Úrskurður yfirskattanefndar
- Álag vegna staðgreiðsluskila
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 467/2002
Staðgreiðsla 2001
Lög nr. 45/1987, 28. gr. Lög nr. 37/1993, 13. gr.
Kæranda, sem var einkahlutafélag, var ekki tilkynnt um álagsbeitingu vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu vegna apríl og maí 2001. Var fallist á með kæranda að andmælaréttar hans hefði ekki verið gætt með fullnægjandi hætti og var álagið af þeim sökum fellt niður.
I.
Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 8. mars 2002, er ákvörðun skattstjóra samkvæmt kæruúrskurði, dags. 26. febrúar 2002, að synja kröfu kæranda um niðurfellingu álags að fjárhæð 25.930 kr. vegna síðbúinnar staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun skattstjóra um beitingu álags verði ómerkt. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.
II.
Samkvæmt málsgögnum ákvarðaði skattstjóri kæranda álag vegna síðbúinna skila á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjaldi greiðslutímabilin apríl 2001 og maí 2001 og byggði á því að skil hefðu verið gerð vegna fyrrnefnda tímabilsins 16. maí 2001 og vegna síðarnefnda tímabilsins 19. júní 2001, en eindagar voru 15. maí og 15. júní, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987.
Með bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 1. nóvember 2001, var kæranda tilkynnt um vanskil að fjárhæð 25.930 kr. á staðgreiðslureikningi hans og var skorað á hann að greiða skuldina þegar í stað. Hinn 8. nóvember 2001 var af hálfu kæranda óskað skýringa á kröfunni og bárust kæranda skýringar tollstjóra þess efnis að greiðslur hefðu borist of seint og um ráðstöfun greiðslna.
Með bréfi til skattstjóra, dags. 11. desember 2001, krafðist kærandi þess að álag yrði fellt niður á þeim grundvelli að andmælaréttar síns hefði ekki verið gætt og engin formleg álagning hefði farið fram. Kærandi ítrekaði þessa kröfu með bréfi til skattstjóra, dags. 21. janúar 2002, og vísaði í því sambandi til bréfs síns, dags. 11. desember 2001, og svarbréfs tollstjórans í Reykjavík, dags. 18. desember 2001. Til stuðnings kröfu um niðurfellingu álags vísaði fyrirsvarsmaðurinn ennfremur til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 1104/2000.
Af hálfu skattstjóra var með bréfi til kæranda, dags. 25. janúar 2002, tekið fram að kærandi hefði gert of seint skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjaldi fyrir apríl og maí 2001. Gjalddagar hefðu verið 15. maí og 15. júní 2001, en skil verið gerð 16. maí og 19. júní 2001. Álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 væri lögbundið og ekki að lögum til að dreifa mati skattstjóra á beitingu álags að undanskilinni niðurfellingu álags samkvæmt heimildarákvæði 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 við þær sérstöku aðstæður sem þar greindi. Kærandi hefði engar ástæður fært fram fyrir síðbúnum skilum og þætti rétt að gefa honum kost á að koma að slíkum ástæðum áður en úrskurðað yrði í málinu.
Í svarbréfi kæranda, dags. 27. janúar 2002, kom fram að um misskilning væri að ræða af hálfu skattstjóra. Krafa um niðurfellingu álags væri byggð á því að ekki hefði verið gætt réttra aðferða við ákvörðun álags þar sem andmælaréttur hefði verið brotinn gagnvart kæranda og síðbúin tilkynning um álag hefði leitt til dráttarvaxta sem ekki yrði unað við. Kvaðst kærandi ætíð hafa staðið í fullum skilum með opinber gjöld. Hann kynni ekki að skýra út hvers vegna greiðsla virtist of seint bókuð og gæti ekki fært fram aðrar ástæður fyrir niðurfellingu en að framan greindi. Kærandi áréttaði að til formlegrar álagningar hefði aldrei komið og bæri þegar af þeirri ástæðu að fella hana niður.
Hinn 26. febrúar 2002 felldi skattstjóri úrskurð í máli kæranda. Skattstjóri áréttaði að álag skv. 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 væri lögbundið og leiddi sjálfkrafa af þeim tilteknu aðstæðum sem lýst væri í 1. mgr. og væri því að lögum ekki til að dreifa mati skattstjóra á beitingu álags, að því undanskildu að heimilt væri fyrir skattstjóra að fella niður álag skv. 6. mgr. 28. gr. við sérstakar aðstæður er þar greindi. Kærandi hefði greitt staðgreiðslu og tryggingagjald fyrir apríl og maí 2001 of seint, en eindagar hefðu verið 15. maí og 15. júní. Skil vegna apríl hefðu verið gerð þann 16. maí 2001 og skil vegna maí þann 19. júní 2001. Með bréfi, dags. 25. janúar 2002, hefði kæranda verið gefinn kostur á að gera grein fyrir ástæðum síðbúinna skila á staðgreiðslu og tryggingagjaldi, en í bréfi kæranda, dags. 21. janúar 2002, hefðu engar skýringar verið gefnar á síðbúnum skilum. Hefði kærandi lagt fram ljósrit af úrskurði yfirskattanefndar nr. 1104/2000 og gert kröfu um niðurfellingu á álagi á grundvelli þess rökstuðnings sem þar kæmi fram. Kvað skattstjóri málsatvik í greindum úrskurði yfirskattanefndar ekki vera sambærileg og í tilviki kæranda. Að svo vöxnu væri kröfu kæranda um niðurfellingu álags synjað.
III.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 8. mars 2002, er krafa um niðurfellingu álags reist á því að hvorki skattstjóri né tollstjóri hafi gætt réttra aðferða við beitingu hins umdeilda álags. Hafi kæranda ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um beitingu álagsins og ekki hefði verið upplýst um eðli vanskila fyrr en með bréfi tollstjóra, dags. 18. desember 2001, sex til sjö mánuðum eftir beitingu álagsins. Þá hafi ekki reynst unnt að upplýsta hvers vegna staðgreiðsla og tryggingagjald hefði samkvæmt órökstuddum fullyrðingum tollstjóra borist of seint. Hugsanlega hafi verið um að ræða handvömm á skrifstofu kæranda svo sem vegna sumarleyfa, veikinda eða annarra atvika. Þá sé hugsanlegt að viðskiptabanki kæranda hafi ekki skilað greiðslunum tímanlega eða greiðsla verið bókuð ranglega inn hjá tollstjóra. Kærandi hafi ætíð staðið skil á opinberum gjöldum á réttum eindögum. Andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotinn og rétti kæranda til að gefa skýringar í samræmi við 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 spillt af skattstjóra og tollstjóra. Þá hafi síðbúin vanskilatilkynning ekki veitt upplýsingar um eðli vanskilanna og hafi það leitt til óþarfa fyrirhafnar og kostnaðar. Hvort sem álag sé lögbundið eða ekki beri að mati kæranda að gefa gjaldanda kost á að tjá sig áður eða í það minnsta strax í kjölfar beitingar þess. Þannig hefði a.m.k. verið hægt að koma í veg fyrir að dráttarvextir féllu til. Er sérstaklega byggt á því að samkvæmt vaxtalögum sé ekki unnt að beita dráttarvöxtum á álag fyrr en tilkynning um það hafi borist gjaldanda.
Krafa um málskostnað er studd þeim rökum að skattstjóri og tollstjóri hafi með ólögmætum aðferðum valdið kæranda óþarfa fyrirhöfn og tjóni. Beri ennfremur að horfa til þess að skattstjóri hafi ekki virt fyrirliggjandi fordæmi yfirskattanefndar. Af hálfu kæranda er tekið fram að vinnustundir fyrirsvarsmanns kæranda við málið nemi nú sex klukkustundum og sé tímagjald samkvæmt gjaldskrá 9.160 kr. án virðisaukaskatts.
IV.
Með bréfi, dags. 12. apríl 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
V.
Af hálfu kæranda er því borið við í kæru til yfirskattanefndar að þess hafi ekki verið gætt við hina umdeildu álagsbeitingu samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, að gefa kæranda kost á að neyta andmælaréttar síns með viðhlítandi hætti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en álag var ákvarðað. Þá hafi álagsákvörðunin ekki verið tilkynnt kæranda með formlegum hætti, enda hafi kæranda ekki borist nein tilkynning skattstjóra um álagsbeitingu heldur einungis viðvörun tollstjóra sem hafi jafnframt ekki verið svo skýr sem skyldi, enda hafi ekki komið fram í tilkynningunni að um álag væri að ræða, heldur hafi einungis verið tilkynnt um vanskil á staðgreiðslu vegna tímabila 04 og 05 árið 2001. Tekið skal fram að kæra til yfirskattanefndar verður ekki skilin svo að því sé mótmælt af hálfu kæranda að skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi vegna apríl og maí 2001 hafi ekki farið fram á réttum tíma.
Í 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987 er mælt svo fyrir að gjalddagi greiðslu samkvæmt 1. mgr. greinarinnar sé 1. hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Þá er boðið að launagreiðandi skuli sæta álagi samkvæmt 28. gr. laganna hafi hann eigi greitt á eindaga. Í 28. gr. laga nr. 45/1987 er síðan fjallað um álag á vanskilafé í staðgreiðslu og beitingu þess. Í 1. mgr. greinarinnar er tekið fram að séu greiðslur launagreiðanda samkvæmt 20. gr. ekki inntar af hendi á tilskildum tíma skuli hann sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins, eða til viðbótar því skilafé sem honum bar að standa skil á. Sama gildi ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og greiðsluskyld fjárhæð því verið áætluð, sbr. 21. gr., nema launagreiðandi hafi greitt fyrir eindaga upphæð er svarar til áætlunar. Í 2. mgr. 28. gr. eru ákvæði um álag á vanskilafé. Þar er í fyrsta lagi mælt svo fyrir í 1. tölulið málsgreinarinnar að álagið skuli vera einn hundraðshluti (1%) af upphæð vanskilafjár fyrir hvern dag eftir eindaga, þó ekki hærra en tíu hundraðshlutar (10%), og í öðru lagi er í 2. tölulið málsgreinarinnar mælt fyrir um álag til viðbótar af upphæð vanskilafjár fyrir hvern byrjaðan mánuð, talið frá og með 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga, og skal álag þetta vera það sama og dráttarvextir sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt lögum nr. 36/1986.
Samkvæmt framansögðu er álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 lögbundið og leiðir sjálfkrafa af þeim tilteknu aðstæðum sem lýst er í 1. mgr. greinarinnar. Er því ekki að lögum til að dreifa mati skattstjóra á beitingu álags að undanskilinni niðurfellingu álags samkvæmt heimildarákvæði 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 við þær sérstöku aðstæður er þar greinir.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stóð kærandi skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjaldi vegna aprílmánaðar 2001 þann 16. maí 2001 og vegna maímánaðar þann 19. júní 2001. Vegna hinna síðbúnu skila ákvarðaði skattstjóri kæranda álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Eins og fyrr greinir er því borið við í kæru til yfirskattanefndar að kæranda hafi vegna hinnar kærðu álagsbeitingar ekki verið gefið nægjanlegt færi á að neyta andmælaréttar síns. Engin bréfleg tilkynning hafi borist frá skattstjóra um beitingu álagsins, heldur einungis greiðsluáskorun frá tollstjóranum í Reykjavík, þar sem einungis hafi komið fram að um vanskil á staðgreiðslu væri að ræða vegna tilgreindra tímabila.
Þegar til þess er litið, eins og bent er á af hálfu kæranda, að skattstjóri tilkynnti kæranda ekki um hina umdeildu álagsbeitingu, þannig að eina vísbendingin um hana var greiðsluáskorun tollstjórans í Reykjavík frá 1. nóvember 2001, en tilkynning þessi, sem til er komin löngu eftir að vanskilin urðu, er bæði efnislega óskýr og villandi varðandi tölulegar tilgreiningar, verður að taka undir það með kæranda að andmælaréttar hans hafi ekki verið gætt með fullnægjandi hætti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og atvikum var farið samkvæmt framansögðu þykir engu breyta um þetta þótt um sé að ræða lögbundið álag, eins og fyrr er lýst, enda hafði kærandi hagsmuni af því að koma að athugasemdum við álagsbeitinguna, sérstaklega með tilliti til 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Samkvæmt þessu ber að ómerkja hina kærðu álagsbeitingu.
Með úrskurði þessum er engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins.
Kærandi hefur krafist þess að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Kærandi, sem rekið hefur mál sitt sjálfur á öllum stigum þess, hefur hvorki gert grein fyrir útlögðum kostnaði sínum við meðferð málsins með framlagningu reikninga eða á annan hátt né verður ráðið að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Þykja því ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt framangreindu ákvæði. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hin kærða álagsbeiting er ómerkt. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.