Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 527/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 3. tl. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. — 2. ml.   Reglugerð nr. 245/1963 — 29. gr. 1. mgr. C-liður  

Tapaðar útistandandi viðskiptaskuldir — Útistandandi viðskiptaskuldir — Áætlun — Áætlun skattstofna — Síðbúin framtalsskil — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Gjaldþrot — Gjaldþrotaskipti — Skiptaráðandi — Sönnun — Sönnun fyrir því að útistandandi viðskiptaskuld sé töpuð — Tímaviðmiðun rekstrarútgjalda

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til gjalda í rekstrarreikningi fyrir árið 1988 afskrifaðar tapaðar útistandandi skuldir 494.791 kr. Með bréfi, dags. 5. júlí 1989, krafði skattstjóri kæranda upplýsinga um það, hvaða útistandandi skuldir væri hér um að ræða, hvernig þær tengdust rekstri kæranda og um staðfestingu á því, að þær væru tapaðar, t.d. með staðfestingu á gjaldþrotaskiptalokum. Í svarbréfi sínu, dags. 10. júlí 1989, gerði kærandi grein fyrir þessum útistandandi skuldum, er hann taldi tapaðar. Þær eru: A hf., 426.085 kr., B, 29.190 kr., C, 36.698 kr. og D-hreppur 2.818 kr. eða samtals 494.791 kr. Kærandi greindi frá því, að kröfurnar væri til orðnar vegna verka, sem unnin hafi verið fyrir viðkomandi aðila og tekjufærð í skattframtali hans. Forsendur kæranda fyrir því að afskrifa kröfur þessar eru svofelldar í bréfinu: „Bú A hf. er í gjaldþrotameðferð og ekki taldar líkur á að neitt fáist upp í almennar kröfur úr því. Kröfuna á B hefi ég ákveðið að fella niður. Skuld C hefur mér ekki tekist að innheimta og er hún nú fyrnd. Varðandi D-hrepp þá var þessi reikningur útundan hjá mér, þegar lokauppgjör við hreppinn fór fram og hefi ég ákveðið að fella hann niður af þeim sökum.“

Skattstjóri tók skattframtal kæranda sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, með því að það hefði borist að framtalsfresti liðnum en áður en álagning fór fram. Að undangenginni nefndri fyrirspurn og að fengnu svarbréfi kæranda kvað skattstjóri upp kæruúrskurð þann 8. september 1989, þar sem hann féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1989 í stað áætlunar með svofelldri breytingu varðandi gjaldfærslu ætlaðra tapaðra útistandandi skulda: „Sú breyting er gerð á framtalinu, að afskrifaðar kröfur eru lækkaðar um kr. 455.275 sbr. bréf vort 05.07. og svar yðar 10.07., en ekki liggur fyrir að kröfur á A hf. og B séu óinnheimtanlegar þar sem gjaldþrotaskiptum beggja er ólokið.“

Með kæru, dags. 5. október 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og boðar að nánari greinargerð verði send síðar. Í bréfi, dags. 8. janúar 1990, hefur umboðsmaðurinn gert grein fyrir kröfum sínum og rökstuðningi. Krafan er sú, að gjaldfærsla útistandandi skuldar 426.085 kr. hjá A hf. verði viðurkennd með svofelldum rökum: „Umbj.m. hefur með höndum sjálfstæðan atvinnurekstur og er krafa þessi til komin vegna ýmis konar smíðavinnu umbj.m. hjá A hf. og telst krafa hans til almennra krafna í þrotabúið. Umbj.m. telur sér gjaldfærslu þessa heimila með vísan til 3. tl. 1. mgr. 31. gr. l. nr. 75/1981. - Meðfylgjandi er vottorð frá skiptaráðandanum á Akureyri þar sem vottað er að ekkert muni greiðast upp í almennar kröfur við gjaldþrotaskipti A hf.“

Með bréfi, dags. 7. maí 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Krafa á hendur A hf. verður ekki sannarlega töpuð fyrr en með vottorði skiptaráðandans í X-sýslu dags. 15. nóvember 1989 og telst því með rekstrarárinu 1989, sbr. 3. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Með hliðsjón af framansögðu er krafist synjunar á kröfu kæranda.“

Skattstjóri hefur fallist á gjaldfærslu útistandandi skulda hjá C og D-hreppi samtals að fjárhæð 39.516 kr. sem tapaðra, sbr. 3. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og er eigi neinn ágreiningur í málinu að því er þessar kröfur áhrærir. Þá heldur kærandi eigi lengur fram kröfu um gjaldfærslu útistandandi skuldar 29.190 kr. hjá B. Kröfu sína um gjaldfærslu útistandandi skuldar hjá A hf. 426.085 kr. sem tapaðrar rökstyður kærandi með staðfestingu skiparáðandans á E, dags. 15. nóvember 1989, þar sem fram kemur, að ljóst sé orðið við skipti á þrotabúi A hf., sem úrskurðað var gjaldþrota 22. ágúst 1988, að ekkert muni greiðast upp í almennar kröfur. Ekki sé fulljóst, hvenær unnt verði að ljúka skiptum formlega, en það verði væntanlega innan tíðar. Með vísan til 3. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 og þess sem fram kemur í nefndu bréfi skiptaráðandans, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu, þykir verða að svo komnu að synja kæranda um gjaldfærslu umræddrar útistandandi skuldar rekstrarárið 1988.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja