Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollverð

Úrskurður nr. 197/2018

Lög nr. 88/2005, 14. gr. 1. mgr.   Lög nr. 29/1993, 1. gr., 8. gr. 1. mgr., 19. gr., 21. gr.  

Kærandi, sem flutti til landsins fullbúinn húsbíl, krafðist þess að við ákvörðun vörugjalds yrði miðað við kaupverð bifreiðarinnar án tillits til innréttinga og búnaðar. Yfirskattanefnd taldi að ákvarða bæri gjaldstofn vörugjalds í samræmi við tollverð hinnar innfluttu vöru, þ.e. það verð sem raunverulega væri greitt eða greiða bæri fyrir vöruna við sölu hennar til útflutnings til landsins. Þar sem tollstjóri var talinn hafa ákvarðað gjaldstofn vörugjalds bifreiðarinnar réttilega til samræmis við viðskiptaverð hennar, eins og bifreiðin var útbúin við framvísun til tollmeðferðar, var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2018, miðvikudaginn 19. desember, er tekið fyrir mál nr. 158/2018; kæra A, dags. 21. október 2018, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 21. október 2018, varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á bifreið af tegundinni Mercedes Benz Sprinter, sbr. kæruúrskurð tollstjóra, dags. 26. júlí 2018. Með úrskurði þessum hafnaði tollstjóri kröfu kæranda þess efnis að honum yrði einungis gert að greiða vörugjald „af innflutningsverðmæti umræddrar bifreiðar frá verksmiðju en ekki þeim innréttingum sem settar voru í bifreiðina síðar“, eins og segir í úrskurðarorði. Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er því mótmælt að hann þurfi greiða vörugjald miðað við útblástur vegna innréttinga, hreinlætistækja og viðlegubúnaðar í hinni innfluttu bifreið.

II.

Málavextir eru þeir að 5. júní 2018 flutti kærandi til landsins bifreið af gerðinni Mercedes Benz Sprinter. Samkvæmt aðflutningsskýrslu, sem barst tollstjóra 25. júní 2018, var bifreiðin talin falla undir vörulið 8704 í tollskrá og varahlutir, er henni fylgdu, taldir falla undir vörulið 8708. Við tollafgreiðslu mun tollstjóri hafa gert þá athugasemd við skýrsluna að tollflokkun væri röng þar sem um væri að ræða fullbúinn húsbíl. Taldi tollstjóri ökutækið falla undir tollskrárnúmer 8703.3229 sem fólksbifreið og að greiða bæri vörugjald af ökutækinu og innréttingum í samræmi við koltvísýringslosun. Var byggt á þessu við tollafgreiðslu.

Með kæru til tollstjóra, dags. 9. júní 2018, mótmælti kærandi ákvörðun tollstjóra um tollflokkun bifreiðarinnar. Í kærunni kom fram að kærandi hefði gert samning við þýskt fyrirtæki, X, um kaup á nýjum Mercedes Benz Sprinter sem innréttaður yrði sem góður ferðabíll. Kærandi hefði sent tollyfirvöldum hér á landi fyrirspurn varðandi væntanlega tollafgreiðslu bifreiðarinnar, en fengið óljós svör. Kæranda hefði fundist nóg um að þurfa að greiða 60% losunargjald af bifreiðinni, en á dauða sínum átt von frekar en að þurfa að greiða sama gjald af búnaði bifreiðarinnar, svo sem sólarsellu, kæliskáp, salerni, rúmdýnum, eldhúsinnréttingu og öðrum innréttingum, sem X hefði komið fyrir í henni. Kvaðst kærandi telja sér mismunað gagnvart öðrum innflytjendum sem létu annað hvort innrétta innflutta bifreið hér á landi eða færu aftur með bifreiðina til útlanda til að láta innrétta hana þar. Í hvorugu tilvikinu þyrfti innflytjandi að greiða losunargjald af innréttingu eða öðrum búnaði heldur einungis virðisaukaskatt og vörugjald í samræmi við viðeigandi tollflokka. Um væri því að ræða augljóst brot á jafnræðisreglu 11. gr. laga nr. 37/1993. Þá væri í hæsta máta óeðlilegt að krefjast losunargjalds af vörum sem ekkert hefðu með CO2 losun að gera og drægju jafnvel úr slíkri losun, eins og sólarsellur og gastæki. Slík aðferðafræði væri vart í samræmi við tilgang laga um losun efna er yllu gróðurhúsaáhrifum. Væri þess því krafist að losunargjald yrði aðeins reiknað af þeirri fjárhæð sem tilgreind væri á reikningi sem innflutningsverðmæti bifreiðar kæranda frá verksmiðju, en ekki af fjárhæð innréttinga sem settar hefðu verið í bifreiðina síðar.

Með kæruúrskurði, dags. 26. júlí 2018, hafnaði tollstjóri kröfu kæranda. Í úrskurði sínum vísaði tollstjóri til ákvæða 3. gr. og 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 og benti á að í 1. mgr. 14. gr. sömu laga kæmi fram að tollverð innfluttrar vöru væri viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega væri greitt eða greiða bæri fyrir vöruna við sölu hennar til útflutnings til landsins. Við innflutning ökutækja bæri jafnframt að líta til laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., en samkvæmt 3. gr. þeirra laga bæri að leggja vörugjald á ökutæki samkvæmt þeim gjaldbilum sem fram kæmu í ákvæðinu, miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Í tilviki kæranda væri um að ræða húsbíl með skráða losun upp á 230 grömm á hvern kílómetra og félli ökutækið því undir gjaldbil 1 sem bæri 60% vörugjald. Leggja bæri vörugjaldið á við innflutning, eins og varan væri samsett við innflutning, á það sem raunverulega væri greitt fyrir hana. Varan hefði verið flutt inn sem húsbíll óháð því hvernig samsetning þess hefði verið áður en til innflutnings kom. Tollstjóri bæri að leggja gjöld á vöruna eins og hún kæmi til innflutnings, en ekki miðað við hvernig hún hefði verið áður. Þá væri álagning vörugjalds óháð samsetningu ökutækis heldur tæki einungis mið af útblæstri. Kærandi hefði flutt til landsins húsbíl en ekki lausafjármuni. Ekki væri andstætt jafnræðisreglu þótt sá kostur hefði verið fyrir hendi að flytja inn aukatækin sér. Þá kæmi fram í tollalögum nr. 88/2005 að innflytjendum bæri að greiða viðbótaraðflutningsgjöld, þar með talið vörugjald, vegna breytinga á ökutækjum, bæði af ökutækjum sem flutt væru úr landi til aðvinnslu sem og af ökutækjum sem breytt væri hér á landi, sbr. 8. og 9. gr. þeirra laga. Kröfu kæranda væri því hafnað.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 21. október 2018, krefst kærandi þess að gjöld af innflutningi bifreiðar hans verði aðeins reiknuð af þeirri fjárhæð sem tilgreind sé á reikningi sem innflutningsverðmæti bifreiðarinnar frá verksmiðju, en ekki af þeim innréttingum sem settar hafi verið í bifreiðina síðar. Eru í því sambandi ítrekuð þau rök og sjónarmið sem fram komu í kæru kæranda til tollstjóra, dags. 9. júní 2018.

IV.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2018, hefur tollstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður embættisins verði staðfestur. Um röksemdir er vísað til úrskurðarins.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. nóvember 2018, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á bifreið af gerðinni Mercedes Benz Sprinter, sbr. kæruúrskurð tollstjóra, dags. 26. júlí 2018. Fram er komið að um var að ræða fullbúinn húsbíl með innréttingum og búnaði af ýmsu tagi, eins og kærandi hefur lýst. Samkvæmt fyrirliggjandi sölureikningi X Vertriebs-GmbH, dags. 2. maí 2018, nam heildarkaupverð bifreiðarinnar 77.675,63 evrum, en þar af nam kaupverð aukabúnaðar 38.279,07 evrum. Tollstjóri leit svo á að greiða bæri 60% vörugjald af bifreiðinni miðað við skráða koltvísýringslosun í gjaldbili I, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum. Er út af fyrir sig ekki ágreiningur um það í málinu, en af hálfu kæranda er þess krafist að við ákvörðun vörugjalds verði miðað við kaupverð bifreiðarinnar án tillits til innréttinga og aukabúnaðar. Tollstjóri miðaði hins vegar gjaldstofn vörugjalds við heildarkaupverð hinnar innfluttu bifreiðar og nam álagt vörugjald 6.132.346 kr. Telur kærandi að sú ákvörðun feli í sér ólögmæta mismunun þar sem aðila, er flytji sambærilega bifreið óinnréttaða til landsins og léti innrétta hana hér á landi, eða flytti bifreiðina aftur úr landi til innréttingar erlendis, yrði einungis gert að greiða vörugjald af kaupverði óinnréttaðrar bifreiðar, þ.e. mun lægra vörugjald en kæranda sé gert að greiða.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., skal greiða í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987, svo sem nánar greinir í lögunum. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1993 nær gjaldskyldan til allra vara, sbr. 1. gr., nýrra sem notaðra, sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar, unnið er að eða settar eru saman hér á landi. Í 1. tölul. 1. mgr. 18. gr. laganna segir að gjaldskyldir samkvæmt lögum þessum séu allir þeir sem flytji til landsins vörur sem séu gjaldskyldar samkvæmt lögum þessum hvort sem er til endursölu eða eigin nota.

Samkvæmt 19. gr. laga nr. 29/1993, sbr. 40. gr. laga nr. 147/2008, er gjaldstofn vörugjalds samkvæmt lögunum af innfluttum vörum tollverð þeirra eins og það er ákveðið samkvæmt V. kafla tollalaga nr. 88/2005 að viðbættum gjöldum eins og þau eru ákveðin samkvæmt þeim lögum. Tollverð innfluttra vara er viðskiptaverð þeirra, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins, með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákvæðum 15. gr. laga nr. 88/2005 og að uppfylltum tilgreindum skilyrðum, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga þessara. Fyrir liggur í málinu að kaupverð hinnar innfluttu bifreiðar kæranda fullbúinnar nam 77.675,63 evrum að meðtöldum flutningskostnaði sem telja ber til tollverðs, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 15. gr. tollalaga nr. 88/2005. Verður því að telja að tollstjóri hafi réttilega ákvarðað gjaldstofn vörugjalds bifreiðarinnar til samræmis við viðskiptaverð eins og bifreiðin var útbúin við framvísun til tollmeðferðar, sbr. fyrrgreint ákvæði 19. gr. laga nr. 29/1993.

Vegna athugasemda í kæru kæranda varðandi mismunun skal ítrekað að gjaldskylda samkvæmt lögum nr. 29/1993 nær m.a. til ökutækja sem unnið er að eða eru sett saman hér á landi, sbr. 1. gr. laganna. Kemur og fram í 1. mgr. 8. gr. laganna að aðili, er framleiðir eða vinnur að breytingum á ökutæki áður en það er skráð samkvæmt umferðarlögum, skuli skila gjaldi af ökutækinu í samræmi við verðmæti þess við skráningu og samkvæmt þeim gjaldflokki sem það þá fellur undir samkvæmt lögum þessum. Skal þá ákvarða gjaldstofn ökutækis til samræmis við verðmæti þess eftir breytingu eða aðvinnslu, sbr. 1. mgr. 21. gr. laganna. Þá verður að öðru leyti ekki fallist á með kæranda að ákvörðun tollstjóra feli í sér brot gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda verður ekki talið að tilvik kæranda verði borið saman við innflutning lausafjármuna eða annars konar vöru sem ekki fellur undir gjaldskyldu samkvæmt lögum nr. 29/1993.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja