Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lífeyrir
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 579/2001

Gjaldár 2000

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.   Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. og C-liður 3. tölul., 8. gr. 2. mgr. 6. tölul. (brl. nr. 154/1998, 1. gr. b-liður).  

Kærandi fékk lífeyrisgreiðslur á árinu 1999 og taldi að skattleggja bæri hluta þeirra sem fjármagnstekjur (vexti). Í úrskurði yfirskattanefndar var bent á að samkvæmt skattalögum skyldu vextir, verðbætur og önnur ávöxtun lífeyrissparnaðar skattlögð sem lífeyrir þegar slíkar greiðslur væru greiddar út. Væri því enginn grundvöllur fyrir kröfu kæranda. Þá kom fram, vegna sjónarmiða kæranda, að yfirskattanefnd ætti ekki úrskurðarvald um það hvort lagareglur kynnu að brjóta gegn stjórnarskrá. Kröfum kæranda var hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að í skattframtali sínu árið 2000 færði kærandi sér til tekna í reit 43 greiðslur úr lífeyrissjóðum að fjárhæð 1.737.521 kr.

Með kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 2000, fór umboðsmaður kæranda fram á að sá hluti greiðslna til kæranda úr lífeyrissjóði sem rekja mætti til ávöxtunar iðgjalda kæranda til lífeyrissjóðsins yrði skattlagður við útborgun eins og um fjármagnstekjur væri að ræða en ekki sem launatekjur. Yrði umræddur hluti greiðslna úr lífeyrissjóði þannig skattlagður með 10% fjármagnstekjuskatti. Umboðsmaðurinn tók fram að fallast mætti á að þetta gilti ekki um þann hluta greiðslna úr lífeyrissjóði sem teldust innborguð iðgjöld. Hins vegar taldi umboðsmaðurinn það ekki samræmast 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 að skattleggja þann hluta teknanna sem rekja mætti til ávöxtunar iðgjalda til sjóðsins eins og almennar launatekjur. Sú niðurstaða þýddi að tekjur af ávöxtun iðgjalda í lífeyrissjóð væru skattlagðar með annarri og miklu hærri skattprósentu en tekjur af „öðru fjármagni, enda þótt lögskylt sé að greiða í slíka sjóði“. Væri um augljósa mismunun að ræða. Af þessu leiddi einnig að kæranda væri ekki gefinn kostur á að ávaxta tekjur sínar „á þann hátt að hann geti notið þeirrar skattprósentu, sem öðrum efnameiri stendur til boða að því er varðar skattlagningu tekna af öðru fjármagni“. Teldi kærandi sér mismunað með þessari niðurstöðu gagnvart þeim sem hefðu fjármuni til ráðstöfunar umfram það sem gengi til framfærslu og greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð þannig að í bága færi við tilvitnuð ákvæði stjórnarskrárinnar.

Með kæruúrskurði, dags. 18. desember 2000, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Byggði skattstjóri niðurstöðu sína á því að eftirlaun og lífeyrir teldust til skattskyldra tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt ákvæðum 67. gr. sömu laga féllu einungis undir tekjuskatt af fjármagnstekjum þær tekjur sem skattskyldar væru samkvæmt 1.–8. tölul. C-liðar 7. gr. laganna. Væri því engin lagaheimild fyrir hendi til þess að skattleggja hluta af greiðslum kæranda úr lífeyrissjóði sem fjármagnstekjur.

II.

Með kæru, dags. 16. mars 2001, sbr. greinargerð, dags. 11. apríl 2001, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 18. desember 2000, til yfirskattanefndar. Í kærunni ítrekar umboðsmaðurinn þá kröfu varðandi skattlagningu lífeyrisgreiðslna sem hann gerði af hálfu kæranda í kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 2000. Telur umboðsmaðurinn það fara í bága við ákvæði 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar að skattleggja þann hluta greiðslna úr lífeyrissjóði sem rekja megi til ávöxtunar á greiddum iðgjöldum í sjóðinn á sama hátt og almennar launatekjur en ekki sem fjármagnstekjur. Færir umboðsmaurinn að öllu leyti fram sömu rök og fram komu í kæru til ríkisskattstjóra, dags. 28. ágúst 2000. Í niðurlagi kærunnar lýsir umboðsmaðurinn sig reiðubúinn til að leggja fram gögn um fjárhagstöðu kæranda „í fortíð og nútíð“, ef nefndin telji þörf á.

III.

Með bréfi, dags. 25. maí 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Skv. 6. tl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skulu vextir, verðbætur, og önnur ávöxtun af lífeyrissparnaði skv. lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða teljast til tekna sem lífeyrir skv. A-lið 7. gr. þegar slíkar greiðslur eru greiddar út.

Af gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri taka fram að valdsvið yfirskattanefndar nær ekki til úrlausnar á ágreiningsefnum varðandi það hvort lagareglur kunni að fara í bága við einstök ákvæði stjórnarskrár og er því ekki bær til að fjalla um málsástæður sem á slíku eru byggðar. Er því krafist að þessari málsástæðu verði vísað frá.

Með hliðsjón af framangreindu er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Eins og fram er komið fékk kærandi á árinu 1999 greiðslur úr lífeyrissjóðum að fjárhæð 1.737.521 kr. Skattstjóri taldi greiðslur þessar vera skattskyldar á grundvelli 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þannig að greiðslurnar féllu undir almennt skattstig tekjuskatts en ekki fjármagnstekjuskatt, sbr. 67. gr. laganna. Krafa umboðsmanns kæranda er að sá hluti greiðslna úr lífeyrissjóði sem telst stafa af ávöxtun á iðgjaldagreiðslum kæranda sæti skattlagningu með 10% fjármagnstekjuskatti einkum með þeim rökum að ella njóti kærandi ekki jafnræðis á við aðra varðandi skattlagningu tekna af fjármagni. Hefur umboðsmaður kæranda aðallega vísað kröfu sinni til stuðnings til jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, auk ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem fjallar um friðhelgi eignarréttarins. Virðist umboðsmaðurinn byggja kröfu sína á því að umræddur hluti lífeyrisgreiðslna kæranda séu vextir eða aðrar fjármagnstekjur. Ekki hafa komið fram af hálfu umboðsmannsins neinar fjárhæðir í þessu sambandi eða hversu háu hlutfalli hinn umþrætti hluti lífeyrisgreiðslnanna nemi af heildargreiðslum. Hefur komið fram hjá umboðsmanni kæranda að tilhögun skattstjóra varðandi skattlagningu á þeim hluta greiðslna úr lífeyrissjóði til kæranda sem nemi greiddu iðgjaldi hans sé ekki mótmælt. Þá er ekki um það deilt að um skattskyldar tekjur er að ræða að öllu leyti. Samkvæmt þessu verður að telja að ágreiningur málsins snúist um það hvort lífeyrisgreiðslur kæranda beri að skattleggja að öllu leyti sem tekjur samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, svo sem skattstjóri og ríkisskattstjóri byggja á, eða hvort hluta af greiðslunum beri að telja vexti eða aðrar fjármagnstekjur í skilningi C-liðar 7. gr. sömu laga, sem skattleggja ber sem fjármagnstekjur utan rekstrar, sbr. 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1996, svo sem umboðsmaður kæranda virðist halda fram.

Með lögum nr. 97/1996, um breytingu á lögum nr. 75/1981, var tekin upp samræmd skattlagning allra fjármagnstekna einstaklinga utan rekstrar og tilgreindra fjármagnstekna lögaðila sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt 2., 3., 5., 6. og 7. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 7. og 10. gr. laga nr. 97/1996 er breyttu 67. gr. og 72. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt ákvæðum þessum nemur tekjuskattur 10% af skattskyldum fjármagnstekjum, eins og tekjur þessar eru nánar skilgreindar í lögunum. Hvað varðar einstaklinga utan rekstrar eru skattskyldar fjármagnstekjur skilgreindar í 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1996, sem tekjur samkvæmt 1.–8. tölul. C-liðar 7. gr., þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur.

Umboðsmaður kæranda vísar kröfu sinni til stuðnings til 65. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. og 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Verður að skilja þessa málsástæðu umboðsmannsins svo að teljist ákvæði skattalaga standa í vegi fyrir því að krafan nái fram að ganga brjóti þau gegn framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Af því tilefni skal tekið fram að yfirskattanefnd á ekki úrskurðarvald um það hvort lagareglur kunni að brjóta í bága við einstök ákvæði stjórnarskrárinnar og er því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem byggðar eru á slíku. Samkvæmt stjórnskipunarvenju er það regla íslensks réttar að dómstólar eiga úrlausn þess hvort lög verði samþýdd stjórnarskránni. Yfirskattanefnd er stjórnvald og hefur samkvæmt því ekki hliðstætt hlutverk hvorki samkvæmt réttarframkvæmd né á öðrum grundvelli.

Samkvæmt framansögðu verður, á grundvelli gildandi laga, að taka til úrlausnar þá kröfu kæranda að hinn umþrætti en ótilgreindi hluti af greiðslum úr lífeyrissjóði sæti skattlagningu sem fjármagnstekjur þar sem líta beri á þann hluta sem fjármagnstekjur samkvæmt 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1996. Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur komið fram að lífeyrisréttindi, séu að hluta tilkomin vegna ávöxtunar iðgjalda. Samkvæmt 6. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 154/1998, um breyting á þeim lögum, skulu vextir, verðbætur og önnur ávöxtun af lífeyrissparnaði samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða teljast til tekna sem lífeyrir samkvæmt A-lið 7. gr. laganna þegar slíkar greiðslur eru greiddar út. Í athugasemdum með 1. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 154/1998, segir m.a. svo um þetta: „Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði skýrt á um að 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. eigi ekki við í þessu tilviki heldur komi tekjur þessar ekki til skattlagningar fyrr en við útborgun á lífeyri og teljast þær þá til tekna skv. A-lið 7. gr. og skattleggjast í almennu skatthlutfalli en ekki sem fjármagnstekjur.“ Ákvæði þetta tekur þannig beint til tilviks kæranda og gengur það skýrlega gegn kröfu hans. Verður því að telja að enginn grundvöllur sé fyrir kröfu kæranda.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður að synja kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja