Úrskurður yfirskattanefndar

  • Barnabætur
  • Vaxtabætur
  • Áætlun skattstofna

Úrskurður nr. 311/2004

Gjaldár 2002

Lög nr. 75/1981, 69. gr. A-liður og B-liður.  

Skattstjóri hafnaði að byggja álagningu opinberra gjalda kærenda á innsendu skattframtali þeirra þar sem hann taldi framtalið tortryggilegt vegna neikvæðs framfærslueyris. Kærendur gerðu ekki athugasemdir við þá ákvörðun, en kröfðust þess að þeim yrðu reiknaðar barna- og vaxtabætur. Yfirskattanefnd tók fram að í lagareglum um barna- og vaxtabætur væri ekki áskilið að réttur til slíkra bóta væri háður því að skattframtal lægi til grundvallar álagningu. Var fallist á kröfu kærenda.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2002 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2002, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 11. október 2002, fór umboðsmaður kærenda fram á að meðfylgjandi skattframtal þeirra árið 2002 yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2002 án álags. Þess var getið að kærendur hefðu dvalist langdvölum erlendis vegna starfs og náms og væri það ástæðan fyrir hinum síðbúnu framtalsskilum svo sem nánar var lýst. Með bréfi, dags. 16. október 2002, fól ríkisskattstjóri skattstjóra afgreiðslu á erindi kærenda, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, og tók fram að gögn málsins hefðu ekki sætt neinni skoðun af hálfu embættisins.

Áður en skattstjóri tók hið innsenda skattframtal kærenda árið 2002 til afgreiðslu reit hann kærendum bréf, dags. 24. janúar 2003, þar sem óskað var skýringa á nokkrum atriðum skattframtalsins. Meðal annars vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt útreikningi, sem fylgdi bréfinu, hefði framfærslueyrir kærenda á árinu 2001 verið neikvæður um 5.542.765 kr. sem ekki fengi staðist. Var óskað skýringa á þessu. Með bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 31. mars 2003, fylgdi leiðrétt skattframtal kærenda árið 2002, auk útreiknings á framfærslueyri fyrir árið 2001. Samkvæmt þeim útreikningi var framfærslueyrir til ráðstöfunar 3.767.053 kr. Í bréfinu var gerð grein fyrir leiðréttingunum. Kaup á sumarbústaðarlóð 636.607 kr. hefðu verið fjármögnuð með yfirtöku láns hjá Sparisjóði Keflavíkur. Hlutabréf í X hf. og Y hf. hefðu verið færð til eignar. Tilgreind bifreið væri númerslaus og verðlaus. Þá hefði vantað að tilfæra í fyrra skattframtali lán að fjárhæð 3.500.000 kr. vegna kaupa á hlutabréfum í Z hf., en það fyrirtæki væri gjaldþrota og skuldin ekki talin verða greidd vegna meintra svika. Þess var getið að rangfærsla hefði verið í skattframtali árið 2001 nánar tiltekið sala á fasteign til Sjóvár-Almennra hf. vegna brunatjóns. Eign um áramótin 2000/2001 hefði verið 5.363.898 kr.

Skattstjóri ritaði kærendum enn bréf, dags. 4. apríl 2003, þar sem hann gerði athugasemdir við tvö atriði í þeim útreikningi framfærslueyris sem fylgt hafði bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 31. mars 2003. Í fyrsta lagi benti skattstjóri á að ekki stæðist að taka reiknað endurgjald 445.920 kr. með til hækkunar í útreikningnum, enda væri þar aðeins um reiknaða fjárhæð að ræða. Í öðru lagi taldi skattstjóri að brunabætur, sem kærendur hefðu fengið að fjárhæð 5.363.898 kr., gætu ekki haft áhrif til hækkunar á framfærslueyri ársins 2001, enda hefðu þær verið greiddar út á árinu 2000, sbr. meðfylgjandi ljósrit af uppgjöri vátryggingafélagsins. Teldi skattstjóri framfærslueyri kærenda því enn neikvæðan sem næmi 2.042.765 kr. og væri óskað eftir skýringum kærenda á því.

Með bréfi, dags. 24. maí 2003, bárust svör umboðsmanns kærenda ásamt leiðréttu skattframtali árið 2002 og nýjum útreikningi framfærslueyris. Þar kom fram að kærandi, A, hefði á árinu 2001 tekið lán í Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 3.000.000 kr., en ekki hefði verið gerð grein fyrir því í skattframtali kærenda fyrir árið 2002. Hefði lánið verið tekið í nafni X ehf., en félagið hefði orðið gjaldþrota um áramótin 2001/2002. Kærandi, A, hefði tekið við lánsfénu og tekið yfir greiðslur lánsins. Um áramótin 2001/2002 hefði hann greitt 305.228 kr. af láninu og hefðu eftirstöðvar þess þá numið 2.900.000 kr. Þá hefði ekki verið gerð grein fyrir skuld kærenda við greiðslukortafyrirtæki, en kærandi, A, hefði skuldað 511.049 kr. og kærandi, B, 208.125 kr. Samkvæmt greindum útreikningi nam framfærslueyrir kærenda 1.440.152 kr.

Að undangengnum fyrrgreindum bréfaskiptum tók skattstjóri hið innsenda skattframtal til afgreiðslu með úrskurði, dags. 19. ágúst 2003. Hafnaði skattstjóri skattframtalinu sem tækum álagningargrundvelli. Skattstjóri féllst ekki á skýringar samkvæmt bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 24. maí 2003. Tók skattstjóri fram að X ehf. hefði ekki skilað skattframtali fyrir árið 2002 og þætti ekki sýnt að umrætt lán hefði verið nýtt til framfærslu kærenda. Taldi skattstjóri eftir atvikum rétt að lækka áætlun tekjuskatts- og útsvarsstofns kærenda hvors um sig í 1.000.000 kr. Álag samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 félli niður í tilviki kæranda, A, og lækkaði í 7.568 kr. í tilviki kæranda, B.

II.  

Umboðsmaður kærenda hefur með kæru, dags. 12. nóvember 2003, skotið úrskurði skattstjóra, dags. 19. ágúst 2003, til yfirskattanefndar. Kemur fram í kærunni að skattstjóri hafi hvorki ákvarðað kærendum vaxtabætur né barnabætur vegna tekjuársins 2001. Sé þess óskað að það verði gert.

III.

Með bréfi, dags. 9. janúar 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Með hinum kærða úrskurði hafnar skattstjóri framlögðu skattframtali kærenda en fellst á að lækka áætlaðar tekjur. Þar sem ekki liggur fyrir fullnægjandi skattframtal eru ekki forsendur til að ákvarða kærendum vaxtabætur og barnabætur og er þess krafist að kröfum kærenda verði synjað.“

IV.

Í hinum kærða úrskurði, dags. 19. ágúst 2003, hafnaði skattstjóri því að leggja innsent skattframtal kærenda árið 2002 til grundvallar álagningu opinberra gjalda þeirra gjaldárið 2002. Forsendur skattstjóra voru þær að hann taldi að skattframtalið fengi ekki staðist þar sem framfærslueyrir kærenda árið 2001 reiknaðist neikvæður um tilgreinda fjárhæð. Í þessu sambandi hafnaði skattstjóri skýringum umboðsmanns kærenda í bréfi, dags. 24. maí 2003, og meðfylgjandi útreikningi á framfærslueyri. Samkvæmt þessu og miðað við þær leiðréttingar kærenda, sem skattstjóri virðist hafa tekið gildar, sbr. bréf umboðsmanns kærenda, dags. 31. mars 2003, er að sjá sem skattstjóri hafi talið framfærslueyri kærenda neikvæðan um 2.042.765 kr., sbr. bréf skattstjóra, dags. 4. apríl 2003. Með greindum úrskurði sínum lækkaði skattstjóri hins vegar áætlun tekjuskatts- og útsvarsstofna kærenda í 1.000.000 kr. hjá hvoru um sig.

Samkvæmt kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. nóvember 2003, verður ekki annað ráðið en kærendur uni greindri ákvörðun skattstjóra um höfnun skattframtalsins og álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2002 sem byggðist á áætluðum skattstofnum samkvæmt lækkun skattstjóra. Kæruefnið er einskorðað við það að kærendum verði ákvarðaðar vaxtabætur og barnabætur gjaldárið 2002. Samkvæmt fyrirliggjandi álagningu skattstjóra voru kærendum ekki ákvarðaðar slíkar bætur.

Í 1. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, sbr. nú B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, er kveðið á um að maður sem skattskyldur er skv. 1. gr. laga nr. 75/1981 og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, eigi rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda geri hann grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Samkvæmt 3. mgr. nefnds stafliðar skulu vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta miðast við fjárhæð vaxtagjalda hjá hverjum framteljanda, sbr. skilgreiningu á vaxtagjöldum í 2. mgr. stafliðarins, en geta þó ekki orðið hærri en sem nemur 7% af skuldum sem stofnað hefur verið til vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota eins og þær eru í árslok. Jafnframt er kveðið á um hámark vaxtagjalda til ákvörðunar vaxtabóta. Samkvæmt 4. mgr. stafliðarins skal ákvarða vaxtabætur þannig að frá vaxtagjöldum, eins og þau séu skilgreind í 3. mgr., skal draga fjárhæð sem svarar til 6% af tekjuskattsstofni, eins og hann er nánar skilgreindur í 4. málsl. 4. mgr. Þannig ákvarðaðar vaxtabætur skerðast hlutfallslega fari eignir skv. 73. gr. laganna, að frádregnum skuldum skv. 1. mgr. 76. gr. laganna, fram úr 3.430.678 kr. hjá einstaklingi og einstæðu foreldri og 5.686.940 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki uns þær falli niður við 60% hærri fjárhæð. Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. B-liðar 69. gr. laganna falla vaxtabætur, sem eru lægri en 577 kr., niður. Í reglugerð nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta, er nánar fjallað um vaxtabætur og ákvörðun þeirra.

Hvorki í B-lið 69. gr. laga nr. 75/1981 né reglugerð nr. 990/2001 er sérstaklega vikið að því hvernig háttað sé rétti til vaxtabóta þegar svo stendur á að skattframtal liggur ekki til grundvallar álagningu heldur áætlaðir skattstofnar. Þar kemur einungis fram áskilnaður um að skattaðili geri grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, sbr. 1. mgr. B-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 og 2. gr. reglugerðar nr. 990/2001. Í skattframtali kærenda árið 2002 var í lið 5.2 gerð grein fyrir lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og vaxtagjöldum af því. Þær tilgreiningar breyttust ekki með leiðréttum skattframtölum. Þessi þáttur skattskila kærenda hefur ekki verið vefengdur sérstaklega hvorki af hálfu skattstjóra né ríkisskattstjóra. Að svo vöxnu og þegar litið er til eðlis vaxtabóta þykja ekki efni til annars en að ákvarða kærendum vaxtabætur á grundvelli umræddrar greinargerðar í samræmi við lagaskilyrði um vaxtabætur að teknu tilliti til skerðinga samkvæmt áætluðum skattstofnum. Samkvæmt þessu er fallist á kröfu kærenda hvað varðar vaxtabætur.

Víkur þá að barnabótum. Í 1. málsl. 1. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, sbr. nú A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, segir að með hverju barni innan 16 ára aldurs, sem heimilisfast sé hér á landi og sé á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna, skuli ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Kveðið er á um fjárhæð barnabóta í 3. og 4. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Í 4. mgr. eru jafnframt ákvæði um skerðingu tekjutengdra barnabóta vegna tekna, en í því sambandi ber að líta til tekjuskattsstofns svo sem hann er skilgreindur í 4. málsl. málsgreinarinnar. Í reglugerð nr. 63/1999, um greiðslu barnabóta, er nánar fjallað um barnabætur og ákvörðun þeirra.

Hvorki í A-lið 69. gr. laga nr. 75/1981 né reglugerð nr. 63/1999 er áskilið að réttur til barnabóta sé háður því að skattframtal liggi til grundvallar álagningu. Þá verður ekki talið að slíkur áskilnaður leiði af skerðingarreglum tekjutengdra barnabóta miðað við tekjuskattsstofn, sbr. 4. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Þegar til þessa er litið og eðlis barnabóta og jafnframt horft til þess, sem fyrir liggur um skattframkvæmd, verður ekki talið að höfnun skattframtals kærenda hafi, án sérstakrar lagaheimildar, girt fyrir rétt til barnabóta í tilviki þeirra, eins og skattstjóri hefur byggt á og ríkisskattstjóri tekur undir. Samkvæmt þessu er krafa kærenda tekin til greina hvað barnabætur varðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kærenda varðandi ákvörðun vaxtabóta og barnabóta gjaldárið 2002.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja