Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 525/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II   Reglugerð nr. 76/1988 — 2. gr. 2. mgr.  

Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Fyrri íbúðareign — Byggingarstig — Upphaf byggingar — Eignarhaldstími — Arfur — Eignarhluti í íbúð — Úttekt byggingar — Lögskýring

Málavextir eru þeir, að kærendur sóttu um húsnæðisbætur gjaldárið 1988, sbr. umsóknir þeirra, dags. 26. ágúst 1988, vegna kaupa á íbúðarhúsnæði að X þann 6. október 1986. Í umsóknunum kom fram, að kærendur hefðu átt íbúðarhúsnæði í smíðum frá því í október 1981 til 6. maí 1986. Um hefði verið að ræða einbýlishús að Y, er ekki hefði komist lengra en að vera fokheldur kjallari, þegar það hefði verið selt. Þá kom fram, að kærandi, A, hefði erft 11,11% í íbúð að Z, eftir afa sinn. Fram kom af hálfu kærenda í umsóknum þessum, að þau litu svo á, að íbúðarhúsnæði að X væri fyrsta íbúð í þeirra eigu með tilliti til réttar til húsnæðisbóta.

Ekki verður séð í málsgögnum, hvenær umsóknir þessar bárust skattstjóra. Álagning opinberra gjalda gjaldárið 1988 var kærð með kæru, dags. 24. ágúst 1988, og boðað að skattframtal árið 1988 yrði sent við fyrsta tækifæri. Þessari kæru vísaði skattstjóri frá með kæruúrskurði, dags. 7. nóvember 1988, á þeim forsendum, að rökstuðningur hefði ekki borist. Eigi verður séð, að kærendur hafi enn talið fram árið 1988. Með bréfum, dags. 26. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kærendum, að umsóknum þeirra um húsnæðisbætur gjaldárið 1988 hefði verið synjað með vísan til C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 92/1987, sbr. og reglugerð nr. 76/1988, um húsnæðisbætur. Forsendur skattstjóra voru svohljóðandi: „Í umsókn yðar um húsnæðisbætur kemur fram að þér hófuð byggingu einbýlishússins Y 1981 og selduð það fokhelt 1986. Skv. 2. mgr. 2. gr. fyrrnefndrar reglugerðar telst bygging húsnæðis hafin þegar undirstöðum byggingar er lokið. Við athugun á eldri skattframtölum yðar kemur í ljós að eignarhaldstími yðar á Y var lengri en tvö ár.“

Fyrrgreinda synjun skattstjóra kærðu kærendur með kæru, dags. 28. ágúst 1989. Er kæran svohljóðandi:

„Vegna kröfu undirritaðra til húsnæðisbóta álagningarárið 1988 eru meðfylgjandi gögn lögð fram til rökstuðnings kröfunni.

1. Afrit af kaupsamningi vegna sölu Y, sem hljóðar upp á sölu kjallara (neðri hæðar) hússins í tæplega fokheldu ástandi, og dags. er 6. maí 1986. Afhending fór fram samdægurs.

2. Afrit af samþykktum teikningum hússins Y, er sýna að kjallarinn, sem er að miklu leyti niðurgrafinn, er ekki ætlaður til íbúðar heldur sem geymslur, þvottaherbergi, bílskúr, salerni og tómstundir auk uppfyllts rýmis.

3. Staðfesting byggingarfulltrúans í Garðabæ, þess efnis að fokheldisvottorð fyrir húsið var gefið út þ. 24. júlí 1986, u.þ.b. 2 mánuðum eftir sala byggingarinnar fór fram.

Varðandi eignarhaldstíma undirritaðra á Y, þá var hann eftirfarandi:

1. 23.10.1981 - Úttekt gerð á sökklum.

2. 30.07.1982 - Úttekt gerð á lögnum í grunni.

3. 02.12.1983 - Úttekt gerð á veggjum í kjallara.

4. 16.02.1984 - Úttekt gerð á plötu í kjallara.

Eins og sést á þessari upptalningu þá stóðu framkvæmdir yfir í langan tíma, þar sem byggt var fyrir eigið fé og teljum við ekki sanngjarnt að okkur sé refsað fyrir að leggja eigið fé í steinsteypu frekar en í banka, með neitun á húsnæðisbótum.

Í ljósi ofangreindra atriða gera undirritaðir kröfu til húsnæðisbóta vegna kaupa á íbúð í X þ. 6. október 1986, sem þeirra fyrsta íbúðarhúsnæði.“

Með kæruúrskurði, dags. 28. september 1989, synjaði skattstjóri kröfu kærenda um húsnæðisbætur. Skattstjóri vísaði til þess, að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 76/1988, um húsnæðisbætur, sbr. reglugerð nr. 118/1988, um breyting á þeirri reglugerð, teldist bygging húsnæðis hafin, þegar undirstöðum væri lokið. Í kæru væri m.a. upplýst, að úttekt sökkla að Y, hefði verið gerð 23. október 1981. Fasteignin hefði verið seld 6. maí 1986 og því hefði eignarhaldstími varað lengur en 2 ár.

Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. október 1989, og þess krafist, að þeim verði ákvarðaðar húsnæðisbætur vegna kaupa á íbúð að X þann 6. október 1986 sem þeirra fyrsta íbúðarhúsnæði. Kærendur byggja kröfu sína á því, að ekki sé unnt að líta á Y sem íbúðarhúsnæði í þessu sambandi, þar sem einungis hafi verið um fokheldan kjallara að ræða. Vísa kærendur til gagna, er fylgdu kærunni til skattstjóra varðandi síðastnefnda eign og byggingarstig hennar.

Með bréfi, dags. 27. apríl 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Líta verður svo á, að til úrlausnar í máli þessu sé synjun skattstjóra um húsnæðisbætur til handa kærendum gjaldárið 1988, sbr. umsóknir kærenda um bætur þessar, dags. 26. ágúst 1988. Hugsanlegur réttur til húsnæðisbóta í tilviki kærenda yrði einungis byggður á bráðabirgðaákvæði II í lögum 49/1987, eins og því ákvæði var breytt með 14. gr. laga nr. 92/1987, þ.e.a.s. hvort kærendum bæri réttur til bótanna á þeim forsendum, að þau hefðu keypt eða hafið byggingu íbúðarhúsnæðis í fyrsta sinn á árunum 1984 - 1987 og uppfyllt að öðru leyti skilyrði C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Kærendur krefjast þess, að svo verði litið á, að íbúð sú, sem þau festu kaup á að X með kaupsamningi, dags. 6. október 1986, verði talin fyrsta íbúðarhúsnæði í eign þeirra, en ekki verði litið til eignarhalds þeirra á einbýlishúsi í smíðum að Y í þessu sambandi. Á síðastnefndan skilning kærenda verður eigi fallist. Hins vegar þykir verða að virða það hvenær kærendur hafi talist eignast umrætt húsnæði í skilningi nefnds bráðabirgðaákvæðis. Fjármálaráðherra hefur sett reglugerð skv. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, m.a. um það hvað teljist fyrsta íbúðarhúsnæði í eigu manns skv. lagaákvæði þessu. Er það reglugerð nr. 76/1988, um húsnæðisbætur, sbr. br. á þeirri reglugerð með reglugerð nr. 118/1988. Engin hliðstæð reglugerð hefur verið sett varðandi túlkun á nefndu bráðabirgðaákvæði II. Þegar litið er til þess sem upplýst er í máli þessu um lok framkvæmda við undirstöður hússins að Y, og með hliðsjón af 2. mgr. 2. gr. nefndrar reglugerðar þykir rétt að fallast á kröfur kærenda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja