Úrskurður yfirskattanefndar
- Verðbreytingarfærsla
- Skuldir og inneignir tengdra aðila
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 581/2001
Gjaldár 1999
Lög nr. 75/1981, 53. gr. 4. mgr. (brl. nr. 97/1988, 5. gr.), 95. gr. 1. mgr.
Deilt var um meðferð skulda og inneigna tengdra aðila við útreikning verðbreytingarfærslu í skattskilum einkahlutafélags, nánar tiltekið hvort skilyrði um vaxtareikning slíkra eigna og skulda skyldi uppfyllt á því reikningsári þegar verðbreytingarfærsla væri reiknuð og færð til gjalda eða tekna, svo sem kærandi hélt fram, eða á næst liðnu reikningsári, svo sem skattstjóri byggði á. Yfirskattanefnd taldi orðalag 4. mgr. 53. gr. tekjuskattslaga og tilgang reglna um verðbreytingarfærslu frekast vera til stuðnings skilningi kæranda og var fallist á kröfu félagsins um niðurfellingu hinnar kærðu ákvörðunar skattstjóra.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 27. október 1999, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um svofellda breytingu á skattframtali félagsins árið 1999:
„Tekjur á framtali hafa verið hækkaðar um kr. 302.236, sem er lækkun reiknaðra gjalda vegna verðbreytinga skv. 53. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum úr kr. 539.472 í kr. 237.236 þar eð kröfur á tengda aðila sem ekki eru vaxtareiknaðar kr. 23.798.086, sbr. reit 5060 á framtali fyrra árs, teljast ekki til þeirra eigna er um ræðir í 3. mgr. greinarinnar.“
Breyting skattstjóra var mótmælt með kæru umboðsmanns kæranda, dags. 4. nóvember 1999, á þeim grundvelli að skattstjóri hefði átt að fara með málið eftir 96. gr. laga nr. 75/1981 og senda kæranda skriflega fyrirspurn áður en til breytingar kæmi. Tók umboðsmaðurinn fram að ekki væri hægt að heimfæra upplýsingar úr skattframtali 1998 án skýringa upp á skattframtal 1999, eins og skattstjóri hefði gert. Benti umboðsmaðurinn á í því sambandi að í reit 5060 í skattframtali 1999 væri engin fjárhæð.
Með kæruúrskurði, dags. 12. september 2000, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda á svofelldum forsendum:
„Skattstjóri fellst ekki á að óheimilt hafi verið að leiðrétta stofn til ákvörðunar verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981, enda voru fyrir hendi allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru til ákvörðunar stofns, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981.
Á skattframtali kæranda gjaldárið 1998 er færð í reit 5060 fjárhæðin kr. 23.798.086 og byggði skattstjóri á þeirri færslu við leiðréttingu á verðbreytingarfærslu, sbr. einnig 53. gr. laga nr. 75/1981. Skv. leiðbeiningum ríkisskattstjóra „Skattframtal rekstraraðila – RSK 1.04 leiðbeiningar og dæmi“ skal færa í reit 5060 allar kröfur á tengda aðila, hverju nafni sem þær nefnast, sem ekki eru vaxtareiknaðar á þann hátt sem um er rætt í 2. ml. 1. mgr. 53. gr. skattalaga. Í kærubréfi er vísað til skattframtals 1999, en ákvörðun verðbreytingarfærslu byggir á stöðu eigna og skulda í lok árs 1997, þ.e. á skattframtali 1998. Umboðsmaður hefur ekki lagt fram gögn eða skýringar til stuðnings því að færsla hans á skattframtali 1998 hafi verið röng, sömuleiðis hafa hluthafar í kæranda ekki tilgreint vaxtagjöld af umræddri skuld á skattframtali sínu.
Kröfu kæranda er hafnað.“
II.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. október 2000, krefst umboðsmaður kæranda þess að lækkun skattstjóra á gjaldfærðri verðbreytingarfærslu í skattframtali kæranda árið 1999 verði felld niður. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, en kostnaður kæranda nemi 23.200 kr. auk virðisaukaskatts.
Krafa umboðsmanns kæranda er í fyrsta lagi byggð á því að andmælaréttur kæranda hafi ekki verið virtur við breytingar skattstjóra og beri af þeim sökum að fella ákvörðun skattstjóra úr gildi.
Í öðru lagi er krafan byggð á því að efnislegar forsendur fyrir breytingu skattstjóra standist ekki. Segir umboðsmaður kæranda ekki deilt um að skuldir stjórnarmanna, hluthafa og framkvæmdastjóra við kæranda hafi ekki verið vaxtareiknaðar rekstrarárið 1997 og hafi þessar kröfur því verið tilgreindar á réttan hátt í reit 5060 í skattframtali kæranda árið 1998. Hins vegar hafi verið reiknaðir vextir af þessum skuldum rekstrarárið 1998 og af þeim sökum hafi 2. málsl. 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ekki átt við þegar stofn verðbreytingafærslu hafi verið ákvarðaður rekstrarárið 1998. Þetta hefði skattstjóra mátt vera ljóst við samanburð á fyrrgreindum skattframtölum, þar sem umræddar kröfur hafi verið færðar í reit 5070 í skattframtali 1999 en í reit 5060 í skattframtali 1998. Tekur umboðsmaðurinn fram að þetta sé þó ekki aðalatriði málsins heldur það að skattstjóri hafi breytt stofni til verðbreytingarfærslu fyrirspurnarlaust. Þá sé því algjörlega hafnað að það sé á einhvern hátt bindandi fyrir kæranda hvort eða hvernig greiðendur vaxtanna telji þá fram í sínum framtölum, en gleymsku muni vera um að kenna að þeir hafi ekki talið fram vaxtagjöld.
III.
Með bréfi, dags. 24. nóvember 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Ríkisskattstjóri krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans enda hafa ekki komið fram nein ný gögn eða athugasemdir sem leiða eiga til breytinga á honum.“
IV.
Í máli þessu er deilt um skýringu á 2. málsl. 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1988, þar sem segir að skuldir og inneignir stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félaga, sbr. 1., 2. og 4. tölul. 2. gr. laganna, svo og skuldir og inneignir hluthafa í hlutafélögum og ógreidd hlutafjárloforð, teljist ekki til eigna eða skulda við útreikning verðbreytingarfærslu „nema því aðeins að skuldir þessar og inneignir séu vaxtareiknaðar með sambærilegum kjörum og gilda í innlánsstofnunum á hverjum tíma“. Er deiluefnið nánar tiltekið hvort skilyrði um vaxtareikning skuli uppfyllt á því reikningsári þegar verðbreytingarfærsla er reiknuð og færð til gjalda eða tekna, sbr. 2. mgr. 53. gr., svo sem umboðsmaður kæranda heldur fram, eða á næst liðnu reikningsári, svo sem skattstjóri byggði á.
Ekki er ótvírætt af orðalagi 2. málsl. 4. mgr. 53. gr. hvernig skýra beri ákvæðið að því er varðar framangreint atriði, en orðalag ákvæðisins þykir þó frekar benda til þess skilnings sem fram kemur í kæru. Ekki er tekið af skarið með þetta í lögskýringargögnum eftir því sem séð verður. Til þess er að líta að með þeim leiðréttingum vegna áhrifa almennra verðlagsbreytinga á eignir og skuldir, sem mælt er fyrir um í 53. gr. laga nr. 75/1981, er leitast við að miða skattlagningu við raunvirði peningaeigna og skulda og tryggja óbreytt raunvirði eigin fjár í ársbyrjun og árslok. Er reglunum ætlað að leiða til þess að til gjalda komi aðeins sá fjármagnskostnaður sem er umfram almennar verðbreytingar og til tekna eingöngu fjármagnstekjur umfram almennar verðbreytingar. Þykir þessi tilgangur reglna um verðbreytingarfærslu vera til stuðnings þeim skilningi kæranda að skilyrði um vaxtareikning umræddra skulda og inneigna vísi til þess reikningsárs þegar verðbreytingarfærsla er reiknuð, þ.e. reikningsársins 1998 í tilviki kæranda.
Samkvæmt framansögðu og þar sem ágreiningslaust er að inneignir sem í máli þessu greinir voru vaxtareiknaðar á árinu 1998 á þann hátt sem greinir í 2. málsl. 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 er fallist á kröfu kæranda um að fella hina kærðu breytingu skattstjóra niður. Tekið skal fram svo sem málið lá fyrir verður ekki fundið að því að skattstjóri hafi framkvæmt breytingu sína á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breytingu á þeim lögum. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað sinn við meðferð málsins, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og með vísan til framangreinds lagaákvæðis þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 20.000 kr.
Við athugun á gögnum málsins kemur í ljós að hin kærða breyting skattstjóra var ekki skráð í upplýsingakerfi ríkisskattstjóra. Við almenna álagningu opinberra gjalda á lögaðila gjaldárið 1999 var tekjuskattsstofn kæranda ákvarðaður 12.012.583 kr. eða sama fjárhæð og talin var fram sem hreinar tekjur í skattframtali rekstraraðila 1999 (RSK 1.04). Það leiðir af framansögðu að tekjuskattsstofn verður óbreyttur frá því sem hann var í álagningu þrátt fyrir niðurstöðu úrskurðar þessa.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á kröfur kæranda. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði verður 20.000 kr.