Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 524/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 95. gr. 2. mgr. — 106. gr. 1. mgr. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Breytingarheimild skattstjóra — Skattframtal í stað áætlunar — Launatekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Ökutækjaskýrsla — Frádráttarheimild — Dagpeningar — Dagpeningafrádráttur — Rútupeningar — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Sönnun — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að skattframtal 1989 barst ekki frá kærendum í framtalsfresti það ár. Voru þeim því áætlaðir stofnar til opinberra gjalda auk álags árið 1989. Skattframtal barst síðan frá kærendum 18. ágúst 1989 og var það tekið sem kæra. Í úrskurði, uppkveðnum 30. október 1989, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar við álagningu opinberra gjalda 1989 að gerðum nokkrum breytingum. Skattstjóri hækkaði tekjur A um 41.470 kr., þ.e. mismun framtalinna og uppgefinna launa. Auk þess felldi skattstjóri niður hjá honum frádrátt vegna ökutækjastyrks 141.330 kr. þar sem greinargerð frá launagreiðanda vantaði. Skattstjóri færði ennfremur til tekna hjá B 20.224 kr. sem vanframtalda dagpeninga. Loks bætti skattstjóri 25% álagi á skattstofna kærenda með skírskotun til 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að mati skattstjóra hefði ekki verið sýnt fram á þær ástæður, er leiddu til þess, að fella bæri álagið niður samkvæmt 3. mgr. greinarinnar.

Með kæru, dags. 28. nóvember 1989, hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar. Eru kröfur og röksemdir kærenda sem hér segir:

„1. Rútugjald:

Skattstjóri hækkar tekjur A um kr. 41.470.-. Fjárhæð þessi er sögð í úrskurði skattstjóra vantalin. Þessi fjárhæð er s.k. rútugjald og í framtali mínu tíundað sem ökutækjastyrkur. Í viðtölum mínum við forstöðumenn launaskrifstofu C, hefur komið í ljós, að þeir hafa sent skattayfirvöldum greinargerð varðandi rútupeninga, ökutækjastyrki og skylda hluti. Af þeim gögnum má vera fullljóst, að s.k. rútugjald er hluti ökutækjastyrks. Við teljum því, að um óþarfa fljótfærni sé að ræða, þegar tekjur okkar eru hækkaðar um nefnda fjárhæð, án þess að ökutækjastyrkur sé samhliða lækkaður um sömu fjárhæð. Hér er á ferð villa af hendi skattstjóra, sem bakar gjaldanda óþægindum, að ástæðulausu. Meðf. ljósrit af launaseðli A.

2. Niðurfelling frádráttar vegna ökutækjastyrks:

Þessi aðgerð er að okkar mati algjörlega óþörf. A hefur um margra ára skeið „notið“ bifreiðastyrks hjá vinnuveitanda sínum. Hann hefur ávallt gert grein fyrir tilkostnaði sínum, á þann hátt, er gert var í framtali 1989. Í gegnum tíðina hafa aldrei verið gerðar athugasemdir varðandi atriði þetta. Skiljanlegt er því, að umbeðin staðfesting launagreiðanda fylgdi ekki þessu framtali. Hins vegar var þessi staðfesting fyrirliggjandi og lítið mál að bæta úr þessum „ágalla“ í framtali 1989, hefði verið eftir því leitað. Með kæru þessari fylgja nefndar staðfestingar. Við teljum þær tala sínu máli, varðandi eðli akstur A í þágu vinnuveitanda og skýra sig efnislega sjálfar. Enn eitt dæmið um hvað örfáar línu í bréfi hefðu getað afstýrt.

3. Dagpeningar B:

Gleymst mun hafa að fylla út eyðublað 3.11 varðandi dagpeninga og láta fylgja framtali 1989. Mjög auðvelt hefði verið að bæta úr þessum „ágalla“ hefði verið eftir því leitað. Enn eitt dæmið um hvað örfáar línur í bréfi hefðu getað afstýrt.

4. Ákvörðun skattstjóra að beita 25% álagi á skattstofna.

Í bréfi skattstjóra er vísað til 106. gr. l. 75/1981. Í tilvitnaðri grein er að finna heimild(!) til handa skattstjórum til beitingar viðurlaga. Ennfremur er að finna í sömu grein ákvæði, sem skylda skattstjóra til að fella niður viðurlög þessi, ef

- skattþegni verður ekki kennt um vanskil framtals

- skattþegni verður ekki kennt um annmarka framtals

- óviðráðanleg atvik ollu drætti skila

- að skattþegn bæti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Við teljum að öll framangreind atriði eigi við um okkur. Endurskoðandi okkar ber við framkvæmdarlegum mistökum á skrifstofu sinni. Framtalið hafi m.ö.o. dagað uppi hjá honum sökum mistaka starfsmanns hans. Þá teljum við okkur hafa bætt úr „annmörkum“ á framtali okkar.“

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 7. maí 1990, er sem hér segir:

„Fallist er á að hækkun skattstjóra vegna vantalinna tekna verði felld niður. Fram hefur verið lagður samningur kæranda við vinnuveitanda hans, C, frá árinu 1976. Einnig fylgir með áætlun á akstri kæranda í þágu vinnuveitanda og kemur þar fram að kærandi áskilji sér rétt til afnota af ökutækjum í eigu vinnuveitanda síns. Með hliðsjón af framansögðu þykja framlögð gögn ekki fullnægjandi sönnun fyrir akstri í þágu vinnuveitanda og breytir almennt orðuð yfirlýsing frá deildarstjóra starfsmannahalds frá árinu 1985 engu þar um.“

Um 1. tl. Með hliðsjón af kröfugerð ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda.

Um 2. tl. Með skírskotun til framlagðra gagna er krafa kærenda tekin til greina.

Um 3. tl. Krafa kærenda er tekin til greina með vísan til framlagðs gagns.

Um 4. tl. Eftir atvikum og að þessu sinni þykir þó mega falla frá beitingu álags.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja