Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna staðgreiðsluskila

Úrskurður nr. 167/2018

Staðgreiðsla 2017

Lög nr. 94/1996, 17. gr. 6. mgr.  

Kærandi, sem var einkahlutafélag sem sætt hafði álagi vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði, hélt því fram að fella ætti niður álagið þar sem félagið hefði fyrir gjalddaga skattsins samið við innheimtumann ríkissjóðs um að dreifa greiðslum vegna skilaskyldrar staðgreiðslu. Hefði kærandi með samningnum viljað forða því að álagi yrði bætt við þá fjárhæð sem félaginu bar að standa skil á. Af þessu tilefni benti yfirskattanefnd að innheimtumaður hefði enga heimild að lögum til þess að fresta eindaga staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts eða falla frá beitingu álags, enda væru ákvarðanir um álag ekki á valdsviði innheimtumanna ríkissjóðs. Var kröfu kæranda um niðurfellingu álags hafnað.

Ár 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 137/2018; kæra A ehf., dags. 4. september 2018, vegna staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur árið 2017. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 4. september 2018, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 5. júní 2018. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu skatts af arði. Af hálfu kæranda er þess krafist að álag verði fellt niður.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi sætti álagi að fjárhæð 1.000.000 kr., sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, vegna skila á staðgreiðslu skatts að fjárhæð 10.000.000 kr. af fjármagnstekjum vegna greiðslutímabilsins október-desember 2017, sem fram fór eftir eindaga vegna þessa greiðslutímabils. Með tölvubréfi til ríkisskattstjóra 21. apríl 2018 fór kærandi fram á að álag á fjármagnstekjuskatt af arði yrði fellt niður. Kom fram að fyrir gjalddaga staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts hefði kærandi samið við fulltrúa innheimtumanns ríkissjóðs (sýslumanns) um dreifingu greiðslna vegna staðgreiðslufjárins yfir nokkra mánuði. Kærandi hefði hafið greiðslur í samræmi við samkomulagið en síðan orðið ljóst að búið væri að leggja ofan á skuldina álag að fjárhæð 1.000.000 kr. Kæranda hefði ekki verið tjáð að álag yrði lagt ofan á fjárhæð staðgreiðslu og ekkert kæmi fram þar að lútandi í samkomulagi við innheimtumann. Af hálfu kæranda hefði alltaf verið lögð áhersla á að greiða skattskuldir á réttum tíma. Kærandi hefði greitt skuldina að fullu á eindaga 5. febrúar 2018 hefði félagið haft upplýsingar um álagið.

Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda til úrskurðar hinn 5. júní 2018 á grundvelli 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Varð það niðurstaða ríkisskattstjóra að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu álags. Óumdeilt væri að eindagi afdreginnar staðgreiðslu af arði hefði verið 5. febrúar 2018. Í 17. gr. laga nr. 94/1996 kæmi fram að væru greiðslur samkvæmt lögum þessum eigi inntar af hendi á tilskildum tíma skyldi ríkisskattstjóri gera skilaskyldum aðila að sæta álagi til viðbótar þeim skatti sem honum hefði borið að standa skil á. Skyldi álag á vanskilafé vera annars vegar einn hundraðshluti af fjárhæð vanskilafjár fyrir hvern dag eftir eindaga, þó ekki hærra en tíu hundraðshlutar, og hins vegar álag til viðbótar af fjárhæð vanskilafjár reiknað frá og með gjalddaga, hefði ekki verið greitt á 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga. Skyldi álag þetta vera hið sama og dráttarvextir sem Seðlabanki Íslands ákvæði. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. mætti fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef skilaskyldur aðili færði gildar ástæður sér til afsökunar og mæti ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skyldi gildar ástæður í þessu sambandi. Ríkisskattstjóri kvaðst ekki fallast á að tilgreint tilvik kæranda, þ.e. greiðsludreifing samkvæmt samkomulagi við innheimtumann, gæti talist gild ástæða til afsökunar á því að skilaskyld staðgreiðsla af arði hefði ekki verið innt af hendi á réttum tíma. Væri því ekki tilefni til þess að álag yrði fellt niður á grundvelli 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 og væri kröfu kæranda því hafnað.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að umrætt álag vegna síðbúinnar staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts verði fellt niður. Er vísað til þess í kærunni að kærandi hafi gert skriflegan samning við sýslumann fyrir gjalddaga staðgreiðslunnar um greiðslu kröfunnar. Í samningnum komi hvergi fram að álag að fjárhæð 1.000.000 kr. verði lagt á kröfuna. Kærandi telji að starfsmönnum sýslumanns hefði átt að vera kunnugt um álagið og því borið að láta kæranda vita af því. Fyrirsvarsmenn kæranda hafi samið um greiðslu kröfunnar í góðri trú og verið algjörlega grunlausir um að á hana yrði bætt álagi. Er þeirri spurningu varpað fram hvaða tilgangur hefði ella verið með umræddum samningi.

IV.

Með bréfi, dags. 2. október 2018, hefur ríkisskattstjóri krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. október 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Ágreiningur máls þessa varðar beitingu álags á vangreidda staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði, sbr. skilaskyldu kæranda samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Í ákvæði þessu er mælt svo fyrir að skylda til að skila staðgreiðslu af arði og skila í ríkissjóð hvíli á lögaðilum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjalddagi skattsins var 20. janúar 2018 og eindagi 15 dögum síðar eða 5. febrúar 2018, sbr. 7. gr. laga nr. 94/1996, eins og ákvæðinu var breytt með 5. gr. laga nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Fyrir liggur að kærandi samdi við innheimtumann ríkissjóðs um að dreifa greiðslum vegna skilaskyldrar staðgreiðslu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum greiddi kærandi 1.000.000 kr. 1. mars 2018, 1.000.000 kr. 1. apríl 2018 og eftirstöðvar 4. apríl 2018, en þá hafði bæst við kröfuna álag samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 að fjárhæð 1.000.000 kr. og álag samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. sömu lagagreinar að fjárhæð 221.667 kr. Var kæranda samkvæmt þessu gert að greiða álag samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 vegna síðbúinnar greiðslu. Ríkisskattstjóri synjaði um niðurfellingu álagsins með hinum kærða úrskurði, dags. 5. júní 2018. Taldi embættið að af hálfu kæranda hefðu ekki verið færðar fram gildar ástæður fyrir niðurfellingu álags samkvæmt 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 94/1996, eins og ákvæðinu var breytt með 5. gr. laga nr. 70/2009, skal greiðslutímabil skatts samkvæmt lögunum vera þrír mánuðir, þ.e. janúar-mars, apríl-júní, júlí-september og október-desember. Gjalddagar eru 20. apríl, 20. júlí, 20. október og 20. janúar og eindagi 15 dögum síðar. Í 8. gr. laganna segir að skilaskyldur aðili samkvæmt 3. gr. skuli ótilkvaddur greiða á gjalddaga samkvæmt 7. gr. skatt samkvæmt lögunum og skuli inna greiðslu af hendi til innheimtumanns ríkissjóðs í því umdæmi sem skilaskyldur aðili eigi lögheimili í. Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 er tekið fram að séu greiðslur samkvæmt lögunum eigi inntar af hendi á tilskildum tíma skuli ríkisskattstjóri gera skilaskyldum aðila að sæta álagi til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Sama gildir ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og skattur því verið áætlaður, sbr. 3. mgr. 9. gr., nema skilaskyldur aðili hafi greitt fyrir eindaga fjárhæð er svarar til áætlunarinnar. Í 2. mgr. 17. gr. eru síðan ákvæði um álag á vanskilafé samkvæmt 1. mgr. Þar er í fyrsta lagi mælt svo fyrir í 1. tölulið málsgreinarinnar að álagið skuli vera einn hundraðshluti af fjárhæð vanskilafjár fyrir hvern dag eftir eindaga, þó ekki hærra en tíu hundraðshlutar, og í öðru lagi er í 2. tölulið málsgreinarinnar mælt fyrir um álag til viðbótar af upphæð vanskilafjár reiknað frá og með gjalddaga, hafi ekki verið greitt á 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga, og skuli álag þetta vera hið sama og dráttarvextir sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. má fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef skilaskyldur aðili færir gildar ástæður sér til afsökunar og metur ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Samkvæmt framansögðu er álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 lögbundið og leiðir sjálfkrafa af þeim tilteknu aðstæðum sem lýst er í 1. mgr. greinarinnar. Er því ekki að lögum til að dreifa mati ríkisskattstjóra á beitingu álags að undanskilinni niðurfellingu álags samkvæmt heimildarákvæði 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 við þær sérstöku aðstæður er þar greinir.

Fyrir liggur og er óumdeilt að kærandi stóð ekki skil á greiðslu fjármagnstekjuskatts á eindaga 5. febrúar 2015 þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Veltur því úrlausn málsins á því hvort fram komnar upplýsingar um ástæðu þess að greiðsla staðgreiðslunnar fór ekki fram hafi þá þýðingu í tilviki kæranda að leiða eigi til niðurfellingar álags á grundvelli 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Fram er komið af hálfu kæranda að félagið samdi við innheimtumann ríkissjóðs, þ.e. sýslumanninn á X, um tiltekna dreifingu greiðslna vegna staðgreiðsluskuldar kæranda. Er krafa kæranda um niðurfellingu álags byggð á því að sýslumaður hafi ekki kynnt kæranda að félaginu yrði gert að sæta álagi þrátt fyrir samkomulag um fyrirkomulag greiðslna. Bendir kærandi á að ekkert komi fram um þetta í umræddum greiðslusamningi. Í kæru til yfirskattanefndar er því varpað fram hver hefði þá verið tilgangur með því að semja um kröfuna ef vitað hefði verið um beitingu álags.

Eins og fram er komið er mælt svo fyrir í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 94/1996 að skilaskyldur aðili samkvæmt 3. gr. skuli ótilkvaddur greiða á gjalddaga samkvæmt 7. gr. skatt samkvæmt lögunum. Ganga má út frá því, eins og ýjað er að í kæru til yfirskattanefndar, að kærandi hafi með málaleitan sinni um dreifingu greiðslna vegna staðgreiðslu viljað forða því að álagi yrði bætt við þá fjárhæð sem félaginu bar að standa skil á. Ekki verður hins vegar séð að það hafi frekar verið hlutverk innheimtumanns að vekja athygli kæranda á því að álagi kynni allt að einu að verða beitt í tilviki félagsins þrátt fyrir umrætt samkomulag um fyrirkomulag greiðslunnar en kæranda sjálfs að ganga úr skugga um hvernig með yrði farið. Tekið skal fram að innheimtumaður hefur enga heimild að lögum til þess að fresta eindaga staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 94/1996 eða falla frá beitingu álags samkvæmt lögunum, enda eru ákvarðanir um álag ekki á valdsviði innheimtumanna ríkissjóðs. Vegna athugasemda kæranda að öðru leyti skal tekið fram að vanþekking á réttarreglum getur almennt ekki talist gild ástæða til niðurfellingar álags samkvæmt 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Samkvæmt þessu og þegar virt eru atvik að þeim drætti á staðgreiðsluskilum, sem í málinu greinir, eins og þeim er lýst samkvæmt skýringum kæranda, þykir kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður í skilningi 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 er geti leyst félagið undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. sömu lagagreinar. Verður því að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu álagsins.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað. 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja