Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður, frestun skattlagningar
  • Álag

Úrskurður nr. 468/2001

Gjaldár 1999

Lög nr. 75/1981, 13. gr., 95. gr. 1. mgr., 106. gr. 2. mgr.  

Skattstjóri færði kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali árið 1999 eftirstöðvar frestaðs söluhagnaðar báts að viðbættu 25% álagi. Yfirskattanefnd benti á að allar upplýsingar um greindan söluhagnað, þar á meðal um frestun á skattlagningu hans að hluta og fjárhæð þess hluta, hefðu legið fyrir í framtalsgögnum kæranda árið 1997. Þar sem álagsbeiting skattstjóra þótti naumast nægilega rökstudd var hún felld niður.

I.

Málavextir eru þeir að með fyrirspurnarbréfi, dags. 18. janúar 1998, óskaði skattstjóri með vísan til 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eftir tilteknum upplýsingum og gögnum varðandi skattframtöl kæranda árin 1998 og 1999 svo sem nánar greindi. Ekki barst svar frá kæranda við þessu bréfi skattstjóra.

Með boðunarbréfi, dags. 29. janúar 2001, tilkynnti skattstjóri kæranda, með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, að hann hefði í hyggju að endurákvarða opinber gjöld kæranda gjaldárið 1999, sbr. bréf skattstjóra, dags. 18. janúar 2000, sem ekki hefði verið svarað. Þá vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt skattframtali árið 1997 hefði kærandi óskað eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðar 2.677.087 kr. Með vísan til 13. gr. laga nr. 75/1981 bæri að færa þennan söluhagnað til tekna í skattframtali árið 1999 framreiknaðan og að viðbættu 10% álagi. Fjárhæð framreiknaðs söluhagnaðar auk 10% álags yrði 3.042.434 kr. sem tekjufærð yrði að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Svar barst ekki við boðunarbréfi skattstjóra.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 9. apríl 2001, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd. Skattstjóri ítrekaði að frestaður söluhagnaður samkvæmt skattframtali 1997, 2.677.087 kr., kæmi til skattlagningar gjaldárið 1999 með vísan til 13. gr. laga nr. 75/1981. Söluhagnaður væri framreiknaður með 10% álagi og yrði 3.042.434 kr. Þá kvaðst skattstjóri reikna 25% álag á vantalda skattstofna, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Nam fjárhæð álags 760.608 kr. vegna hækkunar skattstofna vegna tekjufærslu söluhagnaðarins.

II.

Með kæru, dags. 29. júní 2001, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 9. apríl 2001, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1999. Kærir hann þá ákvörðun skattstjóra að bæta 25% álagi eða 760.608 kr. við þá hækkun skattstofna sem leiddi af tekjufærslu frestaðs söluhagnaðar 3.042.434 kr. Tekur kærandi fram að vegna mistaka þjónustuaðila síns um framtalsgerð hafi láðst að tekjufæra söluhagnaðinn í skattframtali árið 1999. Krefst hann þess með vísan til 106. gr. laga nr. 75/1981 að umrætt álag verði fellt niður og skattlagning fari eingöngu fram að viðbættu 10% álagi. Kærandi gerir ekki athugasemd við aðra þætti í umræddum úrskurði skattstjóra.

III.

Með bréfi, dags. 27. júlí 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærendur geta ekki öðlast rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags þó þeir fái aðstoð við framtalsgerðina. Með því að ekki hefur verið sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi við er ítrekuð krafan um að hið kærða álag standi óhaggað.“

IV.

Samkvæmt gögnum málsins seldi kærandi bátinn K 3. desember 1996. Söluhagnaður nam 6.187.087 kr. Kærandi fyrndi bátinn L sérstakri fyrningu 3.510.000 kr. á móti söluhagnaði að sömu fjárhæð. Kærandi fór fram á frestun á skattlagningu um tvenn áramót á eftirstöðvum söluhagnaðarins 2.677.087 kr., sbr. 13. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Var gerð grein fyrir þessum ráðstöfunum í framtalsgögnum kæranda árið 1997. Þennan söluhagnað tekjufærði skattstjóri í skattframtali kæranda árið 1999 framreiknaðan og að viðbættu 10% álagi með úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 9. apríl 2001, og nam tekjufærð fjárhæð 3.042.434 kr. Þá bætti skattstjóri 25% álagi á þá hækkun skattstofna sem af þessu leiddi, sem er kæruefnið í máli þessu.

Í tilefni af málsástæðu kæranda skal tekið fram að framteljendur geta almennt ekki losnað undan ábyrgð sinni á annmörkum og skilum skattframtals með því að fela öðrum gerð þess og skil. Eins og fyrr greinir lágu fyrir í framtalsgögnum kæranda gjaldárið 1997 allar upplýsingar varðandi nefndan söluhagnað, þar á meðal um frestun á skattlagningu hans að hluta og fjárhæð þess hluta. Þegar til þessa er litið og virtri heimild skattstjóra til leiðréttinga á einstökum liðum skattframtals, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 svo sem það ákvæði hefur verið skýrt og skilið í úrskurðaframkvæmd, verður naumast talið að hin kærða ákvörðun skattstjóra um beitingu álags samkvæmt heimildarákvæði 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 sé nægilega rökstudd. Álag samkvæmt nefndu heimildarákvæði er því fellt niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða ákvörðun um álag er felld úr gildi.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja