Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 530/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. og C-liður 9. tl. — 28. gr. 4. tl.   Lög nr. 45/1987 — 5. gr.   Lög nr. 46/1987 — 2. gr.  

Eignaauki vegna eigin vinnu við íbúðarhúsnæði — Eigin vinna — Eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Eignaauki — Skattfrjáls eignaauki — Eignaauki, skattfrjáls — Skattskyld eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Skattskyldur eignaauki — Eignaauki, skattskyldur — Skattfrelsi — Húsbygging — Húsbyggjandi — Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Íbúðarhúsnæði — Teknategund — Lögskýring — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda

Kröfugerð umboðsmanns kærenda fyrir ríkisskattanefnd er svohljóðandi:

„Með bréfi dagsettu 26. ágúst 1988 kærði undirritaður til skattstjórans í X-umdæmi, fyrir hönd framangreindra gjaldenda, álagningu opinberra gjalda 1988 og boðaði að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með bréfi dagsettu 6. desember 1988 vísar skattstjóri kærunni frá þar sem ekki hafi borist rökstuðningur.

Á húsbyggingarskýrslu, sem fylgdi framtali gjaldenda, kemur fram í E-lið að önnur eigin vinna og gjafavinna hafi numið 1.949 klst. eða sem svarar 432.678 kr. og er sú fjárhæð færð til tekna á framtali í reit 77. Vegna mistaka var þessi vinna oftalin um 1.108 klst. og átti að vera 841 klst. eða sem svarar 186.702 kr. Mismunurinn, 1.108 klst., á að færast í D-lið á húsbyggingarskýrslu sem aukavinna við eigin íbúð. Við útfyllingu skattframtals á að færa tekjur samkvæmt reit 77 hjá því hjóna sem hærri hefur tekjur. Færist fjárhæðin sem eignatekjur og var því álagning tekjuskatts og útsvars ekki felld niður, líkt og gerðist með almennar launatekjur, reiknað endurgjald og aðrar tekjur samkvæmt 5. grein laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Nú vill svo til að eiginmaðurinn, sem var sá aðilinn sem lægri tekjurnar hafði í þessu tilfelli, er húsasmiður og vann alla þá vinnu sem tengdist húsbyggingunni. Vegna forms skattframtalsins lentu þessar tekjur sem eignatekjur hjá eiginkonu, en ef hann hefði unnið fyrir annan aðila hefðu skattar af tekjum hans verið felldir niður. Ljóst má vera að tilgangur löggjafans hafi ekki verið sá að mismuna aðilum í niðurfellingu opinberra gjalda eftir því hvort þeir unnu í sínu fagi fyrir aðra eða fyrir sjálfa sig. Í þessu sambandi má vísa til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 73/1983 þar sem talið var að eigin vinna við sumarbústað mætti helst jafna við þær tekjur sem upp eru taldar í 1. tl. A-liðs 7. gr., og hefði álagning tekjuskatts og útsvars á þær tekjur því verið felld niður samkvæmt áðurnefndri 5. gr. laga um staðgreiðslu.

Hér með er því farið fram á að tekjur samkvæmt E-lið Húsbyggingarskýrslu „önnur eigin vinna og gjafavinna“ verði lækkuð úr 432.678 kr. í 186.702 kr. og að álagning tekjuskatts og útsvars vegna þessarar eignaaukningar verði felld niður.“

Með bréfi, dags. 7. maí 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að kröfu kærenda verði hafnað.

Við skoðun á fyrirliggjandi gögnum þ.e. skattframtölum 1987 og 1988 virðist einsýnt að umrædd vinna við húsbyggingu kærenda hefur verið innt af hendi í venjulegum vinnutíma og er því skattskyld skv. 9. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981.“

Eigi er vefengt í máli þessu, að um eigin vinnu kæranda, eiginmanns, sé að ræða í skattalegum skilningi.

Eigin vinna kæranda við byggingu íbúðarhúsnæðis hans telst honum til tekna skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda þykir helst mega jafna tekjum þessum til þeirra tekna, sem þar eru taldar upp. Af þessari niðurstöðu þykir og leiða, að nefndur tekjuliður falli undir niðurfellingarákvæði laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, skv. 2. gr. laga þessara, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Skipting kæranda á vinnu við eigin íbúðarbyggingu í skattskylda eigin vinnu og skattfrjálsa aukavinnu, sbr. 4. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, þykir eigi nægilega rökstudd, sem út af fyrir sig skiptir eigi meginmáli um framgang krafna kæranda, sbr. að framan. Skattlagningu hinna umdeildu tekna kæranda þykir bera að fella niður gjaldárið 1988 samkvæmt því sem hér hefur verið rakið. Eigi eru önnur ágreiningsefni í máli þessu og var skattframtal kæranda árið 1988 lagt óbreytt til grundvallar álagningu gjaldárið 1988.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja