Úrskurður yfirskattanefndar
- Kílómetragjald
- Tímamörk endurákvörðunar
Úrskurður nr. 154/2018
Lög nr. 87/2004, 13. gr. 1. mgr., 16. gr., 17. gr. 3. mgr. (brl. nr. 169/2006, 3. gr.)
Ríkisskattstjóri endurákvarðaði kílómetragjald kæranda árin 2014-2017 þar sem gjaldið var vanreiknað greind ár vegna skekkju í álestrarskrá ríkisskattstjóra. Yfirskattanefnd taldi að heimild til endurákvörðunar kílómetragjalds næði til vanálagðs gjalds sem rekja mætti til slíkra mistaka í álagningu. Á hinn bóginn var talið að frestur ríkisskattstjóra til endurákvörðunar samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 87/2004 hefði verið liðinn vegna áranna 2014 og 2015, enda yrði kæranda ekki kennt um vanálagningu kílómetragjalds. Var endurákvörðun ríkisskattstjóra því felld úr gildi að hluta til.
Ár 2018, miðvikudaginn 31. október, er tekið fyrir mál nr. 123/2018; kæra A ehf., dags. 9. ágúst 2018, vegna ákvörðunar kílómetragjalds árin 2014, 2015, 2016 og 2017. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 9. ágúst 2018, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. júní 2018, um endurákvörðun kílómetragjalds vegna bifreiðar kæranda E árin 2014, 2015, 2016 og 2017, sbr. 16. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að endurákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi, en til vara að endurákvörðun vegna áranna 2014 og 2015 verði felld niður.
II.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 2. maí 2018, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun kílómetragjalds vegna ökutækisins E fyrir öll gjaldtímabil áranna 2014, 2015, 2016 og 2017. Í bréfinu var rakið að komið hefði í ljós að akstur ökutækisins hefði verið rangt skráður í álestrarskrá ökumæla þar sem ökumælir væri skráður með röngu margfeldi, þ.e. 0,1 í staðinn fyrir rétt margfeldi 1. Einungis hefðu því verið skráðar 10% af eknum kílómetrum. Hin ranga skráning hefði nú verið leiðrétt og hygðist ríkisskattstjóri í framhaldi af því leiðrétta álagt kílómetragjald vegna gjaldtímabila áranna 2014-2017. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir breytingum á kílómetrafjölda ökutækisins og hækkun kílómetragjalds eftir gjaldtímabilum. Kom fram í bréfinu að hækkun kílómetragjalds yrði samtals 4.556.754 kr. Var kæranda veittur 15 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að koma á framfæri athugasemdum vegna fyrirhugaðra breytinga.
Með bréfi, dags. 23. maí 2018, mótmælti kærandi hinni boðuðu endurákvörðun kílómetragjalds. Í bréfinu var bent á að 12. gr. laga nr. 87/2004, sem vísað væri til í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 2. maí 2018, varðaði olíugjald og ætti því ekki við í tilviki kæranda. Heimild til endurákvörðunar kílómetragjalds væri að finna í 16. gr. laganna og af orðalagi þess ákvæðis yrði ekki séð að nein heimild væri fyrir leiðréttingu í tilviki kæranda, enda væri ekki um það að ræða að gjaldþyngd bifreiðar félagsins hefði verið ranglega skráð í álestrarskrá. Því væri þar af leiðandi hafnað að ríkisskattstjóri hefði heimild til að taka álagt kílómetragjald vegna bifreiðar kæranda til endurákvörðunar, enda hefði kærandi verið grunlaus um vanálagningu gjaldsins og leiðrétting þess mörg ár aftur í tímann hefði veruleg áhrif á rekstur félagsins. Yrði ekki fallist á þetta væri þess krafist til vara að endurákvörðun næði einungis til áranna 2016 og 2017, sbr. ákvæði 3. mgr. 17. gr. laga nr. 87/2004 sem hlyti að eiga við í málinu þar sem kærandi hefði látið í té fullnægjandi upplýsingar við álestur mælis, svo sem akstursdagbækur bæru með sér.
Með úrskurði, dags. 20. júní 2018, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu endurákvörðun í framkvæmd og hækkaði kílómetragjald kæranda vegna ökutækisins E um samtals 4.556.754 kr. vegna áranna 2014, 2015, 2016 og 2017, sbr. 16. gr. laga nr. 87/2004. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóra til greindrar endurákvörðunarheimildar í 16. gr. laga nr. 87/2004 og benti á að samkvæmt lögunum bæru ökumenn, eigendur og umráðamenn ökutækja ríkar skyldur til að fylgjast með því að kílómetragjald ökutækja, sem búin væru ökumælum, svaraði til raunverulegs aksturs, sbr. 15. gr. laganna. Þá næði heimild til endurákvörðunar gjaldsins til síðustu sex ára sem næst væru á undan því ári þegar endurákvörðun færi fram, sbr. 17. gr. laga nr. 87/2004. Kærandi væri félag sem gerði út bifreiðar og hefði félaginu mátt vera ljóst að verulegur misbrestur hefði verið á mælingu akstursmælis. Þættu skýringar kæranda á ástæðum þessa ekki til þess fallnar að firra félagið ábyrgð eða þess eðlis að falla mætti frá endurákvörðun kílómetragjalds vegna þeirra átta gjaldtímabila sem um væri að ræða. Í boðunarbréfi ríkisskattstjóra hefði ekki verið gert ráð fyrir neinu álagi eða dráttarvöxtum á hið endurákvarðaða kílómetragjalds og yrði ekki séð að á kæranda væri hallað að því leyti.
III.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 9. ágúst 2018, eru áður fram komin rök og sjónarmið kæranda ítrekuð, sbr. bréf umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 23. maí 2018. Þá er sérstaklega mótmælt tilvísun ríkisskattstjóra til 15. gr. laga nr. 87/2004 og bent á í því sambandi að ökumælir bifreiðar kæranda hafi talið rétt og kílómetrastöðu ávallt borið saman við akstur dagsins. Margföldunarstuðull ökumælisins hafi hins vegar verið rangt skráður í álestrarskrá ríkisskattstjóra, en kærandi hafi engan aðgang að þeirri skrá og félaginu því ekki verið unnt að bera upplýsingar í skránni saman við akstur. Í ljósi þessa séu kröfur kæranda áréttaðar.
IV.
Með bréfi, dags. 18. september 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með tölvupósti 20. september 2018 hefur umboðsmaður kæranda ítrekað kröfur kæranda í málinu.
V.
Kæra í máli þessu varðar endurákvörðun kílómetragjalds kæranda vegna áranna 2014, 2015, 2016 og 2017, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 20. júní 2018. Voru forsendur endurákvörðunarinnar þær að ökumælir í bifreiðinni E hefði ekki haft rétt margfeldi í álestrarskrá. Af því hefði leitt að röng og of lág kílómetratala hefði verið lögð til grundvallar við ákvörðun kílómetragjalds þannig að gjald vegna bifreiðarinnar hefði verið vanreiknað um tilgreindar fjárhæðir eða um samtals 4.556.754 kr. umrædd ár. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að endurákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi þar sem hún hafi verið heimildarlaus. Verði litið svo á að heimilt hafi verið að leiðrétta álagt kílómetragjald sé þess krafist til vara að leiðréttingin taki einungis til áranna 2016 og 2017, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 skal greiða kílómetragjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi sem eru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd, þó ekki af bifreiðum sem ætlaðar eru til fólksflutninga eða af ökutækjum samkvæmt 8. og 9. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna. Eins og nafnið ber með sér er skattur þessi í formi gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt ökumæli, sbr. 4. mgr. 13. gr. laganna þar sem tilgreindar eru fjárhæðir kílómetragjalds eftir leyfðri heildarþyngd ökutækis í kílógrömmum. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds, skulu ökutæki, sem greiða skal kílómetragjald af samkvæmt 13. gr. laga nr. 87/2004, búin ökumælum til ákvörðunar kílómetragjalds. Í 3. og 4. gr. reglugerðarinnar er fjallað um verkstæði sem setja ökumæla í ökutæki og frágang akstursbókar. Í f-lið 1. mgr. 4. gr. kemur fram að skrá skal í akstursbók drifhlutfall, margfeldi eða kvörðunarstuðul ökumælis. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 599/2005 segir að álestraraðili skuli lesa af kílómetrastöðu ökurita eða ökumælis og hraðamælis og skrá hana í akstursbók. Jafnframt skulu álestraraðilar m.a. athuga hvort ökumælir hafi verið óvirkur eða hvort hann hefur talið of lítið, sbr. c-lið nefndrar greinar.
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 87/2004 eru álestrartímabil kílómetragjalds frá 1. desember til 15. desember og frá 1. júní til 15. júní ár hvert. Eigandi eða umráðamaður ökutækis, sem kílómetragjald er greitt af samkvæmt 13. gr. laganna, skal án sérstakrar tilkynningar koma með ökutæki til álestraraðila á álestrartímabili og láta lesa á og skrá stöðu ökumælis. Ríkisskattstjóri ákvarðar að loknu hverju álestrartímabili kílómetragjald ökutækja, sem færð hafa verið til álestrar, vegna aksturs þeirra frá síðasta álestrartímabili þar á undan til álestrardags. Í 16. gr. laganna eru ákvæði um heimildir ríkisskattstjóra til endurákvörðunar kílómetragjalds komi í ljós að ökutæki hafi heimildarlaust verið í umferð án þess að vera búið ökumæli, ökumælir hafi verið óvirkur eða talið of lítið eða telji ríkisskattstjóri af öðrum ástæðum að ökumælir sé ekki nægilega örugg heimild um akstur ökutækis. Þá er sérstök heimild í 5. málsl. 1. mgr. 16. gr. til endurákvörðunar komi í ljós að aðrar forsendur ákvörðunar hafi verið rangar, svo sem að gjaldþyngd hafi verið ranglega skráð í álestrarskrá. Í máli þessu er ekki um að ræða ranga talningu mælis heldur stafaði vanálagning kílómetragjalds af skekkju í skrá ríkisskattstjóra. Telja verður að atvik af þessum toga, sem rekja má til mistaka í álagningu, falli undir endurákvörðunarheimild greinds ákvæðis 5. málsl. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 87/2004. Þá er ljóst að heimildir ríkisskattstjóra samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna til endurákvörðunar kílómetragjalds, þar á meðal heimild samkvæmt 5. málsl. 1. mgr. 16. gr., eru óháðar því hvort skattaðili verði talinn bera ábyrgð á þeim atvikum sem valdið hafa vanálagningu gjaldsins eða honum ekki um það kennt, sbr. ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 17. gr. laganna sem ber þetta með sér. Með vísan til þessa verður að hafna aðalkröfu kæranda.
Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 87/2004 nær heimild til endurákvörðunar gjalda samkvæmt lögunum til síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram. Verði skattskyldum aðila eigi um það kennt að áðurnefnd gjöld voru vanálögð, og/eða hafi hann látið í té við álagningu eða álestur fullnægjandi upplýsingar og/eða gögn sem byggja mátti rétta álagningu á, er þó eigi heimilt að ákvarða honum gjald nema vegna síðustu tveggja ára sem næst voru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram á. Eins og atvikum var háttað verður að telja einsýnt að niðurlagsákvæði greinarinnar eigi við í tilviki kæranda, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 222/2004 er varðaði vanálagðan þungaskatt vegna skekkju í álestrarskrá ríkisskattstjóra. Verður því að telja að frestur til endurákvörðunar kílómetragjalds kæranda vegna áranna 2014 og 2015 hafi verið liðinn þegar ríkisskattstjóri hratt endurákvörðuninni í framkvæmd hinn 20. júní 2018. Er varakrafa kæranda því tekin til greina og endurákvörðun ríkisskattstjóra felld úr gildi að því er varðar árin 2014 og 2015.
Ríkisskattstjóri annast um gjaldabreytingar sem leiða af framangreindri niðurstöðu, sbr. 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 8. gr. laga nr. 123/2014, um breyting á þeim lögum, og 1. gr. reglugerðar nr. 1146/2014, um gjaldabreytingar á grundvelli laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Endurákvörðun ríkisskattstjóra er felld úr gildi að því er varðar árin 2014 og 2015. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.