Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 529/1990
Gjaldár 1988
Lög nr. 20/1923 Lög nr. 19/1966 Lög nr. 75/1981 — 63. gr. — 69. gr. C-liður Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II
Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Fyrri íbúðareign — Eignarhaldstími — Hjón — Sköttun hjóna — Fjármál hjóna — Íbúðareign maka — Séreign — Ríkisborgari — Jafnræðisreglur — Eignarréttur að fasteign — Eignarréttur erlendra ríkisborgara að fasteign hérlendis
Málavextir eru þeir, að kærandi sótti um húsnæðisbætur til skattstjóra árið 1988, sbr. umsókn hans þar um, dags. 11. mars 1988. Varðaði umsóknin íbúðarhúsnæði að X, er kærandi hafði eignast þann 27. desember 1985 og taldi fyrsta íbúðarhúsnæði sitt. Í umsókninni kom fram, að eiginkona kæranda, A, hefði átt íbúð að Y árin 1979 til 1986.
Með bréfi, dags. 28. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að umsókn hans um húsnæðisbætur hefði verið synjað, þar sem ekki teldist vera um öflun íbúðarhúsnæðis í fyrsta sinn til eigin nota í skilningi bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 92/1987, sbr. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 76/1988, um húsnæðisbætur, með síðari breytingum. Fyrri eignarhaldstími kæranda á íbúð s.l. 10 ár væri yfir 2 ár.
Af hálfu kæranda var þessi synjun skattstjóra kærð til hans með kæru, dags. 29. ágúst 1989, og þess krafist, að honum yrðu ákvarðaðar húsnæðisbætur. Tók kærandi fram, að lögum samkvæmt hefði hann ekki getað verið þinglýstur eigandi að Y, þar sem hann væri ekki íslenskur ríkisborgari og hefði ekki undanþágu frá dómsmálaráðuneytinu. Hefði hann því ekki getað öðlast 50% eignarhlut í íbúðinni við giftingu. Þar af leiðandi teldist hann nú vera að kaupa íbúð í fyrsta sinn, þ.e. íbúðina að X, með leyfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 28. ágúst 1989, sbr. lög nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.
Með kæruúrskurði, dags. 23. október 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda um húsnæðisbætur. Skattstjóri tók fram, að kærandi hefði kvænst A á árinu 1983. Við stofnun hjónabandsins hefði A verið eigandi íbúðar að Y. Ekki lægju fyrir upplýsingar um það, að íbúðin hefði átt að verða séreign konunnar samkvæmt kaupmála. Samkvæmt lögum nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna hefði kærandi eignast eignarhlutdeild í nefndri íbúð sem hjúskapareign. Með vísan til þessa teldist kærandi ekki vera að kaupa íbúð í fyrsta sinn samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 92/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þætti framlagt leyfi dómsmálaráðuneytisins engu breyta um niðurstöðuna.
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 26. október 1989. Krefst kærandi húsnæðisbóta sér til handa. Ítrekar hann þær röksemdir sínar, að hann hafi ekki samkvæmt lögum getað eignast hlutdeild í íbúðinni að Y, þar sem ekki hafi legið fyrir sérstakt leyfi dómsmálaráðuneytisins. Samkvæmt lögum nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, með síðari breytingum, geti erlendur ríkisborgari ekki undir neinum kringumstæðum eignast íbúð hér á landi nema leyfi þetta liggi fyrir.
Með bréfi, dags. 27. apríl 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Skattstjóri byggði synjun sína á þeirri reglu að líta á hjón, er gengu í hjónaband og fólk er hóf sambúð á árinu 1983 eða fyrr og voru skattlögð saman, skv. 63. gr. laga nr. 75/1981 á gjaldárinu 1984 eða fyrr, sem sameiginlega eignaraðila með tilliti til réttar til húsnæðisbóta. Kærandi ber fyrir sig að leyfi samkvæmt lögum nr. 19/1966 hafi eigi legið fyrir, er leiða eigi til annarrar niðurstöðu í hans tilviki. Yrði kærandi þá betur settur en íslenskir ríkisborgarar, sem eins stæði á um. Eigi verður talið, að slík niðurstaða samrýmdist tilgangi ákvæða um bætur þessar eða fengi að öðru leyti staðist. Er kröfu kæranda því synjað.