrslu.
II.
Með kæru, dags. 7. september 2000, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra, dags. 15. ágúst 2000, til yfirskattanefndar. Umboðsmaðurinn gerir aðallega kröfu um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara „að lækkun barna- og vaxtabóta verði verulega takmarkaðar frá því sem greinir í úrskurðinum“. Til stuðnings kröfum sínum vísar umboðsmaðurinn til þess sem fram kemur í bréfi hans til skattstjóra, dags. 25. maí 2000.
III.
Með bréfi, dags. 20. október 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Ríkisskattstjóri krefst þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
IV.
Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skulu hjón, sem skattlögð eru samkvæmt 63. gr. laganna, bæði teljast framfærendur og skal skipta barnabótum milli þeirra til helminga. Ennfremur er svo kveðið á í umræddri lagagrein að hið sama gildi um sambúðarfólk sem uppfyllir í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 63. gr., enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Þá kemur fram í 7. mgr. B-liðar 69. gr. laganna að vaxtabótum hjóna skuli skipt til helminga á milli þeirra og að hið sama gildi um sambýlisfólk, sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 63. gr., í lok tekjuárs, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.
Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort kærandi hafi verið í sambúð með B á árinu 1998. Skattstjóri taldi að svo væri, þrátt fyrir að kærandi væri ekki skráð í sambúð á umræddu ári, sbr. þjóðskrá Hagstofu Íslands, og þrátt fyrir tilgreiningu hennar sjálfrar á stöðu sinni að þessu leyti, en eins og fram er komið taldi kærandi fram til skatts sem einhleypingur gjaldárið 1999 og staðfesti með tilgreiningu í þargreindum reit í skattframtali sínu að hún væri einstætt foreldri. Lagði skattstjóri því til grundvallar að framangreind ákvæði um barnabætur og vaxtabætur ættu við í tilviki kæranda gjaldárið 1999 og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld hennar umrætt gjaldár til samræmis, sbr. hinn kærða úrskurð um endurákvörðun, dags. 15. ágúst 2000, þar sem skattstjóri lækkaði barnabætur kæranda um 506.971 kr. og vaxtabætur um 130.684 kr. Samkvæmt gögnum málsins virðist tilefni þess, að skattstjóri ákvað að grafast fyrir um hvernig stöðu kæranda að þessu leyti væri háttað, vera að skattstjóra barst hinn 9. júlí 1999 ábending frá ótilgreindum nágranna kæranda um að hún væri í sambúð með B. Af því tilefni voru fjórir nágrannar kæranda boðaðir til skýrslutöku hjá skattstjóra dagana 12., 17. og 18. ágúst 1999 á grundvelli heimildar í 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, auk þess sem kærandi sjálf og B voru boðuð til skýrslutöku hjá skattstjóra vegna málsins, kærandi hinn 6. desember 1999 og B hinn 6. september sama ár. Þá liggur fyrir að skattstjóri aflaði upplýsinga frá Íslandspósti hf., Landssíma Íslands hf. og Landsbanka Íslands hf. vegna máls kæranda. Taldi skattstjóri að framburður nágranna kæranda um meinta sambúð hennar og B á árinu 1998 og upplýsingar frá fyrrgreindum lögaðilum um sameiginlegan tékkareikning kæranda og B frá miðju ári 1996 og fram á mitt ár 1999, notkun B á pósthólfi kæranda og skráningu hans á heimilisfangi að X á umsókn um rétthafabreytingu á símanúmeri bentu eindregið til þess, ásamt fleiri atriðum sem skattstjóri tilgreindi, m.a. ljósmynd af nafnspjaldi á útidyrahurð kæranda að X þar sem B er getið sem heimilismanns, að kærandi og B hefðu í raun haft stöðu sambúðarfólks í árslok 1997 og 1998. Þess er að geta að með úrskurði, dags. 15. ágúst 2000, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld B gjaldárið 1999 til samræmis við þessa niðurstöðu sína. Voru B með þeim úrskurði ákvarðaðar barnabætur að fjárhæð 177.061 kr. og vaxtabætur að fjárhæð 43.090 kr.
B átti skráð lögheimili að Y á árinu 1998 og við skýrslutöku hjá skattstjóra 6. september 1999 kvaðst hann hafa haft þar fasta búsetu árin 1997 og 1998, sbr. svar hans við spurningum 2 og 4b við skýrslutökuna. Ekki kom þó fram viðhlítandi skýring af hálfu B við skýrslutökuna á ástæðu þess að póstur til hans var samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti hf. ekki sendur að Y heldur í pósthólf sem kærandi hafði á leigu, sbr. svar B við spurningu 4c, en aðspurður um þetta kvaðst B ná í póst sinn í pósthólfið, sem hann hefði aðgang að sjálfur þar sem hann væri með lykil í láni frá kæranda, en suman póst sækti hann í Y. Þá liggur fyrir að kærandi og B höfðu sameiginlegan tékkareikning við Landsbanka Íslands hf. frá miðju ári 1996 og fram til ársins 1999, en af hálfu kæranda hafa ekki komið fram sérstakar skýringar á því. Á nafnskilti á útidyrahurð kæranda að X var B getið sem heimilismanns ásamt kæranda og þremur börnum hennar. Sú skýring sem kærandi og B gáfu aðspurð um ástæðu þessa við skýrslutöku hjá skattstjóra þykir ekki trúverðug. Þá verður ekki framhjá því litið að framburður nágranna kæranda við skýrslutökur hjá skattstjóra um sambúð kæranda og B var á einn veg, sbr. svör nágrannanna við spurningum 3 og 4, þótt berlega megi raunar ráða af gögnum málsins, þ.m.t. umræddum skýrslutökum, að kærandi átti á þessum tíma í deilum við nágrannana sem m.a. virðast hafa verið tilefni þeirrar ábendingar til skattstjóra sem markar upphaf málsins. Þótt þessi staðreynd dragi nokkuð úr vægi framburðarins verður ekki fallist á með umboðsmanni kæranda að alfarið beri að líta framhjá þessum upplýsingum, enda eru þær í samræmi við önnur gögn málsins samkvæmt því sem að framan greinir.
Með vísan til framanritaðs og að virtum öðrum þeim atriðum sem skattstjóri hefur fært fram til stuðnings hinni kærðu ákvörðun verður að telja að nægilega sé fram komið að kærandi hafi á árinu 1998 verið í sambúð með B og að borið hafi af þeim sökum að haga skattlagningu á kæranda gjaldárið 1999 eftir reglum um sambúðarfólk. Af því leiðir að skattstjóri hefur með hinum kærða úrskurði ákvarðað kæranda barnabætur og vaxtabætur árið 1999 í samræmi við lög. Samkvæmt því verður að hafna kröfum kæranda, bæði aðal- og varakröfu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað.