Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsaleigutekjur
  • Heimagisting

Úrskurður nr. 171/2018

Gjaldár 2018

Lög nr. 90/2003, 58. gr. a (brl. nr. 59/2017, 4. gr.).  

Fallist var á kröfu kæranda um skattlagningu tekna af heimagistingu sem fjármagnstekna utan rekstrar í 20% skattþrepi án frádráttar.

 

 

 

 

Ár 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 153/2018; kæra A, dags. 4. október 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 4. október 2018, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 25. september 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Með úrskurði þessum tók ríkisskattstjóri til meðferðar sem kæru, sbr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, erindi kæranda, dags. 3. maí 2018, þess efnis að kæranda hefði láðst að telja fram í skattframtali árið 2018 tekjur og kostnað vegna heimagistingar í ágúst 2017. Tekjur vegna þessa hefðu numið 398.578 kr. og kostnaður vegna þrifa, þvottar og hreinlætisvara hefði numið 65.553 kr. Í úrskurðinum kom fram að fallist væri á beiðni kæranda og væri tekjur og gjöld samkvæmt bréfi kæranda, þ.e. tekjur 398.578 kr. og gjöld 65.553 kr., færð í rekstraryfirliti (RSK 4.10). Hreinar tekjur 333.025 kr. færði ríkisskattstjóri til hækkunar á tekjuskatts og útsvarsstofni kæranda sem hækkaði úr 7.553.509 kr. í 7.886.534 kr.

Í kæru til yfirskattanefndar er bent á að samkvæmt 4. gr. laga nr. 59/2017 skuli tekjur að fjárhæð undir 2.000.000 kr. á ári vegna heimagistingar, sem hefur verið tilkynnt sýslumanni og hlotið skráningarnúmer, skattlagðar sem fjármagnstekjur. Kærandi hafi hlotið skráningarnúmer hjá sýslumanni. Því skuli greiða fjármagnstekjuskatt en ekki tekjuskatt af tekjum kæranda af heimagistingu að fjárhæð 398.578 kr.

II.

Með bréfi, dags. 22. október 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Segir í umsögninni að fallist sé á kröfugerð kæranda.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 4. gr. laga nr. 59/2017, skulu tekjur manna af útleigu íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis eða annars húsnæðis, m.a. þar sem gisting er boðin gegn endurgjaldi, teljast stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi nema (a) tekjurnar stafi af útleigu íbúðarhúsnæðis sem fellur undir húsaleigulög, enda séu hinar útleigðu sérgreindu fasteignir ekki fleiri en tvær, eða (b) útleigan teljist heimagisting samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, hún hafi verið tilkynnt sýslumanni og fengið skráningarnúmer. Þá skal heildarfjárhæð leigutekna viðkomandi af heimagistingu á tekjuárinu aldrei nema hærri fjárhæð en 2.000.000 kr. Sé húsnæðið í útleigu tveggja eða fleiri manna skal við afmörkun heildarfjárhæðarinnar telja tekjur þeirra allra hjá hverjum og einum. Í 2. mgr. lagagreinarinnar er tekið fram að tekjur af starfsemi sem fellur undir b-lið 1. mgr. skuli skattlagðar samkvæmt ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 66. gr. laganna án frádráttar. Nemi heildarfjárhæð leigutekna samkvæmt b-lið 1. mgr. hærri fjárhæð en 2.000.000 kr. eða ef sýslumaður fellir niður skráningu heimagistingar falla allar leigutekjurnar á tekjuárinu undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Lagaákvæði þetta öðlaðist gildi 1. janúar 2017 og kom til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018 nema a-liður 1. mgr. greinarinnar sem öðlaðist gildi 1. janúar 2018 og kemur til framkvæmda við álagningu gjaldárið 2019, sbr. 4. tölul. 26. gr. laga nr. 59/2017.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 59/2017 kemur fram, að lagt sé til að skýr greinarmunur verði gerður á skattalegri meðferð leigutekna eftir því hvort um sé að ræða a) útleigu til varanlegrar búsetu leigutaka, b) heimagistingu samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og c) aðra útleigu á íbúðarhúsnæði í atvinnuskyni í sjálfstæðri starfsemi.

Í málinu liggur fyrir að útleiga kæranda telst heimagisting samkvæmt b-lið 1. mgr. 58. gr. a laga nr. 90/2003. Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. sömu lagagreinar fer um skattlagningu tekna kæranda af útleigunni eftir 1. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. sem fjármagnstekjur einstaklinga utan rekstrar í 20% skattþrepi án frádráttar.

Samkvæmt framansögðu er hin kærða hækkun á stofni til tekjuskatts og útsvars felld úr gildi. Stofn til fjármagnstekjuskatts hækkar um 398.578 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hækkun ríkisskattstjóra á tekjuskatts- og útsvarsstofni kæranda er felld úr gildi. Stofn til fjármagnstekjuskatts hækkar um 398.578 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja