Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 532/1990
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 11. gr. — 13. gr. 1. mgr. — 32. gr. — 44. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 3. mgr.
Söluhagnaður — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður fyrnanlegrar fasteignar — Fyrning — Fyrning, sérstök — Sérstök fyrning — Sérstök fyrning á móti skattskyldum söluhagnaði — Fyrnanleg eign — Byggingarsamningur — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Söluhagnaður, frestun skattlagningar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar af fyrnanlegri fasteign — Kröfugerð kæranda
Málavextir eru þeir, að í kæru til skattstjóra, dags. 17. ágúst 1989, fór umboðsmaður kæranda fram á svofellda leiðréttingu á skattframtali hans árið 1989:
„Við gerð skattframtals ofangr. aðila vegna framtalsársins 1988, láðist að færa frestaðan söluhagnað framreiknaðan pr. 31/12/88, að upphæð kr. 909.666,00 til lækkunar kaupverði fasteignar af X s/f.
Góðfúslega lagfærið þetta hjá framteljanda þannig að stofnverð kr. 4.060.000 vegna kaupsamnings lækki í kr. 3.150.334,00.
Í framhaldi af þessu fellið því niður þegar framkvæmda tekjuhækkun að upphæð kr. 909.666,00 og af henni leiðandi hækkun opinberra gjalda vegna tekjuársins 1988.“
Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 6. nóvember 1989. Kemur þar fram, að umræddur söluhagnaður stafar af sölu á A, en sú fasteign var seld 17. september 1986. Ekki sé tilgreint, hvenær á árinu 1988 kærandi hafi greitt 4.060.000 kr. upp í byggingarsamning við X sf., en hann gerir kröfu til þess, að nefndum söluhagnaði verði eytt með því að lækka til eignar umrædda innborgun. Niðurstaða skattstjóra varð sú, að synja kærunni, þar sem umræddur byggingarsamningur lægi ekki fyrir.
Með kæru til ríkisskattanefndar, dags. 21. nóvember 1989, fylgdi ljósrit af kaupsamningi, dags. 28. desember 1987, um kaup kæranda á hlutdeild í húsi við B, í smíðum af X sf. Nemur kaupverðið 4.060.000 kr. Ítrekar umboðsmaður kæranda kröfu sína með skírskotun til samningsins.
Með bréfi, dags. 27. apríl 1990, fellst ríkisskattstjóri á kröfu kæranda með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum.
Telja verður að krafa kæranda lúti að færslu sérstakrar fyrningar á móti nefndum söluhagnaði, er nemur framreiknaður 909.666 kr., sbr. 1. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Að virtum málsgögnum og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda.