Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 531/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 3. gr. 5. tl. — 16. gr. 2. mgr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr.   1. og 3. mgr.  

Söluhagnaður — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Íbúðarhúsnæði — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður, frestun skattlagningar — Skattskylda — Ótakmörkuð skattskylda — Takmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Brottför úr landi — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan — Breytingarheimild skattstjóra

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1989. Í kæru til ríkisskattanefndar er gerð svofelld krafa:

„Málavextir eru þeir, að með bréfi skattstjórans í Reykjavík dags. 27. júlí s.l. er m.a. tilkynnt um að gerðar hafa verið breytingar á skattframtali kæranda þar sem frestun á skattlagningu af sölu íbúðar er ekki heimiluð á þeirri forsendu að heimilisfesti hér á landi hafi verið slitið og því séu kr. 2.920.111 færðar til tekna á framtali. Varðandi rökstuðning fyrir kröfu okkar vísast til kæru okkar til skattstjóra dags. 27. september s.l. en til viðbótar viljum við koma að eftirfarandi atriðum:

*Málsmeðferð skattstjóra er mótmælt þar sem hann beitti ekki réttum aðferðum við breytingar á framtali kærenda. Samkvæmt ákvæðum 96. gr. skattalaga bar skattstjóra að gefa kærendum kost á að tjá sig um málið áður en hann ákvað breytingar á framtalinu sem hann tilkynnti um í bréfi sínu dags. 27. júlí s.l.

*Heimild til frestunar skattlagningar á hagnaði af sölu íbúðarhúsnæðis er að finna í 16. gr. skattalaganna. Þar kemur hins vegar ekkert fram um það að heimildin fyrir frestuninni sé bundin því skilyrði að menn hafi heimilisfesti hér á landi. Hins vegar kemur fram í greininni að hún tekur ekki til lögaðila. Varla verður unnt að telja gjaldendur lögaðila sbr. 2. gr. skattalaganna, heldur menn í skilningi 1. gr. laganna, sem bera takmarkaða skattlagningu skv. 3. gr. Í úrskurði skattstjóra dags. 30. október s.l. telur skattstjóri að með breytingu á heimilisfesti kærenda hafi þeir orðið skattskyldir skv. 3. gr. skattalaga og þeim því borið að greiða skatta af tekjum sínum vegna sölu fasteignar skv. 5. tl. 3. gr. l. nr. 75/1981. Ekki er í máli þessu deilt um það að kærendum beri að greiða skatta skv. tilvitnuðum lagagreinum. Hins vegar telja kærendur það á engan hátt augljóst samkvæmt 16. gr. skattalaganna að þeim sé ekki heimilt að njóta þeirra frestunarákvæða sem þar er um getið. Það er skoðun kærenda að þessi heimildarákvæði séu ekki augljós hvað varðar menn með takmarkaða skattskyldu og að það beri af þeim sökum að túlka heimildina rúmt og í þessu tilfelli kærendum í vil.

*Til vara, verði ekki fallist á framangreind rök um frestun söluhagnaðar, vilja kærendur gera þá kröfu að aðeins helmingur söluhagnaðarins komi til skattlagningar nú, þar sem A var aðeins skráð tímabundið úr landi en tók hér aftur lögheimili í júlí 1989.

Með vísan til framanritaðs er ítrekuð sú fyrri krafa að skattlagning söluhagnaðar vegna sölu íbúðar komi ekki til framkvæmda á árinu 1989.“

Með bréfi, dags. 21. maí 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Í kafla 4, greinargerð um eignabreytingar, í framtali 1989 fara kærendur fram á frestun söluhagnaðar með vísan til 16. gr. laga nr. 75/1981. Með því að telja verður að sú ósk jafngildi yfirlýsingu kærenda um að þeir muni uppfylla þau skilyrði sem sett eru í 16. gr. er fallist á kröfu kærenda.“

Svo sem atvikum er háttað í máli þessu er fallist á aðalkröfu kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja