Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 449/2001

Bifreiðagjald 2001

Lög nr. 39/1988, 3. gr., 4. gr. a- og d-liður, 7. gr. (brl. nr. 37/2000, 3., 4. og 8. gr.).  

Kærandi, sem naut undanþágu frá bifreiðagjaldi vegna örorku, krafðist þess að bifreiðagjald yrði fellt niður af bifreiðinni D gjaldtímabilið 1. janúar til 30. júní 2001, en kærandi keypti bifreiðina 10. janúar 2001. Fyrir átti kærandi aðra þyngri bifreið, J, en skráningarnúmer hennar voru lögð inn 15. janúar 2001. Þar sem enginn áskilnaður var gerður í lögum um bifreiðagjald um að viðkomandi bóta- eða styrkhafi væri skráður eigandi á gjalddaga bifreiðagjalds, eins og ríkisskattstjóri byggði á, var kærandi talin eiga rétt á undanþágu bifreiðagjalds vegna D frá og með 16. janúar 2001.

I.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik með þeim hætti að kærandi leitaði til ríkisskattstjóra hinn 18. janúar 2001 og fór fram á að bifreiðagjald af bifreiðinni D fyrir gjaldtímabilið 1. janúar – 30. júní 2001 yrði fellt niður vegna örorku hennar, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, um breyting á þeim lögum. Með úrskurði, dags. 24. janúar 2001, synjaði ríkisskattstjóri erindi kæranda. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að við athugun hans á málinu hefði komið í ljós að bifreiðagjald af umræddri bifreið að fjárhæð 6.364 kr. hefði verið lagt á fyrri eiganda bifreiðarinnar. Kærandi hefði keypt bifreiðina 10. janúar 2001 og eigendaskipti að henni verið skráð í ökutækjaskrá 11. janúar 2001. Þá vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988 og ákvæðis í a-lið 4. gr. sömu laga þar sem fram kæmi að réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna þeirra sem fengju greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri eða bensínstyrk væri bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi væri í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður hennar samkvæmt eignarleigusamningi. Þar sem kærandi hefði ekki verið skráður eigandi að bifreiðinni D þann 1. janúar 2001 væri ekki heimild til að fella niður bifreiðagjald af henni vegna gjaldtímabilsins 1. janúar – 30. júní 2001. Þá tók ríkisskattstjóri fram að bifreiðagjald af bifreið kæranda J vegna umrædds gjaldtímabils hefði verið fellt niður.

II.

Með bréfi til fjármálaráðuneytisins, dags. 30. janúar 2001, sem ráðuneytið hefur framsent yfirskattanefnd sem kæru til nefndarinnar með bréfi, dags. 1. mars 2001, mótmælti kærandi synjun ríkisskattstjóra á erindi hennar um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni D. Í bréfinu segir svo:

„Ég undirrituð, sem hef verið 75% öryrki, tímabundið, í nokkur ár, hef fengið niðurfelld bifreiðagjöld á undanförnum árum, en bifreið hefur verið mér nauðsynleg v/hreyfihömlunar. Hinn 10. jan. sl. keypti ég bifreið af Heklu h/f. Til viðbótar umsömdu kaupverði var mér gert að greiða bifreiðagjöld kr. 6.364,00, er mér var tjáð að ég fengi endurgreidd v/örorku. Ég hef ætíð litið svo á, að eftirgjöf bifr.gjalda væri nokkurs konar styrkur stjórnvalda til öryrkja. Ég hef áður skipt um bíl án synjunar um eftirgjöf.

Ég sendi ljósrit af bréfi ríkisskattstjóra um synjun niðurfellingar umræddra gjalda. Ég fæ ekki skilið synjun þessa. Ég tel hana vera í andstöðu við ákvörðun stjórnvalda, og tilvitnaðar lagareglur eigi hér ekki við.“

III.

Með bréfi, dags. 26. apríl 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Aðalkrafa ríkisskattstjóra er að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd vegna aðildarskorts.

Taki yfirskattanefnd kæruna til efnislegrar meðferðar er það varakrafa ríkisskattstjóra, að synjun ríkisskattstjóra um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni D verði staðfest með vísan til forsendna hennar og þess sem fram kemur í umsögn þessari.

Frávísunarkrafa ríkisskattstjóra er studd þeim rökum að bifreiðagjald af bifreiðinni D fyrir 1. gjaldtímabil 2001 var lagt á fyrri eiganda bifreiðarinnar, M […], sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988 um bifreiðagjald, sbr. síðari breytingar. Kærandi […] er því eigi skattaðili í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988 um bifreiðagjald, sbr. síðari breytingar.

Varðandi varakröfuna gerir ríkisskattstjóri svofelldar athugasemdir:

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988 um bifreiðagjald, sbr. síðari breytingar, skal sá greiða bifreiðagjald sem er skráður eigandi á gjalddaga. Gjalddagi er 1. janúar vegna gjaldtímabilsins frá 1. janúar til 30. júní, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Eigi skal endurgreiða gjald af bifreið sem greitt hefur verið af þótt eigendaskipti verði og gildir greiðslan fyrir bifreiðina hver sem eigandi hennar er skv. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988 um bifreiðagjald, sbr. síðari breytingar.

Í tilviki kæranda er málum þannig háttað að þann 1. janúar 2001 er M eigandi bifreiðarinnar og var því bifreiðagjald fyrir 1. gjaldtímabil 2001 lagt á hana. Kærandi kaupir bifreiðina þann 10. janúar 2001 og eigendaskiptin voru skráð 11. janúar 2001. Kærandi fær greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og fellur því undir a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988 um bifreiðagjald, sbr. síðari breytingar, um undanþágu frá gjaldskyldu. Þar sem bifreiðagjald var hins vegar ekki lagt á kæranda getur undanþága hennar frá gjaldskyldu ekki átt við í þessu tilviki, þar sem að gjaldskylda hlýtur að vera forsenda fyrir undanþágu frá gjaldskyldu.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er vísað til þess að skráningarnúmer bifreiðarinnar J hafi verið lögð inn, en kærandi var skráður eigandi bifreiðarinnar þann 1. janúar 2001. Það að skráningarnúmer J voru lögð inn þann 15. janúar 2001 hefur ekki áhrif á rétt til niðurfellingar á bifreiðagjaldi af bifreiðinni D þar sem kærandi var ekki skráður eigandi að þeirri bifreið þann 1. janúar 2001 sbr. hér að framan.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 2. maí 2001, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Svar barst ekki frá kæranda.

IV.

Eins og fram er komið mótmælti kærandi álagningu bifreiðagjalds af bifreiðinni D vegna gjaldtímabilsins 1. janúar – 30. júní 2001 með erindi til ríkisskattstjóra hinn 18. janúar 2001, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. 8. gr. laga nr. 37/2000, um breyting á þeim lögum, þar sem fram kemur að greiðanda bifreiðagjalds sé heimilt að kæra til ríkisskattstjóra álagningu bifreiðagjalds samkvæmt 6. gr. innan þrjátíu daga frá því að gjaldið var ákvarðað. Með úrskurði, dags. 24. janúar 2001, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um niðurfellingu bifreiðagjaldsins. Hefur kærandi skotið þeim úrskurði til yfirskattanefndar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 8. gr. laga nr. 37/2000, þar sem mælt er fyrir um kæruheimild til yfirskattanefndar á úrskurði ríkisskattstjóra samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar.

Kærandi leitaði úrlausnar ríkisskattstjóra um undanþágu frá gjaldskyldu vegna bifreiðarinnar D, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988. Kærandi keypti bifreiðina hinn 10. janúar 2001 og fyrir liggur að kærandi greiddi samdægurs hið umdeilda bifreiðagjald af henni. Verður því að telja að kæranda hafi verið heimilt að kæra álagningu gjaldsins til ríkisskattstjóra á grundvelli 1. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 8. gr. laga nr. 37/2000, svo sem ríkisskattstjóri hefur raunar sjálfur talið með því að leysa efnislega úr erindi kæranda með hinum kærða úrskurði, dags. 24. janúar 2001. Er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hafnað.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, skal greiða til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögum þessum. Fjárhæð gjalds er miðuð við eigin þyngd bifreiðar, sbr. 2. gr. laganna. Gjalddagar bifreiðagjalds eru 1. janúar ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní og 1. júlí ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. júlí til 31. desember, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Eindagar gjaldsins eru 15. febrúar og 15. ágúst ár hvert. Bifreiðagjald skal sá greiða sem er skráður eigandi á gjalddaga, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Hafi orðið eigandaskipti að bifreið án þess að þau hafi verið tilkynnt til skráningar hvílir greiðsluskyldan jafnframt á hinum nýja eiganda. Eigi skal endurgreiða gjald af bifreið sem greitt hefur verið af þótt eigandaskipti verði, hún flutt í annað skráningarumdæmi eða afskráð, sbr. 4. mgr. greinarinnar. Gildir greiðslan fyrir bifreiðina hver sem eigandi hennar er eða hvert sem hún er flutt á landinu. Gjald vegna nýskráðra bifreiða skal greiðast í hlutfalli við skráningartíma þeirra á gjaldtímabilinu og við afskráningu bifreiða skal endurgreiða eða fella niður bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af því gjaldtímabili sem er að líða þegar afskráning fer fram, sbr. 2. og 6. mgr. 3. gr. laganna. Ef bifreiðar, sem undanþegnar hafa verið bifreiðagjaldi skv. d-lið 4. gr., eru settar á skráningarmerki að nýju skal greiða bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af gjaldtímabilinu, sbr. 5. mgr. 3. gr. Í 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, eru taldar bifreiðar sem undanþegnar skulu bifreiðagjaldi. Samkvæmt 1. málsl. a-liðar 4. gr. eru bifreiðir í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins undanþegnar bifreiðagjaldi. Í 4. málsl. stafliðarins segir að réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri eða bensínstyrk sé bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi. Í lokamálslið umrædds stafliðar kemur fram að fyrir álagningu bifreiðagjalds skuli Tryggingastofnun ríkisins senda ríkisskattstjóra upplýsingar um bifreiðaeign þeirra sem fá slíkar greiðslur frá stofnuninni sem að framan greinir.

Krafa kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni D fyrir gjaldtímabilið 1. janúar – 30. júní 2001 er reist á fyrrnefndu ákvæði 1. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000.

Eins og fram er komið keypti kærandi bifreiðina D hinn 10. janúar 2001 og var í framhaldi af því skráður eigandi bifreiðarinnar í ökutækjaskrá 11. s.m. Kærandi krefst þess að bifreiðagjald vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní 2001, sem hún greiddi 10. janúar 2001, verði fellt niður með öllu, en full fjárhæð gjaldsins vegna greinds tímabils nam 6.364 kr. sem kærandi innti af hendi 10. janúar 2001.

Í 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, er mælt fyrir um fortakslausa undanþágu frá bifreiðagjaldi við þargreindar aðstæður, að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Í tilviki kæranda gildir það skilyrði að hún sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi. Ekki verður séð að ágreiningur sé um það að umrætt bifreiðagjald hafi fallið á kæranda við kaup á bifreiðinni, a.m.k. í hlutfalli við þann tíma sem eftir lifði af umræddu gjaldtímabili, þegar kaupin fóru fram, sbr. lögskilavenjur í bifreiðaviðskiptum. Að þessu virtu, sem hér hefur verið rakið, og þar sem ekki verður annað talið en kærandi uppfylli skilyrði greinds undanþáguákvæðis sem skráður eigandi bifreiðarinnar, enda er enginn lagaáskilnaður um að viðkomandi bóta- eða styrkhafi sé skráður eigandi á gjalddaga bifreiðagjalds svo sem ríkisskattstjóri hefur túlkað ákvæðið og byggt á, verður að telja að kæranda beri réttur til greindrar undanþágu frá bifreiðagjaldi vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní 2001. Þá þykir það vera niðurstöðu þessari til styrktar að 3. gr. laga nr. 39/1988 gerir ráð fyrir greiðslu bifreiðagjalds hlutfallslega miðað við tilgreindan tíma af gjaldtímabili við tilteknar aðstæður, sbr. áður rakin ákvæði 3. gr. laganna. Krafa kæranda tekur, eins og fram er komið, til niðurfellingar fulls bifreiðagjalds vegna umrædds gjaldtímabils. Sú krafa fær ekki staðist. Í fyrsta lagi kemur ekki til álita að kærandi njóti niðurfellingar vegna lengri tíma en eftir lifði af gjaldtímabilinu þegar kaupin voru gerð. Þá liggur fyrir í öðru lagi að kærandi á aðra bifreið J og voru skráningarnúmer hennar ekki lögð inn fyrr en 15. janúar 2001, sbr. undanþágu skv. d-lið 4. gr. laga nr. 39/1988. Í 7. málsl. a-liðar sömu lagagreinar er tekið fram að ef sá, sem á rétt á niðurfellingu bifreiðagjalds, á fleiri en eina bifreið skuli bifreiðagjald fellt niður af þeirri bifreið sem þyngst er. Í tilviki því, sem hér um ræðir, er bifreiðin J þyngri, sbr. upplýsingar úr ökutækjaskrá. Af þessu leiðir að miða verður niðurfellingu bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar D vegna umrædds gjaldtímabils hlutfallslega við tímabilið 16. janúar til 30. júní 2001. Samkvæmt þessu verður krafa kæranda tekin til greina með 5.837 kr.

Það athugist að í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra skortir alveg kæruleiðbeiningar, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda, þó þannig að niðurfelling bifreiðagjalds vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní 2001 verður 5.837 kr. Tilkynning um gjaldabreytingu bifreiðagjalds hefur verið send viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja