Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur
  • Álag

Úrskurður nr. 404/2002

Gjaldár 1997-1999

Virðisaukaskattur 1996-1998

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 41. gr., 106. gr. 2. mgr.   Lög nr. 50/1988, 16. gr., 27. gr.   Reglugerð nr. 483/1994, 6. gr. d-liður.  

Kærandi í máli þessu var einkahlutafélag í eigu hjóna og var deilt um frádráttarbærni ýmiss kostnaðar og innskatts í skattskilum félagsins, m.a. vegna standsetningar starfsaðstöðu á heimili eigenda kæranda. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að þegar hluti íbúðarhúsnæðis væri nýttur sem rekstraraðstaða yrði að gera ríkar kröfur um sundurliðun og aðgreiningu þess kostnaðar sem leiddi beinlínis af rekstraraðstöðunni og tilheyrði henni og þess kostnaðar sem tilheyrði eigendum húsnæðisins og tengdist ekki tekjuöflun í rekstri. Bæri undir kæranda að sýna fram á slíkan kostnað. Var kröfum kæranda um gjaldfærslu kostnaðar vegna vinnu iðnaðarmanna og kaupa á húsbúnaði að mestu leyti hafnað. Fallist var á að hækka frádrátt vegna risnu frá því sem skattstjóri ákvað. Kröfu kæranda um niðurfellingu álags var hafnað.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2001, eru af hálfu umboðsmanns kæranda kærðir úrskurðir skattstjóra, dags. 3. apríl 2001, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 1997, 1998 og 1999 annars vegar og virðisaukaskatts árin 1996 og 1998 hins vegar. Kæruefnið eru tilteknar breytingar á skattframtölum kæranda umrædd ár auk beitingar álags á vantalda skattstofna og vangreiddan virðisaukaskatt. Krefst kærandi þess aðallega að endurákvörðun skattstjóra verði felld niður þannig að opinber gjöld félagsins nefnd gjaldár standi óbreytt sem og virðisaukaskattur umrædd ár, en til vara að endurákvörðun skattstjóra verði lækkuð verulega. Þá er krafist niðurfellingar álags. Jafnframt er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði að fjárhæð 291.516 kr. samkvæmt framlögðu yfirliti um málskostnað eða að mati yfirskattanefndar.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem er einkahlutafélag í eigu A og B, rekur tölvuráðgjöf og sálfræðiþjónustu. Á þeim tíma sem málið varðar hafði félagið aðsetur á heimili eigendanna að K-götu, en flutti starfsemi sína að R-götu á árinu 2000.

Með bréfi, dags. 12. maí 2000, krafði skattstjóri kæranda um skýringar og gögn varðandi tiltekna gjaldaliði í rekstrarreikningum félagsins fyrir árin 1996, 1997 og 1998, sbr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í framhaldi af því fór skattstjóri þess á leit við eigendur kæranda, sem jafnframt rekstri kæranda höfðu með höndum sjálfstæða starfsemi, að eftirlitsmenn skattstjóra fengju að skoða starfsstöðvar þeirra og félagsins. Fór athugun þessi fram 30. ágúst 2000, sbr. skýrslu, dags. sama dag, vegna eftirlitsferðar að K-götu og R-götu.

Í skýrslu skattstjóra, dags. 30. ágúst 2000, kom m.a. fram að tilefni eftirlitsferðarinnar væri að kanna starfsaðstöðu bæði kæranda og B, vegna sjálfstæðrar starfsemi hennar, sem og að kanna staðsetningu húsgagna og húsbúnaðar sem gjaldfærður hefði verið í rekstri beggja þessara aðila. Í skýrslunni var haft eftir öðrum eigenda kæranda að starfsaðstaða að K-götu væri einungis smávægileg eftir að starfsemin hefði flutt að R-götu. Væri um að ræða opið skot u.þ.b. 6 fermetra að stærð. Þar hefði verið staðsett tölva ásamt tölvuborði og skrifborðsstól, stóru antikskrifborði og antikloftljósi. Í borðstofu hefðu verið bókahillur frá Ikea, stór antikbókaskápur og antikskrifborðsstóll. Þá kom fram í skýrslunni að samkvæmt upplýsingum eigenda kæranda hefði húsnæðið að R-götu, sem væri á þremur hæðum, verið afhent í mars 2000 og þá verið hafnar endurbætur á því. Þegar starfsmenn skattstjóra hefðu komið að R-götu þann 30. ágúst 2000, hefði á fyrstu hæð hússins verið eldhús, biðstofa og stórt herbergi sem ætlað hefði verið til sálfræðiþjónustu. Í eldhúsinu og borðstofunni hefðu verið nýir stólar, en í herberginu antiksófasett, sófaborð, lítill antikskápur, tölvuborð og tölva. Á annarri hæð hússins hefði verið fundarherbergi með nýjum stólum og stór skrifstofa fyrir tölvuþátt í starfsemi kæranda. Þar hefðu verið skrifstofuhúsgögn, hillur og skrifborð, ruggustóll, stór sófi og skrifborðsstóll. Á þriðju hæð hússins hefðu verið tvö auð herbergi, baðherbergi og geymsla þar sem hefði verið gamall tölvubúnaður og skápur.

Skýrsla skattstjóra, dags. 30. ágúst 2000, var send kæranda með bréfi, dags. sama dag, og með greinargerð, sem móttekin var hjá skattstjóra 13. september 2000, gerðu eigendur kæranda fyrir sína hönd og félagsins athugasemdir við skýrsluna. Fram kom m.a. að þótt aðalskrifstofa kæranda hefði verið flutt að R-götu væri staðreyndin sú að enn færi fram mikilvæg þjónusta við viðskiptamenn félagsins frá heimaskrifstofu að K-götu, eins og það var orðað. Svo myndi einnig verða í framtíðinni, en um væri að ræða bilanaþjónustu utan venjulegs vinnutíma, auk forritunarvinnu og fleira sem upp var talið. Vegna þessa væri nauðsynlegt að til staðar væri lágmarks skrifstofuaðstaða að K-götu, skrifborð, stólar, tölva, bókahillur og læsanlegur skápur, eins og nánar var rakið. Borðstofa sú sem nefnd hefði verið í skýrslu skattstjóra hefði fram til vors árið 2000 verið skrifstofa kæranda. Hún væri nú hluti af tvískiptri stofu, en áður hefði verið lokað á milli herbergjanna. Þá voru gerðar athugasemdir við notkun skattstjóra á hugtakinu antik og tekið fram að ekki hefðu verið keyptir slíkir gripir á vegum kæranda, og gerð frekari grein fyrir þeim húsgögnum sem um ræddi.

Með bréfi, dags. 4. september 2000, óskaði skattstjóri eftir frekari skýringum varðandi tiltekna gjaldaliði í rekstrarreikningum kæranda fyrir árin 1996, 1997 og 1998 og þar tilgreind fylgiskjöl. Bréfi þessu var svarað af hálfu kæranda með bréfi, dags. 22. október 2000.

Með bréfi, dags. 1. desember 2000, boðaði skattstjóri hinar kærðu breytingar á skattframtölum kæranda árin 1997, 1998 og 1999 og virðisaukaskatti árin 1996, 1997 og 1998. Af hálfu umboðsmanns kæranda var boðuðum breytingum mótmælt með bréfi, dags. 31. janúar 2001, og í framhaldi af því hratt skattstjóri breytingunum að mestu í framkvæmd með tveimur úrskurðum, dags. 3. apríl 2001, annars vegar um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 1997, 1998 og 1999 og hins vegar um endurákvörðun virðisaukaskatts árin 1996 og 1998.

III.

Áður en vikið verður að einstökum ágreiningsefnum málsins er rétt að gera í stuttu máli grein fyrir frásögn umboðsmanns kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2001, um starfsemi kæranda og starfsaðstöðu. Fram kemur að samkvæmt stofnsamningi félagsins sé markmið þess einkum tölvuráðgjöf og sálfræðiþjónusta, en annar eigenda kæranda sé sérfræðingur á fyrrnefnda sviðinu en hinn á því síðarnefnda. Til að reisa sér ekki hurðarás um öxl hafi eigendur félagsins ákveðið að hefja starfsemi þess í íbúðarhúsnæði sínu sem aftur hafi kallað á nokkrar breytingar á húsnæðinu. Meðal annars hafi verið settur upp veggur á efri hæð hússins þar sem tölvubúnaður hafi verið á tímabilinu 1. janúar 1996 til 30. júlí 1996. Skilrúm hafi verið sett upp í stofu á neðri hæð þegar tölvubúnaður hafi verið fluttur þangað 1. ágúst 1996. Einnig hafi húsgögn verið bólstruð, WC-kassi keyptur, skipt um hurðarhúna o.fl. Eftir að starfsemi kæranda jókst hafi verið ákveðið að flytja starfsemina annað og hafi það verið gert á árinu 2000. Varðandi tölvuþátt starfseminnar kemur fram að aðallega sé um að ræða umsjón með hugbúnaði tilgreindra erlendra aðila. … Jafnframt rekur umboðsmaður kæranda viðskipti kæranda við tilgreinda aðila á árunum 1998, 1999 og 2000 og tilgreinir tekjur félagsins af þeim viðskiptum. Varðandi sálfræðiþátt starfseminnar kemur fram að vegna tiltekinna atvika hafi hann farið seinna af stað en í upphafi var ætlað og hafi því á árunum 1996 og 1997 aðallega verið um að ræða skipulags- og undirbúningsvinnu en starfsemin sé nú aðallega á sviði fjölskylduráðgjafar. Þá gerir umboðsmaður kæranda athugasemdir varðandi skoðun starfsmanna skattstjóra á húsnæði kæranda. Farist hafi fyrir að starfsmönnum skattstjóra væri boðið að skoða efri hæð K-götu þar sem starfsemi kæranda hafi byrjað, en af hálfu kæranda hafi verið á þetta bent í bréfi til skattstjóra, dags. 31. janúar 2001, og skorað á skattstjóra að skoða húsnæðið aftur þannig að ekki færi milli mála hver aðstaðan hefði verið.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir ágreiningsefnum málsins og helstu sjónarmiðum aðila:

1. Standsetning skrifstofuhúsnæðis.

Með bréfi sínu, dags. 4. september 2000, óskaði skattstjóri eftir skýringum varðandi tuttugu tiltekin fylgiskjöl úr bókhaldi kæranda vegna gjaldaliðarins „Standsetning skrifstofuhúsnæðis“ að fjárhæð 166.421 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1996. Af hálfu kæranda kom fram í bréfi, dags. 22. október 2000, að allur þessi kostnaður væri tilkominn vegna þess að útbúin hefði verið aðstaða fyrir starfsemi kæranda að K-götu, og hefði ekki fallið til að öðrum kosti. Af þeim sökum væri talið að kærandi ætti að bera umræddan kostnað, en það hefði verið hagur félagsins á þessum tíma að nýta þessa aðstöðu í stað þess að koma sér upp aðstöðu annars staðar. Varðandi fylgiskjöl nr. 7, 34 og 115, sem voru vegna kaupa á WC-kassa, borvél og borasetti og tíu hurðarhúnum, kom fram sérstaklega að gera hefði þurft aðstöðu kæranda boðlega viðskiptavinum. Borvél og borasett hefði síðar reynst gagnlegt við breytingar á starfsaðstöðu kæranda að R-götu. Varðandi fskj. nr. 200 og 203 kom fram að þau væru vegna kaupa á gluggatjöldum sem hefðu þótt nauðsynleg vegna sólarljóss og endurskins af tölvuskjáum.

Skattstjóri lækkaði umræddan gjaldalið í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1996 um áætlaðar 80.000 kr. og innskatt um áætlaðar 19.600 kr. árið 1996. Í boðunarbréfi skattstjóra, dags. 1. desember 2000, kom fram að af hálfu kæranda hefði ekki verið vikið sérstaklega að einstökum kostnaðarfylgiskjölum heldur hefðu svör félagsins verið mjög almenn. Ekki hefði verið gerð grein fyrir því í hverju breytingar á húsnæði eigenda kæranda hefðu verið fólgnar eða gefnar skýringar á þörf fyrir tíu hurðarhúna, panil og þilull í því sambandi eða hvernig kaup á WC-kassa tengdust frekar tekjuöflun félagsins en heimili eigendanna. Í úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 3. apríl 2001, kom jafnframt fram að miðað við þær upplýsingar sem fram hefðu komið af hálfu kæranda um eðli starfseminnar hlyti að heyra til undantekninga að viðskiptavinir þyrftu að koma til starfsstöðvar félagsins. Þætti því ótrúverðugt að leggja hefði þurft í verulegan kostnað til að koma upp aðstöðu vegna móttöku viðskiptavina, hvað þá að útbúa sérstakt gestasalerni. Tók skattstjóri fram í þessu sambandi að engin sálfræðiþjónusta hefði verið á vegum félagsins á árinu 1996. Þá yrði ekki séð að það hefði verið rekstrarleg nauðsyn að skipta um alla hurðarhúna í húsinu. Verulega þætti skorta á að sýnt hefði verið fram á að allur umræddur kostnaður gæti talist frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, og því ekki hægt að fallast á gjaldfærsluna óbreytta.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2001, er þess krafist að lækkun skattstjóra verði felld niður. Umboðsmaður kæranda byggir í fyrsta lagi á því að skattstjóri hafi ekki rökstutt ákvörðun sína á fullnægjandi hátt, m.a. ekkert vikið að einstökum kostnaðarliðum. Í öðru lagi er á því byggt í kærunni að efnisrök standi ekki til breytinga skattstjóra. Er í því sambandi lögð áhersla á að framkvæmdir á heimili eigenda kæranda, sem farið hafi verið í vegna starfsemi félagsins, hafi fyrst og fremst gengt því hlutverki að afmarka starfsaðstöðuna frá heimili eigendanna, auk þess að gera aðstöðuna boðlega viðskiptamönnum félagsins. Flest það sem gert hafi verið hafi nú verið fjarlægt og fargað eða nýtt að R-götu. Sé hafið yfir allan vafa að öll þau útgjöld sem um sé deilt samkvæmt þessum kærulið hafi varðað tekjuöflun kæranda og því frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Þá gerir umboðsmaður kæranda frekari grein fyrir kostnaði samkvæmt þeim fylgiskjölum sem skattstjóri gerði athugasemdir við. Fram kemur m.a. að þilull hafi verið notuð til einangrunar í vegg sem settur hafi verið upp á efri hæð K-götu, hurð hafi einnig verið notuð þar, geymsla hafi verið gerð að gestasalerni og klósettkassi nýttur þar, borvél og borasett hafi verið keypt til að nota við umræddar framkvæmdir en þessir hlutir nýtist einnig í starfsemi kæranda að öðru leyti, hurðarhúna hafi þurft á hurðir fyrir þau tvö herbergi sem nýtt hafi verið fyrir kæranda og þar sem ekki hafi fengist eins húnar og fyrir voru á öðrum hurðum í húsinu hafi öllum húnunum verið skipt út. Þessir hurðarhúnar hafi síðan verið teknir niður aftur þegar starfsemi kæranda var flutt að R-götu og þeir nýttir þar. Gardínur hafi verið keyptar ásamt gardínubrautum og settar fyrir glugga á herbergi kæranda á neðri hæð K-götu.

Umboðsmaður kæranda tekur jafnframt fram að félagið hafi haft starfsstöð sína að K-götu í u.þ.b. fimm ár. Þær framkvæmdir sem ráðist hafi verið í vegna þessa á árinu 1996 hafi verið úr sér gengnar þegar kærandi flutti starfsemi sína að R-götu og því ekki komið eigendum félagsins að neinum notum. Þau hafi miklu frekar haft kostnað af því að koma húsnæðinu í samt lag aftur. Er þess krafist að allur gjaldfærður kostnaður samkvæmt þessum kærulið fái að standa óbreyttur og virðisaukaskattur teljist til innskatts kæranda.

2. Gjaldfærð fjárfesting (vinna iðnaðarmanns, kaup myndbandstækis).

Skattstjóri felldi niður úr liðnum „Gjaldfærð fjárfesting“ í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1996 gjaldfærslur að fjárhæð 50.000 kr. samkvæmt fskj. nr. 118 vegna vinnu iðnaðarmanns við breytingar á húsnæði að K-götu og 24.048 kr. samkvæmt fskj. nr. 213 vega kaupa á myndbandstæki. Þá felldi skattstjóri niður innskatt af þessum liðum samtals 18.142 kr. Í boðunarbréfi skattstjóra, dags. 1. desember 2000, kom fram að skýringar kæranda um tengsl fyrrnefndu útgjaldanna við rekstur félagsins þættu mjög óljósar, en varðandi síðarnefndu útgjöldin kom fram að skýringar samræmdust ekki starfsemi kæranda. Af hálfu kæranda hefði komið fram að myndbandstæki hefði verið keypt til að skoða myndbönd um viðhald tiltekins tölvubúnaðar, en samkvæmt upplýsingum um starfsemi félagsins væri hún fólgin í viðhaldi og endurbótum á hugbúnaði en ekki vélbúnaði. Í úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 3. apríl 2001, kom fram að við heimsókn eftirlitsfulltrúa skattstjóra á starfsstöð kæranda þann 30. ágúst 2000 hefðu eigendur félagsins ekki minnst á aðstöðu á efri hæð K-götu. Yrði því að telja að kostnaður við endurbætur á efri hæð hússins væri persónulegur kostnaður eigenda kæranda. Að því er varðar myndbandstæki kom fram að í ljósi framkominna skýringa þætti ekki unnt að draga í efa að á vegum kæranda hefði farið fram einhver vélbúnaðarvinna. Á hinn bóginn væri um svo persónubundinn kostnað að ræða, einkum þegar starfsemi væri inni á heimili, að ekki væri unnt að telja hann til rekstrarkostnaðar kæranda þótt um einhver tilfallandi not tækisins í þágu rekstrarins kynni að hafa vera að ræða.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kostnaður samkvæmt fskj. nr. 118 hafi verið greiddur tilteknum iðnaðarmanni vegna vinnu við uppsetningu á vegg og fleiru í sambandi við starfsaðstöðu kæranda á efri hæð K-götu. Umboðsmaður kæranda tekur fram að skattstjóra hafi láðst að inna eftir því hvort kærandi hefði haft starfsstöð annars staðar í húsinu en í því skoti þar sem leifar starfseminnar hafi verið þegar athugun hans fór fram. Kaup á myndbandstæki samkvæmt fskj. nr. 213 hafi verið gerð í þeim tilgangi að starfsmaður kæranda gæti horft á fræðslumyndbönd um viðgerðir á vélbúnaði N fyrir tölvukerfi sem til skamms tíma hafi verið notuð bæði hjá X og Y og kærandi þjónustað. Skattstjóri hafi í boðunarbréfi sínu byggt niðurfellingu á því að kærandi hefði ekki haft tekjur af þjónustu við vélbúnað, en í úrskurði sínum um endurákvörðun hafi skattstjóri byggt á því að um einkakostnað væri að ræða. Sé ákvörðun skattstjóra því haldin slíkum annmörkum að beri að ómerkja hana. Fallist yfirskattanefnd ekki á það sé þess krafist að fallist verði á frádráttarbærni þessa kostnaðar og gerir umboðsmaður kæranda nánari grein fyrir nýtingu myndbandstækisins í þágu kæranda.

3. Gjaldfærð fjárfesting (húsgagnakaup).

Með fyrirspurnarbréfi sínu, dags. 4. september 2000, óskaði skattstjóri eftir því að kærandi rökstyddi gjaldfærslu útgjalda vegna kaupa á húsbúnaði samkvæmt tilgreindum fylgiskjölum rekstrarárin 1996, 1997 og 1998, m.a. með tilliti til staðsetningar hans við eftirlitsferð starfsmanna embættisins að K-götu hinn 30. ágúst 2000. Var um að ræða kaup á lömpum, ljósum, skrifborði, stólum, bókahillum og skápum. Af hálfu kæranda var fyrirspurnarbréfi skattstjóra svarað með bréfi, dags. 22. október 2000, þar sem m.a. kom fram að allur sá búnaður sem tiltekinn væri í eftirlitsskýrslu skattstjóra hefði á þeim tíma annað hvort verið í núverandi aðstöðu félagsins að R-götu, í fyrrverandi húsnæði þess að K-götu eða núverandi heimaskrifstofu sama stað, eins og það var nefnt. Skattstjóri hefði ekki gert grein fyrir þessu í skýrslu sinni eða tekið tillit til þess millibilsástands sem reksturinn hefði verið í þegar eftirlitsfulltrúar skoðuðu starfsaðstöðu að K-götu. Bæði búnaður og vinnuaðstaða kæranda myndi eftirleiðis vera bæði að R-götu og K-götu. Var rakið hvar viðkomandi húsbúnaður væri nú staðsettur, þ.e. í október 2000, og var það annað hvort að R-götu eða K-götu, sem nefnt var heimaskrifstofa, auk þess sem hirsluskápur var af tilteknum ástæðum sagður í fyrrverandi aðstöðu félagsins að K-götu en nýttur í þágu þess, og bókhillur sem félagið hefði ekki lengur þörf fyrir yrðu keyptar af eigendum félagsins.

Með bréfi, dags. 1. desember 2000, boðaði skattstjóri niðurfellingu gjaldfærslu samkvæmt fskj. nr. 263, 285 og 286 samtals að fjárhæð 187.789 kr. og innskatts að fjárhæð 46.011 kr. árið 1996, niðurfellingu gjaldfærslu samkvæmt fskj. nr. 1, 60, 68 og 84 samtals að fjárhæð 62.238 kr. og innskatts að fjárhæð 15.248 kr. árið 1997 og niðurfellingu gjaldfærslu samkvæmt fskj. nr. 91 og 261 samtals að fjárhæð 162.099 kr. og innskatts að fjárhæð 39.714 kr. árið 1998. Voru forsendur skattstjóra þær að um væri að ræða kaup á húsmunum og búnaði sem staðsettur væri á heimili eigenda kæranda og tengdist þeim miklu fremur persónulega en starfsemi félagsins. Engu breytti þótt einhver óskilgreindur hluti heimilisins væri nefndur heimaskrifstofa. Þætti því ekki hafa verið sýnt fram á að um hefði verið að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Í framhaldi af mótmælum umboðsmanns kæranda með bréfi, dags. 31. janúar 2001, hratt skattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd með tveimur úrskurðum um endurákvörðun, dags. 3. apríl 2001, þó þannig að fallið var frá boðaðri niðurfellingu gjaldfærslu samkvæmt fskj. nr. 263 árið 1996 að fjárhæð 2.249 kr. og innskatts 551 kr., svo og féll skattstjóri frá boðaðri niðurfellingu gjaldfærslu samkvæmt þessum kærulið árið 1997, samtals að fjárhæð 62.238 kr. og innskatts 15.248 kr. Voru forsendur skattstjóra þær sömu og áður. Varðandi fskj. nr. 285 og 286 árið 1996 tók skattstjóri auk þess fram að engan veginn hefði verið sýnt fram á að kaup á skrifborði og skrifborðsstól teldust frádráttarbær rekstrarkostnaður, en um væri að ræða húsmuni sem staðsettir hefðu verið í þeim hluta K-götu sem eigendur kæranda nýttu til íbúðar. Varðandi fskj. nr. 91 og 261 árið 1998 kom fram að þau væru annars vegar tilkomin vegna kaupa á skrifstofustól og hins vegar hirsluskáp en hvoru tveggja væri staðsett að K-götu. Skattstjóri tók fram að upplýsingar um þessa húsmuni hefðu verið misvísandi og óljósar, svo sem um staðsetningu hirsluskáps, og taldi ekki hafa verið sýnt fram á að um frádráttarbæran rekstrarkostnað hefði verið að ræða og vísaði í því sambandi jafnframt til mikilla húsgagnakaupa kæranda á fyrsta starfsári félagsins.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að þegar starfsmenn skattstjóra hafi komið í margnefnda eftirlitsferð að K-götu þann 30. ágúst 2000 hafi verið búið að taka niður vegg sem aðgreindi skrifstofu kæranda frá stofu á heimili eigenda félagsins. Eðlilegt hafi því verið að skattstjóri ályktaði sem svo að skrifborð og skrifstofustólar sem keyptir hafi verið á árinu 1996, sbr. fskj. nr. 285 og 286 það ár, væru til persónulegra nota eigendanna. Svo hafi hins vegar ekki verið. Munir þessir séu eign kæranda og notaðir í rekstri félagsins, en við kaup á þeim hafi þess verið gætt að þá mætti nota við alla starfsemina og því hafi verið keyptir heimilislegir hlutir sem henti betur við sálfræðistörf en hefðbundin skrifstofuhúsgögn. Þá kemur fram að umrædd húsgögn séu nú staðsett að R-götu. Að því er varðar útgjöld samkvæmt fskj. nr. 91 og 261 rekstrarárið 1998 kemur fram að fyrrnefndu útgjöldin séu vegna kaupa á skrifstofustól og síðarnefndu útgjöldin séu vegna kaupa á hirsluskáp, hvoru tveggja sé nú staðsett að R-götu. Í skáp þessum hafi verið geymd afrit af helstu tölvukerfum sem kærandi hafi séð um fyrir X og Y. Er þess krafist að fallist verði á frádráttarbærni allra umræddra útgjalda.

4. Ýmis kostnaður.

Í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1996 var undir liðnum „Ýmislegur kostnaður (án vsk)“ gjaldfærður kostnaður samkvæmt fskj. nr. 125 að fjárhæð 6.454 kr. vegna tímaritaáskriftar. Skattstjóri felldi gjaldfærslu þessa niður á þeirri forsendu að þær skýringar kæranda að um kostnað tengdan fjölskylduráðgjöf væri að ræða stæðust ekki. Ekki yrði séð að neinn annar gjaldfærður kostnaður á árinu 1996 tengdist slíkri starfsemi. Þá hefði félagið ekki haft tekjur af slíkri starfsemi umrætt ár né næstu þrjú ár þar á eftir, sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 3. apríl 2001.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að umræddur kostnaður sé vegna kaupa á fagtímariti á sviði fjölskylduráðgjafar. Boðuð breyting skattstjóra hafi verið rökstudd með því að kærandi hefði ekki haft tekjur af sálfræðiþjónustu á árinu 1996. Í úrskurði sínum um endurákvörðun byggi skattstjóri hins vegar á því að ekki hafi verið sýnt fram á að um rekstrarkostnað hafi verið að ræða í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Þá vísi skattstjóri til 2. gr. nefndra laga sem hann telji reyndar brúttóákvæði sem ekki sé rétt. Er þess krafist að fallist verði á frádráttarbærni umrædds kostnaðar, enda hafi verið fyrirhugað að hefja sálfræðiþjónustu á vegum kæranda árið 1996 þótt ekki hefði orðið úr því af tilgreindum ástæðum. Þá hafi kaup á fagtímaritum verið viðurkennd í skattframkvæmd sem frádráttarbær rekstrarkostnaður.

5. Risna.

Gjaldfærður risnukostnaður í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1996 nam 74.662 kr., í rekstrarreikningi fyrir árið 1997 nam risnukostnaður 21.265 kr. og í rekstrarreikningi fyrir árið 1998 nam risnukostnaður 141.546 kr. Með bréfi, dags. 12. maí 2000, óskaði skattstjóri eftir því að kærandi legði fram hreyfingalista og bókhaldsgögn varðandi tiltekna gjaldaliði í rekstri kæranda árin 1996, 1997, 1998, m.a. framangreindan risnukostnað. Með bréfi, dags. 4. september 2000, óskaði skattstjóri eftir frekari skýringum varðandi tiltekna gjaldaliði umrædd ár, en vék í því sambandi ekki að risnukostnaði. Samkvæmt því sem fram kemur í boðunarbréfi skattstjóra, dags. 1. desember 2000, voru umbeðin gögn lögð fram, en á fylgiskjöl vegna áranna 1996 og 1998, sem fyrst og fremst voru vegna kaupa á veitingum, væru einungis rituð nöfn þeirra sem þegið hefðu veitingarnar en tilefnis væri yfirleitt ekki getið. Í bréfinu tiltók skattstjóri nokkur atriði sem hann taldi benda til þess að ekki hefði verið um að ræða risnukostnað í tilviki kæranda, m.a. að kostnaður hefði beinst að aðilum sem kærandi hefði engin viðskipti haft við, um hefði verið að ræða veitingakaup á skyndibitastöðum sem þætti ótrúverðugt að beindist að viðskiptavinum og ótrúlegt væri að tilteknum viðskiptavini hefði verið boðið til málsverðar að kvöldi 17. júní. Að því er varðar rekstrarárið 1997 tók skattstjóri fram að engar upplýsingar hefðu komið fram af hálfu kæranda um risnutilefni og yrði ekki annað séð en fyrst og fremst hefði verið um að ræða persónuleg útgjöld eigenda félagsins, en það sama ætti við um kostnað samkvæmt ýmsum fylgiskjölum rekstrarárið 1998. Boðaði skattstjóri lækkun gjaldfærðrar risnu um 50.000 kr. árið 1996 og 120.000 kr. árið 1998, en niðurfellingu allrar fjárhæðarinnar árið 1997, eða sem nam 21.265 kr.

Í bréfi umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 31. janúar 2001, þar sem boðuðum breytingum var mótmælt, var gerð sundurliðuð grein fyrir bæði þiggjendum og tilefnum risnu öll umrædd ár og tekið fram að allt hefðu þetta verið aðilar sem kærandi hefði haft mikil og stöðug samskipti við. Bréfinu fylgdu yfirlýsingar frá starfsmönnum X og Y, svo og frá fjórum erlendum tölvufyrirtækjum, þar sem gerð var grein fyrir samskiptum við starfsmann kæranda og m.a. staðfest að kærandi hefði í einhverjum tilvikum greitt fyrir veitingar á formlegum og óformlegum fundum þessara aðila.

Með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 3. apríl 2001, hratt skattstjóri boðuðum breytingum varðandi risnukostnað í framkvæmd. Skattstjóri rakti athugasemdir umboðsmanns kæranda lið fyrir lið og tiltók ýmis atriði sem þættu benda til þess að ekki væri um frádráttarbæran risnukostnað að ræða. Í mörgum tilvikum hefðu útgjöldin ekki beinst að aðilum sem væru raunverulegir viðskiptamenn kæranda auk þess sem hluti kostnaðarins væri vegna eigenda kæranda og barna þeirra. Í þessu sambandi tiltók skattstjóri sérstaklega útgjöld sem sögð væru tengjast fulltrúum … og benti skattstjóri á að kærandi hefði engar tekjur haft af viðskiptum við þann aðila umrædd ár. Þá tók skattstjóri fram að ekki yrði séð að umræddur kostnaður hefði í einu einasta tilviki beinst að þeim sem hefðu haft með að gera ákvarðanatöku um hvaða hugbúnaðarþjónusta var keypt fyrir viðkomandi. Einnig benti skattstjóri á að tekjur kæranda frá X hefðu einungis numið 162.510 kr. árið 1998, sem væri 2,7% heildartekna félagsins, en helmingur risnureikninga það ár væri sagður tengjast þeim aðila með einum eða öðrum hætti. Skattstjóri tók fram að ekki væri dregið í efa að af hálfu kæranda hefði ýmsum starfsmönnum viðskiptamanna félagsins stöku sinnum verið boðið uppá veitingar, en slík útgjöld yrðu ekki talin til risnukostnaðar í skilningi nefnds reglugerðarákvæðis.

Í kæru til yfirskattanefndar gerir umboðsmaður kæranda enn frekari grein fyrir risnuútgjöldum umrædd ár og mótmælir því m.a. að slíkur kostnaður geti einungis beinst að yfirmönnum eða þeim sem hafi vald til að taka ákvarðanir. Leggur umboðsmaðurinn áherslu á að í tilviki kæranda sé um að ræða samskipti við tengiliði kæranda hjá viðkomandi fyrirtækjum og yfirmenn tölvumála. Greinilega komi fram hver risnutilefni hafi verið, en í flestum tilvikum sé um að ræða kostnað vegna málsverða og minniháttar veitinga eins og það er nefnt. Þá er tekið fram að þegar unnið sé á venjulegum vinnutíma borði menn yfirleitt saman í mötuneyti viðkomandi viðskiptamanna, en þegar unnið sé á kvöldin og um helgar sé skotist á næsta veitingastað. Vegna þess að oft sé um að ræða unga menn séu oft valdir pizzustaðir. Þessi tækifæri séu nýtt til að ræða um tölvubúnaðinn og skiptast á upplýsingum. Umboðsmaður kæranda bendir einnig á að starfsmaður kæranda sé fyrrverandi starfsmaður N, sem kærandi sé umboðsmaður fyrir, og því öllum hnútum kunnugur þar á bæ. Varðandi kostnað vegna starfsmanna … kemur fram að rétt sé að á þeim tíma sem málið varðar hafi kærandi ekki stundað bein viðskipti við þennan aðila, en hafi hins vegar þjónustað viðskiptabúnað þeirra og til þess að fá að halda því áfram hafi verið nauðsynlegt að halda góðu sambandi við viðkomandi. Hafi þetta borið þann ávöxt að kærandi hafi verið í beinum viðskiptum við umrætt fyrirtæki frá árinu 2000. Þá er staðhæfingu skattstjóra um viðskipti við X mótmælt, en tekjur frá X hafi numið rúmlega helmingi allra tekna kæranda árið 1998 svo sem nánari grein er gerð fyrir.

6. Álag.

Skattstjóri bætti 25% álagi við hækkun skattstofna á grundvelli 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, og vísaði til þess að annmarkar á skattframtölum kæranda umrædd ár væru þess eðlis að ekki yrði komist hjá álagsbeitingu. Gjaldfærð hefðu verið útgjöld sem fremur væru persónulegur kostnaður eigenda kæranda en frádráttarbær rekstrarkostnaður félagsins. Þá bætti skattstjóri 10% álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 við hækkun virðisaukaskatts vegna lækkunar innskatts sem leiddi af breytingum á gjaldfærðum rekstrarkostnaði.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að álag verði alfarið fellt niður, bæði að því er varðar opinber gjöld kæranda og virðisaukaskatt, enda hafi af hálfu kæranda verið talið fram eftir bestu samvisku og ekki annað vitað en skattstofnar væru réttir. Þá sé málatilbúnaður af hálfu skattstjóra afar ótraustur.

IV.

Með bréfi, dags. 15. júní 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. júní 2001, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 28. ágúst 2001, hefur umboðsmaður kæranda ítrekað kröfugerð samkvæmt kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2001.

V.

Kærandi er einkahlutafélag í eigu hjónanna A og B. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2001, er tilgangur félagsins einkum tvíþættur, annars vegar tölvuráðgjöf og hins vegar sálfræðiþjónusta, en fyrir liggur að annar eigendanna er menntaður á fyrrnefnda sviðinu og hinn á því síðarnefnda. Mál þetta tekur til rekstraráranna 1996, 1997 og 1998, en á þeim árum hafði kærandi starfsaðstöðu á heimili eigenda félagsins að K-götu, fyrst í stað á efri hæð hússins en síðar á neðri hæð þess, samkvæmt því sem fram er komið af hálfu kæranda. Frá því síðla árs 2000 hefur starfsstöð félagsins verið að R-götu, en auk þess kemur fram af hálfu kæranda að aðstaða sé enn fyrir hendi vegna starfsemi félagsins að K-götu.

Ágreiningur málsins varðar gjaldfærðan rekstrarkostnað í rekstrarreikningum kæranda fyrir árin 1996, 1997 og 1998 og er fyrst og fremst um það að ræða að skattstjóri hefur talið að hluti gjaldfærðs kostnaðar hafi í raun verið persónulegur kostnaður eigenda kæranda en ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Vegna þessa skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 er heimilað að draga rekstrarkostnað frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Til rekstrarkostnaðar teljast þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Ákvæði þetta er samkvæmt orðalagi sínu heimildarákvæði og er það því undantekning frá þeirri meginreglu að lögaðilum sé skylt að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, sbr. 2. gr. laganna. Af þessu leiðir að skattaðila ber að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands 30. janúar 1997 í málinu nr. 3/1997 (H 1997:385) og 20. febrúar 1997 í málinu nr. 163/1996 (H 1997:759). Almennur kostnaður vegna heimilis og fjölskyldu og annarra persónulegra þarfa er ekki frádráttarbær.

Víkur þá að einstökum ágreiningsatriðum.

1. Standsetning skrifstofuhúsnæðis.

Samkvæmt því sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2001, var kostnaður samkvæmt þessum kærulið tilkominn vegna standsetningar rekstraraðstöðu bæði á efri og neðri hæð K-götu vegna tölvuþjónustu kæranda. Hefur komið fram af hálfu kæranda, m.a. í kæru til yfirskattanefndar, að starfsemin hafi í upphafi, þ.e. frá janúar 1996, verið í opnu rými á efri hæð hússins, en vegna hávaða frá tölvubúnaði hafi þurft að loka því. Því hafi verið settur upp veggur og þannig búið til nýtt herbergi á efri hæðinni. Framkvæmdir þessar hafi staðið yfir á tímabilinu febrúar til maí 1996. Síðar á árinu hafi hluti stofu á neðri hæð hússins verið tekinn til nota vegna tölvuþjónustu félagsins og þá hafi verið settur upp veggur til að skipta stofu og búa til herbergi fyrir starfsemi kæranda. Upphaflega hafi þetta herbergi verið ætlað til móttöku viðskiptavina, en um mánaðamótin júlí/ágúst 1996 hafi tölvuver verið flutt þangað.

Skattstjóri lækkaði hinn umdeilda gjaldalið á þeim forsendum að ekki þætti hafa verið sýnt fram á að allur umræddur kostnaður gæti talist frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Þykir að þessu leyti nægilega komið fram á hvaða forsendum skattstjóri hefur byggt niðurstöðu sína, þar á meðal á hvaða lagaheimildum var byggt. Á það þykir hins vegar skorta að skattstjóri hafi gert fullnægjandi grein fyrir þeirri fjárhæð sem hann áætlaði til lækkunar á gjaldfærðum kostnaði, sbr. ákvæði um efni rökstuðnings í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem ekki verður hins vegar talið að ákvörðun skattstjóra, sem hér um ræðir, hafi í öllum meginatriðum skort viðhlítandi rökstuðning þykja ekki efni til að ómerkja hinn kærða úrskurð skattstjóra um endurákvörðun að því er þetta kæruatriði varðar. Er málsástæðu umboðsmanns kæranda sem að þessu lýtur því hafnað.

Samkvæmt skýringum kæranda nam kostnaður við vegg ásamt hurð, málningarvörum o.fl. í tengslum við framkvæmdir á efri hæð K-götu alls 69.701 kr. án vsk. auk vinnu iðnaðarmanns 50.000 kr., sbr. lið 2 að aftan. Kostnaður vegna starfsaðstöðu á neðri hæð hússins nam 28.690 kr., þar á meðal kaup á gardínum og gardínubrautum. Aðrir liðir eru kaup á klósettkassa 3.644 kr., sem kærandi telur í tengslum við starfsaðstöðu á efri hæð, kaup á hurðarhúnum 31.501 kr., kaup borvélar 5.897 kr. og kaup á furu o.fl. af Byko 8.431 kr. Af hálfu kæranda hefur ekki verið gerð grein fyrir síðastnefndum lið að öðru leyti en því að tekið er fram að fjárhæð viðkomandi fylgiskjals (nr. 159) í bókhaldi kæranda nemi 918 kr. og stemmi fjárhæð því ekki við tilgreiningu skattstjóra. Þessi athugasemd kom einnig fram í bréfi umboðsmannsins til skattstjóra, dags. 31. janúar 2001, og var svarað af hálfu skattstjóra á þann hátt að um væri að ræða fylgiskjal með mörgum reikningum, samtals að fjárhæð 10.497 kr. með vsk., en fremsti reikningurinn væri að fjárhæð 918 kr. Af úrskurði skattstjóra og öðrum málsgögnum verður ekki með öryggi ráðið að hærri fjárhæðin hafi verið gjaldfærð og þykir því verða að byggja á því að gjaldfærð fjárhæð nemi 918 kr.

Eins og fram er komið er almennur kostnaður vegna heimilis og fjölskyldu og annarra persónulegra þarfa ekki frádráttarbær. Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að sé hluti íbúðarhúsnæðis nýttur sem rekstraraðstaða vegna atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi sé heimilt að færa til frádráttar rekstrartekjum kostnað sem beinlínis leiðir af rekstraraðstöðunni, enda sé jafnframt ekki um að ræða persónuleg not af þessum hluta húsnæðisins. Af hálfu skattstjóra hefur ekki verið dregið í efa að hluti íbúðarhúss eigenda kæranda hafi verið nýttur vegna rekstrar félagsins og hefur skattstjóri m.a. ekki gert athugasemdir við gjaldfærslu húsaleigugreiðslna til eigenda félagsins í skattskilum þess vegna áranna 1996, 1997 og 1998. Hins vegar kemur fram í hinum kærða úrskurði skattstjóra að hann féllst ekki á skýringar kæranda varðandi þörf á sérstakri aðstöðu til móttöku viðskiptavina. Þá er ljóst að skattstjóri hefur byggt á því að kostnaður vegna klósettkassa og hurðarhúna væri persónulegur kostnaður eigenda kæranda. Einnig hefur skattstjóri lagt til grundvallar að framkvæmdir á efri hæð hússins teldust persónulegur kostnaður eigenda kæranda.

Við þær aðstæður sem í málinu greinir verður að gera ríkar kröfur um sundurliðun og aðgreiningu þess kostnaðar sem leiðir beinlínis af rekstraraðstöðu kæranda og tilheyrir því og þess kostnaðar sem tilheyrir eigendum húsnæðisins og tengist ekki tekjuöflun í rekstrinum. Eins og rakið hefur verið ber undir kæranda að sýna fram á slíkan kostnað. Samkvæmt skýringum umboðsmanns kæranda nýtti félagið tiltekið rými og síðar herbergi á efri hæð hússins K-götu fyrir tölvuver sitt á tímabilinu janúar til og með júlí 1996, en þá var tölvubúnaður fluttur í herbergi sem útbúið hafði verið á neðri hæð hússins með því að hluti stofu var stúkaður af. Engar skýringar hafa komið fram af hálfu kæranda um notkun herbergisins á efri hæðinni eftir júlí 1996. Miðað við þetta þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að kostnaður við að breyta umræddu rými í herbergi geti talist hafa verið eingöngu í þágu kæranda. Verður krafa kæranda því ekki tekin til greina að því er varðar útgjöld að fjárhæð 119.701 kr., þar á meðal vegna vinnu iðnaðarmanns, sbr. lið 2 að aftan. Þá er ekki fallist á gjaldfærslu klósettkassa 3.644 kr., enda verður að ganga út frá því, svo sem skattstjóri hefur gert, að sá kostnaður hafi a.m.k. að einhverju leyti verið vegna persónulegra þarfa heimilisfólks.

Samkvæmt skýringum kæranda hafði félagið afnot af herbergi (hluta stofu) á neðri hæð hússins frá miðju ári 1996 og til apríl 2000. Af hálfu kæranda hefur því þó ekki verið haldið fram að herbergið hafi eingöngu verið notað vegna starfsemi félagsins. Allt að einu þykir með tilliti til þess tíma sem félagið hafði rekstraraðstöðu í húsnæðinu ekki varhugavert að byggja á því að einhver kostnaður hafi fallið til af þeim ástæðum umfram það sem mætt var með fyrrgreindum húsaleigugreiðslum. Að því er varðar kostnað vegna hurðarhúna 31.501 kr. skal tekið fram í þessu sambandi að þeir voru ekki nema að litlu leyti vegna aðstöðu kæranda í húsinu og er því ekki unnt að taka tillit til þeirra útgjalda nema sem því nemur. Þykir engu skipta þótt hurðarhúnar þessir hafi á árinu 2000 verið teknir af hurðum í húsinu og notaðir að R-götu.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið þykir ekki ástæða til að hækka þá fjárhæð sem skattstjóri hefur fallist á til frádráttar vegna standsetningar skrifstofuhúsnæðis gjaldárið 1997. Eins og málið liggur fyrir verður með úrskurði þessum ekki haggað við innskattsfrádrætti sem skattstjóri hefur fallist á vegna þessara framkvæmda.

2. Gjaldfærð fjárfesting (vinna iðnaðarmanns, kaup myndbandstækis).

Ágreiningur samkvæmt þessum kærulið varðar annars vegar útgjöld að fjárhæð 50.000 kr. sem eru samkvæmt skýringum kæranda vegna vinnu iðnaðarmanns við þær breytingar sem gerðar voru á K-götu, sbr. kærulið 1 að framan, og hins vegar útgjöld að fjárhæð 24.048 kr. vegna kaupa á myndbandstæki. Með vísan til niðurstöðu samkvæmt kærulið 1 að framan er kröfu kæranda hafnað að því er varðar fyrrnefnda liðinn.

Í bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 22. október 2000, kom fram að starfsmaður kæranda hefði þurft að sinna vélbúnaðarvinnu á N-vélum, eins og það var orðað, og í stað þess að fara á dýr námskeið hefði verið keypt myndbandstæki til þess að geta skoðað myndbönd um viðhald þessara véla. Hefði slík vinna fært kæranda tekjur að fjárhæð u.þ.b. 500.000 kr. á árunum 1996-1998. Skattstjóri taldi þessar skýringar ekki samræmast áður fram komnum upplýsingum kæranda í bréfi, dags. 24. júlí 2000, þar sem starfsemin hefði verið sögð felast í viðhaldi og endurbótum á N-hugbúnaði, sbr. boðunarbréf skattstjóra, dags. 1. desember 2000. Að fengnum nánari skýringum og gögnum af hálfu kæranda varðandi tekjur vegna viðgerða á vélbúnaði, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 31. janúar 2001, þar sem m.a. kom fram að umrætt tæki væri nú staðsett í starfsstöð kæranda að R-götu, féllst skattstjóri á að ekki væri unnt að draga í efa að starfsmaður félagsins sinnti vélbúnaðarvinnu en hins vegar væru kaup á myndbandstæki það persónubundinn kostnaður að ekki væri hægt að fallast á frádráttarbærni slíkra útgjalda, einkum þegar starfsstöð væri á heimili, sbr. úrskurð um endurákvörðun, dags. 3. apríl 2001. Með því að hin kærða breyting var ekki byggð á þessari forsendu þykir ekki hjá því komist að fella ákvörðun skattstjóra úr gildi að því er þetta kæruatriði varðar. Með úrskurði þessum er engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins að því er þetta kæruatriði varðar.

Niðurstaða samkvæmt þessum kærulið leiðir til þess að innskattur kæranda árið 1996 hækkar um 5.892 kr.

3. Gjaldfærð fjárfesting (húsgagnakaup).

Meðal gagna málsins eru afrit reikninga frá Antik-Húsinu vegna kaupa á skrifborði fyrir 94.778 kr. samkvæmt fskj. nr. 285, þann 5. desember 1996 og skrifborðsstólum fyrir 90.762 kr. samkvæmt fskj. nr. 286, þann 10. desember sama ár, auk virðisaukaskatts. Kostnað vegna þessa gjaldfærði kærandi í rekstrarreikningi fyrir árið 1996 og taldi virðisaukaskatt til innskatts það ár. Rétt er að geta þess að í bréfi til skattstjóra, dags. 22. október 2000, kom fram af hálfu kæranda að fskj. nr. 286 varðaði einungis kaup á einum skrifborðsstól en ekki mörgum. Einnig liggja fyrir afrit af reikningum vegna kaupa á hirsluskáp frá Antíkbúðinni fyrir 97.400 kr. samkvæmt fskj. nr. 261 á árinu 1998 og skrifstofuhúsgögnum frá Stólnum ehf. fyrir 64.699 kr. samkvæmt fskj. nr. 91, þann 4. apríl 1998, auk virðisaukaskatts. Kostnaður þessi var gjaldfærður í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1998 og virðisaukaskattur talinn til innskatts kæranda það ár. Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni þessara útgjalda né heimild til innskattsfrádráttar, og byggði á því að ekki hefði verið sýnt fram á þau væru rekstrarkostnaður í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Tók skattstjóri fram í þessu sambandi að um væri að ræða muni sem væru á heimili eigenda kæranda og nýttust ekki síður vegna heimilisreksturs þeirra, og því væri fremur um að ræða persónulegan kostnað eigendanna en útgjöld sem tilheyrðu kæranda.

Telja verður að við þær aðstæður sem í máli þessu greinir verði að fara eftir hliðstæðum sjónarmiðum um meðferð húsbúnaðar í skattskilum atvinnurekstraraðila og varðandi kostnað sem leiðir almennt af rekstraraðstöðu í heimahúsi, sbr. umfjöllun í lið 1 að framan. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar voru skrifborð og skrifborðsstóll sem keypt var í Antik-Húsinu á árinu 1996, svo og hirsluskápur keyptur árið 1998, nýtt í aðstöðu kæranda á heimili eigenda félagsins á árunum 1996-2000, þ.e. herbergi því sem skipt var út úr stofu árið 1996. Umrædd aðstaða var ekki lengur fyrir hendi á heimili eigenda kæranda þegar athugun starfsmanna skattstjóra fór fram þann 30. ágúst 2000 og hafði ekki verið frá því í apríl það ár þegar milliveggur í stofu var samkvæmt skýringum kæranda tekinn niður vegna veislu á heimilinu. Þrátt fyrir það sem fyrir liggur um aðstöðu kæranda á heimili eigenda félagsins og sérstakan kostnað sem leitt hefur af henni, m.a. vegna uppsetningar milliveggjar í stofu, þykir ekki hafa verið sýnt fram á það af hálfu kæranda að notkun kæranda á umræddri aðstöðu og húsmunum hafi á þeim tíma sem málið varðar verið með þeim hætti að persónuleg afnot heimilisfólks hafi einungis verið óveruleg eða að öðru leyti ekki þannig að áhrif hafi á niðurstöðu málsins. Þykir því ekki unnt að taka kröfu kæranda til greina að því er framangreind eignakaup varðar. Tekið skal fram að miðað við fjárhæðir eignakaupa árið 1996 fékk gjaldfærsla þeirra ekki staðist með tilliti til ákvæðis 41. gr. laga nr. 75/1981.

Eftir stendur þá samkvæmt þessum kærulið ágreiningur um kostnað vegna kaupa á skrifstofustól á árinu 1998. Samkvæmt því sem fram kom í bréfi af hálfu kæranda til skattstjóra, dags. 22. október 2000, var stóll þessi staðsettur í heimaskrifstofu félagsins að K-götu, eins og það er nefnt, auk þess sem tekið er fram að stóllinn hafi verið í fyrrverandi skrifstofu á sama stað. Í kæru til yfirskattanefndar er hins vegar staðhæft að stóll þessi hafi verið að R-götu þegar starfsmenn skattstjóra voru þar á ferð þann 30. ágúst 2000. Með því að skýrsla eftirlitsmanna skattstjóra, dags. 30. ágúst 2000, ber ekki með sér annað en að umræddur stóll hafi verið að R-götu þegar athugun skattstjóra fór fram þykir með hliðsjón af viðhorfum skattstjóra til annarra liða, þar sem líkt stendur á um, ekki ástæða til annars en að taka kröfu kæranda til greina að því er þann lið varðar.

4. Ýmis kostnaður.

Sá kostnaður sem skattstjóri felldi niður samkvæmt þessum kærulið er tilkominn vegna kaupa á fagtímariti á sviði sálfræði á árinu 1996, en óumdeilt er að engin slík starfsemi fór fram á vegum kæranda þau ár sem mál þetta varðar. Að þessu virtu þykir ekki hafa verið sýnt fram á að um frádráttarbæran rekstrarkostnað hafi verið að ræða í rekstri kæranda í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981.

5. Risna.

Risna vegna atvinnurekstrar, þ.e. sá kostnaður sem lagt er í til að ljúka viðskiptum, afla nýrra viðskiptasambanda eða halda þeim við, telst til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. d-lið 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Samkvæmt nefndu reglugerðarákvæði þarf slíkur kostnaður þó að vera eðlilegur miðað við tilefni. Þá kemur fram að frádráttarbær risna þurfi að beinast að aðilum sem ekki starfa við reksturinn eða tengjast honum með öðrum hætti, svo sem stjórnarmenn eða hluthafar, og að til staðfestingar risnukostnaði þurfi upplýsingar m.a. um tilefni risnu, hverjir hennar nutu og tengsl þeirra við fyrirtækið að liggja fyrir með aðgengilegum hætti.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að útgjöld að fjárhæð 1.190 kr. árið 1996 séu vegna funda B, annars eiganda kæranda, með fulltrúa fjölskylduþjónustu Z-bæjar um störf hennar fyrir sveitarfélagið. Ekki verður talið að kærandi hafi sýnt fram á að þessi útgjöld geti talist rekstrarkostnaður kæranda í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Þá hefur komið fram af hálfu kæranda að útgjöld að fjárhæð 2.560 kr. sama ár, sbr. fskj. nr. 240 og 241, og hluti kostnaðar skv. fskj. nr. 165, 335 og 337 árið 1998 sé vegna viðurgernings við fyrrverandi starfsmann Y. Kostnaður samkvæmt nefndum fylgiskjölum árið 1998, samtals 71.756 kr., er að öðru leyti vegna kvöldverðar 17. júní það ár, m.a. með þátttöku barna fyrirsvarsmanna kæranda, og jólahlaðborðs. Þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á frádráttarbærni þessa kostnaðar.

Að öðru leyti en að framan greinir þykja ekki efni til annars en að taka kröfu kæranda til greina með vísan til fram kominna skýringa sem studdar eru yfirlýsingum frá helstu viðskiptaaðilum kæranda. Samkvæmt framansögðu hækkar rekstrarkostnaður um 20.912 kr. árið 1996, 21.265 kr. árið 1997 og 78.244 kr. árið 1998.

6. Álag.

Umboðsmaður kæranda hefur krafist þess að álag það sem skattstjóri bætti við vantalda skattstofna samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, og á vangreiddan virðisaukaskatt samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 verði fellt niður. Eins og atvikum er háttað þykja hvorki efni til að falla frá beitingu heimildarákvæða 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 í tilviki kæranda né þykir neitt tilefni til niðurfellingar álags samkvæmt heimildum þeim sem greinir í 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Kröfu þar að lútandi er því hafnað.

7. Málskostnaður.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kæranda hafa ekki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað félagsins við meðferð málsins, en umboðsmaður kæranda hefur lagt fram yfirlit um kostnað af málinu, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2001. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 40.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður skattstjóra er felldur úr gildi að því er varðar kaup á myndbandstæki að fjárhæð 24.048 kr. og innskatt 5.892 kr. rekstrarárið 1996. Fallist er á kröfu um gjaldfærslu skrifstofustóls 64.699 kr. rekstrarárið 1998 og hækkun innskatts um 15.851 kr. Frádráttarbær risnukostnaður hækkar um 20.912 kr. rekstrarárið 1996, 21.265 kr. rekstrarárið 1997 og 78.244 kr. rekstrarárið 1998. Öðrum kröfum kæranda er hafnað. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákvarðast 40.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja