Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 106/2018

Bifreiðagjald 2018

Lög nr. 39/1988, 4. gr. c-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.)  

Bifreiðin L var af árgerð 1994 samkvæmt ökutækjaskrá Samgöngustofu, en fyrsta skráning var þó tilgreind 1. janúar 1993. Eins og reglum um bifreiðagjald var háttað var talið að byggja yrði á skráðum upplýsingum Samgöngustofu um árgerð bifreiðarinnar við álagningu bifreiðagjalds. Var kröfu kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds, sem byggði á því að bifreiðin væri eldri en 25 ára, því hafnað.

Ár 2018, miðvikudaginn 4. júlí, er tekið fyrir mál nr. 66/2018; kæra A, dags. 11. apríl 2018, vegna ákvörðunar bifreiðagjalds árið 2018. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi kæranda, sem móttekið var 14. janúar 2018 hjá ríkisskattstjóra, var þess óskað að bifreiðagjald fyrir árið 2018 yrði fellt niður vegna bifreiðarinnar L sem væri í eigu kæranda. Kom fram að um væri að ræða gamla bifreið af tegundinni Land Cruiser 80 og væri fyrsti skráningardagur bifreiðarinnar 1. janúar 1993, sbr. skráningarskírteini. Byggði kærandi á því að bifreiðagjald ætti að falla niður af bifreiðinni árið 2018 þar sem hún væri eldri en 25 ára.

Með úrskurði, dags. 1. febrúar 2018, synjaði ríkisskattstjóri erindi kæranda. Voru forsendur ríkisskattstjóra þær að samkvæmt c-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum, væru bifreiðar eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs undanþegnar gjaldskyldu, talið frá og með árgerðarári. Í ökutækjaskrá kæmi fram að árgerðarár ökutækisins L væri 1994 og hefði ökutækið því ekki náð 25 ára aldri við upphaf gjaldársins 2018.

II.

Með kæru. dags. 11. apríl 2018, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 1. febrúar 2018, til yfirskattanefndar og gert þá kröfu að bifreiðagjald af bifreiðinni L vegna ársins 2018 verði fellt niður, enda sé bifreiðin eldri en 25 ára. Vísar kærandi til þess að samkvæmt skráningarskírteini hafi bifreiðin komið á götuna í janúar 1993, en hún sé skráð sem árgerð 1994. Þetta sé óskiljanlegt og hljóti önnur hvor skráningin að vera röng. Sé þess óskað að fengin verði staðfesting á fyrsta skráningardegi bifreiðarinnar frá þýskum yfirvöldum, en bifreiðin hafi verið flutt til Íslands frá Þýskalandi árið 1997. Reynist bifreiðin vera árgerð 1994 uni kærandi úrskurðinum, en hafi fyrsti skráningardagur verið í janúar 1993 sé bifreiðin orðin 25 ára gömul og eigi þá að vera undanþegin bifreiðagjöldum. Fylgja kærunni gögn um bifreiðaskráningu þar sem fram kemur að árgerð/framleiðsluár bifreiðarinnar sé 1994/1993 og fyrsta skráning 1. janúar 1993.

III.

Með bréfi, dags. 8. maí 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Gerir hann kröfu um að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Eins og að framan greinir varðar kæra í máli þessu úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 1. febrúar 2018, þar sem ríkisskattstjóri synjaði kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni L vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní 2018. Beiðni kæranda byggði á því að samkvæmt skráningarskírteini bifreiðarinnar hefði fyrsti skráningardagur hennar verið 1. janúar 1993 og ættu bifreiðagjöld því að falla niður af bifreiðinni á árinu 2018 samkvæmt „25 ára reglunni“. Ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda með þeim rökum að samkvæmt c-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, væru bifreiðar sem væru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs undanþegnar gjaldskyldu, talið frá og með árgerðarári. Í ökutækjaskrá kæmi fram að árgerðarár ökutækisins væri 1994 og hefði ökutækið því ekki náð 25 ára aldri við upphaf gjaldárs 2018.

Í kæru til yfirskattanefndar er byggt á því að upplýsingar í skráningarskírteini bifreiðarinnar standist ekki, enda geti ekki verið að bifreið að árgerð 1994 hafi fyrst komið á götuna í janúar 1993. Fer kærandi fram á að skráðar upplýsingar verði kannaðar.

Vegna framangreinds skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, skal greiða til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögum þessum. Mælt er fyrir um fjárhæð gjaldsins í 2. gr. laganna og gjalddaga o.fl. í 3. gr. Í 4. gr. laganna er kveðið á um að tilteknar bifreiðir skuli vera undanþegnar bifreiðagjaldi. Samkvæmt c-lið 4. gr. skulu bifreiðar sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs, talið frá og með árgerðarári þeirra vera undanþegnar bifreiðagjaldi.

Í 64. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 kemur fram að ráðherra setji reglur um skráningu ökutækja. Í 4. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með síðari breytingum, segir að Umferðarstofa haldi ökutækjaskrá og annist aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað. Með lögum nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, færðust öll verkefni Umferðarstofu til Samgöngustofu.

Samkvæmt 7. gr. starfsreglna Samgöngustofu um upplýsingamiðlun úr ökutækjaskrá, dags. 3. apríl 2014, eru m.a. færðar í ökutækjaskrá upplýsingar um árgerð og framleiðsluár bifreiðar og sem fengnar eru frá framleiðanda bifreiðar. Þá er fyrsti skráningardagur bifreiðar skráður og tekur hann mið af upplýsingum frá skráningaryfirvöldum. Samkvæmt ökutækjaskrá Samgöngustofu er árgerð bifreiðarinnar L tilgreind 1994 og er það í samræmi við upplýsingar í skráningarskírteini bifreiðarinnar. Ennfremur er fyrsta skráning tilgreind 1. janúar 1993, svo sem fram er komið. Eins og framangreindum reglum um álagningu bifreiðagjalds er háttað þykja ekki forsendur til annars en að byggja á skráðum upplýsingum Samgöngustofu um árgerð bifreiðarinnar við álagningu bifreiðagjalds. Þess skal getið að samkvæmt 18. gr. laga nr. 119/2012 sæta ákvarðanir Samgöngustofu kæru til ráðherra í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt framangreindu og þar sem ekkert liggur fyrir um að umrætt ökutæki kæranda sé undanþegið gjaldskyldu bifreiðagjalds samkvæmt 4. gr. laga nr. 39/1988 verður að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

 

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja