Úrskurður yfirskattanefndar

  • Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af arði

Úrskurður nr. 417/2001

Staðgreiðsla 1999

Lög nr. 94/1996, 5. gr. 4. mgr.  

Skattstjóri ákvarðaði kæranda, sem var einkahlutafélag, staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði greiðslutímabilið 1999. Arðinn hafði kærandi skuldfært í reikningsskilum vegna reikningsársins 1999, en greitt hluthöfum út á árinu 2000. Var fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu ákvörðunar skattstjóra.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem er einkahlutafélag, er á skrá yfir skilaskylda aðila samkvæmt lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, vegna arðgreiðslna, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 11. gr. laga þessara.

Með bréfi skattstjóra, dags. 8. nóvember 2000, var skorað á félagið að standa skil á skilagrein vegna staðgreiðslu af fjármagnstekjum (RSK 5.19 eða 5.20) fyrir árið 1999, ásamt greiðslu innan 15 daga frá dagsetningu bréfsins eða sæta ella áætlun skattstjóra, sbr. 9. gr. laga nr. 94/1996. Nafn félagsins væri á lista frá ríkisskattstjóra yfir þá aðila sem hvorki hefðu staðið skil á staðgreiðslu afdregins fjármagnstekjuskatts né ofangreindri skilagrein fyrir árið 1999, en gjalddagi hefði verið 15. janúar 2000 og eindagi 15 dögum síðar.

Ekki barst svar í framhaldi af ofangreindu bréfi skattstjóra. Með bréfi, dags. 9. janúar 2001, tilkynnti skattstjóri kæranda að með vísan til 3. mgr. 9. gr. laga nr. 94/1996 hefði skilaskyld fjárhæð fjármagnstekjuskatts vegna ófullnægjandi skila fyrir greiðslutímabilið 1999 verið áætluð að fjárhæð 500.000 kr. að viðbættu 10% álagi 50.000 kr.

Þann 13. febrúar 2001 móttók skattstjóri skilagrein félagsins, dags. 9. febrúar 2001, vegna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts (RSK 5.19) fyrir greiðslutímabilið 1999. Í skilagreininni kom fram að engar staðgreiðsluskyldar vaxta- eða arðgreiðslur hefðu átt sér stað á árinu 1999. Jafnframt kom fram að staðgreiðsla af arði næmi 300.000 kr.

Þann 8. mars 2001 barst skattstjóra leiðrétt skilagrein frá félaginu, dags. 6. mars 2001, vegna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts (RSK 5.19) fyrir greiðslutímabilið 1999. Í þeirri skilagrein kom fram að engar staðgreiðsluskyldar vaxta- eða arðgreiðslur hefðu átt sér stað á árinu 1999. Í reitinn „staðgreiðsla af arði“ hafði nú verið fært núll.

Með úrskurði skattstjóra, dags. 8. mars 2001, var ekki fallist á innsendar skilagreinar vegna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts fyrir greiðslutímabilið 1999. Skattstjóri tók fram að með vísan til ársreiknings félagsins fyrir árið 1999, þar sem fram kæmi að félagið úthlutaði hluthöfum í arð árið 1999 samtals 3.000.000 kr. sem fært hefði verið til lækkunar á óráðstöfuðu eigin fé, hefði félaginu borið að draga 10% staðgreiðslu af arðsúthlutuninni og skila fyrir hönd hluthafa í ríkissjóð þann 15. janúar 2000 samkvæmt 2. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 94/1996. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og með vísan til 4. mgr. 17. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 9. gr., laga nr. 94/1996 þætti hins vegar mega lækka áætlun skattstjóra á skilaskyldri fjárhæð fjármagnstekjuskatts fyrir greiðslutímabilið 1999 um 200.000 kr. eða úr 500.000 kr. í 300.000 kr. Álag á grundvelli 17. gr. framangreindra laga var lækkað um 20.000 kr. eða úr 50.000 kr. í 30.000 kr.

II.        

Með kæru umboðsmanns kæranda, dags. 3. maí 2001, hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar og er þess krafist að felld verði niður álagning „á fjármagnstekjuskatti“ á hendur kæranda fyrir árið 1999. Vísað er til innsendra skilagreina, dags. 13. febrúar og 8. mars 2001, þar sem fram komi að engar skilaskyldar arð- eða vaxtagreiðslur hafi átt sér stað á árinu 1999. Þá er skýrt frá því að færður hafi verið arður árið 1999 samkvæmt þeirri reikningsskilaaðferð að færa arð á því ári þegar sá hagnaður myndaðist sem arðurinn er reiknaður af. Á árinu 2000 hafi arðstillaga stjórnar verið samþykkt á aðalfundi félagsins, arðurinn verið greiddur út og fjármagnstekjuskatturinn dreginn af. Þessum fjármagns­tekju­skatti að fjárhæð 300.000 kr. hafi síðan verið skilað með viðeigandi skilagrein í lok janúar 2001 eins og vera beri, enda hafi arðurinn verið greiddur út á árinu 2000, þó svo hann hafi verið færður til skuldar í efnahagsreikningi 31. desember 1999.

Umboðsmaður kæranda tekur fram að skattstjóri hafi ekki leyft kæranda að nýta sér eðlilegan andmælarétt eins og gert sé ráð fyrir í lögum. Hefði mátt koma í veg fyrir þau óþægindi sem kærandi hafi orðið fyrir vegna þessarar vanhugsuðu álagningar ef þess hefði verið gætt. Í ljósi þess er farið fram á „fébætur […] vegna kostnaðar sem [kærandi] hefur orðið fyrir vegna þessa málareksturs fyrir nefndinni; kostnaðar sem aldrei hefði fallið til ef skattstofan hefði beitt eðlilegum vinnubrögðum“.                     

III.

Með bréfi, dags. 1. júní 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Í kæru, dags. 3. maí 2001, er því haldið fram að arðurinn hafi verið reiknaður af þeim hagnaði sem myndaðist á tekjuárinu 1999 en hafi ekki verið greiddur út fyrr en árið 2000 og þar af leiðandi hafi skattinum verið skilað til ríkissjóðs í janúar 2001.

Af rekstrarreikningi kæranda vegna rekstrarársins 1999 verður séð að úthlutaður arður að fjárhæð kr. 3.000.000 sé (sic) færður til lækkunar á eigin fé. Hins vegar er ekki hægt að sjá af rekstrarreikningnum að úthlutaður arður hafi verið færður til skuldar þar sem hann hafi verið ógreiddur. Sundurliðun á skammtímaskuldum skortir. Verði lögð fram sundurliðun á skammtímaskuldunum þar sem ljóst má vera að úthlutaður arður að fjárhæð kr. 3.000.000 er færður til skuldar þykir mega fallast á kröfu gjaldanda. Að öðrum kosti er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. júní 2001, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði í kröfugerðinni sem hann teldi ástæðu til.

Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 19. júní 2001, var lagt fram ljósrit af skuldahlið efnahagsreiknings kæranda þann 31. desember 1999 og enn frekari sundurliðun á liðnum „aðrar skammtímaskuldir“ sem samtals nema 12.947.669 kr. Í þeirri sundurliðun kemur fram að meðal skulda félagsins í árslok er talinn úthlutaður arður vegna 1999 til greiðslu á árinu 2000 að fjárhæð 3.000.000 kr. Jafnframt eru ítrekaðar fyrri kröfur um að álagður fjármagnstekjuskattur verði felldur niður. Er í því sambandi vísað til kröfugerðar ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 6. júlí 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda framhaldskröfugerð:

„Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf umboðsmanns kæranda, dags. 19. júní 2001. Meðfylgjandi bréfi umboðsmanns kæranda er sundurliðun á liðnum „aðrar skammtímaskuldir“ en á þeirri sundurliðun kemur fram að meðal skulda félagsins í árslok er talinn úthlutaður arður að fjárhæð kr. 3.000.000.

Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum umboðsmanns kæranda er fallist á kröfu kæranda.“

IV.

Krafa kæranda í máli þessu er sú að felld verði niður ákvörðun skattstjóra um skilaskyldu staðgreiðslu kæranda 300.000 kr. vegna reiknaðs arðs 3.000.000 kr. vegna reikningsársins 1999 sem skuldfærður var í reikningsskilum þess árs. Ákvörðun sína byggði skattstjóri á 2. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, sbr. og 9. og 17. gr. laganna um áætlun skilaskyldrar staðgreiðslu og álag. Að virtum framlögðum gögnum og skýringum kæranda og með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra, er fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Skilja verður kæruna svo að þess sé krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kæranda hafa ekki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað hans við meðferð málsins en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði ákvarðast málskostnaður kæranda til greiðslu úr ríkissjóði 25.000 kr. 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 25.000 kr.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja