Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsaleigutekjur
  • Álag

Úrskurður nr. 5/2019

Gjaldár 2017

Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður 2. tölul., 108. gr. 2. mgr.  

Í máli þessu var kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags á vanframtaldar húsaleigutekjur hafnað, enda þótti kærandi hvorki hafa sýnt fram á að aðstæður hefðu verið með þeim hætti að fella bæri álag niður né að tilefni væri að öðru leyti til að falla frá beitingu álags.

Ár 2019, miðvikudaginn 23. janúar, er tekið fyrir mál nr. 183/2018; kæra A, dags. 28. nóvember 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2017. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 28. nóvember 2018, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. september 2018, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2017. Með úrskurði þessum færði ríkisskattstjóri til tekna í skattframtali kæranda árið 2017 vanframtaldar húsaleigutekjur að fjárhæð 3.054.266 kr. að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Úrskurðurinn var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 1. júní og 2. júlí 2018, svarbréf kæranda, dags. 6. júlí 2018, og boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 20. júlí 2018, þar sem ríkisskattstjóri greindi frá fyrirhugaðri endurákvörðun opinberra gjalda kæranda umrætt gjaldár, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, en við því bréfi urðu engin viðbrögð af hálfu kæranda. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til fyrirliggjandi upplýsinga um greiðslur frá erlendum aðila, Airbnb, að fjárhæð 3.054.266 kr. inn á bankareikning kæranda á árinu 2016 og tók fram að engin grein hefði verið gerð fyrir þeim greiðslum í skattframtali kæranda árið 2017. Væri um að ræða leigugreiðslur vegna skammtímaleigu á húsnæði kæranda, þ.e. skattskyldar tekjur samkvæmt 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Þá rakti ríkisskattstjóri ákvæði 3. málsl. 2. mgr. 30. gr. og 3. mgr. 66. gr. sömu laga, eins og þau hefðu hljóðað við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2017. Til stuðnings beitingu 25% álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 kom fram af hálfu ríkisskattstjóra að vanframtaldar tekjur þættu verulegur annmarki á framtalsgerð.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er bent á að kærandi hafi greiðlega veitt allar upplýsingar um uppruna þeirra tekna sem ríkisskattstjóri hafi spurst fyrir um. Þá sé fallist á endurákvörðun gjalda vegna þeirra. Kærandi eigi sér enga sögu um vanálagða skattstofna. Hann telji því verulega íþyngjandi að beitt sé hámarksálagi og með hliðsjón af því sé farið fram á að álagið verði fellt niður eða lækkað.

II.

Með bréfi, dags. 17. desember 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri tekur fram að lagagrundvöllur sé fyrir álagsbeitingu í tilviki kæranda og kærandi hafi ekki sýnt fram á að fella beri niður álag á grundvelli 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Þá verði ekki séð að úrskurðaframkvæmd styðji kröfur kæranda um niðurfellingu álags, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 19/2018 vegna vanframtalinnar arðgreiðslu.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. desember 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Óumdeilt er í málinu að greiðslur til kæranda að fjárhæð 3.054.266 kr. frá Airbnb á árinu 2016 teljist til skattskyldra tekna kæranda gjaldárið 2017 og hafa ekki komið fram athugasemdir af hálfu kæranda við skattlagningu þeirra sem húsaleigutekna, sbr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.e. sem fjármagnstekna utan rekstrar, sbr. 3. mgr. 66. gr. sömu laga. Er deiluefnið einvörðungu sú ákvörðun ríkisskattstjóra að bæta 25% álagi við vantalda skattstofna kæranda samkvæmt heimildarákvæðum 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt greindum ákvæðum 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök fyrir því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Þegar atvik málsins eru virt og með tilliti til þess að um vantaldar tekjur er að ræða þykir kærandi hvorki hafa sýnt fram á að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þannig að fella beri álag niður né að tilefni sé að öðru leyti til að falla frá beitingu heimildarákvæða 2. mgr. sömu lagagreinar. Er kröfum kæranda um niðurfellingu eða lækkun álags því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja