Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Tímamörk endurákvörðunar

Úrskurður nr. 428/2004

Bifreiðagjald 2000-2004

Lög nr. 39/1988, 3. gr., 7. gr. 3. mgr. (brl. nr. 37/2000, 8. gr.)   Lög nr. 3/1987, 12. gr., 16. gr. (brl. nr. 68/1996)  

Skráningarmerki bifreiðar kæranda voru lögð inn til geymslu hjá skráningaraðila 2. desember 1999 og tekin út aftur 4. júlí 2000. Vegna mistaka skráningaraðila var úttekt merkjanna ekki færð í ökutækjaskrá sem hafði í för með sér að kæranda var ekki ákvarðað bifreiðagjald vegna gjaldtímabila eftir 1. gjaldtímabil ársins 2000. Þar sem sú vanálagning bifreiðagjalda átti alfarið rót sína að rekja til mistaka, sem kæranda varð ekki að neinu leyti kennt um, var fallist á með kæranda að ríkisskattstjóra hefði einungis verið heimilt að endurákvarða bifreiðagjald kæranda vegna síðustu tveggja ára sem næst voru á undan því ári sem endurákvörðun fór fram á. Var endurákvörðun bifreiðagjalds kæranda vegna áranna 2000 og 2001 því felld úr gildi.

I.

Með kæru, dags. 19. júlí 2004, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 26. apríl 2004, um endurákvörðun bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar S á 2. gjaldtímabili árið 2000, öllum gjaldtímabilum árin 2001, 2002 og 2003 og 1. gjaldtímabili árið 2004. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að endurákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að endurákvörðunin verði felld niður vegna áranna 2000 og 2001 og taki þannig einungis til áranna 2002, 2003 og 2004.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 5. febrúar 2004, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar S fyrir tímabilið 4. júlí 2000 til 30. júní 2004. Vísaði ríkisskattstjóri til erindis, sem borist hefði embættinu, þar sem fram kæmi að álagningu bifreiðagjalds vantaði frá úttekt númera bifreiðarinnar hinn 4. júlí 2000 til 30. júní 2004. Samkvæmt skráningu í ökutækjaskrá hefði kærandi eignast bifreiðina S hinn 29. febrúar 1996. Hefðu skráningarnúmer ökutækisins verið lögð inn 2. desember 1999 og tekin úr innlögn 4. júlí 2000. Vegna mistaka hefði úttekt númeranna ekki verið skráð í ökutækjaskrá og bifreiðagjald því ekki verið lagt á strax við úttekt númera. Um gjaldskyldu bifreiðagjalds skírskotaði ríkisskattstjóri til 3. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, þar sem fram kæmi að ef bifreiðir sem hefðu verið undanþegnar bifreiðagjaldi skv. d-lið 4. gr. laganna væru settar á skráningarmerki að nýju skyldi greiða bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir væri af gjaldtímabilinu og hæfist gjaldskyldan frá og með afhendingu skráningarmerkis. Félli gjald vegna skráðra bifreiða sem skráningarmerki væru sett á að nýju í eindaga við afhendingu skráningarmerkis. Um breytingaheimild vísaði ríkisskattstjóri til 3. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988. Kom fram að fyrirhugað væri að endurákvarða bifreiðagjald vegna framangreinds ökutækis tímabilið 4. júlí 2000 til loka 1. gjaldtímabils 2004, nánar tiltekið 6.699 kr. vegna 2. gjaldtímabils 2000, 6.810 kr. vegna 1. gjaldtímabils 2001, 6.810 kr. vegna 2. gjaldtímabils 2001, 7.409 kr. vegna 1. gjaldtímabils 2002, 7.409 kr. vegna 2. gjaldtímabils 2002, 7.409 kr. vegna 1. gjaldtímabils 2003, 7.409 kr. vegna 2. gjaldtímabils 2003 og 7.490 kr. vegna 1. gjaldtímabils 2004.

Umboðsmaður kæranda andmælti boðuðum breytingum á bifreiðagjaldi með bréfi, dags. 26. febrúar 2004. Í bréfinu kom fram að vanálagning bifreiðagjalds árin 2000-2004 væri vegna mistaka sem kæranda yrði ekki kennt um. Yrði ekki fallið frá hinni boðuðu endurákvörðun væri þess krafist til vara að endurákvörðun bifreiðagjalds tæki einungis til áranna 2002, 2003 og 2004. Um rökstuðning fyrir þeirri kröfu væri vísað til 3. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. 12. og 16. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar.

Með úrskurði, dags. 26. apríl 2004, hratt ríkisskattstjóri í framkvæmd boðaðri ákvörðun bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar S fyrir 2. gjaldtímabil árið 2000, öll gjaldtímabil áranna 2001, 2002 og 2003 og 1. gjaldtímabil árið 2004. Álagt bifreiðagjald samkvæmt úrskurðinum nam alls 57.445 kr. Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri málavexti og rök fyrir ákvörðun gjaldsins með hliðstæðum hætti og í boðunarbréfi. Tók ríkisskattstjóri fram að það lægi fyrir í málinu að skráningarnúmer bifreiðarinnar hefðu verið tekin úr geymslu 4. júlí 2000 og væri greiðsluskylda kæranda því óumdeild. Máli sínu til stuðnings vísaði ríkisskattstjóri til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 158/2003. Þá benti ríkisskattstjóri á að kæranda hefði mátt vera fullljóst að henni hafi borið að greiða bifreiðagjald af bifreið sinni, enda hefði því ekki verið haldið fram að undanþáguákvæði laga nr. 39/1988 ættu við í málinu. Vegna tilvísunar umboðsmanns kæranda til 16. gr. laga nr. 3/1987 kom fram í úrskurði ríkisskattstjóra að því væri alfarið hafnað að ríkisskattstjóri hefði haft í fórum sínum gögn til að byggja álagningu á þar sem skráning í ökutækjaskrá hefði verið röng. Um mistök skráningaraðila væri að ræða sem komið hefðu í ljós við aðalskoðun bifreiðarinnar 21. janúar 2004, en kæranda hefði mátt vera ljóst þegar í janúar 2001 að ekki væri allt með felldu varðandi álagningu bifreiðagjalds, enda hefði engin tilkynning um álagningu bifreiðagjalds þá borist henni. Bifreiðagjald væri lagt á í samræmi við skráningu í ökutækjaskrá og yrði ríkisskattstjóri að treysta því að skráning væri rétt þar til annað kæmi í ljós.

III.

Með kæru, dags. 19. júlí 2004, hefur umboðsmaður kæranda skotið framangreindum úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 26. apríl 2004, um endurákvörðun á bifreiðagjaldi bifreiðarinnar S, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi í öllum atriðum. Til vara er gerð sú krafa að endurákvörðun bifreiðagjalds taki einungis til áranna 2002, 2003 og 2004. Er ítrekað að málið sé sprottið af mistökum sem kæranda verði ekki á neinn hátt kennt um. Þá kemur fram, vegna athugasemda ríkisskattstjóra þess efnis að kæranda hefði mátt vera ljóst í janúar 2001 að mistök hefðu átt sér stað varðandi álagningu bifreiðagjalds, að kærandi hafi um árabil nýtt sér greiðsluþjónustu banka þannig að henni hafi ekki verið kunnugt um að greiðsluseðill vegna bifreiðagjalds hefði ekki borist. Varðandi varakröfu kemur fram að hún sé byggð á ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og 16. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, þar sem fram komi að verði skattskyldum aðila ekki um það kennt að þungaskattur hafi verið vanálagður sé óheimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst séu á undan því ári sem endurákvörðun fer fram á. Bendir umboðsmaður kæranda á að því fari víðs fjarri að kæranda verði kennt um meinta vanálagningu bifreiðagjalds og rökstuðningur ríkisskattstjóra í því sambandi fái með engu móti staðist.

IV.

Með bréfi, dags. 24. september 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Umboðsmaður kæranda krefst þess að bifreiðagjald vegna ökutækisins S fyrir 2. gjaldtímabil 2000, 1. og 2. gjaldtímabil 2001, 1. og 2. gjaldtímabil 2002, 1. og 2. gjaldtímabil 2003 og 1. gjaldtímabil 2004 verði fellt niður. Til vara er þess krafist að endurákvörðun taki einungis til 1. og 2. gjaldtímabils 2002, 1. og 2. gjaldtímabils 2003 og 1. gjaldtímabils 2004. Kæranda verði á engan hátt kennt um þá meintu vanálagningu sem hér um ræðir. Varakrafa er byggð á ákvæðum 3. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald og 16. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar.

Samkvæmt skráningu í ökutækjaskrá eignaðist kærandi bifreiðina S þann 29. febrúar 1996. Skráningarnúmer bifreiðarinnar voru lögð inn til geymslu þann 2. desember 1999 og tekin út aftur þann 4. júlí 2000. Vegna mistaka var úttekt númera ekki skráð í ökutækjaskrá og bifreiðagjald því ekki lagt á frá úttekt númera. Skráning í ökutækjaskrá var leiðrétt þann 29. janúar 2004. Ríkisskattstjóri boðaði endurákvörðun bifreiðagjalds frá 4. júlí 2000 til 30. júní 2004 með bréfi dags. 5. febrúar 2004. Ríkisskattstjóri hratt hinni boðuðu endurákvörðun í framkvæmd með bréfi dags. 26. apríl 2004.

Í 1. gr. 1. mgr. laga nr. 39/1988 um bifreiðagjald, segir; „Greiða skal til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögum þessum.“ Í 1. og 3. mgr. 3. gr. sömu laga er fjallað um gjalddaga og gjaldskylda aðila.

Í 3. gr. laga nr. 39/1988 um bifreiðagjald, segir að „Ef bifreiðir sem hafa verið undanþegnar bifreiðagjaldi skv. d-lið 4. gr. eru settar á skráningarmerki að nýju skal greiða bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af gjaldtímabilinu og hefst gjaldskyldan frá og með afhendingu skráningarmerkis. Gjald vegna skráðra bifreiða sem skráningarmerki eru sett á að nýju fellur í eindaga við afhendingu skráningarmerkis.“

Í máli þessu er því ekki mótmælt að skráningarmerkin hafi verið afhent þann 4. júlí 2000 og er greiðsluskylda kæranda því óumdeild. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 158/2003, en það mál fjallaði um greiðsluskyldu eiganda ökutækis á bifreiðagjaldi og þungaskatti þar sem úttekt númera var ekki skráð í ökutækjaskrá fyrr en ári eftir úttekt, segir: „Samkvæmt þessu og í samræmi við almenn ákvæði um gjaldskyldu til bifreiðagjalds í lögum nr. 39/1988, sbr. 1.-3.gr. þeirra laga bar kæranda að standa skil á því gjaldi, ... enda þykir ekki geta skipt máli um gjaldskyldu þótt upplýst sé að mistök skráningaraðila hafi valdið því að kæranda var ekki ákvarðað bifreiðagjald og fast gjald þungaskatts vegna framangreindra greiðslutímabila á gjalddaga þeirra.“

Í sama máli (úrsk. yskn. nr. 158/2003) kom fram að endurákvörðunarheimildir í 12. gr. laga nr. 3/1987, sbr. a-lið 15. gr. laga nr. 68/1996 og í 16. gr. laganna, taki einnig til bifreiðagjalds með hliðstæðum hætti sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 3/1988, sbr. 8. gr. laga nr. 37/2000. Framagreind ákvæði kveða á um heimildir ríkisskattstjóra til að endurákvarða fast gjald þungaskatts ef í ljós kemur að ökutæki hafi verið í röngum gjaldflokki, ranglega skráð í ökutækjaskrá eða að fast gjald þungaskatts hafi ekki verið réttilega á lagt. Í 16. gr. sömu laga segir að heimild til endurákvörðunar skatts skv. 12. gr. nái til þungaskatts síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fari fram nema ef þungaskattsskyldum aðila verði eigi um það kennt sé eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram.

Með hliðsjón af framangreindu telur ríkisskattstjóri að leggja beri á bifreiðagjald frá 4. júlí 2000 til 30. júní 2004. Kæranda mátti vera fulljóst sem eiganda ökutækisins að honum bar að greiða bifreiðagjald af bifreið sinni frá úttekt númera enda hefur því ekki verið haldið fram að önnur undanþáguákvæði nefndra laga eigi við í málinu. Með hliðsjón af tilvísun umboðsmanns kæranda í 16. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, er því alfarið hafnað að ríkisskattstjóri hafi haft í fórum sínum gögn til að byggja álagningu á þar sem skráning í ökutækjaskrá var röng. Við álagningu bifreiðagjalds er horft til skráningar í ökutækjaskrá og verður ríkisskattstjóri alfarið að treysta því að skráning þar sé rétt þar til annað kemur í ljós. Mistök við skráningu númera komu fyrst í ljós við aðalskoðun bifreiðar þann 21. janúar 2004 en kæranda mátti vera ljóst strax í janúar 2001 að ekki væri allt með felldu þegar engin tilkynning um álagningu bifreiðagjalds barst frá innheimtumanni eða ríkisskattstjóra. Þótt kærandi hafi nýtt sér greiðsluþjónustu bankanna mátti hann sjá á yfirliti frá bankanum að ekkert bifreiðagjald var greitt þar sem enginn greiðsluseðill barst bankanum.

Ríkisskattstjóri fer fram á að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 158/2003 auk þeirra röksemda sem fram koma í kröfugerð ríkisskattstjóra, þar sem framkomin gögn og málsástæður varðandi kæruefnið gefa ekki tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 29. september 2004, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefin kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 18. október 2004, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kemur m.a. fram í bréfinu að ekki verði séð að úrskurður yfirskattanefndar nr. 158/2003 eigi við í máli kæranda miðað við þær málsástæður sem byggt sé á af hálfu kæranda, þ.e. að tímamörk til endurákvörðunar bifreiðagjalds hafi verið liðin þegar ríkisskattstjóri hratt hinni kærðu endurákvörðun í framkvæmd. Eru fyrri röksemdir kæranda ítrekaðar, m.a. varðandi ákvæði 16. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Þá er áréttað að kærandi geti ekki frekar en aðrir bifreiðaeigendur borið ábyrgð á skráningu bifreiða í ökutækjaskrá. Sé því jafnframt vísað á bug að kærandi hafi vísvitandi komið sér undan greiðslu bifreiðagjalds.

V.

Samkvæmt gögnum málsins voru skráningarmerki bifreiðar kæranda lögð inn til geymslu hjá Skráningarstofunni hf., sem annaðist skráningu ökutækja og hélt ökutækjaskrá, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 78/1997, um skráningu ökutækja, hinn 2. desember 1999. Merkin voru tekin út aftur hinn 4. júlí 2000. Er kærandi tók út skráningarmerkin munu þau mistök hafa átt sér stað hjá skráningaraðila að ekki var fært í ökutækjaskrá að skráningarmerkin hefðu verið tekin í notkun. Vegna hinnar röngu skráningar um geymslu skráningarmerkja hjá skráningaraðila var bifreiðagjald samkvæmt lögum nr. 39/1998, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, ekki ákvarðað vegna 2. gjaldtímabils árið 2000 né vegna síðari gjaldtímabila sem málið varðar.

Þar sem óumdeilt er í máli þessu að skráningarmerki bifreiðarinnar S voru ekki afhent skráningaraðila til varðveislu á nýjan leik eftir að kærandi fékk þau afhent 4. júlí 2000 geta undanþáguákvæði d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 ekki átt við í tilviki kæranda. Þá verður ekki séð og hefur ekki verið haldið fram af hálfu kæranda að önnur undanþáguákvæði nefndra laga eigi við í málinu. Samkvæmt þessu og í samræmi við almenn ákvæði um gjaldskyldu til bifreiðagjalds í lögum nr. 39/1988, sbr. 1.–3. gr. þeirra laga, bar kæranda að standa skil á því gjaldi vegna þeirra gjaldtímabila sem í málinu greinir, enda þykir ekki geta skipt máli um gjaldskyldu þótt upplýst sé að mistök skráningaraðila hafi valdið því að kæranda var ekki ákvarðað bifreiðagjald vegna framangreindra gjaldtímabila á gjalddaga þeirra. Samkvæmt þessu verður aðalkrafa kæranda um niðurfellingu hinnar kærðu endurákvörðunar ríkisskattstjóra í heild sinni ekki tekin til greina. Víkur þá að varakröfu kæranda.

Í 12. gr. laga nr. 3/1987, sbr. a-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, er kveðið á um heimild ríkisskattstjóra til að endurákvarða fast gjald þungaskatts ef í ljós kemur að ökutæki hafi verið í röngum gjaldflokki, ranglega skráð í ökutækjaskrá eða að fast gjald þungaskatts hafi ekki verið réttilega á lagt. Í 16. gr. laganna segir að heimild til endurákvörðunar skatts samkvæmt 12. gr. nái til þungaskatts síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fari fram. Verði skattskyldum aðila eigi um það kennt að þungaskattur hafi verið vanálagður sé þó eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram á. Telja verður að endurákvörðunarheimildir þessar taki til bifreiðagjalds með hliðstæðum hætti, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 3/1988, sbr. 8. gr. laga nr. 37/2000, þar sem segir að um málsmeðferð að öðru leyti en greini í 1. og 2. mgr. lagagreinarinnar fari samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, sbr. einnig athugasemdir með 8. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/2000.

Fyrir liggur að sú vanálagning bifreiðagjalda vegna bifreiðarinnar S sem málið varðar á alfarið rót sína að rekja til mistaka sem kæranda verður ekki að neinu leyti kennt um. Eins og atvikum er háttað verður að telja einsýnt að niðurlagsákvæði 16. gr. laga nr. 3/1987 eigi við í tilviki kæranda, eins og umboðsmaður kæranda heldur fram, sbr. til hliðsjónar niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 296/2000. Hin kærða endurákvörðun fór fram 26. apríl 2004 og tók til bifreiðagjalds vegna 2. gjaldtímabils árið 2000, vegna allra gjaldtímabila árin 2001, 2002 og 2003 og vegna 1. gjaldtímabils árið 2004. Gjalddagar bifreiðagjalds eru 1. janúar ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní og 1. júlí ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. júlí til 31. desember, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988. Er upphaf gjaldárs 1. janúar ár hvert. Samkvæmt framansögðu og með tilliti til orðalags niðurlagsákvæðis 16. gr. laga nr. 3/1987 verður að telja að frestur til endurákvörðunar bifreiðagjalds kæranda vegna áranna 2000 og 2001 hafi verið liðinn þegar ríkisskattstjóri hratt endurákvörðuninni í framkvæmd hinn 26. apríl 2004. Er því fallist á varakröfu kæranda um niðurfellingu endurákvörðunar ríkisskattstjóra að því er varðar þau gjaldtímabil árin 2000 og 2001 sem um ræðir.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Endurákvörðun bifreiðagjalds kæranda vegna áranna 2000 og 2001 er felld úr gildi. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja