Úrskurður yfirskattanefndar
- Frádráttur frá tekjum dánarbús
- Ábyrgðarskuldbindingar
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 125/2018
Gjaldár 2016
Lög nr. 90/2003, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr. og 3. tölul., 99. gr. Lög nr. 30/1992, 12. gr.
Talið var að ráðstafanir dánarbús vegna uppgjörs á ábyrgðarskuld við banka hefðu fyrst og fremst verið þáttur í eignaskiptum dánarbúsins. Möguleg töpuð krafa dánarbúsins á hendur aðalskuldara vegna ábyrgðarinnar yrði því ekki færð til frádráttar tekjum dánarbúsins. Á hinn bóginn var fallist á kröfu dánarbúsins um gjaldfærslu kostnaðar vegna fasteignagjalda, vátryggingariðgjalda og hússjóðsgjalda af fasteign dánarbúsins sem var í útleigu.
Ár 2018, miðvikudaginn 19. september, er tekið fyrir mál nr. 87/2018; kæra dánarbús A, dags. 28. maí 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Helstu málavextir eru þeir að A andaðist í janúar 2015. Í skattframtali dánarbús hans árið 2016 var m.a. gerð grein fyrir vaxtatekjum að fjárhæð 7.617.534 kr. vegna sölu ríkisverðbréfa, söluhagnaði hlutabréfa að fjárhæð 1.122.677 kr. og húsaleigutekjum að fjárhæð 933.976 kr.
Með bréfi, dags. 23. júní 2016, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að tekjur vegna innlausnar verðbréfa og sölu hlutabréfa eftir andlát A yrðu skattlagðar sem tekjur lögaðila í 36% skattþrepi tekjuskatts, sbr. 2. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003. Kom fram að um væri að ræða vaxtatekjur að fjárhæð 7.609.777 kr. og söluhagnað hlutabréfa að fjárhæð 1.122.677 kr. Þá yrði húsaleigutekjum skipt til skattlagningar hjá einstaklingi og lögaðila í hlutfalli við dagafjölda frá ársbyrjun til andlátsdags og frá andlátsdegi til loka leigutímabils. Yrðu því 133.425 kr. skattlagðar sem leigutekjur einstaklings í 20% skattþrepi tekjuskatts að teknu tilliti til frítekjumarka, sbr. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, og 800.550 kr. skattlagðar sem tekjur lögaðila í 36% skattþrepi tekjuskatts, sbr. 2. mgr. 71. gr. nefndra laga.
Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 23. ágúst 2016, gerði kærandi athugasemdir vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016. Í kærunni kom fram að furðu sætti að skattlagning vegna innlausnar verðbréfa væri mismunandi eftir því hvort bréfin væru innleyst áður en dánarbúi væri skipt eða eftir skiptalok. Þá kom fram að í tilviki kæranda hefði verið nauðsynlegt að innleysa verðbréfin vegna ábyrgðarskuldar sem hvílt hefði á dánarbúinu. Ekki hefði verið gerlegt að selja fasteign dánarbúsins nema gera fyrst upp ábyrgðina. Ábyrgðarskuldin væri til komin vegna einkahlutafélags sem hinn látni hefði gengist í ábyrgð fyrir gagnvart Landsbanka Íslands hf. Heildargreiðsla vegna lánsins þann 7. júlí 2015 hefði numið 17.104.489 kr. og þar af hefðu greiddir vextir numið 4.104.489 kr. Nánar tiltekið væri um að ræða tryggingarbréf útgefið af X ehf. sem þinglýst hefði verið á fasteign hins látna, upphaflega að fjárhæð 13.000.000 kr. Þar sem vaxtatekjur vegna sölu verðbréfa væru skattlagðar hjá dánarbúinu, þ.e. kæranda, væri þess krafist að vaxtagjöld yrðu dregin frá vaxtatekjum. Þá bæri sömuleiðis að draga frá tapaða kröfu á hendur X ehf., enda væri félagið eignalaust og krafan því alfarið töpuð. Tekjur dánarbúsins yrðu þá alls 9.533.004 kr. (vaxtatekjur af kröfum 7.609.777 kr., söluhagnaður hlutabréfa 1.122.677 kr. og leigutekjur af húsnæði 800.550 kr.) og gjöld alls 17.104.489 kr. (vaxtagjöld af láni frá Landsbanka Íslands hf. 4.104.489 kr. og töpuð krafa 13.000.000 kr.). Þess væri því krafist að engar tekjur yrðu skattlagðar hjá lögaðilanum, þ.e. kæranda, og álögð opinber gjöld lækkuð til samræmis. Kærunni fylgdu gögn vegna umrædds láns frá Landsbanka Íslands hf.
Með kæruúrskurði, dags. 20. október 2016, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum kom fram að óskipt dánarbú teldust til skattskyldra lögaðila samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Kærandi hefði tekið við skattalegum réttindum og skyldum A við andlát hans í janúar 2015. Vaxtatekjur vegna sölu verðbréfa á tímabilinu frá andlátsdegi til búskipta tilheyrðu dánarbúinu og kæmu því til skattlagningar hjá dánarbúinu með því álagningarhlutfalli sem mælt væri fyrir um í 2. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. í 36% skattþrepi. Hvorki skipti máli af hvaða ástæðum sala færi fram né hvernig söluandvirði væri ráðstafað. Skattskyldu dánarbúsins lyki við skiptalok samkvæmt lögum nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Ekki yrði því fallist á að breyta þeirri skiptingu fjármagnstekna milli lögaðila og einstaklings sem tilkynnt hefði verið með bréfi, dags. 23. júní 2016, en engin gögn hefðu verið lögð fram sem leitt gætu til slíkra breytinga.
Með kæru, dags. 19. janúar 2017, skaut kærandi kæruúrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni voru áréttuð þau sjónarmið sem fram komu í kæru kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 23. ágúst 2016, þar sem þess hefði verið krafist að tekið yrði tillit til gjalda, þ.e. vaxtakostnaðar og ábyrgðar, á móti tekjum dánarbúsins. Í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra kæmi enginn rökstuðningur fram til stuðnings því að ekkert tillit væri tekið til gjalda dánarbúsins, þ.e. af hvaða ástæðum gjöldin væru ekki talin réttmæt. Var ítrekað í kærunni að dánarbúið hefði náð samningum við Landsbanka Íslands hf. í júlí 2015 um uppgjör á ábyrgðarskuld vegna X ehf. sem tryggð hefði verið með veði í húseign dánarbúsins. Þar sem dánarbúið hefði greitt upp skuldina hefði X ehf. ekki orðið gjaldþrota, en félagið hefði verið eigna- og skuldlaust eftir greiðslu lánsins. Var þess aðallega krafist að vaxtagjöld og ábyrgð samtals 17.104.489 kr. kæmu til gjalda á móti tekjum tímabilsins frá andláti í janúar 2015 til skiptaloka 22. desember sama ár, en til vara var þess krafist að vaxtagjöldin 4.104.489 kr. yrðu færð sem gjöld á móti tekjunum. Yrði hvorki fallist á frádrátt vegna vaxtagjalda né vegna ábyrgðar væri farið fram á að tekjuskattsstofn kæranda yrði lækkaður til samræmis við heimildir einstaklinga til að fá lækkun tekjuskattsstofns samkvæmt eyðublaði RSK 3.05.
Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 85, 10. maí 2017 var úrskurður ríkisskattstjóra felldur úr gildi og kæra kæranda send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar. Kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að með hinum kærða úrskurði sínum hefði ríkisskattstjóri hafnað kröfum kæranda án þess þó að taka rökstudda afstöðu til kröfu kæranda um frádrátt rekstrargjalda, enda hefði umfjöllun í úrskurðinum alfarið verið bundin við meðferð tekna dánarbúsins og A í lifanda lífi. Færi ekki á milli mála að kröfur kæranda hefðu einvörðungu lotið að frádrætti vegna vaxtagjalda og meintrar tapaðrar kröfu á hendur X ehf. Þær kröfur hefði ríkisskattstjóri ekki tekið til neinnar viðhlítandi úrlausnar. Var talið að rökstuðningur úrskurðar ríkisskattstjóra væri verulegum annmörkum háður, sbr. áskilnað um rökstuðning kæruúrskurða í 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og ákvæði 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að því athuguðu og þar sem kröfur kæranda hefðu þannig enga viðhlítandi umfjöllun og úrlausn fengið af hendi ríkisskattstjóra þótti bera að ómerkja hinn kærða úrskurð og senda kæruna til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar að gættum þeim atriðum sem að framan voru eru rakin. Með úrskurði yfirskattanefndar var ekki tekin nein efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins.
Með kæruúrskurði, dags. 28. febrúar 2018, tók ríkisskattstjóri málið til nýrrar meðferðar og hafnaði kröfum kæranda. Í úrskurðinum reifaði ríkisskattstjóri stuttlega reglur laga nr. 90/2003 varðandi skattskyldu dánarbúa. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir ákvæði 3. tölul. 31. gr. sömu laga varðandi frádrátt vegna útistandandi viðskiptakrafna, ábyrgða og lánveitinga og vísaði jafnframt til ákvæðis a-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þar sem áskilið væri að töpuð krafa stafaði beinlínis af atvinnurekstri aðila til þess að draga mætti tapið frá tekjum. Ekki kæmu því til greina lán eða ábyrgðir, sem veitt væru í greiðaskyni eða sem aðstoð við stofnun fyrirtækis eða rekstur. Ríkisskattstjóri tók fram að A hefði gengist í ábyrgð fyrir láni sem X ehf. hefði tekið til kaupa á hlutabréfum í öðru félagi. X ehf. hefði verið í eigu sonar A. Yrði ekki annað séð en að skuldaábyrgðin hefði verið veitt í greiðaskyni í tengslum við rekstur sonarins og kæmi því ekki til álita sem frádráttarbær krafa frá tekjum, sbr. a-lið 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Þá yrði ekki heldur talið að ábyrgðin hefði verið áfallin samkvæmt reglum kröfuréttar, sbr. c-lið 13. gr. sömu reglugerðar, þar sem X ehf. hefði ekki verið „í þrotameðferð“ á umræddum tíma í skilningi ákvæðisins, sbr. a-lið 14. gr. greindrar reglugerðar. Af þessu leiddi jafnframt að vaxtagjöld vegna sömu kröfu gætu ekki talist frádráttarbær frá tekjum kæranda, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Kröfum kæranda væri því hafnað.
II.
Með kæru, dags. 28. maí 2018, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 28. febrúar 2018, til yfirskattanefndar. Er þess aðallega krafist í kærunni að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi, en til vara að „fallið verði frá endurákvörðun“ samkvæmt úrskurði embættisins. Þá kemur fram að verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu kæranda sé þess krafist til þrautavara að viðbótarkostnaður að fjárhæð 521.107 kr. verði heimilaður til frádráttar tekjum kæranda, sbr. fylgiskjal með kærunni þar sem gerð er nánari sundurliðuð grein fyrir þeim kostnaði.
Í kærunni er vikið að málsmeðferð ríkisskattstjóra og tekið fram að ríkisskattstjóri hafi ekkert aðhafst í málinu í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar nr. 85/2017 þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir kæranda. Nýr úrskurður ríkisskattstjóra hafi svo borist kæranda um 10 mánuðum eftir uppkvaðningu úrskurðar yfirskattanefndar. Ljóst sé því að ríkisskattstjóri hafi virt að vettugi málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð sína á máli kæranda. Af þeim sökum og þar sem ekki hafi verið gætt að andmælarétti beri að ómerkja úrskurð ríkisskattstjóra. Þá er í kærunni vikið að efnisatriðum málsins og tekið fram, vegna röksemda í úrskurði ríkisskattstjóra, að hvorki A heitinn né dánarbú hans hafi haft með höndum neinn atvinnurekstur. Þau ákvæði 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994, sem vísað sé til af hálfu ríkisskattstjóra, eigi því ekki við í málinu. Þá gæti naumast samræmis af hendi ríkisskattstjóra í þessu sambandi, enda hafi tekjur af verðbréfum verið skattlagðar sem atvinnurekstrartekjur eftir andlát A. A hafi á árinu 2005 gengist í ábyrgð sem einstaklingur og fyrrgreint reglugerðarákvæði eigi því ekki við fyrr en eftir andlát A þegar dánarbú hans hafi stofnast. Skuld kæranda við Landsbanka Íslands hf. sé samkvæmt tryggingabréfi útgefnu af X ehf., upphaflega að fjárhæð 13 milljónir króna, til tryggingar öllum skuldum og fjárskuldbindingum félagsins við bankann. Bréfinu hafi verið þinglýst á íbúð A. A hafi sjálfur enga aðkomu haft að félaginu sem verið hafi í eigu sonar hans. Eftir hrun íslensks efnahagslífs árið 2008 hafi X ehf. í raun verið gjaldþrota, eins og ársreikningur félagsins fyrir árið 2014 beri glöggt með sér, og ekki haft neina möguleika til að greiða skuldir við Landsbankann. Bankinn hafi því leitað fullnustu í veðinu, sbr. meðfylgjandi gögn um innheimtu í nóvember 2014. Dánarbú A hafi náð samningum við bankann í júlí 2015 og skuldin verið greidd þann 7. þess mánaðar, sbr. gögn með kærunni. Af þessum sökum hafi X ehf. ekki orðið formlega gjaldþrota, en félagið hafi verið eigna- og skuldlaust eftir uppgjörið í júlí 2015. Samkvæmt framansögðu sé ranghermt í úrskurði ríkisskattstjóra að umrædd krafa hafi ekki fallið á dánarbúið. Ríkisskattstjóri hafi ekki krafist neinna gagna um þetta frá kæranda og telji kærandi því að brotið hafi verið gegn andmælarétti. Landsbankinn hafi ekki krafist gjaldþrotaskipta yfir X ehf. þar sem slíkt hafi verið tilgangslaust og einungis haft í för með sér kostnað fyrir bankann.
III.
Með bréfi, dags. 3. júlí 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur fram að því sé hafnað að brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda við meðferð málsins, enda hafi ríkisskattstjóri undir höndum upplýsingar um ástæður þess lánsveðs sem um ræði, ársreikninga X ehf., yfirlit vegna uppgjörs lána, greiðslukvittun og tölvupóst um samskipti við Landsbanka Íslands hf. Í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 23. ágúst 2016, sem fylgt hafi upprunalegri kæru til ríkisskattstjóra, hafi komið fram að ábyrgðarskuldin hefði verið greidd þann 5. júlí 2015 til þess að unnt væri að selja íbúð dánarbúsins. Ríkisskattstjóri hafni því að umrædd ábyrgðarskuld falli undir 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994, enda hafi ábyrgðin verið veitt í greiðaskyni í tengslum við rekstur sonar hins látna. Þess sé krafist að hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 4. júlí 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og dánarbúinu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Í kafla II hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar. Eins og þar greinir lýtur efnislegur ágreiningur málsins að heimild dánarbúsins til frádráttar rekstrargjalda frá tekjum vegna tímabilsins frá andlátsdegi A í janúar 2015 til loka þess árs. Annars vegar er þar um að ræða kröfu kæranda um frádrátt vaxtagjalda af láni frá Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 4.104.489 kr. og tapaðrar kröfu á hendur X ehf. að fjárhæð 13.000.000 kr., sbr. m.a. kröfu kæranda við hina fyrri meðferð málsins og úrskurð yfirskattanefndar nr. 85/2017. Hins vegar er í kæru til yfirskattanefndar höfð uppi krafa um frádrátt fasteignagjalda, vátryggingariðgjalda og hússjóðsgjalda að fjárhæð samtals 521.107 kr. frá tekjum dánarbúsins, sbr. þrautavarakröfu kæranda í kærunni.
Í kæru til yfirskattanefndar er fundið að töfum sem orðið hafi á því að ríkisskattstjóri tæki málið til meðferðar og afgreiðslu í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar nr. 85/2017. Af því tilefni skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er frestur ríkisskattstjóra til að úrskurða kærur tveir mánuðir frá lokum kærufrests. Verður að leggja til grundvallar að sami frestur gildi í þeim tilvikum þegar yfirskattanefnd hefur fellt úr gildi kæruúrskurð ríkisskattstjóra og sent kæru til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar, eins og við á í tilviki kæranda, og reiknist þá frá þeim tíma þegar ríkisskattstjóra hefur borist málið til meðferðar frá yfirskattanefnd, sbr. og til hliðsjónar 2. mgr. 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Úrskurður yfirskattanefndar nr. 85/2017 í máli kæranda var kveðinn upp 10. maí 2017, en hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra þann 28. febrúar 2018. Samkvæmt þessu er ljóst að ríkisskattstjóri fór verulega fram úr lögmæltum fresti til að ljúka meðferð málsins. Af hálfu ríkisskattstjóra hafa engar skýringar komið fram á þessum drætti og ekki verður séð að kæranda hafi á neinu stigi verið tilkynnt um að afgreiðsla málsins myndi tefjast, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Verður þá að taka afstöðu til þess hvort ómerkja beri ákvörðun ríkisskattstjóra vegna þess að úrskurðurinn var kveðinn upp að liðnum lögmæltum fresti. Samkvæmt dóma- og úrskurðaframkvæmd hafa brot stjórnvalda gegn almennum málshraðareglum og ákvæðum um lögmælta fresti til að ljúka málum almennt ekki verið talin leiða til þess ein sér að ómerkja beri viðkomandi ákvarðanir, sbr. m.a. H 1948:179, H 1997:385, H 1998:1094 og H 1998:3781. Má í þessu sambandi einnig vísa til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. september 2004 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 424/2004 sem kveðinn var upp 19. nóvember 2004 (H 2004:4482). Að þessu athuguðu getur framangreindur dráttur á meðferð málsins af hendi ríkisskattstjóra ekki leitt til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.
Þá er því haldið fram í kærunni að ekki hafi verið gætt að andmælarétti kæranda við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra. Sýnist umboðsmaður kæranda í því sambandi hafa í huga að ríkisskattstjóri hafi staðhæft að krafa kæranda á hendur X ehf. hafi ekki „verið áfallin“ á þeim tíma sem um ræðir, án þess að hafa aflað frekari gagna og upplýsinga frá kæranda þar að lútandi. Fallast má á það með kæranda að eins og málið lá fyrir ríkisskattstjóra blasti við að umrædd skuldaábyrgð féll á kæranda við uppgjör á lánum X ehf. í júlí 2015, sbr. m.a. yfirlýsingu vegna uppgörs á lánum, dags. 7. júlí 2015, og önnur gögn er fylgdu kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 19. janúar 2017. Ekki verður þó talið að þessi annmarki geti leitt til ógildingar hins kærða úrskurðar embættisins, enda byggði ríkisskattstjóri höfnun frádráttar einnig á því að krafa dánarbúsins á hendur X ehf. vegna ábyrgðar sem um ræðir tengdist ekki atvinnurekstri kæranda beint í skilningi 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og ákvæði a-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Víkur þá að efnislegum ágreiningi málsins.
Í úrskurðaframkvæmd hefur verið byggt á því að ýmiss kostnaður vegna umsýslu dánarbús sé frádráttarbær samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 50 og 51/2006. Eins og fram kemur í úrskurðum þessum hefur á hinn bóginn verið talið að kostnaður vegna sjálfra eignaskiptanna sé í þágu erfingjanna sjálfra og sé þar af leiðandi ófrádráttarbær. Af hálfu kæranda er komið fram að A hafi á árinu 2005 veitt veð í húseign sinni til tryggingar láni frá Landsbanka Íslands hf. til X ehf., félags í eigu sonar A, vegna kaupa þess félags á hlutabréfum. Í kjölfar efnahagshruns á árinu 2008 hafi X ehf. ekki getað greitt af láninu og hafi Landsbankinn þá gengið að veðinu, enda hafi X ehf. verið eignalaust félag og vonlaust að innheimta skuldina hjá því. Fram kom í kæru kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 23. ágúst 2016, að nauðsynlegt hafi verið að selja verðbréf í eigu dánarbúsins á árinu 2015 svo unnt væri að aflétta umræddri kvöð vegna ábyrgðarskuldar af íbúð dánarbúsins og selja hana.
Samkvæmt framansögðu er ljóst að greindar ráðstafanir kæranda vegna uppgjörs á ábyrgðarskuld við Landsbanka Íslands hf. á árinu 2015 voru fyrst og fremst liður í að koma eignum dánarbúsins í verð, leggja erfingjum út eða ráðstafa þeim á annan hátt, sbr. til hliðsjónar ákvæði VI. og X. kafla laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., og þannig þáttur í eignaskiptum dánarbúsins. Eins og fram er komið var stofnað til ábyrgðarinnar á árinu 2005 af A sem einstaklingi, en hann hafði þá ekki með höndum neinn atvinnurekstur samkvæmt því sem ráðið verður af gögnum málsins. Verður ekki talið að möguleg krafa kæranda á hendur X ehf. vegna áfallinnar ábyrgðar standi í tengslum við atvinnurekstur dánarbúsins í skilningi 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Er kröfum kæranda um gjaldfærslu kröfunnar og vaxtagjalda af henni því hafnað.
Þrautavarakrafa kæranda í málinu lýtur að gjaldfærslu kostnaðar að fjárhæð 521.107 kr. vegna fasteignagjalda, vátryggingariðgjalda og hússjóðsgjalda af fasteign dánarbúsins sem var í útleigu hluta ársins 2015. Kemur fram í fylgiskjali með kæru til yfirskattanefndar að um sé að ræða kostnað sem láðst hafi að tilgreina í kæru kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 23. ágúst 2016. Þessi krafa var ekki höfð uppi við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra, að því er séð verður. Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu, dags. 3. júlí 2018, er ekkert að þessu vikið þrátt fyrir tilefni. Eins og málið liggur fyrir yfirskattanefnd samkvæmt framansögðu þykja ekki efni til annars en að fallast á þrautavarakröfu kæranda, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Fallist er á þrautavarakröfu kæranda um gjaldfærslu kostnaðar að fjárhæð 521.017 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.