Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tvísköttunarsamningur
  • Lífeyrisgreiðslur
  • Hlutfallsaðferð

Úrskurður nr. 196/2018

Gjaldár 2014

Lög nr. 90/2003, 1. gr.   Tvísköttunarsamningur milli Norðurlandanna, 11. gr., 18. gr., 25. gr., 28. gr.  

Kærandi, sem bar ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, fékk greiðslur frá tryggingafélagi í Svíþjóð sem skattlagðar voru þar í landi sem lífeyristekjur. Kærandi krafðist þess að litið yrði á tekjur þessar sem fjármagnstekjur (vaxtatekjur) og að skattur, sem lagður hefði verið á þær í Svíþjóð, yrði dreginn frá fjármagnstekjuskatti hér á landi. Yfirskattanefnd benti á að miðað við að umræddar tekjur teldust vaxtatekjur væri skattlagningarréttur þeirra hér á landi. Krafa kæranda um skattlagningu teknanna sem vaxtatekna hefði ekki hlotið framgang fyrir stjórnsýsludómstólum í Svíþjóð. Yrði ekki brugðist við þessum aðstæðum með því að draga sænskan skatt, sem kærandi teldi ranglega álagðan, frá íslenskum skatti, enda fæli það í sér að skattlagningarréttur sem lagður væri til Íslands, miðað við að um vaxtatekjur væri að ræða, yrði gefinn eftir. Með vísan til þessa og þar sem ekki varð séð að úrlausn ríkisskattstjóra um meðferð teknanna væri kæranda óhagstæð var kröfu hans hafnað.

Ár 2018, miðvikudaginn 19. desember, er tekið fyrir mál nr. 67/2018; kæra A, dags. 22. apríl 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 22. apríl 2018, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. febrúar 2018, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2014. Með hinum kærða úrskurði, sem ríkisskattstjóri kvað upp á grundvelli 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, færði ríkisskattstjóri greiðslur til kæranda á árinu 2013 að fjárhæð 446.753 kr. úr sænskri lífeyristryggingu til tekna í lið 2.8 í skattframtali kæranda árið 2014 en felldi greiðslur þessar úr lið 3.3 í skattframtalinu. Breytingar ríkisskattstjóra leiddu til þess að tekjuskattur hækkaði um 35.565 kr. frá fyrri álagningu og fjármagnstekjuskattur lækkaði um 89.350 kr.

Af hálfu kæranda er þess krafist að hinar sænsku lífeyrisgreiðslur verði frá upphafi gjaldársins 2014 skattlagðar sem fjármagnstekjur og að tekjuskattur sem lagður hafi verið á sömu tekjur í Svíþjóð verði dreginn frá fjármagnstekjuskatti á Íslandi.

II.

Málavextir eru þeir að með úrskurði, dags. 11. apríl 2016, færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna 446.753 kr. sem fjármagnstekjur í lið 3.3 í skattframtali hans árið 2014. Í úrskurðinum kom fram að kærandi hefði fengið greidda þessa fjárhæð frá sænsku tryggingafélagi (Fondförsäkringsaktiebolag SEB Trygg Liv) á tekjuárinu 2013. Kvaðst ríkisskattstjóri fallast á það með kæranda að skilgreina bæri tekjurnar sem fjármagnstekjur, enda sýndu gögn og upplýsingar frá kæranda að tekjurnar væru í raun úr söfnunartryggingu. Væri því um að ræða vaxtatekjur samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem yrðu skattlagðar samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 66. gr. sömu laga. Með vísan til 11. gr. samnings Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun yrðu umræddar vaxtatekjur skattlagðar að fullu á Íslandi. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði fjármagnstekjuskattur kæranda um 89.350 kr. gjaldárið 2014.

Með bréfi, dags. 1. ágúst 2017, óskaði kærandi eftir því að ríkisskattstjóri endurákvarðaði fjármagnstekjuskatt á eftirlaunatryggingu frá fyrrgreindum tryggingasjóði á þann veg að álagður 20% fjármagnstekjuskattur yrði felldur niður eða að álagður 20% tekjuskattur á sömu greiðslur í Svíþjóð yrði dreginn frá álögðum fjármagnstekjuskatti hér á landi. Kærandi hefði reynt að fá tekjuskattinn felldan niður í Svíþjóð en þar væri einblínt á nafn tryggingarinnar í stað þess að taka tillit til þess að meginhluti iðgjaldanna hefði verið greiddur með tekjum sem aflað hefði verið á Íslandi og verið skattlagðar þar. Þar sem iðgjöldin hefðu ekki verið greidd með sænskum tekjum hefði ekki komið til skattfrádráttar þar og síðan skattlagningar við útgreiðslu lífeyrisins. Sænsk stjórnvöld virtu að vettugi þá ákvörðun ríkisskattstjóra að um fjármagnstekjur væri að ræða. Vildu sænsk stjórnvöld að iðgjöld, sem greidd hefðu verið af sköttuðu fé hérlendis, væru aftur reiknuð kæranda sem tekjur ásamt ávöxtun tryggingarinnar. Samkvæmt þessari niðurstöðu skyldi kærandi greiða 20% skatt af tekjunum bæði hérlendis og í Svíþjóð. Þá tók kærandi fram að hann vildi gjarnan greiða það sem rétt væri en hér væri tvísköttun augljós þótt samningi Norðurlandanna væri ætlað að koma í veg fyrir hana. Í niðurlagi bréfsins benti kærandi á að hann hefði fengið greiðslur úr umræddri tryggingu frá 65 ára aldri og að hann óskaði að leiðrétting yrði færð á allt tímabilið. Bréfi kæranda fylgdi dómsniðurstaða Förvaltningsrätten í Malmö frá árinu 2017 í máli kæranda vegna álagningar särskild inkomstskatt för utomlands bosatt (SINK) á kæranda tekjuárið 2016.

Með bréfi, dags. 13. nóvember 2017, beindi ríkisskattstjóri því til kæranda að skýra frekar erindi sitt. Ríkisskattstjóri tók fram að samkvæmt dómi Förvaltningsrätten í Malmö væru umræddar tekjur kæranda frá Svíþjóð lífeyristekjur en ekki fjármagnstekjur. Því bæri að skattleggja tekjurnar í Svíþjóð í samræmi við 1. mgr. 18. gr. samnings Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun tekna. Í erindi kæranda væri eingöngu óskað eftir því að fjármagnstekjuskattur yrði lækkaður. Því væri kærandi beðinn um að svara því hvort í beiðni hans fælist ósk um að umræddar tekjur frá Svíþjóð, svo og tekjur sem kærandi hefði fengið frá sama greiðanda á árunum 2014, 2015 og 2016, yrðu færðar í reit 2.8 í skattframtölum hans.

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2017, brást kærandi við fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra. Ítrekaði kærandi athugasemdir sínar um að sömu tekjur frá Svíþjóð væru skattlagðar bæði þar og á Íslandi en tók fram að það væri ekki umfjöllunarefni erindis síns. Kærandi gerði í framhaldi af þessu grein fyrir forsögu málsins og tók meðal annars fram að hann hefði verið sérnámslæknir í Svíþjóð á árunum 1977-1986 og að á þeim tíma hefði myndast lífeyrisréttur án framlags frá launþega. Vegna aukatekna, sem ekki hefðu skapað lífeyrisrétt, hefði kærandi eins og flestir Svíar keypt lífeyristryggingu hjá tryggingafélagi lækna sem tryggt hefði greiðslur samkvæmt innborgun eftir 65 ára aldur. Iðgjaldagreiðslur hefði mátt draga frá skatti og útgreiðslur átt að skattleggja. Kærandi hefði flutt til Íslands árið 1986 og til að tapa ekki áunnum rétti haldið áfram að greiða iðgjöld í tryggingasjóðinn með tekjum sem skattlagðar hefðu verið á Íslandi. Enginn frádráttur hefði fengist í Svíþjóð þar sem hann hefði engar tekjur haft og ekki verið framtalsskyldur. Þegar kærandi hefði byrjað að fá greitt út úr tryggingunni við 65 ára aldur hefði komið í ljós að 20% skattur (särskild inkomstskatt) væri tekinn af tekjunum í Svíþjóð en 20% fjármagnstekjur lagðar á tekjurnar hér á landi þar sem þær væru söfnunartrygging, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra þar um. Hefði kærandi óskað eftir því að sænsk skattyfirvöld lækkuðu tekjuskattinn með tilliti til þess að inngreiðslur hefðu einungis verið dregnar að hluta frá tekjum í Svíþjóð eða um 10% heildarinngreiðslna. Aðrar greiðslur í sjóðinn hefði verið eigið fé kæranda sem ekki hefði verið aflað í Svíþjóð og hefði því ekki getað orðið tekjur hjá kæranda við það að fara inn í landið. Aðeins vaxta- og gengistekjur væru umfram eigið fé kæranda og slíkar tekjur ætti að skattleggja á Íslandi, sbr. 11. gr. tvísköttunarsamningsins. Sænski dómurinn segði vera um að ræða lífeyristryggingu og neitaði að taka tillit til uppruna iðgjaldagreiðslna. Tók kærandi fram að honum þætti eðlilegt að Svíar fengju tíund af tekjuskattinum (särskild inkomstskatt) fyrir þau iðgjöld sem dregin hefðu verið frá skatti í Svíþjóð en Ísland 20% af þeirri upphæð sem þá stæði eftir í fjármagnstekjuskatt. Kærandi vildi reyna að halda í lífeyri sinn, en Almenni lífeyrissjóðurinn hefði tapað nær 40% af lífeyri kæranda í hruninu. Skattyfirvöld á Íslandi og í Svíþjóð væru ekki samstíga og túlkuðu 11. gr. tvísköttunarsamningsins á mismunandi hátt. Kærandi væri milli steins og sleggju og beittur órétti. Yrðu skattyfirvöld að greiða úr máli hans.

Með bréfi, dags. 12. janúar 2018, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda vegna gjaldársins 2014 á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga á þann veg að erlendar tekjur í lið 2.8 yrðu hækkaðar um 446.753 kr. en fjármagnstekjur í lið 3.3 lækkaðar um sömu fjárhæð. Kom fram að með bréfi, dags. 13. nóvember 2017, hefði kærandi ekki svarað fyrirspurn ríkisskattstjóra en ráða mætti af niðurlagi bréfsins að kærandi teldi að íslensk skattyfirvöld ættu að taka málið upp við skattyfirvöld í Svíþjóð. Af þeim gögnum sem kærandi hefði lagt fram yrði ekki annað ráðið en að dómur Förvaltningsrätten í Malmö væri endanleg niðurstaða sænskra yfirvalda í máli hans. Sænsk skattyfirvöld væru bundin af niðurstöðu dómsins og yrði því ekki séð að þau gætu breytt þeirri niðurstöðu þótt íslensk stjórnvöld tækju málið upp gagnvart þeim. Þar sem kærandi hefði ekki svarað þeirri fyrirspurn ríkisskattstjóra hvort hann æskti leiðréttingar á álagningu gjaldáranna 2015 og 2016 yrði ekkert aðhafst vegna þeirra nema beiðni bærist frá kæranda.

Með bréfi, dags. 16. janúar 2018, mótmælti kærandi fyrirhuguðum breytingum ríkisskattstjóra. Tók kærandi fram að hann hefði ekki haft neinar athugasemdir við skattlagningu lífeyrisgreiðslna frá Pensionsmyndigheten, sem byggðust á launum kæranda fyrir vinnu í Svíþjóð á níu ára tímabili án sérstaks framlags af hálfu kæranda nema skattgreiðslna. Erindi kæranda lyti að því að hann hefði greitt af eigin fé iðgjöld til lífeyristryggingar, sem hefðu verið frádráttarbær til skatts í Svíþjóð hefði kærandi búið áfram þar og eðlilega skattskylt við útgreiðslu. Kærandi hefði hins vegar flutt til Íslands og greitt iðgjöld áfram í Svíþjóð en notið skattafrádráttar í hvorugu landinu. Sænsk yfirvöld hefðu hafnað því að taka tillit til þess hvernig iðgjöldin væru til komin og skattlegðu þar með utanaðkomandi fé kæranda sem væri það tekjur í Svíþjóð. Það hefði kærandi ekki fengið leiðrétt. Ríkisskattstjóri hefði fallist á að líta bæri á greiðslur úr lífeyristryggingu sem fjármagnstekjur, sem kærandi þakkaði fyrir og vildi ekki breyta. Sænsk yfirvöld teldu þetta vera tekjur í Svíþjóð þótt aðeins vextir hefðu myndast þar. Í niðurlagi bréfsins kom fram að kærandi vildi að 20% tekjuskattur í Svíþjóð (särskild inkomstskatt) yrði dreginn frá fjármagnstekjuskatti svo heildarskattur á umræddar greiðslur yrði ekki samtals 40% og að samskonar lækkun yrði gerð hin árin. Annars væri ekki komist hjá tvísköttun.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 15. febrúar 2018, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2014 til samræmis. Kom fram að fyrri afgreiðsla ríkisskattstjóra hefði byggt á gögnum sem þá hefðu legið fyrir um eðli greiðslnanna en að fenginni niðurstöðu sænskra yfirvalda um að um væri að ræða lífeyrisgreiðslur bæri að haga skattlagningu hér á landi í samræmi við það. Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri ákvæði 1. mgr. 1. gr. og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og a-lið 4. tölul. 25. gr. tvísköttunarsamnings Norðurlandanna. Ríkisskattstjóri tók fram að heildartekjur kæranda á tekjuárinu 2013 næmu 16.529.705 kr. og þar af væru 446.753 kr. lífeyristekjur sem skattleggja mætti í Svíþjóð eða 2,63% heildartekna. Reiknaður tekjuskattur á heildartekjur væri 4.046.994 kr. og þar af 106.501 kr. vegna hinna erlendu tekna. Reiknað útsvar á heildartekjur væri 2.458.191 kr. og þar af 64.690 kr. vegna hinna erlendu tekna. Reiknaður tekjuskattur og útsvar væri lækkað sem næmi álögðum sköttum á hinar erlendu tekjur. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði áður álagður tekjuskattur kæranda gjaldárið 2014 um 35.565 kr. Jafnframt felldi ríkisskattstjóri niður tekjur að fjárhæð 446.753 kr. úr lið 3.3 í skattframtali kæranda. Leiddi það til lækkunar áður álagðs fjármagnstekjuskatts gjaldárið 2014 um 89.350 kr.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattnefndar, dags. 22. apríl 2018. Í kærunni er bent á að ríkisskattstjóri hafi áður samþykkt að lífeyristrygging, sem kærandi hafi stofnað til í Svíþjóð, uppfyllti kröfur um söfnunartryggingu og skyldi því skattleggjast sem fjármagnstekjur. Með nýjum úrskurði skattleggi ríkisskattstjóri tekjurnar hins vegar sem lífeyrisgreiðslur. Kærandi hafi stofnað til tryggingarinnar til að eiga eftirlaunarétt eftir verktakavinnu í Svíþjóð á árunum 1977-1986 en það ár hafi hann flutt heim eftir að hafa greitt inn á trygginguna í þrjú ár og dregið frá skatti eins og reglur hafi leyft. Hafi skatti í raun verið frestað af iðgjöldum þar til trygging hefði verið greidd út með vöxtum. Frá árinu 1987 hafi kærandi greitt áfram iðgjöld til sömu tryggingar til að skjóta traustari fótum undir afkomu fjölskyldunnar, enda óafvitandi um hvar framhald vinnuævinnar yrði. Engin mótgreiðsla hafi komið í þessa tryggingu frá atvinnurekanda. Uppsöfnuð iðgjöld séu svo greidd út mánaðarlega með vöxtum eftir 65 ára aldur í tíu ár. Þannig hafi iðgjöldin aðeins fyrstu þrjú árin notið skattfrádráttar og séu í raun eigið fé kæranda eftir skatt, ávaxtað af fjármálastofnun í Svíþjóð. Samkvæmt tvísköttunarsamningi eigi aðeins að skattleggja fjármagnstekjur í viðtökulandinu þar sem löglegur eigandi eigi búsetu. Tók kærandi fram að hann hafi farið alla leið í sænsku skattkerfi, fyrir Förvaltningsrätten í Malmö og Kammarrätten í Gautaborg, en hvorir tveggja hafi sagt trygginguna vera lífeyristryggingu, sem bæri að skattleggja með „särskild inkomstskatt“ (SINK), en horft fram hjá því að í útgreiðslum væru ekki raunverulegar tekjur kæranda aðrar en vextir og gengisgreiðslur. Iðgjaldagreiðslur hafi nær eingöngu verið innflutt skattað fé frá Íslandi og hafi varla getað orðið að tekjum í Svíþjóð. Í dómsorðum sé á það bent að álagðan skatt í Svíþjóð eigi að draga frá skatti á Íslandi sem verði þá enginn. Skrítin niðurstaða hafi orðið þegar kærandi hafi borið málið undir ríkisskattstjóra, sbr. hinn kærða úrskurð, dags. 15. febrúar 2018. Ríkisskattstjóri hafi lagst flatur fyrir og fellt niður úrskurð sinn um að tryggingin uppfyllti öll skilyrði söfnunartryggingar af því að sænsk yfirvöld, sem hafi allt aðra sýn á fjármagnstekjur, hafi sagt svo. Þetta hafi verið viðbrögð við ósk kæranda eftir aðstoð við að fá sköttunarréttinn alfarið til Íslands eins og vera beri með fjármagnstekjur.

IV.

Með bréfi, dags. 22. maí 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. maí 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 30. maí 2018, hefur kærandi gert athugasemdir við umsögn ríkisskattstjóra. Er fundið að því að ríkisskattstjóri hafi ekki skýrt hvers vegna embættið leggist flatt fyrir þegar sænsk skattyfirvöld fallist ekki á að greiðslur tryggingarinnar séu fjármagnstekjur, þrátt fyrir að staðfest hafi verið að greiðslurnar uppfylli íslenskar reglur þar um. Sænsk skattyfirvöld hafi lagt flatan skatt á umræddar tekjur án grunnfrádráttar. „Särskild inkomstskatt“ líkist mjög íslenskum fjármagnstekjuskatti en sé lagður á iðgjaldið líka eins og það væri tekjur áunnar í Svíþjóð en ekki sparifé frá Íslandi sem þegar hafi fengið skattmeðferð þar. Þá eru ítrekuð í bréfi kæranda þau sjónarmið og kröfur sem fram koma í kæru hans til yfirskattanefndar.

V.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist í fyrsta lagi að greiðslur til kæranda á árinu 2013 frá sænsku tryggingafélagi (Fondförsäkringsaktiebolag SEB Trygg Liv) verði skattlagðar sem fjármagnstekjur. Í öðru lagi krefst kærandi þess að tekjuskattur (särskild inkomstskatt för utomlands bosatt, SINK), sem lagður hafi verið á sömu tekjur í Svíþjóð, verði dreginn frá fjármagnstekjuskatti á Íslandi. Í þriðja lagi er þess krafist að þetta verði látið gilda frá upphafi, þ.e. frá gjaldárinu 2014.

Vegna síðastnefnds liðar í kröfugerð kæranda skal tekið fram að í upphafi erindis síns til ríkisskattstjóra, dags. 1. ágúst 2017, óskaði kærandi eftir því að horfið yrði frá þeirri skattlagningu tekna hans frá Fondförsäkringsaktiebolag SEB Trygg Liv í Svíþjóð, sem fólst í endurákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 11. apríl 2016, og laut að gjaldárinu 2014. Í niðurlagi erindisins tók kærandi fram að hann hefði fengið greiðslur úr tryggingasjóðnum frá 65 ára aldri og óskaði þess að leiðréttingin næði til alls tímabilsins. Í bréfi til kæranda, dags. 13. nóvember 2017, óskaði ríkisskattstjóri eftir því að kærandi upplýsti hvort í beiðni hans fælist ósk um að umræddar tekjur, svo og tekjur sem hann hefði fengið frá sama greiðanda á árunum 2014, 2015 og 2016, yrðu færðar í reit 2.8 í skattframtölum hans. Í svarbréfi kæranda, dags. 24. nóvember 2017, lýsti kærandi þeirri stöðu sem hann var í vegna skattlagningar tekna hans í Svíþjóð og á Íslandi, en ekkert kom nánar fram um afmörkun erindis hans. Í bréfi ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 12. janúar 2018, kom fram að þar sem kærandi hefði ekki svarað fyrirspurn ríkisskattstjóra um hvort hann æskti leiðréttingar á álagningu gjaldáranna 2015 og 2016 yrði ekkert aðhafst vegna þeirra nema beiðni bærist frá kæranda. Í bréfi kæranda, dags. 16. janúar 2018, tók kærandi fram að hann vildi að skattur lagður á umræddar tekjur hans í Svíþjóð yrði dreginn frá fjármagnstekjuskatti á greiðslurnar hér á landi. Í framhaldi af því ritaði kærandi að hann vildi „að samskonar lækkun [yrði] gerð hin árin …“ Í umfjöllun ríkisskattstjóra í hinum kærða úrskurði er litið fram hjá tilvitnuðum orðum kæranda og, að því er varðar tímaafmörkun erindis hans, látið sitja við þá athugasemd að kærandi hafi í bréfi, dags. 24. nóvember 2017, ekki svarað fyrirspurn í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 13. nóvember 2017. Lýtur úrskurður ríkisskattstjóra samkvæmt þessu eingöngu að gjaldárinu 2014. Samkvæmt ofansögðu liggur ekki fyrir kæranlegur úrskurður ríkisskattstjóra um kæruefnið gjaldárin 2015 og 2016. Er kröfu kæranda því vísað frá yfirskattanefnd að því leyti sem hún varðar þau gjaldár.

Kærandi bar ótakmarkaða skattskyldu hér á landi tekjuárið 2013 samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að kæranda var skylt að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra var aflað. Kærandi, mun ekki hafa gert grein fyrir umræddum tekjum frá hinu sænska tryggingafélagi í skattframtali sínu árið 2014. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 11. apríl 2016, skattlagði ríkisskattstjóri greiðslurnar sem fjármagnstekjur kæranda. Kemur fram í úrskurðinum að ríkisskattstjóri fallist á skýringar kæranda þess efnis að um sé að ræða greiðslur úr söfnunartryggingu sem beri að telja til skattskyldra tekna samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 8. gr. laganna, og skattleggja samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laganna.

Erindi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 1. ágúst 2017, laut að því að skattlagning samkvæmt nefndum úrskurði yrði felld niður eða fjármagnstekjuskattur hér á landi lækkaður með tilliti til skattgreiðslna kæranda í Svíþjóð vegna sömu tekna. Að virtu erindi kæranda og þeim gögnum sem kærandi lagði fram um afstöðu sænskra stjórnsýsludómstóla um eðli teknanna og réttmæti skattlagningar þar í landi venti ríkisskattstjóri sínu kvæði í kross og taldi nú bera að skattleggja greiðslurnar hjá kæranda sem lífeyristekjur samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að gættum ákvæðum samnings milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu nr. 11/1997 í C-deild Stjórnartíðinda. Í 1. mgr. 18. gr. samningsins, eins og greinin hljóðar eftir breytingu með bókun 4. apríl 2008, sbr. V. gr. bókunarinnar og auglýsingu nr. 9/2008 í C-deild Stjórnartíðinda, kemur fram að eftirlaun og lífeyri, sem greidd eru frá samningsríki og greiðslur frá samningsríki samkvæmt almannatryggingalöggjöf þess til aðila heimilisfasts í öðru samningsríki, megi skattleggja í fyrrnefnda ríkinu. Út af fyrir sig verður ekki annað séð en að ríkisskattstjóri hafi gætt viðeigandi ákvæða 4. mgr. 25. gr. samningsins til að komast hjá tvísköttun vegna greiðslna þessara. Um ástæður fyrir breyttri afstöðu sinni vísaði ríkisskattstjóri til niðurstöðu hinna sænsku úrskurðaraðila um að tekjurnar teldust ekki vaxtatekjur, svo sem kærandi gerði kröfu um, heldur lífeyristekjur.

Þess er að geta að miðað við að umræddar tekjur kæranda teljist vaxtatekjur, svo sem kærandi heldur sig við, er skattlagningarréttur teknanna hér á landi, sbr. um þetta ákvæði 1. mgr. 11. gr. fyrrnefnds tvísköttunarsamnings Norðurlandanna, þar sem segir að vexti sem myndast í samningsríki og greiddir séu aðila heimilisföstum í öðru samningsríki skuli einungis skattleggja í síðarnefnda ríkinu ef viðkomandi aðili er raunverulegur eigandi vaxtanna. Málarekstur kæranda fyrir sænskum stjórnsýsludómstóli beindist að því að fá lausn undan skattlagningu teknanna þar í landi á þessum grundvelli. Sú krafa kæranda fékk ekki framgang, svo sem fram er komið. Við þessum aðstæðum verður ekki brugðist með þeim hætti sem kærandi krefst í kæru til yfirskattanefndar, þ.e. að sænskur skattur, sem kærandi telur ranglega lagðan á sig, verði dreginn frá íslenskum skatti, enda fæli það í sér að skattlagningarréttur sem lagður er til Íslands, miðað við að um vaxtatekjur sé að ræða, yrði gefinn eftir.

Tekið skal fram að í umræddum tvísköttunarsamningi eru sérstök úrræði til handa gjaldanda telji hann að ráðstafanir, sem gerðar séu af einhverju samningsríkjanna, leiði til eða muni leiða til skattlagningar að því er hann varði er ekki sé í samræmi við ákvæði samningsins, sbr. 28. gr. hans. Getur gjaldandi þá, án þess að það raski rétti hans til að færa sér í nyt réttarvernd sem löggjöf þessara ríkja kveði á um, lagt málið fyrir bært stjórnvald í því aðildarríki þar sem hann er heimilisfastur. Í ákvæði 2. mgr. 28. gr. sé síðan gert ráð fyrir að ef bært stjórnvald geti ekki sjálft leyst málið á viðhlítandi hátt skuli það leitast við að leysa málið með gagnkvæmu samkomulagi við bært stjórnvald í því samningsríki sem málið varðar.

Ljóst er að ríkisskattstjóri hefur brugðist við þeirri stöðu mála sem upp var komin í tilviki kæranda með því að endurskilgreina tekjur hans sem lífeyristekjur í stað vaxtatekna áður. Samkvæmt þessu viðurkenndi ríkisskattstjóri að ekki yrði lagður íslenskur skattur á tekjurnar með öðrum hætti en sem leiðir af þeirri aðferð sem Ísland beitir við lausn undan tvísköttun lífeyristekna, sbr. ákvæði a-liðar 4. mgr. 25. gr. nefnds tvísköttunarsamnings milli Norðurlandanna. Urðu lyktir samkvæmt hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra þær að hækkun íslensks skatts kæranda vegna færslu umræddra tekna í skattframtal hans varð 35.565 kr. í stað 89.350 kr. áður. Lækkun álagningar nam þannig 53.785 kr. Verður ekki séð að þessi úrlausn sé kæranda óhagstæð. Að svo vöxnu og með vísan til þess sem fyrr segir um kröfugerð kæranda verður úrskurður ríkisskattstjóra því látinn standa óhaggaður. Kröfu kæranda um breytingu á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2014 er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað. 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja