Úrskurður yfirskattanefndar

  • Greiðslur frá alþjóðastofnun
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 98/2018

Gjaldár 2017

Lög nr. 90/2003, 30. gr. 1. mgr. A-liður 2. tölul., 95. gr., 96. gr.  

Sú breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda, að færa honum til tekna greiðslur frá alþjóðastofnunum, var ómerkt með því að ríkisskattstjóri gætti þess ekki að gefa kæranda kost á að koma á framfæri skýringum sínum varðandi meðferð teknanna. Var ekki talið að unnt hefði verið að slá því föstu án frekari upplýsingaöflunar að ákvæði 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 gæti ekki tekið til umræddra greiðslna að neinu leyti.

Ár 2018, miðvikudaginn 13. júní, er tekið fyrir mál nr. 9/2018; kæra A, dags. 10. janúar 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2017. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2017 fylgdi rekstrarskýrsla (RSK 4.11) þar sem kærandi tilfærði tekjur og gjöld vegna ritstarfa og ýmissar þjónustu erlendis. Í athugasemdadálki í skattframtalinu kom fram að kærandi hefði fengið greidda þóknun frá alþjóðastofnuninni X að fjárhæð 24.000 bandaríkjadalir. Þá kom fram að kærandi hefði fengið greidda þóknun frá alþjóðastofnuninni Y að fjárhæð 5.000 bandaríkjadalir.

Með bréfi, dags. 22. júní 2017, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um þá breytingu á skattframtali hans árið 2017 að greiðslur frá X að fjárhæð 2.889.360 kr. (24.000 bandaríkjadalir) og Y að fjárhæð 601.950 kr. (5.000 bandaríkjadalir) hefðu verið færðar til tekna í lið 2.8 í skattframtalinu. Vísaði ríkisskattstjóri til upplýsinga um greiðslur þessar í athugasemdadálki í skattframtalinu og tók fram að ekki yrði annað séð en að um óyggjandi upplýsingar væri að ræða. Um skattskyldu vísaði ríkisskattstjóri til 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003. Tók álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2017 mið af þessum breytingum.

Með kæru, dags. 23. ágúst 2017, mótmælti kærandi breytingum ríkisskattstjóra á skattframtali hans árið 2017 og krafðist þess að skattframtalið yrði fært til fyrra horfs. Fram kom að kærandi hefði fengið samskonar tilkynningu áður eða þann 23. júlí 2010 vegna greiðslu frá Y sem hann hefði mótmælt með bréfi, dags. 26. ágúst 2010. Með kæruúrskurði, dags. 18. nóvember 2010, hefði verið fallist á kröfu kæranda. Þá vísaði kærandi til alþjóðasamkomulags um skattfrelsi tekna hjá alþjóðastofnunum sem Ísland hefði fullgilt þann 17. janúar 2006.

Í tilefni af kæru kæranda beindi ríkisskattstjóri því til kæranda með bréfi, dags. 21. september 2017, að leggja fram ráðningarsamninga eða aðra samninga þar sem fram kæmi starfssamband kæranda og umræddra alþjóðastofnana. Umbeðin gögn munu hafa borist ríkisskattstjóra dagana 22. september og 2. október 2017. Þá kom fram í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 27. september 2017, að greiðslan frá Y hefði í raun verið frá seðlabanka erlends ríkis og ætti því væntanlega að teljast til skattskyldra tekna kæranda.

Með kæruúrskurði, dags. 23. október 2017, hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda. Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri bréfaskipti í málinu og tók fram að samkvæmt gögnum málsins hefði greiðsla frá X verið verktakagreiðsla. Kærandi hefði því ekki verið starfsmaður stofnunarinnar og tekjur hans ekki verið launatekjur. Af þeim sökum ætti heimildarákvæði 2. tölul. A-liðar 30. gr. laga nr. 90/2003 ekki við. Kröfum kæranda væri því hafnað.

II.

Með kæru, dags. 9. janúar 2018, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Er þess krafist í kærunni að greiðsla frá X verði talin skattfrjáls þar sem um launatekjur sé að ræða. Þá er þess krafist að greiðsla frá erlendum seðlabanka verði færð sem verktakatekjur. Til vara er þess krafist að greiðsla frá X verði færð sem verktakatekjur í skattskilum kæranda. Í öllum tilvikum er farið fram á að viðurlögum verði ekki beitt þar sem tekjurnar hafi verið tilgreindar í athugasemdadálki í skattframtali kæranda árið 2017.

Í kærunni er vísað til meðfylgjandi bréfs, dags. 5. desember 2017, frá X. Að mati kæranda staðfesti bréfið að kæranda hafi verið falið ákveðið verkefni sem hann hafi fengið greitt fyrir með ákveðinni fjárhæð. Um hafi verið að ræða verkefni sem tekið hafi 50 vinnudaga og fyrir það verið greiddir 480 bandaríkjadalir á dag. Bréfið staðfesti að umrædd greiðsla frá X hafi verið launagreiðsla, reiknuð sem margfeldi daglauna og fjölda vinnudaga. Af hálfu kæranda er bent á að tímakaup hafi ekki verið hátt fyrir hámenntaðan sérfræðing og ef greiða þurfi tekjuskatt af þeirri fjárhæð geti það virkað áhugaletjandi að taka slíka vinnu að sér.

Kærandi bendir á að greiðslan frá X hafi verið reiknuð með sama hætti og greiðsla frá Y á árinu 2009. Eini munurinn sé starfstitill kæranda í samningum við alþjóðastofnanirnar. Inntakið sé í öllum tilfellum hið sama í reynd.

III.

Með bréfi, dags. 12. febrúar 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun embættisins.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. febrúar 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 3. apríl 2018, hafa umboðsmenn kæranda ítrekað gerðar kröfur í málinu. Þá er þess krafist í bréfinu að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.

IV.

Samkvæmt ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, getur ríkisskattstjóri leiðrétt fjárhæðir einstakra liða í skattframtali ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skal skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Þessa heimild ríkisskattstjóra ber að skýra með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, og 13. gr. sömu laga, um rétt aðila stjórnsýslumáls til að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Eins og hér að framan er rakið tilgreindi kærandi í athugasemdadálki í skattframtali sínu árið 2017 að hann hefði fengið greiddar þóknanir frá þargreindum alþjóðastofnunum á árinu 2016. Áður en ríkisskattstjóri ákvað hinar kærðu breytingar var því óhjákvæmilegt, sbr. m.a. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að hann aflaði viðhorfa og skýringa kæranda varðandi meðferð teknanna, sbr. ákvæði 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, enda varð því ekki slegið föstu án frekari upplýsingaöflunar að umrætt ákvæði gæti ekki tekið til umræddra greiðslna að neinu leyti. Liggur og fyrir að ríkisskattstjóri taldi þörf á frekari upplýsingum og gögnum um greiðslurnar við kærumeðferð málsins, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 21. september 2017. Verður ekki talið að skilyrði hafi verið til þess að fara með greindar breytingar eftir ákvæðum 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, eins og málið lá fyrir ríkisskattstjóra, heldur bar ríkisskattstjóra að fara með þær eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga.

Vegna framangreindra annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra verður að ómerkja hinar kærðu breytingar hans. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin nein efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað kæranda þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. janúar 2018, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til þess, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar, eru ekki skilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði. Verður því að hafna málskostnaðarkröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinar kærðu breytingar ríkisskattstjóra eru felldar úr gildi. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

 

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja