Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattframtal, tortryggilegt
  • Áætlun skattstofna
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 124/2018

Gjaldár 2017

Lög nr. 90/2003, 96. gr. 1. mgr., 99. gr., 108. gr. 1. mgr.   Lög nr. 30/1992, 12. gr.   Lög nr. 37/1993, 12. gr.  

Yfirskattanefnd féllst á að byggja álagningu opinberra gjalda kæranda að svo stöddu á innsendu skattframtali hans með breytingum sem kærandi fór fram á að gerðar yrðu á því. Niðurstaða ríkisskattstjóra um höfnun skattframtalsins hafði eingöngu byggst á því að kærandi hefði ekki svarað fyrirspurn embættisins um húsaleigubætur að fjárhæð 35.000 kr., en það atriði var ekki talið þess eðlis að leitt gæti til höfnunar skattframtalsins heldur aðeins til breytinga á viðkomandi lið eftir því sem efni kynnu að standa til.

Ár 2018, miðvikudaginn 19. september, er tekið fyrir mál nr. 118/2018; kæra A, dags. 30. júlí 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2017. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 30. júlí 2018, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. maí 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2017. Í úrskurðinum, sem ber yfirskriftina „Beiðni um endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra“, er vísað til bréfs yfirskattanefndar (ranglega tiltekið sem bréf kæranda), dags. 7. febrúar 2018, en með bréfi þessu var ríkisskattstjóra sendur úrskurður nefndarinnar nr. 17, 7. febrúar 2018 í máli kæranda. Samkvæmt greindum úrskurði yfirskattanefndar var kæru kæranda vegna kæruúrskurðar ríkisskattstjóra frá 26. september 2017 vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Ríkisskattstjóri tekur fram í úrskurði sínum að með bréfi til kæranda, dags. 15. febrúar 2018, hafi embættið óskað upplýsinga um tilgreindar húsaleigubætur í innsendu skattframtali kæranda árið 2017, þ.e. staðsetningu leiguhúsnæðis, leigutímabil og heildarleigugreiðslur árið 2016“. Ekkert svar hafi borist við fyrirspurnarbréfinu og sé „beiðni um endurupptöku því hafnað“.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að láðst hafi að svara fyrirspurn ríkisskattstjóra frá 15. febrúar 2018 varðandi húsaleigubætur kæranda. Kærandi hafi haustið 2016 verið við háskólanám. Kærandi hafi leigt eitt herbergi hjá skólanum og greitt í leigu 35.000 kr. á mánuði í fjóra mánuði. Því hafi kærandi fengið húsaleigubætur.

II.

Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 21. ágúst 2018, kemur fram að þar sem kærandi hafi lagt fram ný gögn og rökstuðning og með hliðsjón af þeim lagarökum sem búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sé þess krafist að málinu verði vísað til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar.

III.

Aðdragandi máls þessa er sá að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2017. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2017 sætti kærandi því áætlun ríkisskattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að viðbættu álagi samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laganna. Samkvæmt gögnum málsins barst ríkisskattstjóra skattframtal kæranda árið 2017 hinn 6. júní 2017 og tók hann það til meðferðar sem skattkæru, sbr. 99. gr. laga nr. 90/2003.

Áður en ríkisskattstjóri tók kæruna til úrskurðar reit hann kæranda bréf, dags. 18. ágúst 2017, þar sem fram kom að framtaldar tekjur kæranda 139.725 kr. þættu vera það lágar að slík framtalsgerð fengi ekki staðist án frekari skýringa. Benti ríkisskattstjóri m.a. á að kærandi væri skráður eigandi íbúðarhúsnæðis og hefði greitt af lánum vegna þess. Í skattframtalinu væri ekki getið greiðslna frá lífeyrissjóðum, Tryggingastofnun ríkisins eða Atvinnuleysistryggingasjóði né fylgdu upplýsingar um dvöl á stofnun eða annað er skýrt gæti framfærslu kæranda. Skoraði ríkiskattstjóri á kæranda að leggja fram gögn og skýringar er sýndu með ótvíræðum hætti af hverju hann hefði haft framfærslu á árinu 2016. Svarfrestur var tiltekinn 15 dagar. Bréfi þessu var ekki svarað af hálfu kæranda. Með kæruúrskurði, dags. 26. september 2017, hafnaði ríkisskattstjóri skattframtali kæranda sem réttmætum grundvelli álagningar opinberra gjalda hans gjaldárið 2017, enda hefði kærandi ekki sýnt með ótvíræðum hætti af hverju hann hefði haft framfærslu árið 2016.

Af hálfu kæranda var kæruúrskurði ríkisskattstjóra skotið til yfirskattanefndar með kæru, mótt. 12. desember 2017. Í kærunni var þess krafist að innsent skattframtal yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda að teknu tilliti til upplýsinga í kærunni þess efnis að kærandi hefði á árinu 2017 haft tekjur að fjárhæð 1.651.221 kr. af sölu á gistingu gegnum bókunarvefsíðuna airbnb.com. Að teknu tilliti til launatengdra gjalda væru hreinar tekjur 31.869 kr. Reiknað endurgjald næmi 1.400.000 kr. Þá hefði kærandi greitt 112.000 kr. í lífeyrissjóð. Loks ætti 4% frádráttur í reit 162 í skattframtalinu að vera 56.000 kr. Í umsögn ríkisskattstjóra vegna kærunnar, dags. 8. janúar 2018, kom fram að þar sem kærandi hefði lagt fram ný gögn og rökstuðning og með hliðsjón af lagarökum að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, væri þess krafist að málinu verði vísað til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar. Niðurstaða yfirskattanefndar í málinu varð og sú, sbr. úrskurð nr. 17/2018, sem kveðinn var upp 7. febrúar 2018, að kæra í málinu væri studd skýringum og upplýsingum sem ríkisskattstjóri hefði ekki tekið afstöðu til, þar á meðal upplýsingum sem ríkisskattstjóri hefði krafið kæranda um án árangurs við meðferð málsins hjá því embætti. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af þeim lagarökum sem byggju að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, sbr. og umsögn ríkisskattstjóra, væri kæran send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar. Í úrskurðarorði kom fram að kærunni væri vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Eins og fram er komið var úrskurður yfirskattanefndar nr. 17/2008 sendur ríkisskattstjóra ásamt gögnum málsins með bréfi nefndarinnar 7. febrúar 2018. Í samræmi við niðurstöðu úrskurðarins og forsendur hans, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 12. gr. laga nr. 30/1992, bar ríkisskattstjóra að kveða upp kæruúrskurð að nýju í máli kæranda. Varð þá að taka afstöðu til þess hvort telja mætti fram komnar upplýsingar í kæru kæranda skýra með fullnægjandi hætti þá annmarka sem ríkisskattstjóri taldi vera á innsendu skattframtali kæranda samkvæmt fyrri kæruúrskurði. Sem endranær bar ríkisskattstjóra að rökstyðja kæruúrskurð sinn, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og sjá til þess samkvæmt almennri rannsóknarskyldu sinni að málið væri nægjanlega upplýst, væru ákvarðanir teknar sem gerðu það nauðsynlegt.

Niðurstaða ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði, dags. 4. maí 2018, sem raunar er einhverra hluta vegna orðuð sem synjun á „beiðni um endurupptöku“, hafði það í för með sér að áætlaðir skattstofnar við frumálagningu opinberra gjalda stóðu óbreyttir. Í úrskurðinum er þó ekkert vikið efnislega að þeim atriðum sem réðu niðurstöðu í fyrri úrskurði embættisins eða fram komnum skýringum kæranda sem einkum lutu að því að ekki hefði verið gerð grein fyrir öllum tekjum í innsendu skattframtali. Er helst að skilja að ríkisskattstjóri hafi talið þær skýringar fullnægjandi svo langt sem þær náðu. Byggir niðurstaða úrskurðarins eingöngu á því að kærandi hafi ekki svarað fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra, sem sent var kæranda eftir að málið var að nýju komið til meðferðar hjá embættinu, um framtaldar húsaleigubætur 35.000 kr. frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Að þessum lið skattframtalsins hafði ríkisskattstjóri ekki vikið áður. Þá verður ekki séð að þessi tekjuliður geti skipt neinum sérstökum sköpum um ágreiningsefnið, þ.e. hvort innsent skattframtal teldist tækur álagningargrundvöllur, m.a. í ljósi þeirrar fjárhæðar sem um ræðir. Verður því ekki talið að þetta atriði geti talist þess eðlis að leitt geti til höfnunar skattframtalsins heldur einungis til breytinga á viðkomandi lið eftir því sem efni kunnu að standa til. Að þessu athuguðu, sbr. og meðalhófsreglu þá sem lögfest er í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður að telja að ekki hafi verið rétt af ríkisskattstjóra að hafna skattframtali kæranda á þeim forsendum sem hér um ræðir.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2017 byggð að svo stöddu á innsendu skattframtali kæranda með þeim breytingum sem kærandi hefur farið fram á að gerðar verði á því. Að teknu tilliti til færslna í rekstrarskýrslu verður reiknað endurgjald 1.400.000 kr. í reit 24, hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri 31.869 kr. í reit 62 og frádráttur vegna iðgjalds í lífeyrissjóð 56.000 kr. í reit 162. Álag vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, fellur niður, en beiting þess er ekki rökstudd á neinn hátt í kæruúrskurði ríkisskattstjóra.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda um að innsent skattframtal árið 2017 verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2017 er tekin til greina með þeim breytingum sem að framan greinir.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja