Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tapað hlutafé
  • Tímamörk endurákvörðunar
  • Vörubirgðir
  • Bindandi áhrif skattframtals

Úrskurður nr. 434/2002

Gjaldár 1997, 1998 og 1999

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 4. tölul. (brl. nr. 63/1990, 3. gr., sbr. brl. nr. 30/1995, 3. gr.), 74. gr. 4. tölul., 97. gr. 2. mgr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr.   Reglugerð nr. 483/1994, 14. gr.  

Kærandi, sem var hlutafélag um verslunarrekstur, hafði eignast hlutafé í T hf. vegna greiðsluerfiðleika þess félags. Ágreiningur var um þá ákvörðun skattstjóra að fella niður í skattskilum kæranda árið 1997 gjaldfærslu tapaðs hlutafjár í T hf. Fyrir lá að kærandi hafði afhent öðru félagi, U hf., öll hlutabréfin í T hf. á árinu 1996 í tengslum við samkomulag milli félaganna. Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar að af hálfu kæranda hefði einungis með almennum hætti verið gerð grein fyrir erfiðleikum í rekstri T hf. og engin frekari grein verið gerð fyrir afhendingu hlutabréfanna til U hf. og samningum félaganna um yfirtöku U hf. á rekstri T hf. í tengslum við afsalið. Hefði m.a. ekkert verið greint frá afdrifum eigna og skulda T hf. í því sambandi. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að hlutaféð hefði verið sannanlega tapað á árinu 1996. Varakröfu kæranda, sem laut að lækkun á mati vörubirgða til eignar í efnahagsreikningi, var sömuleiðis hafnað. Var m.a. tekið fram í því sambandi að meðferð vörubirgða í skattskilum kæranda hefði verið hagað í samræmi við lög og vísað til sjónarmiða um bindandi áhrif skattframtala.

I.

Málavextir eru þeir að í skattskilum sínum gjaldárið 1997 færði kærandi til gjalda með 20.800.000 kr. tapað hlutafé í T hf. Með bréfi, dags. 7. júní 2000, sbr. ítrekun, dags. 9. ágúst 2000, lagði skattstjóri fyrir kæranda að rökstyðja umrædda gjaldfærslu með tilliti til ákvæðis um frádrátt sannanlega tapaðs hlutafjár í 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 6. október 2000, var greint frá því að kærandi hefði á árinu 1994 selt T hf. vörubirgðir í verslun að … fyrir 47.983.728 kr. og áhöld, tæki og innréttingar fyrir 25.000.000 kr. Til þess að létta greiðslubyrði og tryggja rekstraröryggi kaupanda hefði orðið að samkomulagi að 17.000.000 kr. (nafnverð) yrðu greiddar með hlutafé í T hf. Jafnframt skyldi að því stefnt að kærandi fengi verðmæti hlutabréfanna endurgreitt svo fljótt sem kostur væri og í síðasta lagi fyrir árslok 1996. Endurgreiðsla hlutafjárins tæki mið af eiginfjárstöðu T hf. á þeim tíma en næmi þó aldrei lægri fjárhæð en nafnverði bréfanna. Á árinu 1995 hefði farið að bera á rekstrarerfiðleikum hjá T hf. og hefði kærandi þá skuldbreytt 3.800.000 kr. fyrir hlutafé í T hf. með sama nafnverði. Á árinu 1996 hefði enn sigið á ógæfuhliðina í rekstri T hf. og á árinu 1997 hefði félagið rambað á barmi gjaldþrots. Að lokum hefði U hf. keypt öll hlutabréf í félaginu fyrir 1 kr. (ein króna 00/100), sem þó hefði ekki fengist greidd.

Með bréfi, dags. 26. október 2000, boðaði skattstjóri endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 1995, 1996, 1997 og 1998 vegna tilgreindra breytinga sem hann hygðist gera á skattskilum félagsins greind ár. Boðaði skattstjóri m.a. niðurfellingu gjaldfærslu tapaðs hlutafjár í T hf. 20.800.000 kr. í skattframtali kæranda árið 1997 þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að um frádráttarbæran rekstrarkostnað væri að ræða í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Vísaði skattstjóri í því sambandi til ákvæða 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, og kvað ljóst af reglugerðarákvæðinu að gerðar væru strangar kröfur til þess að krafa teldist sannanlega töpuð í skilningi þess. Tók skattstjóri fram að sömu sjónarmið ættu við varðandi tapað hlutafé. Þá sagði svo í bréfi skattstjóra:

„Með vísan til svarbréfs félagsins virðist hins vegar sem um gjaldfærslu á sölutapi hlutabréfa í T hf. sé að ræða. Fram kemur í bréfinu að U hafi keypt öll hlutabréf í T hf. og að kaupverðið hafi verið 1 kr. Tap af sölu hlutabréfanna hafi því orðið kr. 20.800.000 sem gjaldfært hafi verið í rekstri félagsins. Því virðist sem gjaldaliðurinn hafi verið ranglega skýrður „Tapað hlutafé í T hf.“ í framtali félagsins 1997 því að sú ráðstöfun að selja hlutabréf getur aldrei talist til tapaðs hlutafjár þó að sölutapið sé mikið eins og í þessu tilviki.

Í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að heimilt sé að gjaldfæra tap á sölu eigna sem notaðar eru í atvinnurekstri á söluári en þó ekki tap á sölu eigna þeirra sem um er rætt í 17. og 18. gr. sömu laga. Umræddar greinar, þ.e. 17. og 18. gr., fjalla um söluhagnað af eignarhlutum í félögum. Samkvæmt umræddri grein er því óheimilt að draga frá tekjum af atvinnurekstri tap af sölu eignarhluta í félögum svo sem félagið virðist hafa gert.“

Af hálfu kæranda var hinni boðuðu breytingu skattstjóra mótmælt með bréfi umboðsmanns félagsins, dags. 28. desember 2000. Í bréfinu kvaðst umboðsmaður kæranda telja að ákvæði um tímafrest til endurákvörðunar skatta í 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 girti fyrir breytingu skattstjóra. Vísaði umboðsmaðurinn til þess að í skattframtali kæranda árið 1997 hefði verið gerð nákvæm grein fyrir því að hlutafé í T hf. að fjárhæð 20.800.000 kr. hefði tapast við sölu á því, sbr. skýrslu stjórnar með ársreikningi félagsins árið 1996 og skýringar við ársreikninginn. Skattstjóra hefði því verið í lófa lagið að hrinda hinni boðuðu breytingu í framkvæmd þegar við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997, enda hefðu allar sömu upplýsingar legið fyrir á þeim tíma. Varðandi efnishlið málsins kvaðst umboðsmaðurinn telja að kæranda væri hin umdeilda gjaldfærsla tapaðs hlutafjár í T hf. heimil samkvæmt 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Í því sambandi áréttaði umboðsmaðurinn þær skýringar sem fram komu í bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 6. október 2000, og benti á að samkvæmt þeim skýringum hefðu umrædd hlutabréf verið afhent sem endurgjald fyrir vörur sem kærandi hefði selt T hf. Sú ráðstöfun sem kærandi hefði þannig fallist á, þ.e. að taka við hlutabréfunum sem greiðslu fyrir hluta af hinum seldu vörum, hefði verið gerð með það fyrir augum að styrkja fjárhagslega stöðu kaupanda en um leið að tryggja möguleika kaupanda til þess að standa við ákvæði samningsins um endurkaup hlutabréfanna innan tveggja ára. Á árinu 1995 hefði kærandi svo fallist á að breyta kröfum sínum samkvæmt viðskiptareikningi í hlutabréf að fjárhæð 3.800.000 kr. þannig að um væri sannanlega að ræða hlutabréf sem látin hefðu verið af hendi sem endurgjald fyrir viðskiptakröfu vegna sölu á vörum eða þjónustu, sbr. 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Kærandi hefði á árinu 1996 reynt að ná samningum um sölu T hf. en ekki tekist og að lokum hefði félagið verið selt fyrir 1 kr., sem þó hefði ekki fengist greidd. Á því ári hefði hlutaféð í T hf. þannig tapast þar sem kærandi hefði verið tilneyddur til að selja félagið fyrir 1 kr. Ekki væri þó um eiginlegt sölutap að ræða, heldur miklu fremur aðgerð eigenda félagsins til að takmarka tjón sitt og í raun mætti segja að atvik væru mun líkari því þegar hlutafé væri fært niður í kjölfar nauðasamninga, þ.e. hluthafar væru að taka á sig niðurfærslu hlutafjárins eða ígildi þess að fullu. Í skattframkvæmd hefðu svonefndir „frjálsir nauðasamningar“ verið taldir falla undir ákvæði 2. mgr. 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Þá mætti benda á að með því að samþykkja að taka við greiðslu í hlutafé hefði kærandi verið að takmarka hugsanlegt tjón sitt vegna ábyrgða sem félagið hefði tekist á herðar vegna T hf. gagnvart þriðja aðila, sbr. ákvæði í 3. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 um frádráttarbærni ábyrgðartapa. Í tilviki kæranda væri þannig sannanlega um að ræða tapað hlutafé sem tekið hefði verið vegna greiðsluerfiðleika hlutafélags sem endurgjald fyrir viðskiptakröfu vegna sölu á vörum.

Í niðurlagi bréfs síns gat umboðsmaður kæranda þess að kæmi til hinnar boðuðu breytingar á skattframtali kæranda árið 1997 yrði um að ræða hagnað af starfsemi kæranda rekstrarárið 1996 í stað rekstrartaps. Sú skerðing á yfirfæranlegu tapi frá fyrri árum, sem þetta hefði í för með sér, kynni að leiða til þess að kærandi kysi að nýta sér heimildir til frestunar tekjufærslu eða sérstakra fyrninga með tilliti til söluhagnaðar af fyrnanlegum eignum sem félagið hefði gert grein fyrir í skattframtalinu sínu árið 1998. Væri því beint til skattstjóra að kæranda yrði gefinn kostur á að gera grein fyrir slíkum skattalegum ráðstöfunum áður en boðaðri breytingu yrði hrundið í framkvæmd. Með bréfi til skattstjóra, dags. 27. júní 2001, gerði umboðsmaður kæranda frekari grein fyrir umræddum ráðstöfunum. Kom þar fram að þær lutu í fyrsta lagi að færslu sérstakra fyrninga á móti söluhagnaði fyrnanlegra eigna gjaldárið 1998 um sömu fjárhæð og næmi tekjuskattsstofni. Í öðru lagi lutu þær að niðurfærslu viðskiptakrafna um 5% gjaldárið 1999. Í þriðja lagi myndi kærandi nýta sér heimild til sérstakrar fyrningar á móti tekjufærslu vegna verðbreytingar, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981. Þá kom fram í fjórða lagi að mat vörubirgða kæranda til eignar í árslok 1998 ætti að lækka um 4.355.000 kr. Um væri að ræða birgðir sem hefðu mjög hægan veltuhraða miðað við aðrar birgðir félagsins, en í ársreikningi árið 1998 væru þessar birgðir metnar á kostnaðarverði. Hluti af vörunum væri enn til á lager. Heildarlækkun gjaldárið 1999 gæti numið 8.103.772 kr.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 21. ágúst 2001, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtölum kæranda árin 1997, 1998 og 1999 í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld félagsins umrædd gjaldár til samræmis við þær. Felldi skattstjóri m.a. niður gjaldfærðan kostnað vegna tapaðs hlutafjár í T hf. 20.800.000 kr. í skattskilum kæranda fyrir rekstrarárið 1996. Í úrskurði sínum fjallaði skattstjóri fyrst um þá viðbáru umboðsmanns kæranda að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 um tímafrest til endurákvörðunar stæðu þeirri breytingu skattstjóra í vegi. Hafnaði skattstjóri því að honum hefði verið unnt fyrir álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1997 að framkvæma hina umdeildu niðurfellingu á gjaldfærðu töpuðu hlutafé í T hf. á grundvelli heimildar í 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981. Hefði verið nauðsynlegt að gefa kæranda kost á að tjá sig um forsendur skattstjóra í því sambandi, sbr. 1. mgr. 96. gr. sömu laga. Athugasemdir í skýrslu stjórnar við ársreikning kæranda fyrir árið 1996 gætu á engan hátt talist veita óyggjandi upplýsingar um þann gjaldalið sem um væri að ræða, enda væri orðalag athugasemdanna óljóst og í mótsögn við nafngift gjaldaliðarins og skýringar við hann í ársreikningnum. Varðandi efnishlið málsins ítrekaði skattstjóri að það væri skilyrði fyrir frádráttarbærni tapaðs hlutafjár samkvæmt 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 að hlutaféð væri sannanlega tapað á tekjuárinu. Með vísan til 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994 yrði ekki talið að þetta skilyrði væri uppfyllt í tilviki kæranda. Hefði kærandi greint frá því að hlutaféð hefði verið selt fyrir 1 kr. og virtist því vera um að ræða gjaldfærslu á sölutapi en ekki á sannanlega töpuðu hlutafé. Vegna athugasemda umboðsmanns kæranda í bréfi til skattstjóra, dags. 28. desember 2000, tók skattstjóri fram að þrátt fyrir að mikið tap hefði verið af sölu hlutafjárins yrði ekki séð að skilyrði framangreinds ákvæðis um að hlutafé væri sannanlega tapað væri uppfyllt, enda væru gerðar strangar kröfur til þess að sýnt væri fram á að hlutafé væri sannanlega tapað. Þá hefði ekki verið greint frá því hvað hefði falist í forsendum samnings kæranda og kaupanda hlutafjárins sem nefndar væru í skýrslu stjórnar við ársreikning kæranda fyrir árið 1996. Samkvæmt þessu yrði ekki séð að um frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 væri að ræða og skorti því lagaheimild til umræddrar gjaldfærslu.

Með úrskurði sínum féllst skattstjóri á kröfur kæranda um leiðréttingar á skattframtölum félagsins árin 1998 og 1999 vegna þeirrar breytingar á rekstrarniðurstöðu félagsins, sem leiddi af niðurfellingu á gjaldfærslu tapaðs hlutafjár í T hf. samkvæmt framansögðu, þó að því frátöldu að skattstjóri synjaði kröfu kæranda um lækkun á eignfærslu vörubirgða um 4.355.000 kr. í efnahagsreikningi félagsins pr. 31. desember 1998. Vísaði skattstjóri í því sambandi til ákvæðis um mat vörubirgða til skattskyldrar eignar í 4. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981 og kvaðst ekki fá séð á hvaða grundvelli krafa kæranda um lækkun eignfærslu væri byggð. Yrði því að telja að sú krafa væri með öllu órökstudd með tilliti til þeirra krafna sem gerðar væru samkvæmt framangreindu ákvæði.

II.

Með kæru, dags. 21. nóvember 2001, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 21. ágúst 2001, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kæruefnið sé tvíþætt og varði annars vegar niðurfellingu skattstjóra á gjaldfærslu tapaðs hlutafjár í T hf. 20.800.000 kr. gjaldárið 1997 og hins vegar synjun skattstjóra um lækkun á mati vörubirgða um 4.355.000 kr. gjaldárið 1998. Þá er krafist málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði að mati yfirskattanefndar. Um rökstuðning fyrir kæruatriðum vísar umboðsmaður kæranda til þess sem fram hafi komið af hálfu kæranda við meðferð málsins á skattstjórastigi, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 6. október og 28. desember 2000. Ítrekar umboðsmaður kæranda að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 eigi við um hina kæru breytingu skattstjóra, enda sé ljóst að kærandi hafi gert nákvæma grein fyrir því í skattframtali sínu árið 1997 að hlutafé í T hf. að fjárhæð 20.800.000 kr. hefði tapast. Um efnishlið málsins að því er varðar réttmæti frádráttar vegna tapaðs hlutafjár ítrekar umboðsmaður kæranda þau sjónarmið sem fram komu í bréfi hans til skattstjóra, dags. 28. desember 2000. Sé því hafnað að líta á umræddan gerning sem sölu á hlutabréfunum þótt til málamynda hafi verið um afsal bréfanna að ræða. Öllum aðilum hafi verið ljóst að um verðlausa eign hafi verið að ræða og þess vegna hafi frágangur á afsali í raun verið til málamynda, enda hafi aldrei verið um neitt endurgjald að ræða. Að því er varðar mat á vörubirgðum til eignar bendir umboðsmaður kæranda á að beiðni kæranda um lækkun eignfærslu vörubirgða sé byggð á því að miðað verði við dagverð í stað kostnaðarverðs, svo sem heimilt sé samkvæmt 4. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981.

III.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Umboðsmaður kæranda vitnar til ákvæða 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og telur að frestur skattstjóra til endurákvörðunar vegna gjaldársins 1997 hafi verið liðinn er skattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld kæranda. Í 2. mgr. 97. gr. segir að hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mátti á rétta álagningu sé ekki heimilt, hafi álagning reynst of lág, að endurákvarða honum skatt nema vegna tveggja síðustu ára. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi að skattalögum var tekið fram: „Þessi málsgrein á aðeins við ef upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, koma beinlínis fram í framtali eða fylgigögnum þess, en 1. mgr. gildir ef þessi gögn eru ófullnægjandi enda þótt skattstjóra hefði mátt vera ljóst fyrr að eitthvað var athugavert við framtalið.“ Við endurákvörðun verða skattyfirvöld því að meta hvort þeim hefði verið fært að breyta skattframtali án frekari skýringa. Skiptir þá ekki máli hvort skýringa var í raun leitað heldur hvort þeirra var þörf. Að mati ríkisskattstjóra má vera ljóst að upplýsingar þær sem lágu fyrir á framtali kæranda hafi ekki verið þess eðlis að unnt hafi verið að leiðrétta framtalið einhliða án þess að leita skýringa kæranda áður. Getur 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar af leiðandi ekki átt við um þá endurákvörðun skattstjóra, dags. 21. ágúst 2001.

Samkvæmt 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, má draga verð hlutabréfa frá tekjum á því tekjuári þegar hlutafé er sannanlega tapað, og aðili hefur eignast á þann hátt að hann hefur, vegna greiðsluerfiðleika hlutafélags, tekið hlutabréf sem gagngjald fyrir viðskiptakröfu sem hann átti á hendur hlutafélagi enda hafi viðskiptakrafan verið vegna sölu á vöru eða þjónustu.

Með vísan til 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, verður ekki talið að uppfyllt hafi verið það skilyrði að hlutafé sé sannanlega tapað. Fram hefur komið í gögnum málsins að hlutaféð var selt á kr. 1 og virðist því vera um að ræða gjaldfærslu á sölutapi en ekki á sannanlega töpuðu hlutafé. Umboðsmaður kæranda heldur því fram að á árinu 1996 hafi eigendur T hf. verið tilneyddir til að selja félagið á eina krónu. Ekki sé um eiginlegt sölutap að ræða heldur miklu fremur aðgerð eigenda félagsins til að takmarka tjón sitt. Þá kemur fram að í skattaframkvæmd hafi svokallaðir „frjálsir nauðasamningar“ einnig verið taldir falla undir þá reglu sem um ræðir og telur hann tilvik sitt eðlislíkt slíkum samningum. Þá bendir umboðsmaður kæranda á að með því að samþykkja hlutafé í staðinn fyrir kröfu sína á T hf. hafi kærandi verið að reyna að takmarka hugsanlegt tjón sitt vegna ábyrgða sem hann hafði tekist á hendur vegna T hf. gagnvart þriðja aðila. Þrátt fyrir að mikið tap hafi orðið við sölu á umræddu hlutafé verður ekki séð að skilyrði ofangreinds ákvæðis um að það sé sannanlega tapað sé uppfyllt. Gerðar eru strangar kröfur til þess að hlutafé teljist sannanlega tapað og ekki nægir að vísa til þess að ástæða sölu þeirra hafi verið að takmarka tjón vegna ábyrgða sem kærandi hafði tekist á hendur vegna T hf. Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til forsendna skattstjóra gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Samkvæmt reglum og áliti reikningsskilaráðs frá því í september 1999 táknar dagverð birgða yfirleitt áætlað söluverð að frádregnum beinum sölukostnaði og kostnaði við að fullgera birgðir, þegar svo stendur á. Kærandi gerir þá kröfu að vörubirgðir í árslok 1998 verði metnar kr. 4.355.000 lægri en gert var gjaldárið 1998. Ekki verður séð á hvaða grundvelli kærandi byggir umrædda lækkun. Samkvæmt framangreindu gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að málskostnaðarkröfu kæranda verði synjað.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. febrúar 2002, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Með bréfi, dags. 11. mars 2002, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum kæranda. Í bréfinu bendir umboðsmaðurinn á að skattstjóri hafi byggt hina kærðu breytingu á skattframtali kæranda árið 1997 á því að um sölutap af hlutabréfum væri að ræða en ekki tapað hlutafé. Miðað við þá röksemdafærslu skattstjóra hafi ekki átt að vefjast fyrir honum, með tilliti til upplýsinga sem fram hafi komið í skattframtali kæranda árið 1997 og fylgigögnum þess, m.a. í skýrslu stjórnar við ársreikning félagsins, að fella gjaldfærslu tapsins niður þegar við álagningu. Því verði að telja að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 standi endurákvörðun skattstjóra í vegi. Þá fjallar umboðsmaður kæranda um sölu kæranda á umræddu hlutafé á árinu 1996 og tekur fram að eiginfjárstaða T hf. á þeim tíma hafi ekki réttlætt neina greiðslu fyrir hlutaféð. Allt eins hefði því mátt fara þá leið að taka á hluthafafundi ákvörðun um að færa hlutaféð niður í 0 kr. en gefa síðan út nýtt hlutafé til nýs eiganda. Niðurstaðan fyrir kæranda hefði orðið sú sama. Umboðsmaðurinn kveðst telja að þar sem fyrir liggi í málinu að kærandi hafi tekið hlutafé í T hf. sem gagngjald fyrir viðskiptakröfu þá eigi öll sömu atriði við varðandi það hvenær hlutaféð teljist að fullu tapað og eigi við varðandi það hvenær krafa sé töpuð. Unnt sé því að taka undir með skattstjóra og ríkisskattstjóra að ákvæði 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994 eigi við í málinu. Heildstætt mat á málsatvikum eigi að leiða til þess að fallist verði á hina umdeildu gjaldfærslu á grundvelli þeirra meginsjónarmiða sem lesa megi út úr framangreindu reglugerðarákvæði. Þá víkur umboðsmaður kæranda nánar að forsendum skattstjóra, m.a. þeirri forsendu í úrskurði skattstjóra að kærandi hefði ekki greint frá því hvað falist hefði í forsendum samnings um sölu hlutafjárins á árinu 1996, og tekur fram að á skattstjóra hvíli sú skylda að upplýsa mál áður en hann taki ákvörðun í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kveðst umboðsmaðurinn telja að skattstjóri hafi ekki gætt þessa í máli kæranda, enda byggi skattstjóri á því að óvissa sé til staðar um tiltekin atriði. Eigi þessi annmarki að leiða til ómerkingar á ákvörðun skattstjóra. Loks fjallar umboðsmaðurinn í bréfi sínu um þann þátt málsins sem varðar eignfærslu vörubirgða og tekur eftirfarandi fram um það efni:

„Við skráningu á birgðum í birgðakerfi (tölvukerfi) félagsins er tilfærður allur kostnaður við að koma vörum í hús, m.ö.o. allir þættir sem samkvæmt góðri reikningsskilavenju falla undir skilgreiningu kostnaðarverðs í þessu sambandi. Við þannig fengið kostnaðarverð er síðan bætt 2,5% á allar innfluttar vörur erlendis frá, en það eru um 94-96% birgðanna hverju sinni. Þannig fengið kostnaðarverð er síðan skráð sem kostnaðarverð vörubirgða. Álagið er m.a. sett á birgðirnar í þeim tilgangi að stemma stigum við of mikla afslætti við beina sölu eða tilboðsgerð, þar sem kostnaðarverð er lagt til grundvallar á því hvað háa afslætti má gefa. Miðað við að um 95% birgðanna í árslok 1998 hafi verið innfluttar vörur, lætur nærri að álag þetta (sem ekki er kostnaðarverð samkvæmt góðri reikningsskilavenju eða 4. tl. 74. gr. l. nr. 75/1981) hafi verið um 1,6-1,8 m. kr.

Birgðakerfið heldur utan um mat innfluttra birgða í erlendri mynt, skráðu við ákveðnu gengi. Undanfarin misseri (miðað við árslok 1998) hafði gengi gjaldmiðla þeirra landa sem fyrirtækið á vörukaupaviðskipti við, svo sem sænsk króna, dönsk króna og þýskt mark, lækkað talsvert. Lækkun sænskrar krónu frá ársbyrjun 1996 til ársloka 1998 nam um 12,7%, dönsk króna hafði lækkað um 7,3% og þýskt mark um 8,8%. Rúmlega 80% birgða félagsins í árslok 1998 voru tengdar ofangreindum gjaldmiðlum. Í birgðakerfi félagsins hafði ekki verið tekið tillit til lækkunar þessarar, heldur haldið inni í birgðakerfinu hærra gengi gjaldmiðla en var við innkaup eða síðasta innkaupsverð, ef miðað væri við endurkaupsverð vörubirgða. Merki þessa má glögglega sjá ef borin er saman álagning á seldar vörur á árunum 1995 til 1998. Álagning samkvæmt ársreikningum nam 34,8% á árinu 1995, 36,1% á árinu 1997 og 37,7% á árinu 1998. Þetta gerist þrátt fyrir það að „álagning á kostnaðarverð“ í birgðakerfinu sé sú sama öll árin og sífellt hafi færst í vöxt tilboðsgerð og afslættir til stærri kaupenda, svo sem byggingarverktaka og annarra sem kaupa mikið magn.

Samkvæmt 27. gr. l. nr. 144/1994 um ársreikninga segir: „Kostnaðarverð vörubirgða er heimilt að ákvarða sem vegið meðaltal allra birgða af sama tagi á grundvelli síðasta innkaupsverðs eða með annarri viðurkenndri aðferð. Vörubirgðir skulu þó aldrei metnar við hærra verði en dagverði.“

Það er alveg ljóst að birgðamat [kæranda] í árslok 1998 var talsvert hærra en ofangreind lagagrein heimilar að mat vörubirgða sé miðað við. Samkvæmt upplýsingum úr birgðakerfi félagsins og matsaðferðum þeim sem notaðar voru í árslok 1998 við mat á vörubirgðum eru birgðir metnar við hærra verði en heimilt hefði verið að gera skv. lögum og góðri reikningsskilavenju, án þess þó að sú regla sem notuð var væri endilega röng.

Samantekt á ofangreindum atriðum er því eftirfarandi:

Óskilgreindu 2,5% álagi er bætt við kostnaðarverð. Miðað er við hærra gengi á erlendum gjaldmiðlum við bókun á kostnaðarverði birgða og vegna gengislækkunar er síðasta innkaupsverð í öllum tilvikum lægra en skráð birgðaverð og það verð sem notað var við gerð ársreiknings 1998 því hærra sem því nemur. Skoðun okkar leiðir í ljós að lækka hefði mátt mat birgða í árslok um 7-7,5%, án þess að vikið væri frá ákvæðum laga um mat birgða eða góðri reikningsskilavenju. Matslækkun hefði því hæglega getað numið 5-5,5 m. kr.

Fyrir hönd [kæranda] var farið fram á matslækkun birgða um 4.355.000 kr., sem getur ekki á nokkurn hátt talist óeðlileg krafa í ljósi þeirra aðferða sem birgðamat í ársreikningi 1998 byggir á og er í fullu samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju.“

Með framhaldskröfugerð, dags. 26. apríl 2002, hefur ríkisskattstjóri vísað til fyrri kröfugerðar í málinu, dags. 8. febrúar 2002, og ítrekað þær kröfur sem þar koma fram.

IV.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 21. nóvember 2001, er kæruefni málsins markað á þann hátt að kæran varði annars vegar niðurfellingu skattstjóra á gjaldfærslu tapaðs hlutafjár í T hf. 20.800.000 kr. í skattskilum kæranda gjaldárið 1997 og hins vegar synjun skattstjóra um lækkun á mati vörubirgða til eignar um 4.355.000 kr. gjaldárið 1998, sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 21. ágúst 2001. Að því er hina fyrrnefndu ákvörðun skattstjóra snertir er krafa kæranda sú að ákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi. Er sú krafa m.a. studd þeim rökum að tímamörk til endurákvörðunar samkvæmt 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hafi verið liðin þegar endurákvörðun skattstjóra fór fram. Þá er krafa kæranda byggð á því að ekki séu efnislegar forsendur fyrir hinni kærðu breytingu skattstjóra á skattframtali félagsins árið 1997. Að því er varðar synjun skattstjóra um lækkun á mati vörubirgða til eignar þykir rétt að skilja kröfugerð kæranda svo, til samræmis við kröfugerð félagsins á skattstjórastigi, sbr. bréf umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 28. desember 2000 og 27. júní 2001, að krafa kæranda varðandi þetta kæruatriði sé varakrafa í málinu sem einungis komi til skoðunar ef krafa kæranda um niðurfellingu á ákvörðun skattstjóra um að fella niður gjaldfærslu tapaðs hlutafjár nær ekki fram að ganga. Þá verður ekki annað séð en þessi krafa varði gjaldárið 1999. Verður þá fyrst fjallað um aðalkröfu kæranda samkvæmt framansögðu.

Um aðalkröfu:

Eins og fram er komið felldi skattstjóri niður með úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 21. ágúst 2001, gjaldfærslu tapaðs hlutafjár í T hf. að fjárhæð 20.800.000 kr. í skattframtali kæranda árið 1997. Af hálfu kæranda er því haldið fram til stuðnings aðalkröfu að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 girði fyrir umrædda breytingu skattstjóra þar sem í skattframtali kæranda árið 1997 hafi komið fram fullnægjandi upplýsingar um hina töpuðu hlutafjáreign og forsendur fyrir gjaldfærslu hennar. Hafi skattstjóra verið í lófa lagið að framkvæma hina kærðu breytingu á skattframtali félagsins þegar við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997.

Samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 er eigi heimilt að endurákvarða skattaðila skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram þótt í ljós komi að álagning hafi verið of lág, enda hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar sem byggja mátti rétta álagningu á. Í athugasemdum með 2. mgr. 97. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að í þessu laganýmæli felist „að frestur til endurupptöku er styttur ef ástæðan fyrir henni er ófullnægjandi skoðun skattstjóra á framtali og fylgigögnum þess en ekki ófullnægjandi upplýsingar skattaðila“. Er og tekið fram að málsgreinin eigi aðeins við „ef upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, koma beinlínis fram í framtali eða fylgigögnum þess, en 1. mgr. gildir ef þessi gögn eru ófullnægjandi enda þótt skattstjóra hefði mátt vera ljóst fyrr að eitthvað var athugavert við framtalið“. Um skýringu á þessu ákvæði hafa gengið nokkrir dómar Hæstaréttar Íslands, m.a. H 1996:470. Samkvæmt þeirri dómaframkvæmd ber að líta til orðalags 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 og meta hvort fyrir hafi legið nægjanlegar upplýsingar í framtali eða fylgigögnum þess sem rétt álagning varð byggð á. Jafnframt ber samkvæmt þessari dómaframkvæmd að skýra ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 með hliðsjón af leiðréttingarheimildum skattstjóra í 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði getur skattstjóri fyrir álagningu leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skal skattaðila viðvart um slíkar breytingar.

Kærandi færði til gjalda í tekjuframtali sínu árið 1997 tapað hlutafé í T hf. með 20.800.000 kr. Í efnahagsreikningi félagsins pr. 31. desember 1996 var tilgreint að áhættufjármunir (hlutabréf) væru 0 kr. en hefðu numið 21.438.615 kr. pr. 31. desember 1995. Í skýringu við þennan lið efnahagsreikningsins kom fram að hlutafé í dótturfélagi hefði tapast á árinu og væri tapið fært yfir óráðstafað eigið fé. Í skýrslu stjórnar með ársreikningnum sagði m.a. eftirfarandi:

„Árið 1996 var erfitt fyrir félagið, m.a. vegna náinna tengsla við dótturfélag þess T hf. Í ársbyrjun var hafist handa við að leita nýrra hluthafa. Um mitt ár var fjárhagsstaða félagsins orðin það slæm að stjórnendur og eigendur sáu sig tilneydda til þess að ganga til samninga við kaupanda á þeim forsendum sem hann setti fram.

Í ársreikningi þessum er hlutaféð, 21,4 m. kr. fært úr bókum félagsins, yfir óráðstafað eigið fé.“

Samkvæmt framansögðu var hinni umdeildu gjaldfærslu hlutafjáreignar kæranda í T hf. hagað þannig í skattskilum kæranda gjaldárið 1997 svo sem um væri að ræða gjaldfærslu á hlutafé sem hefði tapast, sbr. ákvæði um frádrátt sannanlega tapaðs hlutafjár í 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Fyrrgreindar athugasemdir í skýrslu stjórnar með ársreikningi kæranda gátu hins vegar bent til þess að til sölu hlutafjárins hefði komið á árinu 1996. Ljóst er þó að engar óyggjandi ályktanir í þá veru var unnt að draga af þessum athugasemdum, enda bentu færslur í skattskilum kæranda að öðru leyti til þess að hlutaféð í T hf. hefði tapast. Samkvæmt framansögðu og að virtum ákvæðum 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 verður ekki talið að skattstjóra hafi verið unnt, án þess að leita skýringa kæranda samkvæmt 1. mgr. 96. gr. sömu laga, að fella niður hina umdeildu gjaldfærslu tapaðs hlutafjár og leggja samkvæmt því opinber gjöld á kæranda. Er m.a. ljóst að athugasemdir í skýrslu stjórnar við ársreikninginn kölluðu á sérstakar skýringar eins og gjaldfærslunni var hagað í skattskilum félagsins. Verður því ekki talið að kærandi hafi látið í té með skattframtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar sem byggja mátti rétta álagningu á, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, eins og skýra verður ákvæði þetta, meðal annars í ljósi athugasemda við 2. mgr. 97. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, og H 1996:470. Samkvæmt þessu og þar sem gætt hefur verið ákvæða 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 við umrædda endurákvörðun verður breytingu skattstjóra ekki hnekkt á þeim grundvelli að ekki hafi verið gætt þeirra lagaákvæða sem setja endurákvörðunum skattstjóra tímamörk.

Víkur þá að efnishlið málsins. Deilt er um hvort kæranda hafi verið heimilt að færa til gjalda í skattskilum sínum gjaldárið 1997 hlutafé í T hf. að fjárhæð 20.800.000 kr. sem kærandi kveður hafa tapast á árinu 1996. Í bréfi umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 6. október 2000, var greint frá því að kærandi hefði selt T hf. vörubirgðir, vélar, tæki og innréttingar á árinu 1994 og hluti söluverðs eða 17.000.000 kr. verið greiddur með hlutabréfum í kaupanda, þ.e. T hf. Þó hefði verið gert ráð fyrir því að verðmæti hlutabréfanna yrði endurgreitt kæranda svo fljótt sem kostur væri og í síðasta lagi fyrir árslok 1996. Á árinu 1995 hefði kærandi hins vegar, vegna erfiðleika í rekstri T hf., skuldbreytt kröfu á hendur félaginu að fjárhæð 3.800.000 kr. í hlutafé í því. Enn hefði sigið á ógæfuhliðina í rekstri T hf. á árinu 1996. Á árinu 1997 hefði félagið nánast verið komið í þrot og samningaviðræður kæranda við U hf. um aðkomu þess félags að rekstri T hf. hefðu farið út um þúfur hvað eftir annað. Að lokum hefði svo farið að kærandi hefði selt U hf. öll hlutabréfin í T hf. fyrir 1 kr., sem þó hefði ekki fengist greidd.

Samkvæmt 1. mgr. 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 3. gr. laga nr. 63/1990, má draga frá tekjum af atvinnurekstri sannanlega tapað hlutafé sem aðili hefur eignast á þann hátt að hann hafi, vegna greiðsluerfiðleika hlutafélags, tekið hlutabréf sem gagngjald fyrir viðskiptakröfu sem hann átti á hendur hlutafélagi, enda hafi viðskiptakrafan verið vegna sölu á vöru eða þjónustu. Má draga verð slíkra hlutabréfa frá tekjum á því tekjuári þegar hlutafé er sannanlega tapað. Samkvæmt 2. mgr. sama töluliðar, sbr. 3. gr. laga nr. 30/1995, má sömuleiðis draga frá atvinnurekstrartekjum sannanlega tapað hlutafé í félögum sem orðið hafa gjaldþrota. Sama gildir um hlutafé sem tapast hefur vegna þess að það hefur verið fært niður í kjölfar nauðasamninga samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Skattstjóri felldi niður hina umdeildu gjaldfærslu hlutafjáreignar í skattframtali kæranda árið 1997 á þeirri forsendu að ekki hefði verið sýnt fram á að hlutaféð hefði verið sannanlega tapað á árinu 1996, sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 21. ágúst 2001, þar sem skattstjóri vísaði til ákvæðis 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, í þessu sambandi. Í nefndu reglugerðarákvæði er fjallað um það hvenær tap á kröfu, sbr. 13. reglugerðarinnar, telst sannanlegt. Benti skattstjóri á að kærandi hefði greint frá því að hlutaféð hefði verið selt fyrir 1 kr. og tók fram að samkvæmt því virtist vera um að ræða gjaldfærslu sölutaps. Samkvæmt þessu hefur skattstjóri öðrum þræði byggt á því að um gjaldfærslu á sölutapi hlutabréfa væri að ræða sem ekki væri unnt að gjaldfæra, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nánar boðunarbréf skattstjóra, dags. 26. október 2000. Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er tekið fram af þessu tilefni að þrátt fyrir umrædda sölu á hlutabréfunum til U hf. sé ekki um eiginlegt sölutap að ræða heldur aðgerð eigenda kæranda til að lágmarka tjón sitt, svo sem nánar er lýst. Kemur fram að því sé hafnað að líta á gerninginn sem sölu á hlutabréfunum, enda hafi einungis verið gengið frá afsali á bréfunum til málamynda og umsamið endurgjald fyrir þau aldrei verið greitt.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að hlutabréf kæranda í T hf. voru afhent U hf. í tengslum við samkomulag sem tókst við það fyrirtæki, sbr. skýringar í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 6. október 2000. Er því haldið fram af hálfu kæranda að afhending hlutabréfanna hafi í raun farið fram án endurgjalds, enda hafi bréfin verið orðin verðlaus vegna bágrar fjárhagsstöðu dótturfélagsins. Þrátt fyrir athugasemd skattstjóra um gjaldfærslu sölutaps verður að telja að niðurstaða málsins velti á því hvort hlutaféð hafi verið sannanlega tapað í skilningi 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 áður en til umræddrar afhendingar þess kom, enda verður ekki annað ráðið en sú ráðstöfun hlutafjárins hafi farið fram eftir að ákvörðun var tekin um gjaldfærslu þess sem tapaðs hlutafjár. Það ber undir kæranda að sýna fram á að svo sé. Af hálfu kæranda hefur einungis með almennum hætti verið greint frá erfiðleikum í rekstri T hf. og að félagið hafi rambað á barmi gjaldþrots á árinu 1996. Þá hefur engin frekari grein verið gerð fyrir framangreindri afhendingu hlutabréfanna til U hf. og samningum félaganna um þá yfirtöku U hf. á rekstri T hf. sem virðist hafa farið fram í tengslum við afsal hlutafjárins. Hefur m.a. ekkert verið greint frá afdrifum eigna og skulda T hf. í þessu sambandi. Sú staðreynd, að þessar ráðstafanir áttu sér stað, þykir ein og sér benda til þess að hlutaféð hafi þá ekki verið sannanlega tapað í skilningi framangreindra ákvæða. Ekki er hald í þeirri viðbáru umboðsmanns kæranda í þessu sambandi, sem teflt er fram í bréfi hans til yfirskattanefndar, dags. 11. mars 2002, að skattstjóra hafi borið að grafast sérstaklega fyrir um þetta atriði áður en hann tók ákvörðun í málinu, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda verður að telja að það standi kæranda sjálfum næst að gera viðhlítandi grein fyrir umræddum ráðstöfunum með hlutabréfin og var ríkt tilefni til slíkrar greinargerðar í ljósi vefengingar skattstjóra. Er ástæða til að ítreka að sönnun þess að hlutaféð hafi verið tapað á árinu 1996 heyrir undir kæranda. Með vísan til framanritaðs verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að hlutafé félagsins í T hf., sem félagið afsalaði U hf., hafi verið sannanlega tapað á árinu 1996 í skilningi 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. ákvæði 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994 sem eðlilegt er að hafa til hliðsjónar í þessu sambandi. Ber því að hafna aðalkröfu kæranda í máli þessu.

Um varakröfu:

Varakrafa kæranda lýtur að því að mat vörubirgða til eignar í efnahagsreikningi félagsins „í árslok 1998“ verði lækkað um 4.355.000 kr. frá því verði sem tilfært var í ársreikningi félagsins fyrir árið 1998, sbr. m.a. bréf umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 11. mars 2002. Verður því að ætla, svo sem fram er komið, að krafan varði gjaldárið 1999 en ekki gjaldárið 1998 svo sem tiltekið er í kröfugerð í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 21. nóvember 1998.

Samkvæmt 4. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981 skal telja vörubirgðir, þar með taldar rekstrarvörubirgðir, til eignar á kostnaðarverði eða dagverði í lok reikningsárs, að frádregnum afföllum á gölluðum og úreltum vörum. Vörubirgðir voru færðar til eignar í efnahagsreikningi kæranda pr. 31. desember 1998 með 74.647.229 kr. og í skýringum við ársreikning félagsins kom fram að vörubirgðir væru metnar við kostnaðarverði að teknu tilliti til gallaðra vara. Af hálfu kæranda er því ekki haldið fram að skattframtal félagsins árið 1999 hafi ekki verið í samræmi við lög að þessu leyti. Verður bréf umboðsmanns kæranda, dags. 11. mars 2002, ekki skilið svo að slíku sé borið við. Þvert á móti kemur þar fram að sú aðferð, sem notuð var, hafi ekki verið röng. Varakrafan byggir hins vegar á því að kæranda hafi verið heimilt að lögum að ákvarða kostnaðarverð vörubirgða á annan hátt en félagið kaus samkvæmt framansögðu. Líta ber til þess að ársreikningur kæranda fyrir árið 1998 er staðfestur af stjórn félagsins og endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda sem áritar hann án fyrirvara. Að þessu athuguðu og þar sem meðferð vörubirgða í skattskilum kæranda umrætt ár var hagað í samræmi við lög verður ekki fallist á kröfu kæranda um breytta skattalega meðferð að þessu leyti, sbr. sjónarmið um bindandi áhrif skattframtala. Er varakröfu kæranda því hafnað.

Með þeim skattalegu ráðstöfunum, sem skattstjóri ákvarðaði gjaldárið 1998 samkvæmt beiðni kæranda, varð yfirfæranlegt tap til næsta árs að fjárhæð 4.492.516 kr., sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 21. ágúst 2001. Við ákvörðun skattstofna gjaldárið 1999 hefur skattstjóra láðst að taka tillit til þessa taps sem nemur framreiknað 4.549.572 kr. Þykir bera að leiðrétta þetta og verður tekjuskattsstofn gjaldárið 1999 0 kr. og yfirfæranlegt tap til næsta árs 73.393 kr. Tekið skal fram að enginn ágreiningur er um umræddar ráðstafanir skattstjóra hvorki tölulegur né að öðru leyti að undanskilinni meðferð vörubirgða. Verður því ekki frekar fjallað um þessar ráðstafanir.

Um málskostnað:

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis. Kröfu þar að lútandi er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja