Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 516/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 32/1978 — V. kafli — 147. gr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður — 10. gr. 2. mgr. — 106. gr. 2. mgr.   Reglugerð nr. 406/1986  

Skattskyldar tekjur — Vantaldar tekjur — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns — Búrekstur — Landbúnaður — Landbúnaðarskýrsla — Búháttabreyting — Loðdýrarækt — Styrkur til búháttabreytinga — Lögbýli — Bújörð — Framleiðnisjóður landbúnaðarins — Styrkur — Atvinnurekstrarstyrkur — Styrkur, óendurkræfur — Óendurkræfur styrkur — Stofnframlag — Stofnverð — Hlutafélag — Hlutabréf — Hlutafjárhækkun — Hlutafélagaskrá — Hlutafjármiði — Hluthafi — Útistandandi skuldir — Viðtakandi greiðslu — Tilheyrsla tekna — Kröfugerð kæranda — Framtalsháttur — Jafnræðisreglur — Rekstrarform

I.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri ritaði kæranda bréf þann 22. nóvember 1988 og krafði hann skýringa á greiðslu að fjárhæð 520.000 kr. úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins á árinu 1987, er hann hefði látið ganga til A hf., en greiðslu þessarar væri ekki getið í skattframtali hans árið 1988. Skattstjóri vísaði til upplýsinga um greiðslu þessa frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Búnaðarbanka Íslands. Ekki barst svar við bréfi þessu. Með bréfi, dags. 2. mars 1989, tilkynnti skattstjóri kærendum, að fyrirhugað væri að færa þeim nefnda greiðslu til tekna með 25% álagi skv. heimildarákvæðum 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Gefinn var 10 daga svarfrestur. Ekkert svar barst frá kærendum.

Með bréfi, dags. 21. apríl 1989, tilkynnti skattstjóri kærendum, að hann hefði hækkað tekjur á landbúnaðarskýrslu um 520.000 kr. og bætt 25% álagi á þá hækkun skattstofna, sem af breytingunni leiddi, og endurákvarðað áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1988 af þessum sökum. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi: „Litið er svo á að umrædda greiðslu frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins hafið þér fengið fyrir réttindi tengd búrekstri yðar og beri því að telja hana til tekna hjá honum.“

Af hálfu kærenda var nefndri tekjufærslu mótmælt í kæru, dags. 17. maí 1989. Segir svo í kærunni:

„Hér er um að ræða upphæð kr. 520.000, sem okkur hjónunum eru færðar til tekna og eru framlag Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til búháttabreytinga greitt á árinu 1987. Framlagið er veitt vegna byggingarframkvæmda við loðdýrabú A h.f. á D, en ég er einn hluthafa í því.

Eins og fram kemur í meðfylgjandi útskrift úr reikningum A fyrir árið 1987, sem sýnir sundurliðaðan byggingarkostnað minkaskála, er framlag að upphæð kr. 2.080.000 fært til lækkunar byggingarkostnaði hússins (samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra með landbúnaðar framtalinu 1988, bls. 55).

Framlagið var stílað á fjóra hluthafa í loðdýrabúinu, sem allir eru bændur á lögbýlum hér í hreppnum. Við stofnuðum upphaflega til þessa félagsskapar til að mæta samdrætti í hefðbundnum búgreinum og áttum samkvæmt reglum Framleiðnisjóðs rétt á framlagi sem einstaklingar (framlag til búháttabreytinga). Af ýmsum ástæðum kusum við að efna til þessa nýja búskapar á félagslegum grunni. Jafnframt afsöluðum við okkur skriflega rétti til frekari framlaga í þessu skyni á okkar eigin jörðum.

Samkvæmt ofanskráðu mótmæli ég einnig þeirri 25% hækkun á framlag Framleiðnisjóðs, sem skattstofan hefur reiknað okkur hjónunum.“

Með kæruúrskurði, dags. 3. júlí 1989, synjaði skattstjóri kröfu kærenda. Gat hann þess, að umrædd greiðsla væri styrkur, sem veittur væri kæranda persónulega og bundinn bújörð hans, enda þótt styrknum hefði verið ráðstafað til A hf. Þá hefðu kærendur eignfært fjárhæðina í framtali, að vísu sem aukið hlutafé í A hf. í stað kröfu á hlutafélagið, þar sem ekki hefði verið gengið frá hækkun hlutafjár. Þá tók skattstjóri fram, að á það mætti benda, að slíkur styrkur, sem hér um ræddi, hefði ekki verið veittur öllum hluthöfum í A hf. heldur aðeins hluta þeirra og þeir, sem styrksins hefðu notið, hefðu litið svo á að fyrir hann hefðu þeir eignast aukinn hlut í félaginu. Ekki hefðu komið fram neinar málsbætur vegna rangrar framtalsgerðar þannig að efni væru til niðurfellingar álags.

II.

Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 25. júlí 1989, og er því mótmælt, að nefndur styrkur 520.000 kr. sé reiknaður til tekna. Um sé að ræða styrk þann til búháttabreytinga, sem veittur hefði verið úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins á árinu 1987 til A hf., er sé hlutafélag bænda á jörðunum X, Y, Z og Þ. Fimmti hluthafinn hefði ekki búið á lögbýli, þegar hlutafélagið var stofnað, en byggi nú á lögbýli. Til rökstuðnings fyrir kröfu sinni skírskotar kærandi til bréfs ríkisskattstjóra frá 5. nóvember 1986, þar sem hann fjallar um skattalega meðferð á greiðslum til bænda, sem greiddar séu skv. 3. gr. reglugerðar nr. 406/1986, um stuðning Framleiðnisjóðs við nýjar búgreinar, búháttabreytingar og aðra nýbreytni í landbúnaði. Í 5. lið bréfs þessa segir, að í e-lið 3. gr. reglugerðar nr. 406/1986 sé að finna heimild til að greiða þeim, sem taka upp á lögbýlum annan atvinnurekstur en mjólkur- og kjötframleiðslu. Greiðslur þær, sem hér um ræðir, gætu verið framlag, stofnframlag til nýs atvinnurekstrar. Gegndi þá sama máli um greiðslurnar og ýmiss óendurkræf stofnframlög og t.d. ríkisframlög til jarðabóta o.þ.h. Væri þá áskilið, að greiðslunum væri varið til að standa straum af kostnaði við mannvirki, tækjakaup og endurbætur vegna hinnar nýju búgreinar. Skv. 2. mgr. 10. gr. skattalaga dragist óendurkræfur styrkur frá stofnverði (kostnaðarverði) eignar. Kostnaðarverðið myndaði síðan fyrningargrunn. Styrki vegna slíkra framkvæmda bæri að færa til lækkunar á stofnverði þeirra. Af hálfu kærenda er tekið fram, að í þessu bréfi ríkisskattstjóra komi hvergi fram, að gerður sé munur á fyrirtækjum í einstaklingseign, félagsbúum eða hlutafélögum. Fyrst svo sé ekki verði að líta svo á, að sömu reglur gangi yfir þau öll. Á það vilji skattstjóri ekki fallast. Kærunni fylgir útskrift úr fjárhagsbókhaldi A hf., þar sem fram komi, að styrkurinn hafi allur runnið til þess að greiða kostnað við fjárfestinguna, er væri skilyrði fyrir styrkveitingunni svo sem áður hefði komið fram. Þá er vísað til bréfs formanns Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, dags. 13. desember 1988, er fylgi kæru, þar sem fram komi, að styrkurinn sé bundinn jörðum, þótt hann sé veittur út á nafn einstaklings. Komi og fram í bréfi þessu, að sjóðurinn hafi veitt A hf. búháttaframlag v/stofnkostnaðar loðdýrabús. Í fyrstu hafi verið gefnir út launamiðar á fjóra af fimm hluthöfum búsins, en það síðan leiðrétt og gefinn út launamiði á A hf. Með þessu framlagi til A hf. hafi verið litið svo á, að jarðirnar X, Y, Z og Þ hafi nýtt rétt sinn til búháttabreytinga samkvæmt reglum sjóðsins. Í bréfi kærenda og tveggja annarra hluthafa í A hf., dags. 26. júlí 1989, til ríkisskattanefndar er samandregin kröfugerð þess efnis, að ótækt sé að umrætt framlag Framleiðnisjóðs, sem runnið hafi beint til loðdýrabús A hf. til lækkunar byggingarkostnaðar á minkaskála, geti orðið grundvöllur skattlagningar á þá persónulega.

III.

Með bréfi, dags. 6. apríl 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Ágreiningurinn í máli þessu snýst um það, hvort tekjufæra beri nefndan styrk vegna búháttabreytinga frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins hjá kærendum eða hvort telja beri hann milliliðalausa greiðslu til hlutafélags bændanna, A hf., þar sem styrkurinn hefur verið færður til lækkunar á kostnaðarverði minkahúss skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. framlögð gögn og skýringar kærenda. Svo sem fram kemur í kæruúrskurði skattstjóra færðu kærendur styrk þennan sem aukið hlutafé sitt í A hf. Ekki fær það samrýmst málatilbúnaði kærenda. Til þess er þó að líta, að samkvæmt hlutafjármiða 1988 frá A hf. nam hlutafjáreign kærenda 31. desember 1987 í félaginu 170.000 kr. Við þessa fjárhæð bættu kærendur nefndri greiðslu 520.000 kr. og færðu því 690.000 kr. sem hlutafjáreign sína í árslok 1987. Upphaflegt hlutafé í hlutafélagi þessu, sem stofnað var 17. júlí 1982, nam 200.000 kr. Hlutaféð var hækkað þann 19. október 1985 í 1.020.000 kr. Samkvæmt upplýsingum Hlutafélagaskrár hefur það verið óbreytt síðan. Enginn lagagrundvöllur var því fyrir færslu kærenda í framtali sínu árið 1988 fyrir færslu nefndrar greiðslu sem hækkunar hlutafjár. Af hálfu kærenda skortir málsreifun um þetta atriði. Þrátt fyrir það þykir koma nægjanlega ljóst fram í málsgögnum, sbr. m.a. bréf formanns Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, dags. 13. desember 1988, og bréf Búnaðarbanka Íslands, dags. 14. apríl 1988, að hin umdeilda greiðsla sé framlag til nefnds hlutafélags en eigi kærenda. Að því virtu og með því að ekki verður talið, að kærendur eigi að vera verr settir en aðrir í þessum efnum vegna þess fyrirkomulags og rekstrarforms, er haft var á hinni nýju búgrein, sem reyndar er viðurkennt í nefndu bréfi Framleiðnisjóðs að uppfylli reglur, sbr. reglugerð nr. 406/1986, þá þykja engin efni til annars en að fallst á kröfu kærenda. Jafnframt er fjárhæðin felld úr E-6 í framtali.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja