Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun
  • Jurtaolía

Úrskurður nr. 152/2018

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Deild var um tollflokkun hörfræolíu. Með hliðsjón af framleiðsluaðferð olíunnar, sem unnin var úr fræjum plöntu án efnafræðilegrar umbreytingar, var fallist á með tollstjóra að olían félli undir tollskrárnúmer 1515.1100 í tollskrá sem línolía og þættir hennar.

 

 

Ár 2018, miðvikudaginn 31. október, er tekið fyrir mál nr. 98/2018; kæra A ehf., dags. 19. júní 2018, vegna bindandi álits tollstjóra. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 19. júní 2018, varðar bindandi álit tollstjóra á hörfræolíu sem embættið lét uppi hinn 15. maí 2018 samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í álitinu komst tollstjóri að þeirri niðurstöðu að olían félli undir tollskrárnúmer 1515.1100 í tollskrá. Í kærunni er þess krafist að niðurstöðu tollstjóra verði breytt og umrædd hörfræolía talin falla undir tollskrárnúmer 1515.9001 í tollskrá sem önnur jurtaolía til matvælaframleiðslu.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með umsókn, dags. 13. apríl 2018, óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollstjóra á tollflokkun hörfræolíu (Linseed oil virgin made from flax), sbr. 21. gr. tollalaga nr. 88/2008. Í umsókninni kom fram að varan væri seld í 250 ml glerflöskum. Hægt væri að hella olíunni beint á mat eða nota í matreiðslu. Birgir kæranda gæfi upp tollskrárnúmer 1515.1100, en vörur í því númeri bæru 24% virðisaukaskatt. Spurning væri hvort varan passaði betur í 1515.9009. Umsókninni fylgdi vörulýsing og ljósmynd

Tollstjóri lét uppi bindandi álit hinn 15. maí 2018 í tilefni af umsókn kæranda þar sem tollstjóri taldi að umrædd hörfræolía félli undir tollskrárnúmer 1515.1100. Var í því sambandi vísað til skýringarbóka.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 19. júní 2018, kemur fram að kærandi telji niðurstöðu bindandi álits tollstjóra um tollflokkun hörfræolíu ranga. Varan sé ætluð til matværaframleiðslu og inntöku og ætti þess vegna að bera 11% virðisaukaskatt. Sambærilega vara sé seld í verslunum með 11% virðisaukaskatti, svo sem komi fram á meðfylgjandi sjóðvélastrimli.

IV.

Með bréfi, dags. 12. júlí 2018, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu. Fram kemur í umsögninni að í málinu sé deilt um tollflokkun hörfræolíu, sem einnig sé nefnd línolía (e. linseed oil), í 250 ml glerflöskum. Krafa kæranda lúti fyrst og fremst að því að á vörunni sé 11% virðisaukaskattur í stað 24% skatts.

Tollstjóri tekur fram að umrædd vara sé olía sem unnin sé á einfaldan hátt með því að kaldpressa hörfræ, einnig kölluð línfræ (e. flax seeds), án efnafræðilegrar umbreytingar. Samkvæmt athugasemdum við 5. kafla tollskrár í skýringarbókum WCO, sbr. fylgiskjal með umsögninni, flokkist feiti og olíur úr dýra- og jurtaríkinu og klofningsefni þeirra í 15. kafla tollskrár, hvort sem varan sé ætluð til neyslu sem matvæli eða til framleiðslu á öðrum vörum. Í vöruliðum 1501–1514 sé nefnd ákveðin feiti og olíur úr jurta- og dýraríkinu sem unnin sé á einfaldan hátt, án efnafræðilegrar umbreytingar. Hörfræolía eða línolía sé ekki nefnd í þessum vöruliðum. Órokgjörn jurtafeiti og -olíur, aðrar en þær sem nefndar séu í vöruliðum 1501–1514, fari í vörulið 1515. Því beri samkvæmt túlkunarreglu 1 við tollskrá að flokka umrædda hörfræolíu í vörulið 1515. Í undirlið 1515.11 flokkist línolía og skiptist undirliðurinn í skiptiliði 1515.1100, fyrir hráa olíu, og 1515.1900, fyrir annað. Í ljósi þess að um sé að ræða hráa olíu skuli að mati tollstjóra flokka vöruna í tollskrárnúmer 1515.1100, sbr. skýringareglur 1 og 6 við tollskrá. Þessu til stuðnings sé vísað til athugasemda við vörulið 1515 í skýringarbókum WCO, sbr. fylgiskjal með umsögninni.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. júlí 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæra í máli þessu varðar bindandi álit tollstjóra samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem embættið lét uppi 15. maí 2018 í tilefni af beiðni kæranda 13. apríl 2018. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollstjóra um tollflokkun hörfræolíu. Í beiðni kæranda um bindandi álit kom fram að hægt væri að hella olíunni beint á mat og neyta hennar eða nota í matreiðslu. Það tollskrárnúmer sem birgir kæranda vísaði til, þ.e. 1515.1100, bæri 24% virðisaukaskatt, en spurning væri hvort varan passaði betur í númer 1515.9009. Beiðninni fylgdi vörulýsing (special product-specific requirements) fyrir „Linseed oil nativ“ þar sem m.a. er gerð grein fyrir aðferð við framleiðslu vörunnar. Þar segir: „The lin seeds are pressed with elimination of oxygen and without any heating, filtered and bottled. There are no further processes like degumming, active coal treatment, bleaching, deacidification and steaming.“ Samkvæmt þessu er um að ræða jurtaolíu sem unnin er úr fræjum plöntunnar Linum usitatissimum (líns/hörs) án efnafræðilegrar umbreytingar.

Í beiðni kæranda um bindandi álit kom fram að kærandi teldi að olían kynni að falla í tollskrárnúmer 1515.9009, enda mætti neyta hennar beint eða nota í matvæli. Rökstuðningur í kæru til yfirskattanefndar er á sama veg án þess þó að þar sé tiltekið ákveðið tollskrárnúmer sem kærandi telur eiga við vöruna. Ljóst er þó, eins og á er bent í umsögn tollstjóra, að málaleitan kæranda lýtur að því að varan verði flokkuð þannig að hún beri 11% virðisaukaskatt í stað 24% virðisaukaskatts, sbr. 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Vegna þessa skal tekið fram að tollskrárnúmer 1515.9009 er ekki meðal tollskrárnúmera sem tilgreind eru í viðauka við lög um virðisaukaskatt, sbr. núgildandi viðauka samkvæmt 8. gr. laga nr. 175/2006, með áorðnum breytingum, sem vörur til manneldis sem greiða skal af virðisaukaskatt í lægra skattþrepi (nú 11%). Þar er á hinn bóginn tilgreint tollskrárnúmerið 1515.9001 og verður að ætla að kærandi hafi haft það númer í huga í beiðni sinni um bindandi álit. Verður við það miðað að krafa kæranda fyrir yfirskattanefnd lúti að tollflokkun hörfræolíu í það tollskrárnúmer.

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla.

Heiti 15. kafla tollskrár er „Feiti og olíur úr dýra- og jurtaríkinu og klofningsefni þeirra; unnin matarfeiti; vax úr dýra- eða jurtaríkinu.“ Vöruliðir 1507–1515 taka til jurtafeiti og jurtaolíu, svo og þátta hennar, einnig hreinsað en ekki efnafræðilega umbreytt. Nánar tiltekið taka vöruliðir 1507–1514 til jurtafeiti og -olíu úr nánar tilgreindum jurtum, en í vörulið 1515 fellur „Önnur órokgjörn jurtafeiti og -olía (þar með talin jójóbaolía) og þættir hennar, einnig hreinsað en ekki efnafræðilega umbreytt“. Feiti eða olía úr línfræjum (hörfræjum) er ekki tilgreind í vöruliðum 1507–1514 og verður því að teljast falla í vörulið 1515. Er raunar ekki ágreiningur um það í málinu.

Vöruliður 1515 skiptist í fimm undirliði. Þar af tekur undirliður 1515.11 til línolíu og þátta hennar. Undirliðurinn skiptist í tollskrárnúmer 1515.1100 (Línolía og þættir hennar: Hrá olía) og 1515.1900 (Línolía og þættir hennar: Annað). Undirliðurinn 1515.90, sem kærandi telur eiga við vöruna, skiptist í tollskrárnúmer 1515.9001 (Annað: Til matvælaframleiðslu) og 1515.9009 (Annað: Annars). Þar sem línolía og þættir hennar fellur samkvæmt orðalagi undirliðar 1515.11 í þann lið kemur ekki til álita að telja undirlið 1515.90 eiga við um vöruna, sbr. reglu 6 í almennum reglum um túlkun tollskrár. Með hliðsjón af framleiðsluaðferð olíunnar er fallist á það með tollstjóra að flokka beri vöruna í tollskrárnúmer 1515.1100. Það tollskrárnúmer er ekki tilgreint í viðauka við lög um virðisaukaskatt sem vísað er til í 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna. Kröfu kæranda er samkvæmt þessu hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað. 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja