Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tvísköttunarsamningur
  • Frádráttaraðferð

Úrskurður nr. 194/2018

Gjaldár 2017

Lög nr. 90/2003, 1. gr.   Tvísköttunarsamningur við Sviss, 2. gr., 15. gr., 23. gr.  

Kærandi, sem bar ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, hafði launatekjur frá Sviss. Ekki var deilt um að beita bæri frádráttaraðferð samkvæmt tvísköttunarsamningi milli Íslands og Sviss til að komast hjá tvísköttun vegna umræddra tekna kæranda. Laut ágreiningur málsins að því hvort greiðsla kæranda á almannatryggingagjöldum í Sviss yrði talin til tekjuskatts í skilningi tvísköttunarsamningsins sem draga bæri frá reiknuðum tekjuskatti hér á landi. Yfirskattanefnd tók fram að almennt yrði að ganga út frá því að við beitingu frádráttaraðferðar samkvæmt samningnum bæri að jafna saman hliðstæðum svissneskum og íslenskum sköttum. Ráðið yrði af gögnum málsins að með meginhluta gjaldanna hafi kærandi áunnið sér rétt til lífeyris í samræmi við fjárhæð greiðslna. Þótti þetta mæla á móti því að umræddar greiðslur kæranda teldust til svissnesks tekjuskatts. Þá væri ljóst að hliðstæð íslensk gjöld yrðu ekki talin „íslenskur skattur“ samkvæmt samningnum. Var kæru kæranda vísað frá yfirskattanefnd vegna vanreifunar.

Ár 2018, miðvikudaginn 19. desember, er tekið fyrir mál nr. 102/2018; kæra A, dags. 2. júlí 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2017. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 2. júlí 2018, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. apríl 2018, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2017. Með hinum kærða úrskurði var greiddur skattur erlendis í lið 2.8 í skattframtali kæranda lækkaður úr 14.106 svissneskum frönkum (CHF) eða 1.723.189 kr. í 9.430 CHF eða 1.151.969 kr. Af breytingunni leiddi að tekjuskattur kæranda hækkaði úr 604.996 kr. í 909.527 kr. og útsvar úr 529.708 kr. í 796.349 kr.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að við álagningu opinberra gjalda kæranda verði litið á greiðslu hans á social security eða almannatryggingagjaldi sem greiðslu tekjuskatts í skilningi 2. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Sviss frá 1. janúar 2016.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi stóð skil á skattframtali árið 2017 til ríkisskattstjóra 15. mars 2017. Í lið 2.8 gerði kærandi grein fyrir tekjum erlendis, nánar tiltekið í Sviss, að fjárhæð 75.215 CHF eða 9.188.264 kr. miðað við gengið 122,16. Fram kom að um væri að ræða almenn laun. Greiddir skattar erlendis næmu 14.106 CHF eða 1.723.189 kr. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2017 var byggt á skattframtalinu óbreyttu. Fór álagning opinberra gjalda kæranda þannig fram að tekjuskatts- og útsvarsstofn ákvarðaðist sem nam tekjum frá Sviss 9.188.264 kr. Varð reiknaður tekjuskattur að frádregnum persónuafslætti 1.523.728 kr. og reiknað útsvar 1.334.118 kr. Við ákvörðun álagðs tekjuskatts og útsvars var greiddur skattur í Sviss að fjárhæð 1.723.189 kr. færður til frádráttar greindum fjárhæðum sem skipt var hlutfallslega milli tekjuskatts og útsvars. Álagður tekjuskattur varð því 604.996 kr. og álagt útsvar 529.708 kr.

Með fyrirspurnarbréfi, dags. 22. nóvember 2017, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, gerði ríkisskattstjóri grein fyrir því að kærandi hefði tilfært í skattframtali sínu árið 2017 tekjur frá Sviss að fjárhæð 9.188.264 kr. og greidda skatta 1.723.189 kr. Engin gögn hefðu fylgt til staðfestingar á greiddum sköttum af umræddum tekjum. Í bréfinu sagði síðan: „Ríkisskattstjóri óskar eftir því að lögð verði fram gögn sem sína fram á að greiddir hafi verið skattar af umræddum tekjum, staðfestum af til þess bærum yfirvöldum.“ Var kæranda veittur 21 daga frestur frá póstlagningu bréfsins til að fram leggja umbeðin gögn. Bréfi þessu mun ekki hafa verið svarað af hálfu kæranda.

Með bréfi, dags. 23. janúar 2018, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2017. Væri fyrirhugað að fella niður fjárhæð greiddra skatta af erlendum tekjum í lið 2.8 í skattframtali 14.106 CHF eða 1.723.189 kr. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir því að engin svör hefðu borist við fyrirspurnarbréfi embættisins, dags. 22. nóvember 2017, en í því hefði m.a. komið fram: „Ríkisskattstjóri óskar eftir því að lögð verði fram gögn sem sýna fram á að greiddir hafi verið skattar af umræddum tekjum, staðfestum af þar til bærum yfirvöldum. Ef frumgögnin eru eingöngu á erlendu tungumáli, þ.e. ekki á ensku, óskast gögnin þýdd yfir á ensku eða á íslensku.“ Launaseðlar eða launamiðar frá vinnuveitanda teldust í þessu sambandi ekki fullnægjandi gögn. Eins væru framtöl sem einstaklingar eða umboðsmenn þeirra hefðu skilað inn ekki fullnægjandi gögn nema skattyfirvöld hefðu staðfest skattframtalið og þær upplýsingar sem þar kæmu fram.

Ríkisskattstjóri vísaði í bréfi sínu til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 um fulla og ótakmarkaða skattskyldu þeirra sem heimilisfastir eru hér á landi og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu. Þá kom fram að tekjur kæranda í Sviss teldust til skattskyldra tekna hér á landi og væru þær skattlagðar samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003. Ríkisskattstjóri tók fram að Ísland og Sviss hefðu gert með sér samning til að koma í veg fyrir tvísköttun að því er varðaði skatta á tekjur og eignir, undirritaðan 10. júlí 2014, sbr. auglýsingu nr. 3/2015 í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. samningsins skyldu starfslaun og annað svipað endurgjald sem aðili heimilisfastur í samningsríki (Ísland) fengi fyrir starf sitt, einungs skattlögð í því ríki (Ísland), nema starfið væri leyst af hendi í öðru samningsríki (Sviss). Væri starfið leyst af hendi í öðru samningsríki (Sviss) mætti skattleggja endurgjaldið fyrir starfið þar. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 23. gr. samningsins skyldi Ísland fara eftir ákvæði „1. liðar 1. mgr.“ til að komast hjá tvísköttun. Þar segði að ef aðili heimilisfastur á Íslandi hefði tekjur sem skattleggja mætti í Sviss skyldi Ísland heimila frádrátt þess tekjuskatts sem greiddur hefði verið í Sviss af tekjunum frá fjárhæð tekjuskatts af umræddum tekjum.

Samkvæmt gögnum málsins barst ríkisskattstjóra 27. febrúar 2018 bréf frá skattstofunni í Zürich í Sviss (Steueramt, Kanton Zürich), dags. 20. febrúar 2018, þar sem vottað var að kæranda hefðu verið greidd laun á tímabilinu 1. janúar 2016 til 30. júní 2016 samtals að fjárhæð 75.214 CHF og að haldið hefði verið eftir 9.429,80 CHF í skatta.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. apríl 2018, lækkaði ríkisskattstjóri greidda skatta erlendis í lið 2.8 í skattframtali kæranda árið 2017 um 571.220 kr. eða úr 1.723.189 kr. í 1.151.969 kr. og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda með hliðsjón af þeirri breytingu. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir efni boðunarbréfs síns og framangreindu bréfi frá skattstofunni í Zürich, dags. 20. febrúar 2018, þar sem fram kæmi að greiddir skattar í Sviss hefðu verið 9.430 CHF eða 1.151.969 kr. Við álagningu hefði hins vegar verið byggt á upplýsingum í skattframtali um greidda skatta í Sviss að fjárhæð 14.106 CHF eða 1.723.189 kr. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefðu heildartekjur kæranda á árinu 2016 verið 9.188.142 kr. og hefði mátt skattleggja þær tekjur í Sviss. Reiknaður tekjuskattur á heildartekjur væri 2.146.770 kr. eða 1.523.728 kr. að frádregnum persónuafslætti. Reiknað útsvar á heildartekjur væri 1.334.118 kr. Til frádráttar kæmi greiddur skattur erlendis 1.151.969 kr. sem færðist 614.200 kr. til lækkunar á tekjuskatti og 537.769 kr. til lækkunar á útsvari. Af breytingunum leiddi að tekjuskattur kæranda hækkaði úr 604.996 kr. í 909.527 kr. og útsvar úr 529.708 kr. í 796.349 kr.

Með tölvupósti til ríkisskattstjóra, dags. 11. maí 2018, fylgdi afrit af launayfirliti (þ. Lohnausweis) vegna kæranda fyrir tekjuárið 2016. Samkvæmt því voru heildarlaun kæranda 75.215 CHF. Til frádráttar þeirri fjárhæð voru m.a. færðar greiðslur kæranda til almannatrygginga (Beiträge AHV/IV/EO/ALV/NBUV) samtals 4.676 CHF. Að teknu tilliti til frádráttar námu nettótekjur 66.789 CHF. Þá kom fram að afdregin staðgreiðsla skatta næmi 9.430 CHF.

Ríkisskattstjóri leit á tölvupóst kæranda frá 11. maí 2018 sem beiðni um endurupptöku á úrskurði embættisins, dags. 4. apríl 2018, á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Væri úrskurði ríkisskattstjóra mótmælt á þeim grundvelli að við ákvörðun þeirrar fjárhæðar skatta í Sviss, sem heimilaðist til frádráttar íslenskum tekjuskatti og útsvari af tekjum kæranda í Sviss árið 2016, hefði ekki verið tekið tillit til greiðslu kæranda á tryggingagjaldi í Sviss. Hefði kærandi máli sínu til stuðnings lagt fram skattframtal sitt í Sviss fyrir tekjuárið 2016 en áður hefði kærandi sent staðfestingu frá svissneskum skattyfirvöldum á skattgreiðslum hans þar í landi árið 2016. Rakti ríkisskattstjóri að í b-lið 3. mgr. 2. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Sviss kæmi fram hvaða svissneska skatta samningurinn tæki til og þá hvaða skattar væru dregnir frá skattlagningu hér á landi hefðu þeir verið lagðir á í Sviss. Skattar þessir væru sambands-, kantónu- og sveitarstjórnarskattar, annars vegar á tekjur (heildartekjur, launatekjur, eignatekjur, viðskiptahagnað, söluhagnað og aðrar tegundir tekna) og hins vegar á eignir (heildareignir, lausafjáreignir og fasteignir, atvinnurekstrareignir, innborgað eigið fé, varasjóð og allar aðrar tegundir eigna). Taldi ríkisskattstjóri því ljóst að tryggingagjald eða aðrar sjúkratryggingar teldust ekki frádráttarbær skattur vegna tekna í Sviss samkvæmt tvísköttunarsamningnum. Yrði ekki talið að þau gögn sem kærandi hefði lagt fram væru þess eðlis að lagaskilyrði væru fyrir hendi til endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var endurupptökubeiðni kæranda því hafnað.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar er er þess krafist að litið verði á greiðslu kæranda á almannatryggingagjaldi (social security) í Sviss á árinu 2016 sem tekjuskatt í skilningi 2. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Sviss og að gjaldið komi til frádráttar tekjuskatti hans hér á landi. Kemur fram að kærandi telji gjald þetta vera tekjuskatt, enda sé það reiknað út með sama hætti, þ.e. sem ákveðið hlutfall af tekjum. Er vísað til þess í kærunni að kærandi hafi árangurslaust leitað hafi verið eftir skýringum frá ríkisskattstjóra á hverju embættið byggði túlkun á tekjuhugtaki tvísköttunarsamningsins. Kærunni fylgir útprentun á forsíðu upplýsingarits um almannatryggingar í Sviss (Social security in Switzerland), útgefið 19. júní 2017.

IV.

Með bréfi, dags. 15. ágúst 2018, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Er vísað til þess að í 2. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Sviss séu taldir upp þeir skattar sem samningurinn taki til. Með hliðsjón af því sem talið sé upp í b-lið 3. mgr. ákvæðisins sé ljóst að tryggingagjald eða aðrar sjúkratryggingar teljist ekki frádráttarbær skattur frá tekjum sem aflað sé í Sviss samkvæmt samningnum.

Með bréfi, dags. 21. september 2018, hefur umboðsmaður kæranda ítrekað þær kröfur og málsástæður sem settar voru fram í kæru til yfirskattanefndar og vísað þeim til stuðnings til (i) liðar í b-lið 3. mgr. 2. gr. umrædds tvísköttunarsamnings.

V.

Mál þetta varðar úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 4. apríl 2018, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2017, þar sem greiddir skattar erlendis í lið 2.8 voru lækkaðir úr 14.106 svissneskum frönkum (CHF) eða 1.723.189 kr. í 9.420 CHF eða 1.151.969 kr. Byggði ákvörðun ríkisskattstjóra á vottorði frá skattstofunni (Steueramt) í Zürich í Sviss, dags. 20. febrúar 2018, þar sem staðfest var að kærandi hefði haft heildarlaun (Gross Salary) í Sviss að fjárhæð 75.214 CHF (9.188.264 kr.) vegna tímabilsins 1. janúar til 30. júní 2016 og að haldið hefði verið eftir staðgreiðslu skatta að fjárhæð 9.429,80 CHF.

Með tölvupósti 11. maí 2018 sendi kærandi ríkisskattstjóra afrit af launayfirliti (þ. Lohnausweis) fyrir tekjuárið 2016. Skjal þetta, sem virðist stafa frá svissneskum launagreiðanda kæranda, er nefnt skattframtal í úrskurði ríkisskattstjóra. Í skjalinu er tilgreind fyrrgreind launafjárhæð (þ. Bruttolohn total) 75.215 CHF og henni til frádráttar færð, auk annars frádráttarliðar að fjárhæð 3.750 CHF, greiðsla ýmissa gjalda, sem í kæru eru tilgreind í einu lagi sem almannatryggingagjald (e. social security contributions) að fjárhæð samtals 4.676 CHF (tilgreind í skjalinu sem „Beiträge AHV/IV/EO/ALV/NBUV“). Verður að ætla að þessa fjárhæð hafi launagreiðandi dregið af heildarlaunum kæranda. Að teknu tilliti til frádráttarliða er launafjárhæð (þ. Nettolohn) 66.789 CHF. Jafnframt er tilgreind afdregin staðgreiðsla 9.430 CHF. Ríkisskattstjóri leit á erindi kæranda sem beiðni um endurupptöku á úrskurði sínum, dags. 4. apríl 2018, á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að gerð væri krafa um að frádráttarbær skattur af erlendum tekjum yrði hækkaður sem næmi greiðslum kæranda í almannatryggingar eða um 4.676 CHF. Taldi ríkisskattstjóri ljóst að tryggingagjald eða aðrar sjúkratryggingar teldust ekki til þeirra skatta sem taldir væru upp í b-lið 3. mgr. 2. gr. tvísköttunarsamningsins milli Íslands og Sviss og væru því ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að endurupptaka úrskurðinn á grundvelli innsendra gagna.

Í kæru til yfirskattanefndar er gerð krafa um að litið verði á greiðslu kæranda á almannatryggingagjaldi (social security) í Sviss á árinu 2016 sem tekjuskatt í skilningi 2. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Sviss og að gjaldið komi til frádráttar tekjuskatti hans hér á landi. Er byggt á því að gjaldið teljist til tekjuskatts, enda sé það reiknað út með sama hætti, þ.e. sem ákveðið hlutfall af tekjum.

Fyrir liggur að kærandi, sem var með skráð lögheimili á Íslandi allt árið 2016, bar hér á landi fulla og ótakmarka skattskyldu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að kæranda var skylt að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra var aflað, þar meðtöldum umræddum launatekjum vegna launaðrar vinnu í Sviss á greindu tímabili sem skattlagðar voru í því landi. Samkvæmt 119. gr. laga nr. 90/2003 er ríkisstjórninni heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á sköttum erlendra og íslenskra skattaðila sem eftir gildandi skattalöggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sama skattstofni bæði á Íslandi og erlendis. Ísland og Sviss hafa gert með sér samning til að koma í veg fyrir tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir. Samningurinn, sem var undirritaður 10. júlí 2014, var birtur með auglýsingu nr. 3/2015 í C-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist hann gildi 6. nóvember 2015.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. greinds samnings tekur hann til skatta af tekjum og eignum sem eru lagðir á vegna samningsríkis eða sjálfstjórnarhéraða eða sveitarstjórna þess, án tillits til þess á hvern hátt þeir eru á lagðir. Til skatta af tekjum og eignum teljast samkvæmt 2. mgr. 2. gr. samningsins allir skattar sem lagðir eru á heildartekjur, á heildareignir eða á hluta tekna eða eigna, þar með taldir skattar af hagnaði af sölu lausafjár eða fasteigna, skattar af heildarfjárhæð launa sem greidd eru af fyrirtækjum, svo og skattar af verðmætisaukningu. Í b-lið 3. mgr. 2. gr. eru taldir upp gildandi skattar sem samningurinn tekur einkum til í Sviss („svissneskur skattur“) með svofelldum hætti: „Sambands-, Kantónu og sveitarstjórnarskattur: (i) á tekjur (heildartekjur, launatekjur, eignatekjur, viðskiptahagnað, söluhagnað og aðrar tegundir tekna); og (ii) á eignir (heildareignir, lausafjáreignir og fasteignir, atvinnurekstrareignir, innborgað eigið fé, varasjóð og allar aðrar tegundir eignar)…“ Skattar á Íslandi sem samningurinn tekur einkum til („íslenskur skattur“), sbr. a-lið 3. mgr., eru tekjuskattar ríkissjóðs og útsvar til sveitarfélaganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. samningsins skulu laun og annað svipað endurgjald, sem aðili heimilisfastur í samningsríki fær fyrir starf sitt, einungis skattlögð í því ríki, nema starfið sé leyst af hendi í hinu samningsríkinu. Ef starfið er leyst þar af hendi má skattleggja endurgjaldið fyrir það í síðarnefnda ríkinu. Samkvæmt 2. mgr. skal endurgjald, sem aðili heimilisfastur í samningsríki fær fyrir starf sem hann leysir af hendi í hinu samningsríkinu, einungis skattlagt í fyrrnefnda ríkinu ef: a) viðtakandinn dvelur í hinu ríkinu í eitt eða fleiri skipti, þó ekki lengur en 183 daga sem hefst eða lýkur á viðkomandi skattári; og b) endurgjaldið er greitt af eða fyrir hönd vinnuveitanda sem er ekki heimilisfastur í hinu ríkinu; og c) endurgjaldið er ekki gjaldfært hjá fastri atvinnustöð eða fastri stöð sem vinnuveitandinn hefur í hinu ríkinu. Leggja verður til grundvallar að umræddar tekjur kæranda falli undir 1. mgr. 15. gr. tvísköttunarsamningsins, eins og ríkisskattstjóri byggði á, sbr. úrskurð hans, dags. 4. apríl 2018.

Í 23. gr. fyrrgreinds tvísköttunarsamnings er mælt fyrir um aðferðir til að komast hjá tvísköttun. Ekki er deilt um að til að komast hjá tvísköttun vegna umræddra tekna kæranda frá Sviss beri að fara eftir ákvæði (i) liðar a-liðar 1. mgr. nefndrar greinar samningsins, svo sem ríkisskattstjóri gerði, þ.e. draga fjárhæð tekjuskatts sem greiddur hefur verið í Sviss af hlutaðeigandi tekjum frá reiknuðum tekjuskatti hér á landi, þó með þeim fyrirvara sem felst í niðurlagi ákvæðisins. Ágreiningur málsins lýtur hins vegar að fjárhæð greidds tekjuskatts kæranda í Sviss, en af hálfu kæranda er byggt á því að greiðslur hans til almannatrygginga í Sviss hafi verið tekjuskattur, enda séu greiðslurnar reiknaðar út sem ákveðið hlutfall af tekjum.

Ráðið verður af gögnum málsins að launagreiðandi kæranda hafi dregið af launum hans gjöld til almannatrygginga í Sviss að fjárhæð 4.676 CHF. Til skýringar á gjöldum þessum fylgdi kæru til yfirskattanefndar útprentun á forsíðu upplýsingarits um almannatryggingar í Sviss (Social security in Switzerland), útgefið 19. júní 2017, en rit þetta má finna á vefsíðunni www.ahv-iv.ch/p/890.e. Engin frekari grein er gerð fyrir gjöldum þessum í kærunni.

Skýra verður ákvæði 2. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Sviss með hliðsjón af uppruna ákvæðanna, sem eiga sér fyrirmynd í samningslíkani Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), m.a. samkvæmt því sem ráðið verður af athugasemdum við samningsfyrirmynd stofnunarinnar. Ljóst þykir af athugasemdum við 2. gr. samningsfyrirmyndarinnar að þegar um er að ræða gjöld til almannatrygginga eða önnur gjöld þar sem beint samband er á milli álagningar og þeirra réttinda sem einstaklingur ávinnur sér teljist slík gjöld ekki til tekjuskatts. Jafnframt verður almennt að ganga út frá því við beitingu þeirrar aðferðar til að komast hjá tvísköttun, sem felst í fyrrgreindu ákvæði 23. gr. tvísköttunarsamningsins við Sviss, að jafnað sé saman hliðstæðum sköttum. Því verður aðeins svissneskur tekjuskattur (Sambands-, Kantónu og sveitarstjórnarskattur) dreginn frá íslenskum tekjuskatti og útsvari.

Eftir því sem næst verður komist er launþegum í Sviss gert að greiða framlög til almannatryggingakerfis þar í landi sem reiknast sem ákveðin prósenta af launum og er um nokkrar tegundir gjalda að ræða. Verður ekki annað ráðið af tilvísuðu upplýsingariti en að með meginhluta gjaldanna eða í það minnsta gjaldi í lífeyrissjóð ávinni kærandi sér rétt til lífeyris í samræmi við fjárhæð greiðslna. Með hliðsjón af fyrrgreindum athugasemdum við 2. gr. samningsfyrirmyndar OECD þykir þetta mæla á móti því að umræddar greiðslur kæranda falli undir tekjuskatt í skilningi 2. gr. tvísköttunarsamningsins við Sviss. Ljóst má og vera að hliðstæð gjöld og í málinu greinir, að því leyti sem þau eru dregin af launatekjum, teljast ekki „íslenskur skattur“ samkvæmt samningnum.

Eins og fyrr segir hefur kærandi ekki fært frekari rök fyrir því að taka beri kröfu hans til greina en með skírskotun til fyrrgreinds upplýsingarits um almannatryggingakerfið í Sviss. Þykir kæran því í þeim mæli vanreifuð að ekki verður hjá því komist að vísa henni frá yfirskattanefnd.

Aðfinnsluvert er að í boðunarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 23. janúar 2018, sem og úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. apríl 2018, er ekki farið rétt með efni fyrirspurnarbréfs embættisins, dags. 22. nóvember 2017, með því að texti innan tilvitnunarmerkja er aðeins að hluta texti sem fram kemur í umræddu bréfi.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja