Úrskurður yfirskattanefndar

  • Dagpeningar
  • Skattlagning hjóna
  • Málsmeðferð
  • Álag

Úrskurður nr. 15/2019

Gjaldár 2016 og 2017

Lög nr. 90/2003, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul., 96. gr., 108. gr. 2. mgr.   Lög nr. 37/1993, 13. gr.  

Ríkisskattstjóri endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda vegna offærðs frádráttar á móti dagpeningum. Ekki var fallist á með kæranda að ríkisskattstjóra hefði borið að gefa maka hans kost á að tjá sig um málið áður en ákvörðun var tekin í því, enda hefði verið litið svo á í úrskurðaframkvæmd að þegar breyting yrði á áður álögðum gjöldum manns vegna hækkunar á tekjuskattsstofni maka hans eða öðrum breytingum á skattskilum síðarnefnds skattaðila væri almennt ekki þörf á að gefa hinum fyrrnefnda aðila kost á að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar. Kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags var hafnað og m.a. bent á í því sambandi að kærandi hefði áður sætt endurákvörðun gjalda vegna framtalinna dagpeninga.

Ár 2019, miðvikudaginn 13. febrúar 2019, er tekið fyrir mál nr. 126/2018; kæra A, dags. 21. ágúst 2018, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2016 og 2017. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 21. ágúst 2018, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 12. júní 2018, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2016 og 2017. Með úrskurði þessum hækkaði ríkisskattstjóri tilfærðar erlendar launatekjur frá X Ltd. í skattframtölum kæranda árin 2016 og 2017 úr 3.477.390 kr. í 8.629.946 kr. eða um 5.152.556 kr. fyrra árið og úr 3.961.192 kr. í 8.391.303 kr. eða um 4.430.111 kr. síðara árið. Þá lækkaði ríkisskattstjóri tilfærðar dagpeningagreiðslur frá sama aðila í skattframtölunum úr 8.234.124 kr. í 3.082.084 kr. eða um 5.152.040 kr. fyrra árið og úr 7.110.801 kr. í 2.680.677 kr. eða um 4.430.124 kr. síðara árið. Vísaði ríkisskattstjóri í þessu sambandi til þeirra skýringa kæranda í bréfi, dags. 24. nóvember 2017, að fjárhæðir launa og dagpeninga frá X Ltd. hefðu víxlast við framtalsgerð vegna mistaka. Ennfremur lækkaði ríkisskattstjóri tilfærðan frádrátt á móti fengnum dagpeningum í skattframtölum kæranda umrædd ár úr 8.234.124 kr. í 998.080 kr. eða um 7.236.044 kr. fyrra árið og úr 7.110.801 kr. í 907.829 kr. eða um 6.202.972 kr. síðara árið. Um ákvörðun frádráttar vegna dagpeninga, sbr. ákvæði 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skírskotaði ríkisskattstjóri í þeim efnum til fyrirliggjandi upplýsinga í málinu um vinnu- og ferðadaga kæranda erlendis á árunum 2015 og 2016 og gerði að öðru leyti grein fyrir forsendum frádráttarins. Framangreindar breytingar ríkisskattstjóra leiddu til hækkunar tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda um 7.236.560 kr. gjaldárið 2016 og um 6.202.959 kr. gjaldárið 2017 og við þá hækkun bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Nam fjárhæð álags 1.559.620 kr. fyrra árið og 1.323.782 kr. það síðara. Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 15. nóvember og 6. desember 2017, og svarbréf kæranda, dags. 24. nóvember 2017 og 26. febrúar 2018, boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 21. mars 2018, og andmælabréf kæranda, dags. 2. maí 2018.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði ómerktur af formlegum ástæðum. Þá er þess sérstaklega krafist að 25% álag verði fellt niður. Í kærunni er greint frá málavöxtum og bent á að kærandi starfi víðs vegar um heiminn. Er tekið fram að kærandi hafi oftalið frádrátt frá fengnum dagpeningum vegna starfanna í skattframtölum sínum árin 2016 og 2017 vegna mistaka sem leiðrétt hafi verið um leið og þau hafi komið í ljós. Kærandi hafi starfað fyrir erlendan vinnuveitanda á erlendri grundu og sé ósanngjarnt að beita refsiálagi í málinu. Til stuðnings kröfu um ómerkingu hins kærða úrskurðar kemur fram í kærunni að eiginkonu kæranda, B, hafi aldrei verið send afrit af gögnum málsins og gögnin því aldrei verið borin undir hana. Þótt ekki hafi komið til endurákvörðunar barna- og vaxtabóta í málinu sé engu að síður um verulegar fjárhæðir að ræða sem lagt geti fjárhag hlutaðeigandi í rúst vegna samábyrgðar hjóna á sköttum. Því hafi borið að gefa maka kæranda kost á að tjá sig um boðaðar breytingar ríkisskattstjóra. Þess hafi ekki verið gætt sem leiða eigi til ómerkingar á úrskurði embættisins. Sé gerð krafa um ómerkingu þannig að skattframtöl kæranda umrædd ár standi óhögguð, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 219/2016.

II.

Með bréfi, dags. 18. september 2018, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. september 2018, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Í kafla I hér að framan er gerð grein fyrir breytingum á skattframtölum kæranda árin 2016 og 2017 sem ríkisskattstjóri hlutaðist til um með úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 12. júní 2018. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar og gögnum málsins að öðru leyti er ekki efnislegur ágreiningur í málinu um þær breytingar og af hálfu kæranda er m.a. viðurkennt að frádráttur vegna dagpeninga hafi verið offærður í skattskilum hans umrædd ár. Krafa kæranda um ógildingu hins kærða úrskurðar er á hinn bóginn byggð á því að ríkisskattstjóri hafi látið hjá líða að gefa eiginkonu kæranda kost á að tjá sig um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda kæranda. Er litið svo á í kærunni að nauðsyn hafi borið til að veita eiginkonu kæranda andmælarétt vegna endurákvörðunarinnar í ljósi samábyrgðar hjóna á sköttum hvors um sig, sbr. ákvæði 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 22. gr. laga nr. 136/2009, er kveðið svo á að sé gerð breyting á framtali eða sköttum eftir álagningu eða fari fram ný skattákvörðun, sbr. 1. og 2. mgr. þessarar lagagreinar, skuli ríkisskattstjóri gera skattaðila eða þeim sem framtalsskyldan hvílir á viðvart um fyrirhugaðar breytingar og af hvaða ástæðum þær eru gerðar og senda tilkynningu um það skriflega. Skal ríkisskattstjóri veita skattaðila a.m.k. 15 daga frest, frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaðar breytingar, til að tjá sig um efni máls og leggja fram viðbótargögn áður en úrskurður er kveðinn upp. Ríkisskattstjóri skal innan tveggja mánaða að jafnaði kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun álagningar og senda hann í ábyrgðarbréfi, almennri póstsendingu eða rafrænt til skattaðila eða þess sem framtalsskyldan hvílir á, sbr. 5. mgr. 96. gr. laganna.

Vegna sjónarmiða kæranda skal tekið fram að í úrskurðaframkvæmd hefur verið litið svo á að þegar breyting verður á áður álögðum gjöldum manns vegna hækkunar á tekjuskattsstofni maka hans eða öðrum breytingum á skattskilum síðarnefnds skattaðila sé almennt ekki þörf á að gefa hinum fyrrnefnda aðila kost á að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar, sbr. fyrrgreint ákvæði 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, eins og skýra verður það ákvæði með hliðsjón af 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Má um þetta vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 19/2002. Tekið skal fram að atvik voru frábrugðin að þessu leyti í máli því, sem til umfjöllunar var í úrskurði yfirskattanefndar nr. 219/2016, sem vísað er til í kæru, enda var þar um að ræða breytingu á álögðum gjöldum vegna hækkunar á tekjuskattsstofni fyrrverandi maka, þ.e. breytingu á vaxtabótum og millifærðum skattafslætti hjóna sem ekki voru samvistum þegar breytingar voru boðaðar þeim maka sem skattákvörðun laut að, sbr. og til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 536/1998. Á sama skilningi hefur verið byggt í dómaframkvæmd, sbr. úrlausn um hliðstæða viðbáru í dómi Hæstaréttar Íslands 28. ágúst 2017 í máli nr. 426/2017 (Sjöfn Arnfinnsdóttir gegn íslenska ríkinu) og úrskurði Landsréttar 22. júní 2018 í máli nr. 424/2018 (Sýslumaðurinn á Suðurnesjum gegn Ólafíu Ólafsdóttur). Þá verður ekki séð, eins og raunar er bent á í kæru, að hin kærða endurákvörðun opinberra gjalda kæranda hafi leitt til breytinga á álögðum gjöldum eiginkonu kæranda.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda um ógildingu hins kærða úrskurðar ríkisskattstjóra.

Eins og áður er getið verður að líta svo á að af hálfu kæranda sé höfð uppi sjálfstæð krafa um niðurfellingu 25% álags sem ríkisskattstjóri bætti við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárin 2016 og 2017 sem leiddi af breytingum hans, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt greindum ákvæðum 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök fyrir því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Af hálfu kæranda er krafa um niðurfellingu álags studd rökum sem lúta að því að mistök hafi átt sér stað við framtalsgerð. Í þessu sambandi er til þess að líta að kærandi mun hafa sætt endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2013, 2014 og 2015 vegna framtalinna launa og dagpeninga frá X Ltd., sbr. úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 17. mars 2016. Að þessu gættu og þegar litið er til annmarka á skattframtölum kæranda árin 2016 og 2017, þar sem frádráttur vegna dagpeninga var verulega offærður, þykir kærandi hvorki hafa sýnt fram á að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þannig að fella beri álag niður né að tilefni sé að öðru leyti til að falla frá beitingu heimildarákvæða 2. mgr. sömu lagagreinar. Er kröfu kæranda um niðurfellingu álags því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja