Úrskurður yfirskattanefndar
- Rekstrartap, frádráttarbærni
- Áætlun skattstofna
Úrskurður nr. 464/2001
Gjaldár 2000
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 7. tölul., 95. gr. 2. mgr.
Kærð var sú breyting skattstjóra á skattframtali einkahlutafélags árið 2000 að fella niður ónotaðar eftirstöðvar rekstrartapa fyrri ára á þeim forsendum að félagið hefði ekki talið fram árið 1999 og því sætt áætlun skattstofna gjaldárið 1999. Talið leiða af lögum að skilyrðum fyrir yfirfærslu eftirstöðva rekstrartapa fyrri ára væri ekki fullnægt þegar svo stæði á að skattaðili hefði ekki talið fram til skatts og því sætt áætlun skattstofna. Var kærunni vísað frá yfirskattanefnd.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 2000 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 2000 barst skattstjóra í rafrænu formi hinn 30. október 2000 ásamt ársreikningi fyrir árið 1999. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Með kæruúrskurði, dags. 30. janúar 2001, féllst skattstjóri á að leggja framtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2000 í stað áætlunar, að gerðum tilteknum breytingum. Í úrskurði skattstjóra sagði m.a. svo:
„Kærandi hefur ekki lagt fram skattframtal vegna gjaldársins 1999. Ekki hefur því verið gerð sú grein fyrir ráðstöfun ónýttra rekstrartapa frá fyrri árum sem tilskilið er í 7. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum. Eldri töp eru því felld niður. Yfirfæranlegt tap til næsta árs verður kr. 3.057.044.“
II.
Með kæru, dags. 30. apríl 2001, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 30. janúar 2001, til yfirskattanefndar. Kveður hann skattframtal kæranda gjaldárið 1999 ekki hafa legið fyrir hjá ríkisskattstjóra þegar úrskurður skattstjóra var kveðinn upp. Skattframtal gjaldársins 1999 verði hins vegar lagt fram til ríkisskattstjóra þennan sama dag, þ.e. 30. apríl 2001, með beiðni um endurákvörðun á álögðum opinberum gjöldum kæranda. Krefst umboðsmaðurinn þess að eldri töp verði sett inn að nýju þegar úrskurður fyrir gjaldárið 1999 liggur fyrir.
III.
Með bréfi, dags. 1. júní 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Kærður er úrskurður skattstjórans í Reykjavík, dags. 30. janúar 2001, þar sem skattstjóri felldi niður yfirfæranlegt tap á þeirri forsendu, að ekki hefði verið gerð grein fyrir ráðstöfun ónýttra rekstrartapa frá fyrri árum, eins og tilskilið er í 7. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en kærandi sætti áætlun opinberra gjalda gjaldárið 1999 þar sem ekki var skilað framtali.
Í kæru til yfirskattanefndar, sem dagsett er 30. apríl 2001, kemur fram að skattframtal kæranda vegna ársins 1999 verði lagt fram til ríkisskattstjóra ásamt beiðni um upptöku á álögðum gjöldum.
Ríkisskattstjóri hefur ekki móttekið framtal kæranda fyrir árið 1999 þrátt fyrir yfirlýsingar hans þar um. Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. júní 2001, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði í kröfugerð ríkisskattstjóra sem hann teldi ástæðu til. Ekkert svar hefur borist frá kæranda.
IV.
Skattstjóri felldi niður ónotaðar eftirstöðvar rekstrartapa fyrri ára að fjárhæð 5.431.400 kr. sem kærandi tilfærði í skattskilum sínum gjaldárið 2000 á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki talið fram gjaldárið 1999 og hefði þar með ekki uppfyllt skilyrði 7. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. málsl. 7. tölul. nefndrar lagagreinar má draga frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu átta árum á undan tekjuári, framreiknaðar samkvæmt ákvæðum 26. gr., enda hafi fullnægjandi grein verið gerð fyrir rekstrartapinu og eftirstöðvum þess á því tekjuári þegar tapið myndaðist. Það leiðir af lagaákvæði þessu að skilyrðum fyrir yfirfærslu eftirstöðva rekstrartapa fyrri ára er ekki fullnægt þegar svo stendur á að skattaðili hefur ekki talið fram til skatts og því sætt áætlun skattstofna, sbr. og úrskurðaframkvæmd, sbr. m.a. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 503/1981 sem birtur er á bls. 115-116 í úrskurðasafni nefndarinnar vegna uppkveðinna úrskurða á árunum 1981-1982. Verður ekki séð að ágreiningur sé um þetta í málinu, enda byggir kærandi kröfu sína um innfærslu eftirstöðva eldri rekstrartapa í skattframtal árið 2000 á því að skattframtal árið 1999 verði lagt fyrir ríkisskattstjóra með beiðni um endurálagningu opinberra gjalda það gjaldár. Svo sem fram er komið hefur það ekki verið gert. Að svo vöxnu þykir rétt að vísa kærunni frá yfirskattanefnd.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.