Úrskurður yfirskattanefndar
- Stimpilgjald
- Gjaldskyldur aðili
- Undanþága frá gjaldskyldu
Úrskurður nr. 153/2018
Lög nr. 138/2013, 2. gr. 3. mgr.
Kærandi í máli þessu var einkahlutafélag sem var undanþegið gjaldskyldu til stimpilgjalds á grundvelli sérlaga. Kærandi seldi systurfélagi sínu, X ehf., fasteignir á árinu 2018 og í kaupsamningum um eignirnar var kveðið á um að kæranda bæri að greiða gjöld af skjölum vegna þeirra, þar með talið stimpilgjald. Var deilt um það í málinu hvort undanþáguákvæði sérlaga vegna kæranda tæki til stimpilgjalds vegna viðskiptanna. Yfirskattanefnd benti á að eins og aðrar skattaívilnanir, sem kæranda væru veittar með fyrrgreindum sérlögum, væri undanþága laganna vegna stimpilgjalds bundin við kæranda og leysti ekki aðra aðila undan gjaldskyldu. Úrlausn málsins ylti þannig á því hvern telja bæri gjaldskyldan samkvæmt lögum um stimpilgjald vegna sölu fasteignanna, þ.e. kæranda sem seljanda eignanna eða X ehf. sem kaupanda þeirra. Talið var að skýra yrði ákvæði laga um stimpilgjald svo að sá aðili bæri ábyrgð á greiðslu gjaldsins er með skjali öðlaðist eignarráð að hinni yfirfærðu fasteign, þ.e. kaupandi fasteignar í venjulegum fasteignaviðskiptum. Var sú niðurstaða jafnframt talin fá ríkan stuðning af samanburði við ákvæði eldri laga um stimpilgjald. Var X ehf. því talið bera ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds vegna viðskiptanna og gæti fyrrgreind undanþága sérlaga vegna kæranda ekki leyst X ehf. undan lögákveðinni gjaldskyldu. Var kröfum kæranda því hafnað.
Ár 2018, miðvikudaginn 31. október, er tekið fyrir mál nr. 115/2018; kæra A ehf., dags. 19. júlí 2018, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæra í máli þessu, dags. 19. júlí 2018, varðar ákvörðun sýslumanns, dags. 11. júní 2018, um stimpilgjald vegna eignayfirfærslu tveggja fasteigna við K1 og K2. Ákvarðaði sýslumaður stimpilgjald 3.762.400 kr. af kaupsamningi um K1 og 439.360 kr. af kaupsamningi um K2. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
[...]
IV.
Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag. Varðar kæra félagsins ákvörðun stimpilgjalds af kaupsamningum um fasteignir að K sem kærandi seldi X ehf. þann 1. júní 2018. Sýslumaður ákvarðaði stimpilgjald af kaupsamningunum samtals 4.201.760 kr., þ.e. 3.762.400 kr. af kaupsamningi um K1 og 439.360 kr. af kaupsamningi um K2. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og álagt stimpilgjald verði endurgreitt. Er sú krafa byggð á því að kærandi sé undanþeginn stimpilgjaldi á grundvelli laga nr. ... Fram kemur í kærunni að samkvæmt kaupsamningum um fasteignirnar hafi seljanda, þ.e. kæranda, borið að greiða gjöld af skjölum vegna kaupanna, þar með talið stimpil- og þinglýsingargjöld. Hafi kærandi greitt hin umdeildu stimpilgjöld með fyrirvara þann 11. júní 2018, sbr. gögn er fylgdu kærunni. Þá kemur fram að kærandi hafi keypt fasteignirnar af M undir starfsemi sína eftir að hafa áður leigt eignirnar af því félagi. Fasteignirnar hafi síðan verið seldar systurfélagi kæranda, X ehf., í júní 2018, en kærandi og X ehf. séu bæði í eigu erlends félags.
[...]
Samkvæmt framansögðu er kærandi undanþeginn greiðslu stimpilgjalds af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við uppbyggingu vegna fjárfestingarverkefnis félagsins. Er undanþága þessi samkvæmt orðalagi sínu víðtæk og tekur til undirritunar hvers kyns skjala er kunna að baka kæranda gjaldskyldu samkvæmt lögum um stimpilgjald nr. 138/2013, enda sé stofnað til þeirra í tengslum við fyrrgreint fjárfestingarverkefni kæranda. Á hinn bóginn fer ekki á milli mála að eins og aðrar skattaívilnanir laga nr. … er greind undanþága frá stimpilgjaldi bundin við kæranda og leysir ekki aðra aðila undan gjaldskyldu til stimpilgjalds eftir lögum nr. 138/2013. Verður því að telja að úrlausn málsins velti á því hvern telja beri gjaldskyldan samkvæmt síðastgreindum lögum vegna sölu fasteignanna að K, þ.e. kæranda sem seljanda fasteignanna eða X ehf. sem kaupanda eignanna.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal greiða í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi, svo sem afsölum, kaupsamningum og gjafagerningum. Um upphaf gjaldskyldu og ábyrgð kemur fram í 1. mgr. 2. gr. laganna að gjaldskylda stofnast þegar gjaldskylt skjal er undirritað. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar ber sá aðili sem byggir rétt á gjaldskyldu skjali ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 138/2013, segir svo um ákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna (þskj. nr. 4, 4. mál á 143. löggjafarþingi 2013-2014):
„Um ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds segir í 2. mgr. að aðili sem byggi rétt á gjaldskyldu skjali beri ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Í flestum tilvikum er kaupandi eignar sá aðili en það á þó ekki við þegar t.d. um gjafagerninga er að ræða. Eðli málsins samkvæmt byggja oft fleiri en einn aðili rétt á gjaldskyldu skjali, t.d. ef tveir kaupa sömu fasteign. Í þeim tilvikum eru rétthafar samábyrgðir fyrir greiðslu gjaldsins.“
Samkvæmt framansögðu verður að skýra ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 138/2013 svo, að því er tekur til gjaldskyldu vegna skjals er varðar eignayfirfærslu fasteigna, að sá aðili beri ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds er með skjali öðlast eignarráð að hinni yfirfærðu fasteign, þ.e. kaupanda eignar í venjulegum fasteignaviðskiptum, sbr. og fyrrgreindar athugasemdir í frumvarpi til laga nr. 138/2013 þar sem gengið er út frá þessu. Fær sú niðurstaða jafnframt ríkan stuðning af samanburði við ákvæði eldri laga um stimpilgjald nr. 36/1978, sbr. 1. mgr. 16. gr. þeirra laga, og beitingu þeirra laga í réttarframkvæmd, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 7. apríl 1998 í máli nr. 293/1997 (H 1998:1537). Getur engu breytt um þetta þótt samningsaðilar semji um það sín á milli að seljandi skuli standa straum af stimpilgjaldi, enda verður ekki hróflað við lögbundinni gjaldskyldu með slíkum einkaréttarlegum samningum. X ehf. bar því ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds af kaupsamningum um fasteignirnar að K og telst gjaldandi og gjaldskyldur aðili í skilningi laga nr. 138/2013, sbr. 2. mgr. 2. gr. þeirra. Samkvæmt því og þar sem undanþáguákvæði laga nr. … getur samkvæmt framansögðu ekki leyst X ehf. undan lögákveðinni gjaldskyldu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.