Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur
  • Skaðabætur

Úrskurður nr. 410/2004

Virðisaukaskattur 2001

Lög nr. 50/1988, 16. gr. 1. mgr.   Reglugerð nr. 192/1993, 1. gr.  

Í máli þessu var því hafnað að kæranda, sem hafði með höndum búrekstur, væri heimilt að færa til innskatts virðisaukaskatt af reikningi frá Landssíma Íslands hf. vegna viðgerðar á ljósleiðarastreng í landi kæranda sem fór í sundur er kærandi vann að malartekju vegna framkvæmda á jörðinni. Varð ekki annað ráðið en að reikningurinn hefði í heild sinni falið í sér skaðabótakröfu á hendur kæranda hvað sem leið tilgreiningu virðisaukaskatts á honum.

I.

Kæruefni þessa máls, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 8. mars 2004, sbr. frekari rökstuðning með bréfi, dags. 1. apríl 2004, er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að synja kæranda um að telja til innskatts á uppgjörstímabilinu september-október 2001 virðisaukaskatt samkvæmt reikningi frá Landssíma Íslands hf., dags. 31. október 2001, sem tilgreindur er 496.029 kr. á reikningnum vegna viðgerðar á ljósleiðarastreng í landi kæranda, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 9. desember 2003.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 8. mars 2004, sbr. rökstuðning með bréfi, dags. 1. apríl 2004, er þess krafist að kærandi fái að nýta innskatt að fjárhæð 474.382 kr. (sic) samkvæmt greindum reikningi frá Landssíma Íslands hf.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 30. desember 2002, fór umboðsmaður kæranda fram á það við ríkisskattstjóra að skattframtal kæranda árið 2002 og virðisaukaskattsskil árið 2001 yrðu endurupptekin. Ástæðan væri gjaldareikningur að fjárhæð 2.024.609 kr. auk virðisaukaskatts. Deilt hefði verið um réttmæti reikningsins, en hvorki hefði fengist fram niðurfelling né lækkun hans. Reikningurinn væri frá Landssíma Íslands hf. vegna viðgerðarkostnaðar á ljósleiðarastreng er liggi í landi jarðar kæranda. Hefði kærandi unnið að malartekju í árfarvegi til lagfæringa á plani og slóð að útihúsum þegar strengurinn hefði farið í sundur. Kærandi hefði verið mjög ósáttur við reikning þennan og því ekki bókfært hann á réttum tíma. Að auki væri um að ræða nokkra reikninga sem borist hefðu bókhaldara of seint. Erindinu fylgdi leiðrétt landbúnaðarskýrsla fyrir rekstrarárið 2001 vegna breytinga á tilgreindum gjaldaliðum, þar á meðal gjaldfærslu greinds reiknings að fjárhæð 2.024.609 kr. Þá fylgdi leiðrétt virðisaukaskattsskýrsla þar sem innskattur var tilgreindur 504.708 kr.

Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda til úrlausnar með úrskurði, dags. 9. desember 2003, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Féllst hann á erindið hvað snerti almenn skattskil kæranda gjaldárið 2002 og hækkaði tap ársins um 2.060.204 kr. eða úr 3.852.225 kr. í 5.912.429 kr. og yfirfæranlegt tap til næsta árs um sömu fjárhæð eða úr 10.752.352 kr. í 12.812.556 kr. Hvað varðandi virðisaukaskatt þá féllst ríkisskattstjóri á hækkun innskatts um 8.679 kr. vegna tilgreindra reikninga og töldust 4.965 kr. til uppgjörstímabilsins janúar-júní 2001 og 3.714 kr. til uppgjörstímabilsins júlí-desember 2001. Hins vegar hafnaði ríkisskattstjóri innskattsfrádrætti vegna greinds reiknings frá Landssíma Íslands hf. með svofelldum rökum:

„Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, segir að til innskatts á hverju uppgjörstímabili skuli telja virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Ljóst er af erindinu að áðurnefndur reikningur frá Símanum varðar ekki sölu gjaldanda á vörum og skattskyldri þjónustu heldur er um að ræða skaðabótakröfu. Innskattsheimild er því ekki fyrir hendi. Rétt er hins vegar að benda á að virðisaukaskattsskyldur aðili sem verður fyrir tjóni í tengslum við virðisaukaskattsskylda starfsemi sína og ræðst sjálfur í það verk að bæta tjónið með því að gera við hinn skemmda mun, getur talið til innskatts virðisaukaskatt af kostnaði vegna aðfanga til viðgerðarinnar eftir almennum reglum. Komi bætur vegna tjónsins frá tjónvaldi leiða frádráttarheimild virðisaukaskatts og reglur skaðabótaréttar til þess að bótafjárhæð skráðs aðila miðast við kostnað án virðisaukaskatts.“

III.

Með kæru, dags. 8. mars 2004, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 9. desember 2003, til yfirskattanefndar. Í rökstuðningi umboðsmanns kæranda, sbr. bréf hans, dags. 1. apríl 2004, kemur fram að krafa kæranda sé sú að honum verði talið heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt að fjárhæð 474.382 kr. vegna reiknings frá Landssíma Íslands hf. Telji kærandi engin rök standa til annars en að honum verði talið heimilt að nýta innskattinn, en reikningurinn sé tilkominn vegna viðgerðar á ljósleiðarastreng sem kærandi hafi slitið þegar hann hafi verið að taka möl úr gryfju á jörð sinni „vegna búrekstrar“ síns.

IV.

Með bréfi, dags. 19. maí 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

V.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr. sömu laga, virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Í 2. mgr. lagagreinarinnar er fjármálaráðherra heimilað að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Á grundvelli nefndrar heimildar hefur fjármálaráðherra sett reglugerð nr. 192/1993, um innskatt. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að aðili sem skráður hafi verið skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, megi telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem frá og með skráningardegi falli á kaup hans á skattskyldum vörum og þjónustu til nota í rekstrinum, enda byggist innskattskrafa hans gagnvart ríkissjóði á skjölum og bókhaldi sem fullnægjandi er samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

Óumdeilt er að kærandi hefur með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi samkvæmt lögum nr. 50/1988. Fram er komið að virðisaukaskattur sá, sem kærandi gerir kröfu um að verði talinn til innskatts og nemur 496.029 kr. samkvæmt fyrirliggjandi reikningi, er til kominn vegna reiknings frá Landssíma Íslands hf., dags. 31. október 2001. Samkvæmt reikningnum er um að ræða kröfu að fjárhæð samtals 2.520.638 kr. með virðisaukaskatti vegna slits á ljósleiðarastreng í landi kæranda sem varð 4. júlí 2001. Er þetta í samræmi við lýsingu í erindi umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 30. desember 2002. Þar kom og fram að strengurinn hefði farið í sundur við malartekju kæranda vegna framkvæmda á jörðinni, sbr. og greinargerð, dags. 1. apríl 2004, með kæru til yfirskattanefndar. Samkvæmt þessu verður ekki annað ráðið en greindur reikningur hafi í heild sinni falið í sér skaðabótakröfu á hendur kæranda hvað sem líður tilgreiningu virðisaukaskatts á honum. Verður að telja að ekki sé um að ræða virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu eða öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. áskilnað 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja